Umhverfisfræðsla í fyrirtækjum

Nú þegar ekkert fyrirtæki getur verið þekkt fyrir annað en að hafa umhverfisstefnu fer maður að hugleiða hvernig fyrirtækin ætla að standa við stefnuna og framkvæma hana. Umhverfismál eru ekki bara að vernda hálendið eða lofthjúpinn, og enginn getur breytt öllu, en öll getum við gert eitthvað og þá er nærtækast að byrja á okkar næsta umhverfi.
Umhverfisstefna er yfirlýsing um að bæta starfsskilyrði innan sem utan veggja fyrirtækis með hag umhverfisins að leiðarljósi, en hvernig er hún unnin og hver gerir það?
Yfirleitt er svona stefna smíðuð í þröngum hópi millistjórnenda og síðan samþykkt í stjórn viðkomandi stofnunar eða fyrirtækis. Svo er það í höndum starfsmanna allra að láta hana virka.
En hvernig gengur það? Eru allir meðvitaðir um hvað felst í hinum og þessum hugtökum sem er svo vinsælt að skreyta slíkar stefnur með? Fá starfsmenn einhverja fræðslu um hvað málið snýst og hver á fylgja stefnunni eftir?
Hvernig væri að taka umhverfisfræðslu inn í fræðslu-„apparat“ ASÍ og Samiðnar þar sem umhverfisfræðsla yrði hluti af trúnaðarmannafræðslunni? Það er óþarfi að fara að finna upp eða þróa nýtt kerfi þegar við eigum kerfi sem virkar, sem eru trúnaðarmannanámskeiðin. Með öðrum orðum: Gerum trúnaðarmennina líka að trúnaðarmönnum umhverfisins Á þeirra herðar væri lögð sú skylda að framfylgja umhverfisstefnu fyrirtækisins, og tryggja um leið að öllum starfsmönnum væri gerð grein fyrir umhverfisstefnunni.
Umhverfisfræðslu er sinnt frábærlega á leikskólum og í fyrstu bekkjum grunnskóla en það dregur jafnt og þétt úr henni þegar ofar dregur í skólakerfinu og á framhaldsskólastiginu er hún hverfandi og nánast engin í iðnnámi.
Það er til lítils að hafa stór og fögur orð í stefnuyfirlýsingum fyritækja ef starfsmenn fá ekki fræðslu um hvað málið snýst eða hvernig á að framfylgja stefnunni. Eins er það einna helst í höndum óbreyttra starfsmanna að sjá hvað mætti betur fara og hverju þarf að breyta, því við vitum að stjórnendur eru kannski ekki alltaf með á hreinu hvað fer í niðurföll eða sorptunnur. Fyrir ári var haldin ráðstefna undir heitinu „Hreinn ávinningur“. Þar kom fram að það má spara stórar upphæðir í rekstri með því að setja sér umhverfismarkmið eða -stefnu, hvort heldur það er í prentsmiðju eða rekstri rútubíla. Eins má spara mikla fjármuni með markvissum umhverfisvænum innkaupum.
Markmiðið með umhverfisstefnu fyrirtækja er gott í sjálfu sér – en getur svo auðveldlega steytt á skeri ef stafsmenn fyrirtækjanna eru ekki virkjaðir og upplýstir um umhverfismál, allt frá hugmynd að framkvæmd.
 
Heimir Björn Janusarson