Mikilvægt að við beitum okkur á evrópuvettvangi

 

Rætt við Stefan Löfven formann IN – Industrian- ställda i Norden – sem eru heildarsamtök norræns iðnverkafólks.
 
Nordisk Forum kallast fundurinn sem haldinn var á Hótel Sögu um miðjan júní en þetta var í annað sinn sem slíkur fundur er haldinn á vegum nýstofnaðra samtaka sem kallast IN, sem stendur fyrir Industrianställda i Norden eða Samtök starfsfólks í norrænum iðnaði. Formaður samtakanna er Svíinn Stefan Löfven sem einnig er formaður samtaka sænskra járniðnaðarmanna, IF Metall. 
Blaðamaður Samiðnar hitti Stefan að máli eftir að fundinum lauk og fyrsta spurningin spurði sig sjálfrar: Hverjir eru í IN?
„Þar eru 23 landssambönd iðnverkafólks á Norðurlöndum, nokkurn veginn allur framleiðsluiðnaðurinn. Samtökin voru stofnuð í Svíþjóð haustið 2005 með sameiningu NIF og Nordisk Metall. Nordisk Forum-fundirnir eru haldnir annað hvert ár og þetta er annað þingið.“
Hver eru verkefni samtakanna?
„Þau eru annars vegar hefðbundið starf stéttarfélaga að samningum og þess háttar. Undir það heyrir einnig starfið á vettvangi Evrópu. Þar höfum við þá stefnu að standa vörð um norræna velferðarlíkanið sem
byggist á samningagerð og hóflegri lagasetningu. Við vitum að samningagerðin þarf að ná út fyrir landamæri þjóðríkisins því starfsemi fyrirtækjanna hefur fyrir löngu gert það og þess vegna er mikilvægt að verkafólk álfunnar láti ekki etja sér saman heldur sýni samstöðu þvert á landamæri.
Við höfum einnig afskipti af almennri stefnumótun á sviði iðnaðar- og orkumála, svo sem um það hvernig best er að stuðla að nýsköpun í iðnaði, hvernig stefnu viljum við hafa á sviði orkumála og svo framvegis. Undir þetta fellur starfsmenntunin.
Nú er það svo að við eigum okkur ekki norræna viðsemjendur. Þeir eru skipulagðir innan hvers ríkis og á Evrópuvett-vangi. Við því bregðumst við með því að þjappa okkur saman og móta stefnu sem við fylgjum svo eftir á Evrópuvettvangi. Við erum 1,2 milljónir í IN og það munar um þann kraft. Við getum haft mikil áhrif á þróunina í Evrópu. Við eigum til dæmis reglulega fundi með IG Metall, hinum öflugu samtökum iðnaðarmanna í Þýska-landi, þar sem við skiptumst á skoðunum og reynslu og við finnum að þeir taka mark á okkur. Það sama á við Japana sem við hittum reglulega.“
Eru Evrópumenn spenntir fyrir norræna líkaninu?
„Já, þeir eru það. Í Suður-Evrópu glímir verkalýðshreyfingin við litla þátttöku og leggja þessvegna nokkuð mikla áherslu á lagasetningu um kjaramál. Við svörum því þannig að slíkt komi alveg til greina en lögin megi ekki takmarka mögu-leika okkar á að gera heildarsamninga sem byggjast á samábyrgð okkar, atvinnurek-enda og ríkisvaldsins á framkvæmd samninganna. Við viljum ekki hverfa frá þeim.“
Blaðamaður hjó eftir því að í pallborðsumræðunum var ekkert rætt um atvinnuleysi. Er það ekki vandamál lengur?
„Vissulega eru tímarnir góðir en þó er talsvert atvinnuleysi í sumum löndum,  einkum Danmörku og Finnlandi. Ástandið er betra hjá okkur hinum. Í Svíþjóð er atvinnuleysið 4% en það er ekki langt síðan við bjuggum við mun meira atvinnuleysi svo það er vissulega enn á dagskrá.“
Það var heldur ekki mikið rætt um innflutning vinnuafls til Norðurlanda.
„Innfluttir verkamenn eru enn vanda-mál ef þeir koma með ólöglegum hætti inn í landið eða starfa á lélegri kjörum en samningar kveða á um. Það eru alltaf til einhverjir sem vilja nýta sér veika stöðu innflytjenda og græða á þeim. Gegn þeim dugir best að slá skjaldborg um gildandi kjarasamninga og tryggja að þeir séu alls staðar virtir. Staðan er mismunandi eftir löndum en það ríkir hvergi neyðarástand, enda hefur straumurinn að austan ekki orðið eins mikill og menn bjuggust við þegar opnað var fyrir innflutning frá löndum Austur-Evrópu.“
Hefur hlutverk iðnaðarins ekki minnkað í upplýsingasamfélaginu?
„Nei, því ef okkur tekst ekki að halda uppi iðnaði getum við ekki haldið uppi velferðarþjónustu. Það er mikil talað um að útvista verkefni, til dæmis tölvudeildir iðnfyrirtækja. Eftir það flokkast deildin undir þjónustu, en hún væri ekki til án iðnfyrirtækisins. Þannig er það á mörgum sviðum og í því liggur mikilvægi iðnaðarins,“ sagði Stefan Löfven formaður IN.