Kjarasamningarnir: Hærri kaumáttur

Burt með félagsleg undirboð

 

Viðræður um endurnýjun kjarasamninga eru hafnar. Að mörgu leyti hefur yfirstandandi samningstímabil verið hagstætt launafólki. Flestir hafa búið við vaxandi kaupmátt og stöðugleiki hefur ríkt í efnahagslífinu. Þrátt fyrir þetta hafa hópar innan Samiðnar ekki haldið í við verðlag og því ekki fengið kaupmáttaraukningu á samningstímanum. Það er mikilvægt að hafa þetta í huga við endurnýjun kjarasamninga.

En hvað er það sem skiptir þá sem setið hafa eftir mestu máli?

Þessir hópar eiga það sammerkt að vera á lágmarkstöxtum og hafa ekki notið launaskriðs. Þessa hópa skiptir mestu máli að samið verði um kauptaxta sem tryggja þeim viðunandi laun, launataxta sem taka mið af því að menn eiga að baki fjögurra ára nám, og viðbótarmenntun, og hafa margir mikla starfsreynslu. Ef núgildandi kauptaxtar Samiðnar eru til dæmis bornir saman við taxta kennara og hjúkrunarfræðinga er ljóst að verulega hallar á iðnaðarmenn. Þetta getur ekki gengið lengur því það er samkeppni um starfsfólk og þegar ungt fólk velur sér menntun horfir það til launanna og starfsumhverfisins. Íslenskur iðnaður er að verða undir í þessari viðureign, sem hlýtur að leiða til þess að hann veikist í hinni alþjóðlegu samkeppni.

 

Í kröfugerð Samiðnar eru megináherslur lagðar á

   stöðugleika og vaxandi kaupmátt,

   að kaupmáttur vaxi um 3% á ári

   að lágmarkslaun verði 1050 kr. á tímann í dagvinnu

   aukinn lífeyrisrétt

   aukna endurmenntun

   réttindi erlendra starfsmanna

 

Krafan um 1050 kr. sem lágmarkslaun og að tekið verði á málefnum erlendra starfsmanna eru kröfur sem skipta gríðarlega miklu máli. Þessar tvær kröfur verða að fylgjast að og við verðum að fá viðunandi niðurstöðu. Ef það tekst ekki blasir við að Samiðn getur ekki bundið kjarasamninga til lengri tíma.

Á síðustu árum hefur innflutningur erlends vinnuafls margfaldast. Alþekkt er að erlenda verkafólkið tekur laun eftir lágmarkskauptöxtum.

Þetta hefur leitt til félagslegra undirboða og útilokunar íslenskra launamanna, til dæmis við Kárahnjúkavirkjun. Einnig hefur þetta raskað samkeppnisstöðu þeirra verktakafyrirtækja sem hafa íslenska launamenn í vinnu.

Við þetta ástand verður ekki unað lengur, Samiðn hyggst leggja allt í sölurnar til að stöðva þessa þróun. Um þessa kröfu á að geta orðið góð samstaða því hér fara saman hagsmunir atvinnurekenda og launamanna.

Ágætu félagar – framundan eru erfiðir kjarasamningar sem geta tekið langan tíma og það reynir verulega á okkur öll ef árangur á að nást, á þá sem hafa forystu í samningaviðræðunum og ekki síður á félagsmennina á vinnustöðunum. Það er vissa okkar að allir eru tilbúnir að leggja hönd á plóg til að árangurinn verði viðunandi. Það er mikilvægt að leggja áherslu á að árangurinn verður ekki eingöngu til við samningaborðið. Hann verður ekki síður til á vinnustöðunum, þaðan kemur þrýstingurinn á viðsemjendur okkar. Sá kraftur er forsenda góðs árangurs.