Þeir sem ekki sækja námskeið detta fljótt út úr faginu

Hvaða námskeið eru vinsælust meðal iðnaðarmanna? Hvað er í boði af endurmenntun?

Eftir því sem tækninni fleygir fram verður þörfin fyrir símenntun og endurmenntun stöðugt brýnni. Þetta eru kannski engin ný sannindi en verða æ ljósari með hverju árinu sem líður. Á starfsvettvangi iðnaðarmanna birtist þetta í því að stöðugt koma ný efni til sögunnar, nýjar aðferðir, nýjar vélar og ný tækni. Iðnaðarmaður sem tók sveinspróf fyrir einhverjum áratugum verður að endurnýja þekkingu sína, að öðrum kosti hríðfellur hann í verði á vinnumarkaðnum. Atvinnurekendur eru ekki bara að kaupa vinnuafl heldur fyrst og fremst þekkingu starfsmanna sinna. Hún verður æ verðmætari ef henni er haldið við.
Stéttarfélögin sem aðild eiga að Samiðn starfrækja þrjár endurmenntunarmiðstöðvar. Samiðnarblaðið heimsótti þær á dögunum til að kanna hvað væri efst á baugi hjá þeim nú þegar haustið færist yfir og námskeiðatíminn gengur í garð. Þessar miðstöðvar eru Fræðslumiðstöð bílgreina ehf. (FMB), Fræðslumiðstöð málmiðnaðarins ehf. (FM) og Menntafélag byggingariðnaðarins (MFB). Sú fyrstnefnda er á Gylfaflöt 19 í Grafarvogi en hinar tvær á Hallveigarstíg 1.
Hvað skyldi vera vinsælast að fræðast um? Hvaða námskeið eru eftirsóttust? Hvaða nýjungar verða í boði í vetur? Eru iðnaðarmenn duglegir að sækja námskeið? Sjá fyrirtækin sér hag í því að senda starfsmenn sína á námskeið? Um þetta spurðum við forsvarsmenn endurmenntunarstofnananna þriggja.

Tölvutækni í bílum

Snorri Konráðsson er framkvæmdastjóri Fræðslumiðstöðvar bílgreina. Hann var ekki í vafa um hvað nyti mestra vinsælda í námskeiðshaldinu.
– Það eru námskeið um rafbúnað bifreiða. Þar hefur þróunin verið svo ör að það má segja að starf bifvélavirkja hafi gerbreyst. Slit á vélum og gírkassa hefur minnkað en í staðinn hefur tölvukerfi bíla orðið æ fjölbreyttara. Fyrir vikið fer bilanaleit fram í tölvum, þetta er orðið svipað og í læknisfræði þar sem sjúkdómsgreiningin er mikilvægust. Í einum bíl geta verið 10–20 tölvur sem oft eru tengdar saman á neti. Bilanir í þessu kerfi eru ósýnilegar og geta verið af ýmsu tagi, villur í hugbúnaði sem valda röngum boðsendingum, sambandsleysi eða bilun í skynjurum svo dæmi séu tekin. Þessar bilanir er ekki hægt að finna með hefðbundnum aðferðum bifvélavirkja heldur þarf tölvur til að leita þeirra. Árið 2001 voru settir nýir staðlar sem felldir eru inn í handbækur bílaframleiðenda og ef menn fylgja þeim ekki geta þeir bakað sér skaðabótaábyrgð ef viðgerðin mistekst.
– Við þetta bætist að löggjöf um neytendavernd hefur haft áhrif á samskipti verkstæða við bíleigendur. Nú er algengt að verkstæði skoði bílinn og segi eigandanum hvað þurfi að gera og hvað það kosti áður en viðgerð hefst. Þetta eykur kröfur á hendur bifvélavirkjum en nákvæmari bilanagreining fækkar endurkomum bíla vegna misheppnaðra viðgerða og sparar því bæði bíleigendum og verkstæðum tíma og peninga.
– Hjá bílamálurum og réttingamönnum hafa líka orðið töluverðar breytingar. Auknar kröfur um umhverfisvernd, sem flestar koma frá Evrópusambandinu, hafa leitt til þess að ný efni leysa hin eldri af hólmi. Þessar nýju kröfur beinast bæði að því að vernda umhverfið og starfsmennina svo þær eru til mikilla bóta.
– Réttingamenn þurfa líka að læra á ný efni sem miða að því að gera bílana léttari. Þetta eru bæði plastefni og nýjar málmtegundir. Þá hefur tjónamat tryggingafélaganna verið að færast út á verkstæðin í auknum mæli.

Sýndarveruleiki

Snorri segir að miðstöðin sé vel búin tækjum til að kenna þessi nýju vinnubrögð. – Við erum með tölvuver þar sem við notum kennsluforrit frá Englandi en það hermir eftir því sem gerist við bilanaleit. Þetta er sýndarveruleiki en svo geta menn haldið áfram í bílum á verkstæðinu sem hér er.
Snorri sýnir blaðamanni stórt bretti sem Toyota-umboðið lét miðstöðinni í té. Þar er búið að safna saman öllum raf- og tölvubúnaði sem fyrirfinnst í einum bíl og það er ekki lítið. – Við bjóðum upp á nokkur námskeið í tölvustjórn í bílum með áherslu á samspil tölvukerfa, segir hann.
Hann segir að nokkuð hafi dregið úr því að menn sæki námskeið að eigin frumkvæði. – Hins vegar hefur færst í vöxt að fyrirtæki geri samninga um markvissa endurmenntun fyrir starfsmenn sína. Þessi tækniþróun veldur því að smærri fyrirtækin eiga varla möguleika í samkeppni við þau stærri. Tölvubúnaðurinn sem venjulegt bílaverkstæði þarf núorðið er orðinn svo dýr að þessi litlu verkstæði ráða ekki við að fjárfesta í honum. Þetta merkir líka að þekking bifvélavirkja úreldist hratt. Þeir þurfa því að halda sér við með því að sækja námskeið, að öðrum kosti detta þeir út úr greininni, segir Snorri Konráðsson.
Málmsuða og
loftræsing

Það hafa orðið nokkrar breytingar hjá Fræðslumiðstöð málmiðnaðarins að undanförnu. Fyrirtækinu var breytt í eignarhaldsfélag fyrr á þessu ári en það er í eigu Samiðnar og Samtaka iðnaðarins að jöfnu. Einnig var ráðinn til starfa nýr framkvæmdastjóri sem heitir Gylfi Einarsson. Hann segir að FM hafi lagst í naflaskoðun og fengið Gallup til þess að gera könnun meðal fyrirtækja og einstaklinga úr röðum viðskiptavinanna á viðhorfum þeirra til menntunar og endurmenntunar. – Upp úr þessu varð til stefna til næstu fimm ára og eftir henni störfum við, segir Gylfi.
Hann var að leggja síðustu hönd á námskrá fyrir haustönnina en hún hljóðar upp á um það bil 60 námskeið.
– Sum námskeiðin ganga ár eftir ár og njóta alltaf vinsælda, segir hann og nefnir málmsuðu sem dæmi. – Framkvæmdirnar við Kárahnjúka helltust yfir okkur en þar er mikil þörf fyrir færa málmsuðumenn. Við erum byrjaðir að kenna málmsuðu eftir evrópskum staðli sem veitir mönnum réttindi víða um heim.
– Í fyrravetur hófst röð námskeiða um loftræsingu sem heldur áfram í vetur. Við fengum Íbúðalánasjóð og Félag blikksmiða til samstarfs og sömdum við nokkra góða menn um að semja námsefni sem spannar alla þætti loftræsingar, allt frá hönnun að stýringu. Alls verða námskeiðin 11 talsins og er löngu orðið tímabært að kenna Íslendingum að búa til almennilega loftræsingu. Ætli það sé ekki hlutskipti á að giska þriðjungs þjóðarinnar að starfa í húsum sem eru með lélega eða ónýta loftræsingu.
– Af öðrum námskeiðum sem njóta vinsælda má nefna vökvatækni, efnisfræði og námskeið í rafmagnsfræði. Auk fagnámskeiðanna bjóðum við upp á tölvu- og rekstrarnámskeið í samvinnu við Menntafélag byggingariðnaðarins en hér í húsinu er ágæt aðstaða til tölvukennslu, segir Gylfi.

Sveinsbréf og samningar

Endurmenntunin er bara hluti af starfsemi FM því miðstöðin hefur hlutverki að gegna í hinu almenna iðnnámi málmiðnaðarmanna. – Eftir að ný lög voru sett um framhaldsskólann árið 1996 hefur hlutur atvinnulífsins í starfsemi hans farið vaxandi. Við höfum tekið að okkur verkefni fyrir starfsgreinaráð málmiðnaðar við endurskoðun námskráa, bæði fyrir grunnnám og sérhæfingu. Við aðstoðum skólana við að koma námskránum í framkvæmd og fyrirtækin við að koma á vinnustaðanámi. Við þetta má bæta að við höldum skrár yfir alla samninga málmiðnaðarnema og einnig sveinspróf. Við vildum gjarnan taka að okkur útgáfu sveinsbréfa en ríkið vill ekki sleppa hendinni af þeim, segir Gylfi.
Hann er ekki alls kostar sáttur við skipulag endurmenntunar í íslenskum iðnaði. – Eins og staðan er núna eiga iðnaðarmenn með sveinspróf sem hafa hug á að stofna fyrirtæki eða verða stjórnendur ekki í mörg hús að venda. Háskólarnir vilja ekkert af þeim vita og meistaraskólinn getur ekki hjálpað þeim, til þess hefur hann ekki næga burði. Það sama gildir um okkur. Endurmenntun atvinnulífsins er dreifð á mörg lítil fyrirtæki sem sækja fé í marga litla sjóði og hafa því ekki bolmagn til að mæta þörfum fólks á vinnumarkaði. Ef við viljum veita fyrirtækjum og starfsfólki almennilega þjónustu verður þetta að breytast, segir Gylfi Einarsson.

Námskeið um allt land

Annars staðar á sömu hæð er Menntafélag byggingariðnaðarins til húsa en eins og Fræðslumiðstöð málmiðnaðarins tekur MFB virkan þátt í almennri starfsmenntun á framhaldsskólastiginu. En við ætluðum einkum að ræða um endurmenntunina.
Kristján Karlsson framkvæmdastjóri var í óða önn að setja saman námskeiðsáætlun vetrarins þegar Samiðnarblaðið hitti hann að máli. – Hún kemur út um miðjan september og er sett upp eftir óskum fagnefnda félagsins og sveina- og meistarafélaga á landsbyggðinni, sagði hann.
Menntafélagið sinnir endurmenntun byggingarmanna um allt land en rúmlega þriðjungur af námskeiðum þess er haldinn á landsbyggðinni. – Eftir að undirbúningur hófst við virkjunina við Kárahnjúka höfum við haldið námskeið eystra í samstarfi við Fræðslunet Austurlands og Landsvirkjun, segir Kristján.
Námskeiðahald MFB er í nokkuð föstum skorðum en að sögn Kristjáns hafa helstu nýjungarnar verið á vettvangi pípulagningarmanna.
– Þar hafa orðið töluverðar tæknibreytingar á síðustu árum, ný efni rutt sér til rúms og verktækni breyst. Fyrir vikið hafa pípulagningarmenn stundum verið fleiri en húsasmiðir á námskeiðunum þótt hlutfall þeirra í stéttinni sé mun lægra.
Kristján segir að í lok hvers námskeiðs sé gerð könnun meðal þátttakenda þar sem spurt er um viðhorf þeirra til endurmenntunar og fleira.
– Viðhorfin eru jákvæð en það þarf að stækka hópinn sem sækir námskeið. Það er reynsla okkar að ef menn koma á eitt námskeið eru miklar líkur á að þeir komi á fleiri. Við fáum svona 450–500 menn til okkar á hverju ári. Hins vegar er sá hópurinn stærri sem aldrei sækir námskeið.

Nú er lag

Ein ástæðan fyrir því að sumir sækja aldrei námskeið gæti verið kostnaðurinn. Þótt félagið greiði niður námskeiðsgjöldin kosta þau samt sitt og í könnun MFB veturinn 2001– 2002 kom fram að rúmlega 40 af hundraði þátttakenda á námskeiðunum voru launamenn sem greiddu námskeiðsgjöldin sjálfir. Einnig kom fram að um 85% launamanna voru ekki á launum meðan á námskeiðunum stóð.
Kristján sagði að þetta sýndi þörfina á því að færa námskeiðin meira inn í vinnutíma iðnaðarmanna en það væri komið undir starfsmönnum og forsvarsmönnum fyrirtækjanna að meta hvort hér er um sameiginlega hagsmuni að ræða.
– Það er spurning hvort ekki sé kominn tími til að breyta þessu, sagði hann. – Leiðin til þess væri að taka það upp í kjarasamningum. Nú eru þeir lausir og þá er tækifærið að taka á málunum. Aukin endurmenntun eflir hæfni starfsmanna og treystir með því stöðu þeirra á vinnumarkaði. Samhliða því eykur hún samkeppnishæfni og framleiðni fyrirtækjanna, sagði Kristján Karlsson.