Það er ekki tímabært að lækka skatta (leiðari)

Frá árdögum verkalýðshreyfingarinnar hafa velferðarmálin skipað stóran sess í áherslum hennar. Frá upphafi hefur hreyfingin gert sér ljósa grein fyrir mikilvægi þess að geta jafnað lífskjörin og skapað sem flestum sem jöfnust tækifæri án tillits til efnahags, kyns eða kynþáttar. Íslendingar hafa sótt fyrirmyndir að velferðarkerfinu til Norðurlanda. Þrátt fyrir það eru Íslendingar á mörgum sviðum eftirbátar þeirra þegar kemur að réttindum einstakra þjóðfélagshópa.

Annars staðar á Norðurlöndum er ekki eingöngu litið á velferðarkerfið út frá stöðu einstaklinganna heldur einnig sem hluta af rekstrarumhverfi fyrirtækjanna. Þannig hafa norrænu ríkin skipað sér í efstu sætin í samanburði á hvar séu bestu rekstrarskilyrði fyrirtækjanna. Gott velferðarkerfi skapar forsendur fyrir meiri sveigjanleika á vinnumarkaði og auðveldar fyrirtækjum skipulagsbreytingar til að mæta nýjungum. Það er því rangt að stilla velferðarkerfinu upp sem andstæðu við fyrirtækin. Uppbygging og þróun velferðarkerfisins er því sameiginlegt verkefni samtaka launafólks og atvinnurekenda.
Fyrir nokkrum misserum lagði ASÍ fram vel útfærðar tillögur í velferðarmálum og á ársfundi sambandsins 2003 var þeim forgangsraðað. Þrátt fyrir að liðið sé meira en ár frá því að tillögur Alþýðusambandsins voru kynntar hafa viðbrögð stjórnvalda verið lítil. Nú hefur ríkisstjórnin aftur á móti kynnt tillögur að skattalækkunum og gert ráð fyrir að þær komi til framkvæmda í áföngum á þessu kjörtímabili.

Samkvæmt grein sem birtist hér í blaðinu eftir hagfræðing ASÍ koma fyrirhugaðar skattalækkanir fyrst og fremst hinum tekjuhærri til góða.

Einnig kemur fram að skattbyrðin hefur verið að þyngjast á lágtekjuhópunum á sama tíma og hún hefur verið að lækka hjá þeim tekjuhærri.

Í úttekt sem velferðarnefnd ASÍ gerði á efnahagslegri og félagslegri stöðu einstakra hópa kom í ljós að einmitt þeir hópar standa veikast sem hafa verið að taka á sig aukna skattbyrði, og eiga að gera í framtíðinni samkvæmt tillögum ríkisstjórnarinnar.

Það er hægt að fullyrða að þessi stefna ríkisstjórnarinnar gengur gegn skoðunum flestra Íslendinga sem vilja hafa gott velferðarkerfi og eru á móti ójöfnuði. Verkalýðshreyfingin telur því mikilvægt að þessari þróun verði snúið við og að þeir fjármunir sem stjórnvöld fyrirhuga að nota í skattalækkanir verði notaðir til að efla samtryggingu velferðarkerfisins og að þeir sem veikast standa hafi forgang. Við Íslendingar erum rík þjóð sem hefur forsendur til að skapa samfélag þar sem allir hafa sem jöfnust tækifæri. Samfélag þar sem allir eru með, ekki bara þeir ríku. Að skapa samfélag þar sem allir hafa sem jöfnust tækifæri er nokkuð sem kemur ekki af sjálfu sér heldur byggist á markvissri stefnu stjórnvalda á hverjum tíma.
Miðað við hvernig núverandi ríkistjórn hefur tekið á tillögum verkalýðshreyfingarinnar í velferðarmálum, þar sem lögð var megináhersla á að mæta þörfum þeirra sem veikast standa í samfélaginu, er ekki að vænta mikils árangurs. Það er ekki að vænta mikilla breytinga nema verkalýðshreyfingunni takist að skapa þrýsting á stjórnvöld og sé tilbúin að fylgja þeim eftir sem einn maður.