Heimsókn fulltrúa Alþjóðasambands byggingamanna, ítölsku verkalýðshreyfingarinnar og Impregilo

Samiðn vill taka eftirfarandi fram vegna heimsóknar fulltrúa Alþjóðasambands byggingamanna (IFBWW), ítölsku verkalýðshreyfingarinnar og Impregilo hingað til lands.

Heimsókn hinna erlendu fulltrúa er ekki í neinu sambandi við yfirstandandi deilur íslenskrar verkalýðshreyfingar við Impregilo.  Heimsóknin var ákveðin í samráði við þau íslensku sambönd sem aðild eiga að IFBWW í byrjun nóvember í tengslum við gerð alþjóðlegs samnings á milli IFBWW og Impregilo (sjá samning).   Í samningnum er gert ráð fyrir að samningsaðilarnir heimsæki nýja vinnustaði Imregilo og fylgi því eftir að samningnum sé framfylgt.  Heimsóknin hingað til lands er liður í því eftirliti.

Varðandi þátttöku Samiðnar í þessari heimsókn þá hefur Samiðn falið Oddi Friðrikssyni aðaltrúnaðarmanni á Kárahnjúkasvæðinu að fylgja hinum erlendu fulltrúum um svæðið.  Samiðn mun taka þátt í sameiginlegum fundi n.k. föstudag og mun formaður Samiðnar Finnbjörn A. Hermannsson verða fulltrúi sambandsins á fundinum.  Hvað sameiginlegan blaðamannafund að loknum þeim fundi varðar þá hefur Samiðn tekið þá ákvörðun að taka ekki þátt í þeim fundi þar sem engar viðræður hafa átt sér stað á milli sambandsins og Impregilo til lausnar deilunni sem uppi er.   Aðilar að virkjanasamningnum munu hins vegar eiga fund með fulltrúum IFBWW fyrir fundinn á föstudaginn þar sem þeir munu gera sambandinu grein fyrir yfirstandandi deilu.