Klúður við Kárahnjúkar enn í fullum gangi

 „Samskiptin við Ítalana hafa skánað á undanförnum mánuðum. Þeir virðast vera að sætta sig við þær samskiptareglur sem gilda hér á landi. Það verður að teljast ákveðin framför,“ segir Þorbjörn Guðmundsson framkvæmdastjóri Samiðnar þegar hann var beðinn um að lýsa þróun mála við Kárahnjúka að undanförnu. Þorbjörn hefur verið talsmaður verkalýðshreyfingarinnar í  þeim málum sem hafa komið upp milli hreyfingarinnar og Impregilo-manna sem eru að stífla uppi við Kárahnjúka. Þeim samskiptum var lýst í síðasta tölublaði og jafnframt þeim aðstæðum sem Ítalirnir voru að skapa þar.

„Þrátt fyrir betra samband hefur enn ekki tekist að finna lausn á fjölmörgum atriðum. Okkur hefur tekist að fá Impregilo til að greiða erlendu starfsfólki þau lágmarkslaun sem kveðið er á um í virkjanasamningnum. Við höfum fengið að sjá launaseðla sem benda til þess það baráttumál sé komið í höfn. Við höfum að vísu ekki séð neinar bankakvittanir sem staðfesta að starfsmenn fái þau laun greidd sem getið er um á launaseðlunum en við verðum að vona að svo sé,“ segir Þorbjörn. Þekkt er að svona stórt fyrirtæki beiti allslags blekkingum þegar kemur að launakjörum starfsmanna og er skemmst að minnast framgöngu rússneska verktakans sem tók að sér að leggja Búrfellslínu hér um árið. Hann greiddi starfsmönnum umsamin laun en krafði þá síðan um endurgreiðslu þegar heim var komið.

 

Of langar vinnulotur

 

„Það sem stendur út af borðinu er að Impregilo-menn halda sér stíft við lágmarkslaun og hafa neitað að greiða allt umfram þau, svo sem bónus, en slík viðbótarlaun hafa verið mikill hluti af launum þeirra sem hafa lagt á sig að hverfa upp á öræfi til þess að reisa virkjunarmannvirki. Í virkjanasamningnum er kveðið á um slíkar greiðslur en Ítalirnir eru ekki sammála okkur um túlkun þess ákvæðis. Ásamt því hvað vinnuloturnar eru langar við Kárahnjúka veldur þetta því að aðeins tveir íslenskir iðnaðarmenn starfa hjá Impregilo svo okkur sé kunnugt um. Hins vegar eru íslenskir iðnaðarmenn við störf bæði hjá Arnarfelli, sem er undirverktaki á staðnum, og hjá Ístaki og ÍAV niðri í Fljótsdal þar sem bygging stöðvarhússins er hafin. Það verk er í höndum þessara íslensku verktakafyrirtækja og ég á ekki von á öðru en að staðið verði fyllilega við virkjanasamninginn af þeirra hálfu.“

Núverandi virkjanasamningur rennur út 31. janúar og segir Þorbjörn að fulltrúar verkalýðshreyfingarinnar í samráðsnefndinni séu þegar byrjaðir að undirbúa gerð nýs samnings. „Okkur sýnist að samningalotan sem framundan er við Samtök atvinnulífsins, sem fara með samningsumboð fyrir Impregilo, geti orðið ansi erfið. Reynslan hefur kennt okkur að það eru ýmsir lausir endar í núverandi samningi sem þarf að hnýta betur. Megináherslan verður lögð á að hækka taxtakaupið, og verður sérstaklega horft til kauptaxta iðnaðarmanna þar sem þeir hafa oft fengið mikinn hluta af tekjum sínum í formi yfirborgana og bónusgreiðslna.  Auk þess að hnykkja þarf betur á ákvæðum um bónusgreiðslur þarf að að tryggja að verktakarnir geti ekki einhliða ákveðið hvað vinnuloturnar eru langar. Það gætir verulegrar óánægju meðal starfsmanna á svæðinu með þær löngu vinnulotur sem Impregilo hefur komið á. Þannig þurfa Íslendingarnir að dveljast við störf á staðnum í fjórar vikur og fá þá loksins sjö daga frí. Mér sýnist að að áherslan nú verði tíu daga úthald og síðan fjögurra daga fríi,“ segir Þorbjörn, en þannig hefur þetta verið við flestar stórframkvæmdir á hálendinu fram til þessa. Þorbjörn segir að líka verði að taka á því langa úthaldi sem erlendum starfsmönnum er gert að búa við. Þeir fá frí á hálfs árs fresti. Þeir vinna sex daga vikunnar og fá aðeins frí á sunnudögum.

Auk launamálanna og vinnutímans býst Þorbjörn við að verkalýðshreyfingin leggi í samningaviðræðunum áherslu á að komist verði nákvæmar að orði um aðbúnað á virkjanasvæðum.

 

Aðbúnaðurinn ekki viðunandi

 

„Því miður er ennþá langt í land að aðbúnaður starfsmanna sé viðunandi. Í haust þegar við fórum í skoðunarferð um svæðið spáðum við því að starfsmannabústaðirnir sem þá var verið að reisa mundu ekki halda vatni. Þessi spá gekk eftir. Þeir fullyrtu að þessi hús væru nógu góð, en þau duga ekki við íslenskar aðstæður. Þau munu átt að hafa verið nothæf í Síberíu, en þar kemur frost á haustin og stendur fram á vor. Svona er þetta ekki á Íslandi, sem er eins og við vitum land umhleypinganna. Húsin mígleka öll þegar snjórinn sem smýgur um allt í byljunum þiðnar í næstu hlýindum,“ segir Þorbjörn og lýsir ástandinu þannig að menn hafi reynt að tjalda yfir rúm sín og föggur til þess að verjast vætunni sem seytlar inn þegar snjórinn þiðnar undir þakinu. Nú þessa dagana er loksins verið að reyna að finna varanlega lausn á þessum lekavanda.

„Það er ekki bara vatnið sem gerir íbúum þessara húsa lífið leitt. Aðstaða starfsmanna utan vinnutíma er mál sem þarf að taka upp í viðræðunum. Starfsfólkið sem býr í þessum húsum er sáróánægt með þá aðstöðu sem þeim er boðið upp á að lokunum vinnudegi. Impregilo-menn hefa ekki fallist á þá kröfu okkar að setustofum verði komið upp í þessum húsum. Eins og staðan er núna verða menn annaðhvort að dveljast í herbergjunum sínum eða fara út úr húsi sem er ekki alltaf jafn-freistandi á stað sem þessum þar sem veður eru válynd. Við leggjum áherslu á að úr þessu verði bætt þannig að menn geti verið „heima“ og blandað geði við sína samstarfsmenn án þess að leggja á sig vafasöm ferðalög til að hitta mann og annan,“ segir Þorbjörn og bætir við að úrbætur séu líka brýnar í öryggismálum á staðnum. Koma verði upp slökkviliði sem sé tiltækt ef á þarf að halda, svo dæmi sé nefnt.

 

Gripið til hótana

 

Þorbjörn segir að ýmsar opinberar stofnanir sem stunda eftirlit á svæðinu hafi margoft þurft að grípa til hótana til að fá Ítalina til að lagfæra ýmislegt sem kröfur hafi verið gerðar um. Nefnir hann þar  Hollustuvernd, Vinnueftirlitið og Brunamálastofnun.

Aðspurður segist Þorbjörn sáttur við að þessar stofnanir skuli hafa rankað við sér og séu nú farnar að sinna eftirlitshlutverki sínu á staðnum. Hann segir ljóst að eftirlitsaðilar hafi teygt sig æði langt áður en þeir grípu til hótana og telur hann að þetta sýni vel hversu litla virðingu Impregilo-menn bera fyrir íslenskum lögum og reglum.

 

Velvilji stjórnarherranna

 

„Þeir reyna að nýta sér eins vel og hægt er þann velvilja sem þetta fyrirtæki nýtur hjá stjórnarherrunum, sérstaklega Framsóknarmönnum. Það er sorglegt að horfa upp á það að félagsmálaráðherra, sem á að hafa yfirumsjón með velferð starfsmanna á vinnustöðum hér á landi, skuli taka að sér að gerast málsvari þeirra Impregilo-manna, sem hafa hvar sem þeir tylla niður fæti níðst á starfsfólki sínu, sérstaklega þeim sem minnst bera úr býtum. Kárahnjúkavirkjun er hápólitísk framkvæmd sem helst engan skugga má bera á að mati stjórnvalda og því hefur okkur í verkalýðshreyfingunni reynst erfitt að fá stuðning hjá þeim þegar kemur að því að búa starfsmönnum sem leggja það á sig að vinna á þessum erfiða stað viðunandi aðstæður. Það kemur einnig á óvart hvað Landsvirkjun reynir að vera stikkfrí í þessu máli,“ segir Þorbjörn og lýsir miklum vonbrigðum með málflutning þeirra Landsvirkjunarmanna. „Þeir hafa margoft reynt að gera orð mín sem talsmanns verkalýðshreyfingarinnar tortryggileg og reynt að gera lítið úr umkvörtunarefnum okkar. Viðhorfið sést best á því hvernig þessi framkvæmd var matreidd ofan í þjóðina í heimildarþætti sem sýndur var fyrir skemmstu í Sjónvarpinu. Þar var ekki minnst einu orði á þá staðreynd að við upphaf framkvæmda kom í ljós að ítalski verktakinn ætlaði sér að láta fátæka farandverkamenn frá Suður-Evrópu reisa þetta stíflumannvirki á Vesturöræfum og þiggja fyrir skítalaun. Nokkuð sem er fullkomlega óásættanlegt,“ segir Þorbjörn og bætir við að það sé sorglegt að fulltrúar þessa fyrirtækis, Landsvirkjunar, skuli hafa tekið þann pól í hæðina að verja framkomu Ítalanna og þegja yfir henni. Þorbjörn vonast þó til þess að með gerð nýs virkjanasamnings fari að lægja uppi við Kárahnjúka, og að menn fari að einbeita sér að því að skapa sátt um þessa framkvæmd, sem á eftir að standa yfir í minnst þrjú ár í viðbót.