Ungt fólk í brennidepli

 Í vetur hefur Samiðn lagt sérstaka áherslu á að vinna að málefnum sem tengjast ungu fólki, nemum og ungum iðnaðarmönnum á vinnumarkaði. Samiðn hefur lagt sig fram um að heyra hvað unga fólkið hefur að segja og ná fram bótum í málum sem ungu fólki finnst mega betur fara. Harpa Rut Hilmarsdóttir stýrði verkefninu og hér segir hún frá því helsta sem gerst hefur.

 

Til að fræða verkmenntanema um rétt sinn á vinnumarkaði og til að vera í sambandi við ungt fólk í verknámi höfum við farið í heimsókn í alla verkmenntaskóla landsins. Þetta hefur gefið góða raun, nemarnir eru ánægðir með að fá fræðslu um réttindamál. Það skilar sér inn í starf Samiðnar að vera í sambandi við unga fólkið á þann hátt að ungt fólk fær að heyra um samningsbundinn rétt sinn og hefur haft samband við Samiðn til að fá upplýsingar og aðstoð. Við höfum jafnframt fengið upplýsingar um hvað það er sem unga fólkið vill að betur fari og höfum því getað unnið í þeim málum.

 

Tryggingamál

 

Í skólaheimsóknum vetrarins kom í ljós að verkmenntanemar hafa miklar áhyggjur af því að vera ekki tryggðir í námi. Samiðn hefur tekið þetta mál upp á sína arma og ætlar að vinna að því að fá nemendur tryggða á námstímanum (sjá grein um tryggingamál á næstu opnu).

 

Kynning á verkmenntun í grunn- og framhaldsskólum

 

Iðnsveinafélag Fljótsdalshéraðs hafði frumkvæði að því að fara í grunnskóla og menntaskóla til að kynna nám í verkmenntaskólum. Var sérstök áhersla lögð á að kynna marga góða kosti verkmenntunar, námsfyrirkomulag, möguleika á framhaldsmenntun, atvinnumöguleika í kjölfar náms o.fl. Nemendum fannst það spennandi kostur að vita að hægt er að klára sveinspróf og stúdentspróf á einungis fimm árum. Það er tvímælalaust besti menntunarmöguleiki sem ungu fólki gefst nú kostur á. Kom í ljós að skólar á öllum sviðum hafa komið að kynna starfsemi sína í skólunum en erfitt hefur verið að fá efni og kynningar um verkmenntun. Þetta er nokkuð sem þarf að sinna betur og víðar um land.

 

Fundir með fulltrúum verkmenntaskóla

 

Samiðn hefur haldið fundi með fulltrúum allra verkmenntaskóla landsins þar sem tekin hafa verið fyrir ýmis mál. Með því hefur Samiðn náð í vitneskju um það sem er að gerast í skólunum og hjá nemunum. Margt hefur komið á óvart, svo sem það að nemendur í verkmenntaskólum virðast ekki hafa aðgang að netföngum í skólunum á sama hátt og nemendur í bóknámsskólum. Einnig er það áhyggjuefni að nemendum er ekki kennt að nota öryggistól og tæki í skólunum. Svo virðist að einungis í einum skóla sé nemendum gert að vera í stáltárskóm og nota hjálma þar sem það á við. Nemum finnst brýnt að þeir verði tryggðir í náminu og finnst jafnframt að ímynd iðnmenntunar sé ekki góð í samanburði við stúdentsprófið. Þetta eru mál sem Samiðn er nú að huga að.

 

Blaðagreinar

 

Nemendur sem komu á fundi hjá Samiðn höfðu áhyggjur af því að grunnskólakennarar hafa mikla bóknámsslagsíðu og ráða góðum nemendum frá því að fara í verknám. Fjórir nemendur af tíu nefndu að grunnskólakennarar þeirra hefðu reynt að tala þau frá því að fara í verknám. Því hafi þrjú af þessum fjórum hafið framhaldsskólanám með því að fara í bóknám en svo skipt seinna, sumir eftir stúdentspróf. Vegna þessa skrifaði ég grein í Morgunblaðið undir fyrirsögninni: Fordómar fyrir verkmenntun? Fjallaði greinin (sjá bls. 39) um ábyrgð kennara við námsval nemenda og mikilvægi þess að grunnskólanemar fái hlutlausar upplýsingar um það námsval sem þeim stendur til boða.

Við höfum verið í sambandi við önnur félög á Norðurlöndum og höfum skrifað grein í sænskt tímarit um það starf sem Samiðn hefur unnið með ungu fólki í vetur.

 

Fundur með ungu fólki á Akureyri

 

Félag byggingamanna í Eyjafirði stóð fyrir fundi með ungum byggingamönnum á Akureyri. Var fundurinn hugsaður sem spjallfundur og markmið hans að auka vitund ungs fólks um verkalýðsmál. Þessi fundur mæltist sérlega vel fyrir og spunnust þar umræður um ýmis mál. Í lok fundar ræddu menn að þeir vildu endilega hittast á þessum vettvangi oftar. Framtak FBE er lofsvert og vel til þess fallið að ná til ungs fólks sem tengist félaginu í nútíð og framtíð.

Rannsóknir á námsferli og brottnámi

 

Við höfum skoðað rannsóknir um námsferil og brotthvarf úr framhaldsskólum. Þar kemur í ljós athyglisverður munur á milli verkmenntanema og stúdentsnema í ýmsum efnum. Niðurstöðurnar eru að mörgu leyti sláandi og vel þess virði að rýna í þær. Til dæmis kemur í ljós að meðalaldur þeirra sem taka sveinspróf er 29 ár en meðalaldur nema við stúdentspróf um 21 ár. Það kemur í ljós að 52% þeirra sem klára verknám hafa skipt um námsbraut áður en þeir velja endanlegt fag. Jafnframt að tveir þriðju þeirra sem ekki klára neitt nám að loknum grunnskóla hafa meiri áhuga á verknámi en bóknámi. Kannski segir þetta okkur að verknám sé ekki nægjanlega kynnt eða að það hafi slæmt orð á sér af einhverjum sökum. Þetta þarf að skoða betur.

Margt fleira hefur verið unnið hjá Samiðn í vetur sem sérstaklega er ætlað að auka hlut ungs fólks í félögum innan Samiðnar. Mörg verkefni eru til staðar sem hægt er að vinna og nú er spurning hversu mikla áherslu menn vilja leggja á að vera í góðu sambandi við yngstu kynslóðina í stéttarfélögunum.

 

Nemar ótryggðir í hættulegu námi!

 

Í heimsóknaferð Samiðnar í verkmenntaskóla landsins komu fram áhyggjur verkmenntanema af því að vera ekki tryggð í náminu, námi sem snýst að miklu leyti um að nemendur læri að umgangast og nota hættuleg verkfæri, efni, tól og tæki. Að nemi er ekki tryggður þýðir að verði slys þegar hann vinnur á hjólsög eða logsýður þarf hann að höfða mál gegn ríkinu ætli hann að fá einhverjar bætur vegna meina sinna. Þetta fyrirkomulag er ekki ásættanlegt! Það er varla rökrétt að einstaklingar séu ekki tryggðir í námi en verði hins vegar tryggðir hjá vinnuveitanda um leið og þeir eru búnir að læra á tækin og komnir út á vinnumarkaðinn. Nemendur og aðrir hagsmunaaðilar eru, eins og gefur að skilja, alls ekki sáttir við þetta. Samiðn hefur tekið þetta mál í sínar hendur og stefnir að því, í samstarfi við aðra hagsmunaaðila, að ganga frá því að nemar verðir tryggðir sem allra fyrst.

 

Hvernig standa málin?

 

Það gerist því miður annað slagið að nemandi slasast í kennslustofunni. Algengasta slysið er að nemandi sker framan af fingri í sög. Við það getur nemandi fengið varanlega örorku sem hefur áhrif á starfshæfni hans um alla framtíð. Það er ekki endilega minni skaði þegar nemi slasast en  starfandi iðnaðarmaður, nema síður sé. Það segir sig því sjálft að nemandi ætti að hafa rétt til tryggingabóta, líkt og þeir sem eru úti á vinnumarkaði. Þannig standa þó málin ekki nú því ríkið tryggir ekki nemendur sína, skólarnir  tryggja ekki nemendur sína og nemendurnir tryggja sig ekki sjálfir.

Af því leiðir að eftir slys þarf nemandi að höfða einkamál gegn ríkinu til að fá bætur vegna slyss. Það þýðir að nemandinn þarf að ráða sér lögfræðing og fara í mál gegn ríkisvaldinu sem bæði er kostnaðarsamt og tímafrekt. Engin trygging er fyrir því að nemandinn vinni og eins og dæmin sýna alveg eins líklegt að nemandinn fái ekkert og standi uppi með skuldir vegna kostnaðar af málinu. Til að vinna slíkt mál þarf nemandinn að sýna skýrt fram á að kennari hans hafi sýnt einhverskonar vanrækslu í starfi sem með einhverjum hætti megi rekja slysið til. Þeir sem hafa fylgst með kennslu í verknámi eða öðru námi gera sér grein fyrir að það er ekki á færi mannlegs kennara að vera með fulla athygli á tuttugu nemendum í skólastofu öllum stundum kennslunnar.

Í flestum tilfellum eru góð tengsl á milli kennara og nemanda. Þegar slys verður er kennari settur í erfiða stöðu. Ef hann vill hjálpa nemanda sínum við að fá bætur þarf hann að lýsa yfir eigin vanrækslu. Það getur verið þungur dómur fyrir kennara. Skólinn er líka í erfiðri aðstöðu því hann vill að nemandinn fái bætur en vill ekki þurfa að viðurkenna óverðskuldað að kennari hafi vanrækt starf sitt. Þannig eru bæði kennari og skóli í þeirri stöðu að þeir fagna ekki sigri hvernig sem málið fer.

 

Hvað er til ráða?

 

Það liggur fyrir að kaupa þarf tryggingu fyrir nema. Ljóst er að einhver þarf að bera kostnað af því að tryggja nemana. En ef upphæðin er ekki meiri en sem nemur um 1000 krónum á einstakling á ári ættu nemendur að sjá hag sinn í að borga. Ef það verður lendingin í málinu verða hagsmunaaðilar að standa saman í að finna fyrirkomulag á þeim málum, sem raunar gæti kostað lagabreytingu. Það þarf að fá gott tilboð í tryggingarnar svo að gjald á hvern nema verði sem allra minnst og huga að því hvaða nemar þurfa að vera tryggðir og hverjir ekki.

Samiðn hefur tekið tryggingamál nema upp á sína arma og haft samband við aðra hagsmunaaðila. Allir hagsmunaaðilar eru á sama máli um að ekki sé hægt að búa við það að nemendur séu ekki tryggðir og að þessu þurfi að breyta. Hingað til hefur þetta mál ekki verið tekið föstum tökum en nú verður það gert!

 

Sagaði af sér hálfan fingur

 

Stefanía Arnardóttir fékk gjafsókn til að höfða skaðabótamál á hendur ríkinu vegna slyss við iðnnám – en tapaði

 

Í október 1997 kveikti Stefanía Arnardóttir, nemi á þriðju önn í iðnhönnun við Iðnskólann í Hafnarfirði, á hjólsög. Hún setti 60 sentimetra langan, 11 sentimetra breiðan og 12 millimetra þykkan bút af MFD-plötu í sögina og ætlaði að saga um sentimetra breiðan bút af plötunni. Þegar hún hafði rennt um helmingi plötunnar í gegn festist hún. Stefanía dró plötuna til baka og byrjaði hinum megin frá en það sama gerðist. Hún ýtti á og áður en hún vissi fór hægri höndin í blaðið.

– Ég hélt um puttann, blóð vætlaði út og ég fann ekki fyrir honum. Í fyrstunni hélt ég að það væri einfaldlega vegna þess að fingurinn væri dofinn, og ég ætlaði ekki að trúa því þegar ég uppgötvaði að ég hafði sagað framan af honum, segir Stefanía við Samiðnarblaðið.

Hún hafði sagað í gegnum miðkjúku vísifingurs og meðan beðið var eftir sjúkrabíl var leitað að fingrinum á gólfinu; hann fannst og var tekinn með á slysamóttökuna en reyndist svo illa farinn að ekki var talið unnt að græða hann á.

– Auðvitað heldur lífið áfram, en mér finnst skítt að hafa engar bætur fengið, ekki einu sinni vegna kostnaðar við að fara á slysadeildina, segir Stefanía.

Það kom nefnilega í ljós að nemendur skólans voru ekki slysatryggðir við vélavinnu og eina leiðin til þess að sækja bætur var að fara með málið fyrir dómstóla, en til þess var nauðsynlegt að kæra kennarann. Þótt Stefaníu væri þetta mjög á móti skapi, og fyndist það raunar fáránlegt, fór hún í málið. Iðnnemasambandið lagði henni til lögmann sem fór fram á um tveggja og hálfrar milljónar króna skaðabætur, en málið tapaðist fyrir héraðsdómi. Hún áfrýjaði, en niðurstaða Hæstaréttar var á sömu lund.

Rétturinn taldi að Stefanía „hefði haft nægan þroska og þekkingu til að gera sér grein fyrir þeim hættum sem stafað gæti af vélum eins og þeirri sem um ræddi. Var því ekki talið að öðrum en S(tefaníu) sjálfri yrði kennt um hvernig fór, enda hefði hún getað forðað slysinu (!) ef hún hefði beitt þeim aðferðum sem ætlast hefði mátt til af henni. Var Í(slenska ríkið) því sýknað,“ segir í dómnum. Það var þó bót í máli að hún fékk gjafsókn fyrir báðum dómstigum.

Í Hæstaréttardómnum segir að Stefanía hafi fengið víðtæka reynslu í umgengni og notkun véla þar sem hún var á þriðju önn í náminu og hefði verið rúmlega 400 kennslustundir í verklegum tímum. Talið var að hún hefði átt að vera fullkomlega sjálfbjarga enda óskaði hún ekki eftir aðstoð kennarans. Og það var einnig talið mikilvægt að hún gerði þá skyssu að nota ekki eftirreku við að koma svo lítilli plötu í gegnum sögina. Hið síðastnefnda viðurkennir Stefanía fúslega.

– En ég er ekki sammála því að ég hafi verið svona vön vélinni, og auk þess geta slys hent alla, hvort sem það er smiður með 25 ára reynslu eða nemandi í iðnskóla.

Fyrir réttinum sagðist Stefanía telja að kennslu í vélavinnu væri ábótavant og hætturnar ekki nógsamlega brýndar fyrir nemendum, þeir fengju ekki sérstaka kennslu í öryggisfræðum, sem væri skyldufag í flestum greinum í iðnskólum landsins. Fulltrúi Vinnueftirlits ríkisins sem kom á vettvang komst að þeirri niðurstöðu að auk þess að ekki var notuð eftirreka hefði orsök slyssins verið verið sú að sagarblaðið hefði verið stillt of hátt og nemi með takmarkaða reynslu hefði verið látinn vinna verkið einn og án leiðbeininga.

Í málsástæðum og lagarökum ríkisins er þjáningarbótum mótmælt á þeirri forsendu að Stefanía hafi aðeins verið fjarverandi í þrjá daga eftir slysið og ekki orðið fyrir miklum óþægindum. Þetta er í samræmi við ályktun örorkunefndar þar sem segir að „sár hennar hafi gróið vel og hún hafi verið óþægindalítil en fái einungis slæma verki ef hún reki fingurinn í.“ Varanleg örorka Stefaníu var ekki metin nema átta prósent – en enginn fær örorkubætur nema örorka sé metin minnst tíu prósent. Skólayfirvöld höfðu hins vegar hvatt hana til þess að mæta í skólann hið fyrsta, það væri betra en að sitja heima í aðgerðarleysi.

– Það liggur við að ég sjái eftir því að hafa drifið mig í skólann, líklega hefði komið betur út fyrir mig að vera heima í stað þess að láta   stappa í mig stálinu og drífa mig af stað, segir hún.

Það kemur hins ekki fram í dómnum að Stefanía lék bæði á flautu og píanó en hefur orðið að leggja hvort tveggja á hilluna. En hún hélt ótrauð áfram námi og lauk hönnunarprófinu þótt hún gæti lengi vel ekki notað hægri höndina. Síðan hóf hún nám í smíðadeild Kennaraháskólans haustið 2000. En það gekk ekki.

– Ég hætti eftir hálfan annan mánuð því í hvert sinn sem ég kveikti á vélum fór ég á taugum, fór að skjálfa og svitnaði. Ég fór því í myndmenntadeild skólans, og sé raunar ekki eftir því, segir Stefanía Arnardóttir, sem útskrifast væntanlega með kennarapróf í myndmennt að ári.

Lára V. Júlíusdóttir hæstaréttarlögmaður, sem rak málið fyrir Stefaníu á báðum dómstigum, segir að meginályktunin sem draga megi af þessari niðurstöðu réttarins sé sú að tryggingar vegna vinnuslysa á almennum vinnumarkaði séu ákaflega lélegar og rík krafa sé gerð til sönnunarfærslu um sök vinnuveitenda eigi að vera nokkur von til þess að starfsfólk fái bætur vegna vinnuslysa. Þetta segir hún að hafi þau áhrif að staða skólanemenda sé enn verri en fólks á vinnumarkaði og bendir á að annars staðar á Norðurlöndum sé ástandið í þessum efnum mun betra, þar séu bætur vegna vinnuslysa innbyggðar í almannatryggingakerfið, bæði á vinnumarkaði og í skólum.