Garðar Örn Róbertsson hjá SS-verktökum hefur haft umsjón með TR-mælingum á sínum vinnustað og segir yngri starfsmenn mun jákvæðari í vinnuverndarmálum en hina eldri
– Miðað við þá mælikvarða sem miðað er við í TR-mælinum var ástandið í vinnuumhverfismálum ekki gott þegar við hófum hér mælingar. Það kom hins vegar í ljós strax við næstu mælingu að ástandið hafði skánað, segir Garðar Örn Róbertsson, hjá SS-verktökum. Garðar hefur haft yfirumsjón með TR-mælingum á sínum vinnustað en þessu nýja „verkfæri“ er ætlað að mæla ástand vinnuverndarmála og öryggismála á hverjum vinnustað fyrir sig. Mælirinn á rætur að rekja til Finnlands þar sem hann þróaðist við endurbætur á vinnu- og öryggisumhverfi byggingarmanna. Þetta kerfi hefur nú verið þýtt á íslensku og staðfært fyrir íslenskar aðstæður að frumkvæði Samiðnar, Samtaka iðnaðarins og Vinnueftirlitsins, og nú standa yfir tilraunir við að nýta það hér á landi. Til samstarfs voru fengin verktakafyrirtækin SS-verktakar og ÍAV. – Ég held að mönnum hafi brugðið nokkuð þegar við gerðum okkur grein fyrir hvað margt mátti fara betur í þessum málum hér. Það leynast víða hættur á byggingarstöðum, hættur sem ekki allir gera sér grein fyrir og því miður hafa oft ekki komið í ljós fyrr en slys hafa orðið, segir Garðar og bendir til dæmis á einn vanræktan þátt hjá okkur sem eru fallvarnirnar. – Þegar menn hafa verið að setja upp fallvarnir hefur oftast verið látið duga að setja upp handrið. Ef fallvarnir eiga að koma í veg fyrir slys þarf hinsvegar að setja upp bæði tá- og hnélista. Það kom einnig í ljós þegar við fórum að skoða vinnubrögðin út frá þessum þætti að endafallvörn var ótrúlega oft sleppt, segir Garðar. Hann er ekki í vafa um að TR-mælirinn eigi eftir að sanna gildi sitt verði hann tekinn upp hér á landi og sátt náist um að nýta þessa aðferð við að bæta vinnuumhverfi á byggingarstöðum.
Hvernig virkar TR-mælirinn?
TR-mæling fer þannig fram að menn ganga um vinnustaðinn og kanna aðstæður með því að merkja við annaðhvort „rétt“ eða „rangt“ á sérstöku matsblaði. Til að fá fram nákvæmar og traustar niðurstöður þarf að athuga mörg einstök atriði. Mælt er með að yfir 100 atriði séu skoðuð í hvert sinn, allt það mikilvægasta sem hefur áhrif á öryggi á vinnustaðnum. Á matsblaðinu er öryggisatriðunum skipt niður í sex mismunandi þætti, segir Garðar. – Fyrst eru það sjálfir starfsmennirnir. Eru þeir með hjálma, hlífðargleraugu þar sem það á við, í réttum skóbúnaði og svo framvegis? Þá eru það vinnupallarnir. Eru þeir traustir, búnir góðri fallvörn, eru stigar í lagi? Eins eru skoðaðar fallvarnir á þökum og svölum séu þær til staðar. Þá eru athugaðar umferðarleiðir og stigar en það er mikilvægt að ekki sé óþarfa drasl á þessum stöðum. Vélar og verkfæri eru yfirfarin. Gætt er að því að öryggisbúnaður véla sé í lagi og að almennt sé gott ástand á verkfærum sem notuð eru á vinnustaðnum. Að lokum er farið yfir rafmagn og lýsingu á staðnum. Eitt af því sem sérstaklega er skoðað er til dæmis hvort þriggja fasa kaplar liggja út um allt, segir Garðar. Þá er líka svipast um og athugað hvernig umgengnin er almennt á byggingarstað og hvort rusl er fjarlægt. Garðar segir að þegar verkefninu var hleypt af stokkunum hafi þeim starfsmönnum sem tóku að sér verkið á hverjum stað verið kennt að fylla út skýrslur og leggja mat á þróunina milli skoðana. – Hér á kaffistofunni er síðan upplýsingablað sem sýnir hvert stefnir á vinnustaðnum í vinnuverndarmálum. Hjá okkur hefur þetta gengið upp og niður. Fyrst eftir að mælingar hófust var línan upp á við en í sumar lágu þessar mælingar niðri um tíma og þegar hafist var handa upp á nýtt kom á daginn að ástandið hafði versnað aftur. Það tekur vafalaust nokkurn tíma þangað til þessi mál verða komin í viðunandi horf, segir Garðar sem ekki er í vafa um að TR-mælirinn er gott verkfæri til að nota í baráttunni fyrir bættu vinnuumhverfi á byggingarstöðum. – Það er ákveðinn munur á milli kynslóða í þessum efnum. Yngri mennirnir eru opnari fyrir þessum málum en þeir eldri. Þeir sjá ekki alltaf tilganginn með öllu þessu veseni, segir Garðar.