Evrópa er komin á dagskrá

 

Aldrei fór það svo að Evrópumálin kæmust ekki á dagskrá hér á landi. Davíð Oddsson forsætisráðherra, sem ekki hefur séð ástæðu til þess að ræða mikið um hugsanlega aðild Íslands að Evrópusambandinu, varpaði skyndilega sprengju inn í samfélagið með umdeildri skoðanakönnun og enn umdeildara sjónvarpsviðtali. Hvað sem fyrir honum vakti með þessu sprengjukasti þá tókst honum að setja málið á dagskrá. Spurningin er bara sú hvort hann gerði það ekki um leið að helsta kosningamálinu þegar landsmenn ganga að kjörborðinu eftir tæpt ár.

Umræðurnar um Evrópusambandið og afstöðu Íslendinga til þess hafa einkennst af nokkuð sérkennilegri stöðu sem ríkt hefur hér á landi. Í flestum löndum Evrópu hefur staðan verið sú að stjórnmálamenn hafa yfirleitt verið ákafir fylgismenn aðildar að Evrópusambandinu en almenningur tortryggnari og í sumum ríkjum beinlínis andvígur því að tengjast þessu ríkjasambandi of nánum böndum. Hér á landi hefur staðan verið önnur: Í flestum skoðanakönnunum undanfarin ár hefur komið fram töluverður áhugi þjóðarinnar á nánari samskiptum við ESB og jafnvel að kanna hvað væri í boði ef við sæktum um aðild. Fram á síðustu ár hafa íslenskir stjórnmálamenn hins vegar upp til hópa verið tortryggnir og margir þeirra lýst eindreginni andstöðu við hugmyndina um aðildarumsókn.

Nú virðist staðan sú að forysta Framsóknarflokksins með nokkrum undantekningum og Samfylkingin eru hlynnt því að nálgast Evrópusambandið frekar en orðið er. Á hinn bóginn eru Vinstri-grænir ákveðnir í andstöðu sinni gegn hvers konar aðild og það sama gildir um Sjálfstæðisflokkinn undir stjórn Davíðs Oddssonar þótt vitað sé um ýmsa flokksmenn sem eru annarrar skoðunar. Í atvinnulífinu hafa fylkingar einnig riðlast. Iðnrekendur eru ákafastir fylgismenn aðildar en útgerðarmenn jafnákafir í andstöðu sinni. Alþýðusambandið lítur EES-samninginn mjög jákvæðum augum og vill skoða aðildarmálin opnum huga en BSRB er á hinn bóginn tortryggnara. Loks má nefna að bændasamtökin hafa verið heldur andsnúin Evrópusambandinu ef marka má yfirlýsingar formanns þeirra.

Fáir hafa þó gengið jafnlangt og Davíð sem heldur því fram að fyrr muni hann missa glóruna en aðhyllast nánara samband við ESB. Það er því ekki að furða þótt margir hafi velt því fyrir sér hvað fyrir honum vakti með þessu óvænta útspili nú á vordögum. En úr því málið er komið á dagskrá er ekki úr vegi að velta fyrir sér þeirri mynd sem við blasir, um hvað er deilt og hverjar eru staðreyndirnar að baki vígorðum Evrópuumræðunnar.

 

Evrópa öll á iði

 

Það er raunar ekki heiglum hent að ná utan um þá stóru skepnu sem Evrópusambandið er. Helsta ástæðan fyrir því er sú að þessi stofnun er eins og hver önnur lifandi vera sem þróast og vex, tekur út þroska og bætir á sig nýjum fjöðrum. Þegar ríkjasambandið var stofnað á eftirstríðsárunum var það fyrst og fremst þröngt tollabandalag og samvinnuverkefni á takmörkuðum sviðum efnahags- og tollamála. Hugsunin að baki stofnun þess var sú að tengja helstu þjóðir Evrópu þannig böndum að þær hefðu ekki hagsmuni af því að hefja stríð í álfunni.

Lengst af voru það fyrst og fremst hægriflokkar álfunnar sem studdu Evrópusambandið af mestum ákafa. Þegar kom fram á níunda áratug nýliðinnar aldar fóru að verða breytingar á samstarfinu. Gerðar voru samþykktir sem miðuðu að því að gera samstarf ríkjanna nánara og teygja það yfir ný svið, þeirra á meðal málefni vinnumarkaðarins og félagslega þætti á borð við vinnuvernd, vinnutíma, fæðingarorlof og margt fleira. Ein af ástæðum þessa var að jafnaðarmenn og talsmenn verkalýðshreyfingarinnar höfðu meira að segja en áður í aðildarríkjunum. Fyrir vikið breyttist afstaða flokkanna til ESB.

Gleggsta dæmið um þetta er Bretland sem gerðist aðili að Evrópusambandinu árið 1973 í andstöðu við stóran hluta Verkamannaflokksins. Það var Íhaldsflokkurinn sem beitti sér harðast fyrir aðild. Tuttugu árum síðar hafði þetta snúist við: Thatcher og arftakar hennar í Íhaldsflokknum hafa verið svarnir andstæðingar nánari samvinnu við ESB en Verkamannaflokkurinn hefur það á stefnuskrá sinni að taka upp evruna og styrkja Evrópuböndin.

Ekki eru horfur á því að þessi mynd verði einfaldari í framtíðinni. Fyrir dyrum stendur að stækka Evrópusambandið verulega. Í gangi eru aðildarviðræður sem væntanlega leiða til þess að ríkjunum fjölgar úr 15 í 27 og á því ferli að ljúka árið 2004. Þá verður að heita má öll Mið- og Austur-Evrópa komin inn í ESB og einu Evrópuríkin sem standa utan þess verða Sviss, Ísland, Noregur, sum ríki gömlu Júgóslavíu og einhver furstadæmi á borð við Liechtenstein.

 

Tilvistarkreppan í ESB

 

Annað atriði sem flækir málið er að aðildarríki Evrópusambandsins eru fjarri því að vera sammála um hvernig sambandið skuli vera. Þessa mánuði stendur yfir ráðstefna undir forystu fyrrverandi forseta Frakklands, Valérys Giscards d’Estaing, þar sem ræddar eru framtíðarhorfur Evrópusambandsins. Að henni lokinni vonast forystumenn sambandsins eftir því að auðveldara verði að  stinga út framtíðarkúrsinn í samstarfi Evrópuríkjanna.

Sannast sagna gæti það orðið erfitt að finna einhvern samnefnara fyrir þær ólíku hugmyndir sem ráðamenn Evrópu gera sér um framtíð ESB. Þeir hafa hver á fætur öðrum sett fram hugmyndir sínar sem sumar stangast verulega á. Til dæmis eru Þjóðverjar hlynntir því að koma á einhvers konar sambandsríki sem líkist talsvert þeirra eigin stjórnskipun. Í hugmyndum þeirra er gert ráð fyrir að auka völd Evrópuþingsins og kjósa forseta ESB beinni kosningu. Síðan yrði sambandinu sett stjórnarskrá sem legði meginlínurnar fyrir lagasetningu þess.

Á móti þessum hugmyndum Þjóðverja hafa Tony Blair og leiðtogar Frakklands sett fram aðrar hugmyndir sem ekki ganga eins langt. Þeir vildu ekki heyra minnst á stjórnarskrá eða kjörinn forseta. Blair stakk upp á því að koma á fót nýrri þingdeild við Evrópuþingið sem yrði skipuð þingmönnum af þjóðþingum aðildarríkjanna. Á móti yrði vald Framkvæmdastjórnarinnar og Ráðherraráðsins takmarkað frá því sem nú er.

Ástæðan fyrir því að þessar umræður eru í gangi núna er margumræddur lýðræðishalli sem sagður er vera á Evrópusambandinu. Ljóst er að á honum verður að taka áður en nýjum ríkjum er hleypt inn í sambandið, að öðrum kosti verður glundroðinn alger vegna þess að núverandi stjórnskipan miðast við stærð sambandsins eins og það er. Að óbreyttu kerfi er einfaldlega ekki rúm fyrir allan þann fjölda nýrra ríkja sem fyrirhugað er að hleypa inn.

 

Lýðræðishallinn

 

Hér verður að skýra í örfáum orðum í hverju lýðræðishallinn er fólginn því hér á landi hafa menn túlkað það hugtak æði frjálslega. Ákvarðanataka Evrópusambandsins hefur verið á þann veg að Framkvæmdastjórnin hefur ein leyfi til þess að setja fram hugmyndir að nýrri lagasetningu innan sambandsins. Hugmyndirnar eru sendar til umræðu í þjóðríkjunum og nefndakerfi ESB og að henni lokinni mótar Framkvæmdastjórnin endanlega tillögu um lagasetningu (tilskipun, reglugerð eða tilmæli). Sú tillaga er send til umfjöllunar í Evrópuþinginu og Ráðherraráðinu (sem er skipað ráðherrum aðildarríkjanna fimmtán í þeim málaflokki sem lagasetningin heyrir undir). Fyrir nokkrum árum hafði Ráðherraráðið eitt vald til þess að setja sambandinu lög en smátt og smátt hefur áhrifavald Evrópuþingsins verið að aukast. Nú er kerfið þannig að ef ágreiningur kemur upp milli þingsins og ráðherranna sker sérstök sáttanefnd úr. Endanlegt vald til lagasetningar er formlega séð enn hjá Ráðherraráðinu en þegar það hefur tekið ákvörðun er það hlutverk Framkvæmdastjórnarinnar að fylgjast með því að aðildarríkin framfylgi lögunum.

Eins og sést á þessu er vald framkvæmdastjóranna tuttugu mikið, þeir setja fram hugmyndir um lagasetningu og framfylgja henni. Framkvæmdastjórana skipa ríkisstjórnir aðildarríkjanna (smærri ríkin skipa einn en þau stærri tvo) og eru þeir því í raun embættismenn en ekki pólitískt kjörnir. Þeir hafa því ekki pólitískt umboð og eru ekki ábyrgir gagnvart kjósendum.

Segja má að þetta kerfi hafi beðið skipbrot fyrir þremur árum þegar upp komst um ýmis spillingarmál innan Framkvæmdastjórnarinnar sem  leiddu til þess að hún sagði öll af sér og var skipuð upp á nýtt. Síðan hafa menn verið að vinda ofan af þessu kerfi og draga úr embættismannavaldi og skriffinnsku. Einn þátturinn í því er að auka vald Evrópuþingsins og annar er fólginn í samþykkt svonefndrar nálægðarreglu. Hún segir fyrir um að ákvörðun skuli tekin á lægsta mögulega stjórnsýslustigi. Það þýðir að mál sem snertir eitt hérað skal útkljáð innan héraðsins, þau sem snerta eitt land skulu útkljáð innan þess og einungis þau sem snerta tvö eða fleiri ríki skulu koma til kasta stjórnendanna í Brussel. Þessi regla hefur haft veruleg áhrif í þá veru að draga úr miðstýringunni.

 

Sjávarútvegsstefnan

 

Það er einmitt þessi síðastnefnda regla sem gæti haft veruleg áhrif á þann þröskuld sem talinn hefur verið erfiðastur fyrir Íslendinga að yfirstíga, hyggist þeir sækja um aðild að Evrópusambandinu. Lengst af hefur það verið fullyrt að aðild komi ekki til greina vegna sameiginlegrar fiskveiðistefnu sambandsins. Íslendingar geti aldrei fallist á að verða undirseldir ákvörðunum stjórnvalda í Brussel um fjöregg sitt, auðlindir hafsins.

Halldór Ásgrímsson utanríkisráðherra hefur sett fram hugmyndir um leið framhjá þessari sameiginlegu sjávarútvegsstefnu sem byggist á nálægðarreglunni. Hún er á þá leið að hin sameiginlega sjávarútvegsstefna nái einungis til fiskistofna sem eru sameiginlegir tveimur eða fleiri aðildarríkjum. Það á til dæmis við um fiskistofna í Norðursjó og umhverfis Bretlandseyjar og þar með stóran hluta sameiginlegra fiskistofna ESB og Noregs. Stærsti hluti fiskistofnanna við Ísland er hins vegar staðbundinn og engir aðrir en Íslendingar eiga sögulegan rétt til veiða úr þeim. Þess vegna er óþarfi að þeir stofnar verði settir undir sameiginlegu sjávarútvegsstefnuna, hún nái því einungis til svonefndra flökkustofna – makríls, norsk-íslensku síldarinnar, úthafskarfa og -rækju svo dæmi séu nefnd.

Halldór setti þessa hugmynd fram í heimsókn til Berlínar nú í vetur og tóku þýskir ráðamenn vel í hana. Það mun hins vegar ekki ráðast fyrr en í hugsanlegum aðildarviðræðum hvort hún stenst hagsmunakvörnina miklu í Brussel.

En þótt hún nái ekki fram að ganga og við stöndum frammi fyrir því að þurfa að beygja okkur undir sameiginlegu sjávarútvegsstefnuna segja fylgismenn Evrópuaðildar að það muni sáralitlu breyta fyrir íslenskan sjávarútveg. Ákvörðun um leyfilegan heildarkvóta við Ísland verði vissulega tekin formlega á fundi sjávarútvegsráðherra aðildarlandanna í Brussel en reglur sambandsins um svonefndan hlutfallslegan stöðugleika tryggi íslenskum útgerðum einkarétt á miðunum, af þeirri einföldu ástæðu að það hefur engin önnur þjóð sögulegan rétt til veiða á Íslandsmiðum. Ákvörðun ráðherranna mótast að langmestu leyti af ráðleggingum fiskifræðinga en í raun yrði það íslenski sjávarútvegsráðherrann sem ætti síðasta orðið um ákvörðun heildarkvótans. Hann yrði þó að rökstyðja mál sitt vel ef hann ætlaði að víkja verulega frá tillögum vísindamanna og allar reddingar á miðju ári eins og gjarnan hafa tíðkast mundu væntanlega verða úr sögunni. Skipting veiðikvótans á milli útgerða er eingöngu mál íslenskra stjórnvalda enda tíðkast ýmsar útgáfur kvótakerfis í ESB.

Andstæðingar ESB-aðildar hafa einnig bent á hversu lítt Norðmönnum og Maltverjum varð ágengt í að fá undanþágur frá sjávarútvegsstefnunni og sagt vonlítið að við fáum eitthvað meira. Á móti hefur verið sagt að þar sé ólíku saman að jafna. Í fyrsta lagi sé sjávarútvegur mun þýðingarmeiri stærð í íslensku efnahagslífi en norsku eða maltversku og það sé ekki stefna ESB að ræna ný aðildarríki lífsbjörginni við inngöngu. Í öðru lagi deilum við ekki nema litlum hluta af fiskistofnum okkar með ESB, ólíkt því sem á við um Noreg og Möltu. Um flökkustofnana þurfi hvort eð er að semja og staða okkar til þess að semja hljóti að batna ef við erum innan ESB í stað þess að þurfa að semja við sambandið utan frá.

 

Svo fáir og smáir

 

Þar er svo komið að öðru atriði sem andstæðinga og fylgismenn aðildar greinir á um. Hinir fyrrnefndu halda því fram að við séum svo fáir og smáir að enginn hlusti á okkur, stórveldi Evrópu muni valta yfir okkur án þess að taka eftir því. Fylgjendur aðildar segja að þetta sé ekki rétt. Í fyrsta lagi sé það ekki vinnulag Evrópusambandsins að ganga gegn grundvallarhagsmunum einstakra aðildarríkja og í öðru lagi sé heldur ekki hefð fyrir því að stórveldin greiði alltaf atkvæði á einn veg og smáríkin á annan. Miðað við höfðatölu sé vald smáríkjanna hlutfallslega mun meira en stóru ríkjanna og auk þess sé alltaf hlustað á rök sem sett eru fram með skýrum hætti og byggð á traustum grunni. Þar standi Íslendingar vel því fáir standist okkur snúning á sviði sjávarútvegs. Við höfum ef til vill minna að segja um málefni vínræktar eða járnbrautarsamgangna, en það skipti okkur líka litlu máli.

Bent hefur verið á að smáríkin innan Evrópusambandsins hafi fylgt þeirri stefnu að sinna ýmsum smærri hagmunamálum sínum vel en láta stórveldin ráða ferðinni í stóru málunum. Þetta er reyndar eins og íslensk utanríkisstefna í hnotskurn. Við höfum haldið fast á hagsmunamálum okkar í sjávarútvegi en látið stórveldunum eftir að taka ákvarðanir um öryggis- og varnarmál, umhverfismál og fleira slíkt.

Þriðja ágreiningsatriðið er náskylt þessu en það snýst um fullveldið. Ljóst er að breyta þarf stjórnarskránni og andstæðingar aðildar segja að það feli í sér óásættanlegt afsal á fullveldi þjóðarinnar. Á móti er því haldið fram að þetta afsal hafi þegar átt sér stað með aðild Íslands að Evrópska efnahagssvæðinu sem varð til fyrir átta árum. Þeir hinir sömu segja að í raun muni fullveldið aukast aftur með fullri aðild að ESB þar sem við getum haft áhrif á ákvarðanir Evrópusambandsins sem við höfum ekki núna. Eins og staðan er nú verður alþingi að lögfesta evrópskar tilskipanir án þess að hafa nokkuð um inntak þeirra að segja.

Í þessu sambandi er athyglisvert að samtök vinnumarkaðarins hafa í raun mun meiri áhrif á ákvarðanatöku á vettvangi ESB en stjórnvöld. Meðal þeirra fjölmörgu aðila sem spurðir eru álits í ákvarðanaferli sambandsins eru heildarsamtök atvinnurekenda og verkafólks í álfunni. Að þeim samtökum eiga Alþýðusambandið og Samtök atvinnulífsins aðgang, ýmist beint eða óbeint í gegnum norrænu samtökin.

 

Er EES ekki nóg?

 

Davíð Oddsson og fleiri hafa sagt sem svo að við getum látið okkur nægja EES-samninginn, hann hafi reynst okkur vel og muni gera það áfram. Halldór Ásgrímsson og Össur Skarphéðinsson eru ekki sammála þessu og hafa bent á að þróun Evrópusambandsins geri okkur erfiðara fyrir en áður að hafa áhrif á ákvarðanatöku þess. EES-samningurinn veitti Íslendingum tiltekinn aðgang að ákvarðanaferli ESB en sá aðgangur var í gegnum Framkvæmdastjórnina. Eftir því sem völd Evrópuþingsins og annarra stofnana ESB styrkjast á kostnað Framkvæmdastjórnarinnar minnkar þessi aðgangur okkar.

Við þetta bætist fyrirsjáanleg stækkun ESB sem dregur enn úr gildi EES-samningsins. Hún leiðir til þess að ýmsir viðskiptasamningar sem við höfum nú við nýju aðildarríkin falla úr gildi þegar þau fá aðild að ESB. Þar er einkum um að ræða tolla á síld og fleiri afurðir sem vega ekki þungt í heildarmyndinni en gætu reynst einstökum fyrirtækjum þungir í skauti.

Halldór hefur í samráði við Norðmenn beitt sér fyrir því að kanna áhuga ESB á því að laga EES-samninginn að breyttum veruleika en ekki haft erindi sem erfiði. Því er haldið fram að Halldór aðhyllist í raun fulla aðild en hafi af taktískum ástæðum framfylgt stefnu ríkisstjórnarinnar og Framsóknarflokksins með því að kanna þessa leið til hlítar áður en næstu skref verða ákveðin.

Ekki er við því að búast að ESB hafi mikinn áhuga á að breyta þessum samningi meðan verið er að semja um stækkun sambandsins. Í Brussel fer heldur ekki hjá því að menn spyrji Íslendinga og Norðmenn af hverju þeir gangi ekki einfaldlega í sambandið fyrst þeir hafa áhuga á að hafa meiri áhrif. Óvíst er hvort þessi afstaða á eftir að breytast eftir stækkun heldur er hætt við því að þátttaka okkar í Evrópska efnahagssvæðinu hafi breyst úr gagnvirku samstarfi í einskonar faxaðild þar sem alþingi fær sendar tilskipanirnar á faxi frá Brussel.

Að sjálfsögðu er ýmislegt fleira sem fylgjendur og andstæðinga ESB-aðildar greinir á um. Eitt er til dæmis áhrifin á íslenskan landbúnað. Samkvæmt skýrslu sem Halldór Ásgrímsson lagði fyrir Alþingi fyrir tveimur árum er það mat íslensku stjórnsýslunnar að sumar greinar landbúnaðar fari illa út úr aðild að ESB en aðrar betur. Þeir sem líklega fara illa út úr aðild eru framleiðendur nautakjöts, svína- og fuglakjöts og grænmetis meðan sauðfjárbændur stæðu betur að vígi. Um þetta er þó afar erfitt að segja því þótt frjáls innflutningur geri samkeppnisstöðu íslenskra bænda erfiða vega þar á móti margskonar styrkir úr sjóðum ESB auk þess sem hefð er fyrir því að setja ýmiskonar undanþágur inn í samninga við ný aðildarríki.

 

Evran eykur þrýstinginn

 

Framhald umræðunnar um hugsanlega aðild Íslendinga að Evrópusambandinu ræðst eflaust að töluverðu leyti af þróun Evrópska myntbandalagsins, evrunnar. Evran var tekin í notkun í tólf aðildarríkjum ESB um síðustu áramót og það er samdóma álit þeirra sem um hafa fjallað að gildistaka hennar hafi gengið einstaklega vel. Almenningur hefur tekið breytingunni fagnandi og það sama gildir um fyrirtæki.

Það sem skiptir okkur mestu máli í þessu sambandi eru viðbrögð þeirra þriggja ríkja sem ekki vildu vera með í evrunni: Bretlands, Danmerkur og Svíþjóðar. Þessi ríki eru öll afar mikilvæg fyrir íslenskan útflutning, ekki síst Bretland sem tekur við miklu af íslenskum fiski. Verði sú stefna bresku stjórnarinnar að veruleika að Bretar taki upp evruna á næstu misserum mun þrýstingur á að Íslendingar fylgi í kjölfarið aukast verulega.

Í því sambandi hefur verið velt upp ýmsum möguleikum á að tengja íslenskt efnahagslíf evrunni án þess að við göngum inn í ESB. Líklegast er þó að það gangi ekki til lengdar að standa utan við því í raun er það ekki ósvipuð staða og nú einkennir EES-samninginn. Við þyrftum að lúta ákvörðunum Evrópska seðlabankans án þess að hafa nokkuð um þær að segja.

Það eru því allar horfur á því að sú stund renni upp áður en langt um líður að við neyðumst til að taka ákvörðun um það hvort við viljum vera með í „Evrópuhraðlestinni“ eins og Jón Baldvin Hannibalsson kallaði það á sínum tíma eða kjósum að standa utan við. Þó er ljóst að sú stefna sem sumir hafa haft á lofti að okkur nægi að gera tvíhliða samninga við Evrópusambandið gengur ekki lengur upp. Íslensk löggjöf og efnahagslíf hefur á undanförnum árum lagað sig að þróuninni innan Evrópusambandsins í svo ríkum mæli að vandséð er hvernig hægt væri að vinda ofan af því. Sem dæmi um lagabálka sem settir hafa verið má nefna samkeppnislögin, ýmis ákvæði um neytendavernd, vinnuvernd og réttarfar. Þessar lagabreytingar hafa sveigt allt starfsumhverfi íslenskra fyrirtækja að evrópskum veruleika svo segja má að þau starfi að langmestu leyti á evrópskum markaði.

Annar samstarfsvettvangur er tæpast í sjónmáli því varla hvarflar það að neinum í alvöru að tengja íslenskt efnahagslíf við Ameríku, eða hvað?

 

 

Hver er afstaða ASÍ?

 

Skiptar skoðanir en samstaða um að ræða málin

 

Afstaða Alþýðusambands Íslands til Evrópska efnahagssvæðisins hefur verið mjög jákvæð ef marka má ummæli ýmissa framámanna þess. Um það vitnar ræða Halldórs Grönvolds sem hann hélt á málþingi í tilefni af Evrópudeginum 8. maí síðastliðinn. Þar segir hann meðal annars:

„Í honum [EES-samningnum] fólst skuldbinding um að vinnumarkaðurinn og félagsleg réttindi launafólks þróuðust til samræmis við það sem gerist á Evrópuvísu … Aðildinni að EES hefur fylgt eitt lengsta hagvaxtarskeið á seinni tímum. Aðildin … og þátttaka Íslands í Evrópusamvinnunni hefur jafnframt haft mikla þýðingu fyrir þróun á vinnumarkaði hér á landi og bætta réttarstöðu launafólks.“

Í þessu erindi lýsir Halldór yfir stuðningi við stækkun Evrópusambandsins og þar með EES enda vænti menn þess „að stækkunin muni leiða til aukinnar hagsældar, styrkja friðsamlega sambúð þjóða og treysta mannréttindi og lýðræði í álfunni allri“.

Ljóst er að þessi afstaða Halldórs á sér bæði fylgismenn og andstæðinga innan Alþýðusambandsins eins og lesa má út úr ummælum Hermanns Guðmundssonar í þessari samantekt. Grétar Þorsteinsson forseti ASÍ segir í viðtali við Samiðnarblaðið að viðhorfin innan sambandsins séu eins og þverskurður þjóðarinnar.

– En það er samstaða um það að okkur beri að fylgjast vel með þróuninni. Raunar var það ákveðið fyrir nokkrum árum að samtökunum bæri að fræða og upplýsa félagsmenn um Evrópusamstarfið. Sú ákvörðun var tekin í kjölfar þess að verkalýðshreyfingin og samtök atvinnurekenda voru farin að hafa bein áhrif á ákvarðanir ESB. Í gegnum aðild okkar að norrænu og evrópsku samtökunum höfum áhrif á allt sem lýtur að félagsmálum í sambandinu.

Meðal þess sem við höfum gert í því skyni að halda uppi fræðslu um Evrópusambandið er að skipuleggja eina til tvær ferðir á hverju ári með hópa frá verkalýðsfélögunum til Brussel. Þessar ferðir hafa verið afar vel heppnaðar og mælst vel fyrir, jafnt meðal fylgismanna sem andstæðinga aðildar Íslands að sambandinu. Þátttakendur hafa komist í beint samband við áhrifamenn bæði hjá ESB og verkalýðssamtökunum og getað lagt fyrir þá spurningar. Með þessu móti erum við að gera félagsmenn okkar færari um að taka afstöðu þegar að því kemur.

Grétar segir að innan samtakanna sé almenn ánægja með EES-samninginn. – Í upphafi höfðu sumir efasemdir um hann en þær eru alveg horfnar enda hefur samningurinn leitt til margvíslegra réttarbóta fyrir verkafólk. Þessi reynsla hefur gert marga jákvæða í garð ESB og þess vegna eru margir áhugasamir um að kynna sér kosti og galla aðildar, ekki síst í ljósi þess að stækkun ESB mun gera framkvæmd EES-samninginn erfiðari. Á þetta þurfum við að leggja mat, segir Grétar.

Ekki hafa verið haldnir sérstakir fundir um Evrópusambandið en nú er starfsnefnd að störfum sem er að skipulegga ráðstefnu sem verður haldin í haust.

En hverju svarar prívatpersónan Grétar Þorsteinsson þegar hann er spurður um afstöðu sína til aðildar Íslands að Evrópusambandinu?

– Hann svarar því til að hann ætli að leyfa sér þann munað að nota tímann til að átta sig betur á kostum og göllum aðildarumsóknar. Við getum til dæmis ekki vikið okkur undan því að ræða hvað það þýðir að vera hluti af Evrópu eða standa utan við. Ef það fæst ekki á hreint með öðrum hætti en að sækja um aðild og láta á það reyna hvað um semst þá hljótum við að fara í gegnum það ferli, segir Grétar Þorsteinsson.

 

 

Náum stöðugleika í ESB

 

        segir Jón Steindór Valdimarsson aðstoðarframkvæmdastjóri um ástæðuna fyrir jákvæðri afstöðu Samtaka iðnaðarins til aðildar Íslands

 

Eins og frægt er orðið stóðu Samtök iðnaðarins að skoðanakönnun sem sýndi að níu af hverjum tíu landsmönnum vildu sækja um aðild að Evrópusambandinu til þess að fá úr því skorið hvað í boði væri þar á bæ. Forsvarsmenn iðnaðarins hafa um árabil rekið harðan áróður fyrir því að Íslendingar eigi að sækja um aðild. Samiðnarblaðinu lék forvitni á að vita á hverju þessi afstaða byggðist og lagði þá spurningu fyrir Jón Steindór Valdimarsson sem  er aðstoðarframkvæmdastjóri samtakanna.

– Forsendur þessarar afstöðu eru fyrst og fremst efnahagslegar. Með aðild að Evrópusambandinu og upptöku evrunnar náum við stöðugleika í efnahagslífinu, vextir lækka og umhverfi fyrir erlendar fjárfestingar hér á landi batnar. Þessu mun fylgja hagsæld og hagvöxtur. Það sem leikur íslenskt efnahagslíf verst eru þessar sífelldu sveiflur. Þær valda erfiðleikum í samkeppnis- og útflutningsiðnaði.

Í öðru lagi teljum við að það sé farsælla fyrir okkur að vera þátttakendur í Evrópuferlinu. Að öðrum kosti höfum við engin áhrif á það. Við vitum sem er að ESB er ekkert sæluríki en það er þó í aðalatriðum hugnanlegt okkur. Þar ríkja svipaðar reglur í atvinnulífinu og hér á landi. Vissulega flýtur eitthvað miður gott með, til dæmis er oft rætt um að vinnumarkaður Evrópusambandsins sé ósveigjanlegur. En þá ber að hafa í huga að við höfum tekið yfir mikið af regluverki ESB eftir að EES-samningurinn var gerður svo ef einhverjir fjötrar fylgja aðild þá eru þeir þegar komnir á okkur.

Við efumst heldur ekki um að aðild að ESB væri góð fyrir verkafólk. Reynslan af Evrópska efnahagssvæðinu er góð og mér heyrist Alþýðusambandið vera mjög ánægt með það sem hefur fengist með aðild okkar að því, segir Jón Steindór Valdimarsson.

 

 

Sé ekki að afkoman geti batnað með aðild að Evrópusambandinu

 

Eins og við er að búast eru menn ekki á eitt sáttir um ágæti Evrópusambandsins. Meðal þeirra sem eru efins um að aðild Íslands að sambandinu væri til bóta er Hermann Guðmundsson formaður Sveinafélags málmiðnaðarmanna á Akranesi. Hvað er það sem hann gerir athugasemdir við í umræðunni um Evrópusambandið?

– Ég get ekki ímyndað mér að lífsgæðin hér á landi gætu batnað við það að við göngum í Evrópusambandið. Jú, ég get séð fyrir mér að verslun og viðskipti yrði að einhverju leyti auðveldari og þægilegri viðureignar innan þess en sjávarútvegur, landbúnaður og afkoma almennings mundi ekki styrkjast við inngöngu okkar í ESB.

Varðandi sjávarútvegsstefnuna þá höfum við enga tryggingu fyrir því að Evrópusambandið breyti henni ekki. Það er ekki ljóst við hvaða ár yrði miðað þegar veiðireynsla á Íslandsmiðum verður metin og reynsla Norðmanna sem reyndu tvívegis að ná fram undanþágum frá sjávarútvegsstefnunni án árangurs er ekki uppörvandi.

Landbúnaðurinn mundi eiga erfitt uppdráttar þegar innflutningur landbúnaðarvara yrði gefinn alveg frjáls. Ég sé ekki að íslenskur landbúnaður mundi standast slíka samkeppni þótt hann framleiði bestu afurðir í heimi. Við þetta bætist að álögur á okkur mundu aukast með stækkun Evrópusambandsins. ESB stefnir í það að verða ríki eins og Bandaríkin, segir Hermann.

En hvað finnst honum um þá stefnu Alþýðusambands Íslands að halda uppi fræðslu um Evrópusambandið?

        Mér finnst það hið besta mál að fræða fólk og draga fram staðreyndir um Evrópumálið. Þar er alltof mikið á floti og margir frasar á lofti sem ekki standast nánari skoðun. Það er verið að gera leiðandi skoðanakannanir á vilja þjóðarinnar sem gefa ekki rétta mynd. Svo eyðir Evrópusambandið miklum peningum í að reka áróður fyrir aðild á sama tíma og sáralítið kemur frá andstæðingum þess. Það er greinilegt að ESB telur eftir ýmsu að slægjast með því að fá okkur inn í félagsskapinn og það er ekki gert í því skyni að  styrkja og bæta afkomu okkar, svo mikið er víst, segir Hermann Guðmundsson.

 

Varasjóðir skilyrði fyrir stuðningi sænska alþýðusambandsins

 

Á þingi sænska alþýðusambandsins (LO) í fyrra voru ákafar umræður um Efnahags- og myntbandalag Evrópu (EMU) og um kosti og galla aðildar Svíþjóðar að bandalaginu. Sem kunnugt er hafa Svíar ekki enn tekið afstöðu til aðildar að EMU en gert er ráð fyrir að á næsta ári fari fram þjóðaratkvæðagreiðsla um málið. Samkvæmt skoðanakönnunum fjölgar þeim sem eru hlynntir aðild. Meðal félagsmanna alþýðusambandsins eru skoðanir skiptar og þau sérsambönd sem hafa tekið afstöðu eru ýmist með eða á móti aðild að myntbandalaginu. Þannig eru samtök verslunarmanna og samtök flutningaverkamanna ákveðið á móti, en samtök málmiðnaðarmanna, Metall, styðja eindregið aðild. Stærsta sérsambandið, Kommunal, hefur ákveðið að taka ekki afstöðu og segir að þetta sé mál sem hver og einn verður að gera upp við sig.

Forysta alþýðusambandsins, með forsetann Wönju Lundby-Wedin í broddi fylkingar, hafði undirbúið málið fyrir alþýðusambandsþingið og flutti tillögu þar sem mælt var með aðild að myntbandalaginu. Umræður urðu snarpar og að lokum var samþykkt ályktun, með 269 atkvæðum á móti 143, sem felur í sér jákvæða afstöðu til aðildar en þó með vissum fyrirvörum. Helstu skilyrðin eru þau að ef Svíþjóð gerist aðili að EMU, verði fyrst að fara fram þjóðaratkvæðagreiðsla, launamyndun í landinu verði að einkennast af stöðugleika og stofna skuli varasjóði sem notaðir verði til að mæta sveiflum í efnahagslífinu. LO vill að varasjóðirnir lúti stjórnum skipuðum fulltrúum frá aðilum vinnumarkaðarins. Fyrirmyndin að varasjóðunum er fengin frá Finnlandi, en Finnar eru þegar aðilar að myntbandalaginu og hafa tekið upp evruna sem gjaldmiðil í staðinn fyrir finnska markið. Hugsunin á bak við varasjóði af þessu tagi er sú að þegar vel árar leggi atvinnulífið, bæði launafólk og atvinnurekendur, fé til hliðar sem síðan er hægt að nota ef ástandið versnar. Ef til dæmis dregur úr atvinnu og hætta á atvinnuleysi eykst er hægt að nota fé úr sjóðunum til að lækka launakostnað atvinnurekenda og tryggja áframhaldandi atvinnu. Samtök sænskra atvinnurekenda leggjast gegn slíkri lausn og telja að varasjóðir mundu ekki vera nægjanleg hjálp í erfiðu efnahagsástandi.

 

Svigrúm til aðgerða

 

Þegar árið 2000 skipuðu sænsk stjórnvöld nefnd sem fékk það verkefni að skilgreina hvernig tryggja mætti stöðugleika í efnahags- og atvinnulífi jafnhliða aðild Svíþjóðar að EMU. Nefndin skilaði nýlega áliti. Fyrir alþýðusambandið var það nokkurt áfall að nefndin kemst meðal annars að þeirri niðurstöðu að varasjóðir séu ekki heppileg aðferð til að tryggja jafnvægi og draga úr sveiflum í efnahagslífinu. Nefndin telur að slíkir sjóðir verði að vera gríðarlega stórir til að geta verið sá áhrifavaldur sem til er ætlast. Álit nefndarinnar er núna til umfjöllunar og umsagnar hjá ýmsum aðilum, þar á meðal hjá LO. Nefndin telur engu að síður mikilvægt að stjórnvöld fái svigrúm til efnahagsstjórnunar, þrátt fyrir aðild að EMU sem færir stefnuna í peninga- og vaxtamálum í hendur Evrópubankanum. Besta leiðin til að skapa stjórnvöldum slíkt svigrúm er að rekstur þjóðarbúsins skili meiri „hagnaði“ ár hvert en hingað til. Miðað við heildar-þjóðartekjur (BNP) þurfi afraksturinn að hækka frá núverandi 2% til 2,5–3%. Aðrar aðferðir sem stjórnvöld geta notað til að tryggja stöðugleika er hækkun eða lækkun virðisaukaskatts, tekjuskatts einstaklinga og lögbundinna gjalda atvinnurekenda auk aðgerða sem hafa áhrif á opinbera neyslu og fjárfestingar ríkis- og sveitarfélaga. Nefndin leggur til að skipað verði svokallað „efnahagsmálaráð“ sem fái ráðgefandi hlutverk og skilgreini jafnframt þróun efnahagsmála í tengslum við fjárlagagerð ríkisins. Ennfremur leggur nefndin til að tekjur sveitarfélaga verði tryggðar til nokkurra ára í senn, í þeim tilgangi að skapa stöðugleika við rekstur þeirra.

 

Óvissa um afstöðu LO

 

Nú er sú staða komin upp að stjórnskipuð nefnd leggst gegn hugmyndinni um varasjóði sem LO hefur gert að skilyrði fyrir því að samtökin hvetji félagsmenn sína til að greiða atkvæði með aðild í þjóðaratkvæðagreiðslu. Þar að auki er ljóst að efnahagsráðið er ekki sambærilegt við stjórnir varasjóða, eins og LO vill. Þessi staða leiðir óneitanlega til óvissu um afstöðu heildarsamtaka launafólks til aðildar að EMU. Wanja Lundby-Wedin, forseti LO, hefur sagt að það sé alls ekki víst að LO skili áliti um tillögur nefndarinnar í haust, eins og gert hefur verið ráð fyrir. Það getur haft í för með sér að fyrirhuguð þjóðaratkvæðagreiðsla 2003 dragist á langinn.

 

Stjórnvöld þurfa stuðning LO

 

Í september í haust fara fram þingkosningar í Svíþjóð og allt bendir til þess að jafnaðarmenn haldi völdum. Forsætisráðherrann, Göran Persson, sem sjálfur er eindreginn stuðningsmaður aðildar Svíþjóðar að EMU, þarf á stuðningi verkalýðshreyfingarinnar að halda. Þess vegna er óhjákvæmilegt að stjórnvöld taki að einhverju leyti tillit til vilja sænska alþýðusambandsins áður en gengið verður til þjóðaratkvæðagreiðslu.

 

Tryggvi Þór Aðalsteinsson