Skoðanir skiptar um mannvirkjalagafrumvarp

 

Í síðasta Samiðnarblaði var fjallað um stöðu íbúðarkaupenda gagnvart verktökum sem verða uppvísir að því að skila gallaðri húseign. Við röktum sögu konu sem sagði sínar farir ekki sléttar og sat uppi með stóran fjárhagslegan skaða, auk ómældra óþæginda. Þá var rætt við talsmann neyt-enda, lögfræðing Neytendasamtakanna og framkvæmdastjóra Húseigendafélagsins. Almennt má draga þá almennu niðurstöðu af þessum samtölum að hagsmunir neytenda væru fjarri því að vera nægilega ljósir og tryggir og mikil þörf væri á að gera bragarbót á. Þá var kastað upp þeirri spurningu, hvort frumvarp til mannvirkjalaga, sem þá var nýlagt fram, kæmi til með að bæta úr þessu, yrði það að lögum. 
Nú hefur frumvarpið verið lagt fram að nýju, lítið breytt og þess vegna er hér rætt við Þórunni Sveinbjarnardóttur umhverfisráðherra um hvað muni breytast og ekki síst hvort staða kaupenda verði betri með nýjum lögum. Í viðtalinu við Þórunni kemur fram að hún er þeirrar skoðunar að svo verði, en leggur þó mikla áherslu á að því verði að fylgja víðtæk viðhorfsbreyting meðal íbúðarkaupenda. Þeir verði að átta sig því að ábyrgðin sé þeirra. Þórunn er þeirrar skoðunar að í frumvarpinu sé að finna ýmis atriði sem geri kaupendum hægara um vik að leita réttar síns, ekki síst sú staðreynd að frumvarpið leggi höfuðáherslu á að skýra verksvið og ábyrgð þeirra aðila sem koma nálægt húsbyggingum.
Magnús Sædal Svavarsson, byggingarfulltrúi í Reykjavík, er ekki jafnbjartsýnn á að í þessu frumvarpi felist miklar réttar-bætur fyrir kaupendur. Húsbyggingar-markaðurinn sé of óagaður og í frumvarpinu sé gert ráð fyrir að eftirlit verði fært of langt frá markaðnum til að í því sé nægjanlegt hald. Auk þess vanti öll raunveruleg úrræði til að koma böndum á þá sem verði uppvísir að óvönduðum vinnubrögðum. Gæðakerfi ein og sér leysi ekki þann vanda, það vanti viðurlög og raunverulegar heimildir til að taka þá aðila úr umferð sem hlunnfari kaupendur með óvandaðri vinnu.