LEIÐARINN: Standast Íslendingar ekki alþjóðlega samkeppni?

Við heyrum oft þegar talað er um alþjóðavæðinguna að erfitt sé að standast erlenda samkeppni og ódýrt vinnuafl. Því er haldið fram að launakostnaður og tengdur kostnaður sé svo hár á Íslandi að við séum ekki samkeppnisfær. Stundum er því haldið fram að ein af forsendum Kárahnjúkavirkjunar sé hið lága tilboð Impregilo í stíflu- og gangagerð og svo notkun ódýrs vinnuafls.

Það er því áhugavert að skoða eina stærstu framkvæmd í Noregi og sjá hvernig Norðmenn standa að málum. Í Nyhamn rétt utan við Molde er nú verið að byggja nýja gasstöð til að hreinsa gas frá námasvæðinu sem Norðmenn kalla Orminn langa. Þaðan er gasið leitt í pípu á Englandsmarkað. Framkvæmdin er upp á 60 milljarða norskra króna og gríðarlega flókin, meðal annars þarf að koma fyrir brunnum til að taka upp gasið á 800 til 1000 metra dýpi og leggja lagnir frá brunnunum upp á land 120 kílómetra yfir neðansjávarfjöll og -dali og frá stöðinni 1200 km langa gaslögn til Englands. Við uppbygginguna vinna tæplega 2000 manns og búa þeir allir á staðnum.

Byggt hefur verið starfsmannaþorp á lítilli eyju þar sem 2200 manns geta dvalið á sama tíma. Í þorpinu er auk gistiaðstöðu mötuneyti þar sem þúsund manns geta neytt matar í einu, íþróttahús, tómstundahús og fundarsalir. Allir starfsmenn búa í eins manns herbergjum með sér salernisaðstöðu og sturtu. Mikið er lagt upp úr góðri félagslegri aðstöðu og er starfandi velferðarnefnd sem verktaki og starfsmenn eiga aðild að og hefur hún það hlutverk að sjá um velferð íbúanna. Milli 95 og 97% starfsmanna eru frá Norðurlöndum, flestir frá Noregi, Svíþjóð og Danmörku.

Launakjörin fara eftir norskum kjarasamningum og eru laun iðnaðarmanna um 2000 kr. á dagvinnustund, og enginn munur er á launum eftir þjóðerni. Um 3% starfsmanna koma frá löndum utan Norðurlanda, flestir frá Póllandi.

Lýsingin á kjörum og aðstöðu starfsmanna við norsku gasstöðina er í mikilli andstöðu við það sem við þekkjum frá framkvæmdinni við Kárahnjúka, sérstaklega þegar horft er til kjara og aðstöðu hjá verktakanum Impregilo. Impregilo greiðir aðeins lágmarkslaun sem eru mun lægri en almennt eru greidd á íslenskum markaði og starfsmannaaðstaðan er með því lakasta sem þekkst hefur við stórframkvæmdir af þessu tagi hér á landi. Aðeins 5% af vinnuaflinu er íslenskt og 60% kemur frá löndum utan EES.

Það hljóta að vakna áleitnar spurningar þegar slíkar framkvæmdir eru bornar saman og munurinn á starfskjörum og aðbúnaði starfsmanna er jafn-hrópandi og raun ber vitni. Bæði úr Orminum langa og frá Kárahnjúkavirkjun er seld orka á alþjóðlegan markað. Norðmenn treysta sér til að standast alþjóðlega samkeppni þrátt fyrir háan launakostnað og aðbúnað í fyrsta klassa.

Við hljótum að spyrja: Hversvegna er ekki hægt að standa jafnvel að verki hér og í Noregi? Eru íslensku orkuframkvæmdirnar svona óarðbærar að þær standast ekki alþjóðasamkeppni nema með því að notast við ódýrt erlent vinnuafl og halda kostnaði vegna aðbúnaðar í algjöru lágmarki?

Mikilvægt er að fá svar við þessum spurningum áður en lagt er í nýja uppbyggingu orkufreks iðnaðar. Íslensk stjórnvöld og orkufyrirtækin verða svara með skýrum hætti. Almenningur á rétt á svörum því hann er eigandi orkufyrirtækjanna og greiðir reikninginn að lokum.