Ólga á vinnumarkaðnum – Á ekkert að bregðast við?

1372 ný atvinnuleyfi fyrir útlendinga voru gefin út á síðasta ári en enginn hefur tölu yfir þá sem vinna svart eða eru hér í krafti vafasamra „þjónustuviðskipta” – ASÍ kallar eftir stefnu stjórnvalda en fátt er um svör

 

Stækkun Evrópusambandsins til austurs fyrir tæpu ári reyndist hafa veruleg áhrif á vinnumarkað hér á landi, rétt eins og í öðrum ríkjum Vestur-Evrópu. Fjöldi fólks frá ríkjum Austur-Evrópu hefur leitað til vesturs þar sem það vonast eftir betri tækifærum en í boði eru heimafyrir. Hér á landi hefur þessi þróun sett mark sitt á vinnumarkaðinn. Um og eftir páska hlutu þrír Pólverjar og þrír Lettar skilorðsbundna fangelsisdóma fyrir að starfa í byggingariðnaði á Suðurlandi án tilskilinna leyfa en málefni þeirra sem réðu þá til starfa eru enn til meðferðar hjá dómstólum þegar þetta er ritað.

 

Glöggir menn telja sig merkja meiri og alvarlegri áhrif á vinnumarkaðinn. Því er haldið fram að hér hefði atvinnuleysi átt að hverfa með tilheyrandi þenslu og launaskriði eftir að framkvæmdir hófust við Kárahnjúka. Það hefur hins vegar ekki gerst. Atvinnuleysi hefur haldist að heita má óbreytt og laun iðnaðarmanna staðið í stað eða jafnvel lækkað. Ástæðan er sögð sú að atvinnurekendur hafi mætt skorti á vinnuafli með því að ráða til starfa erlenda verkamenn sem oft eru sagðir njóta mun lakari kjara en íslenskir iðnaðarmenn. Það á ekki bara við um Austurland heldur ekki síður á höfuðborgarsvæðinu þar sem útlendu starfsfólki í iðnaði og þjónustugreinum hefur fjölgað ört að undanförnu.

Þessi mynd er að hluta til staðfest í könnun sem tólf félög sveina og meistara í byggingariðnaði gerðu í vetur á því hverjir starfa í greininni á höfuðborgarsvæðinu. Eins og sjá má í annarri grein hér í blaðinu er áætlað að um eitt þúsund erlendir menn séu að störfum í byggingariðnaði, þar af fjórðungurinn án atvinnu- eða dvalarleyfa. Ekki er síður íhugunarefni að af þessum fjölda hafa einungis 75 getað sýnt fram á að þeir hafi menntun til að sinna starfi iðnaðarmanns.

 

Þrennskonar þjónustuviðskipti

 

Þessi könnun staðfestir líka hversu erfitt er að meta hlut útlendra starfsmanna á íslenskum vinnumarkaði. Í minnisblaði sem samið var fyrir miðstjórnarfund Alþýðusambands Íslands í febrúar er reynt að meta ástandið. Þar er að finna greiningu á því hvernig þessir útlendingar skiptast og hvaða áhrif þeir hafa á vinnumarkaðinn.

Útlendingur og útlendingur er ekki endilega það sama því það skiptir máli hvaðan hann er og hvernig komu hans til landsins ber að. Útlendingar frá þeim sautján löndum sem tilheyrðu Evrópska efnahagssvæðinu fyrir stækkun ESB geta komið án þess að spyrja neinn leyfis og farið að vinna hér. Þetta er ekki talinn vera stór hópur og áhrif hans á vinnumarkaðinn óveruleg enda starfa þeir hér samkvæmt íslenskum reglum og samningum.

Öðru máli gegnir um þá sem koma hingað til starfa í krafti svonefndra þjónustuviðskipta. Í minnisblaðinu er þessum hópi skipt í þrennt. Í fyrsta hópnum eru sérfræðingar og starfsmenn viðurkenndra fyrirtækja sem dveljast hér í stuttan tíma við að setja upp tæki og búnað þar sem uppsetning fylgir með í kaupunum.

Í öðrum hópnum eru þeir sem koma hingað til lands í gegnum viðurkenndar starfsmannaleigur til starfa um skemmri eða lengri tíma í ýmsum greinum. Fyrir þessu er alllöng hefð og má nefna starfsmenn í blikksmíði og fleiri greinum sem komið hafa hingað í þessu skyni, svo sem þegar bygging Smáralindar stóð sem hæst. Í þessum flokki eru líka verkamenn sem ítalska verktakafyrirtækið Impregilo hefur flutt inn fyrir milligöngu portúgalskra starfsmannaleigna.

Þriðja hópinn fylla starfsmenn frá Eystrasaltsríkjunum sem koma til landsins á grundvelli þjónustusamninga fyrir milligöngu starfsmannaleigna í þessum löndum. Samkvæmt reglum EES-samningsins mega fyrirtæki senda starfsmenn milli landa til að sinna þjónustu en í mörgum tilvikum eru áhöld um eðli þjónustusamninganna og starfsmannaleignanna. Í minnisblaðinu segir að oftar en ekki sé um að ræða málamyndagerning af hálfu fyrirtækja hér á landi í þeim tilgangi að komast hjá því að sækja um atvinnu- og dvalarleyfi fyrir starfsmennina. Með því móti eru atvinnurekendur ekki bundnir af íslenskum kjarasamningum og eftirlit með launagreiðslum og öðrum starfskjörum er í höndum stjórnvalda í Eystrasaltsríkjunum.

 

Löglegir og ólöglegir

 

En það koma til landsins útlendingar frá fleiri löndum en þeim sem tilheyra Evrópska efnahagssvæðinu. Löng hefð er fyrir því að Pólverjar komi til starfa í ýmsum greinum og þeim heldur áfram að fjölga. Í fyrra var þriðjungur allra nýrra atvinnuleyfa veittur Pólverjum en auk þess voru Litháar og Slóvakar fjölmennir í þessum hópi. 631 nýtt atvinnuleyfi var veitt borgurum úr Austur-Evrópu og álíka fjöldi fékk atvinnuleyfi sitt endurnýjað.

Íbúar landa utan hins stækkaða Evrópusambands voru einnig fjölmennir því alls var gefið út 741 atvinnuleyfi til útlendinga frá öðrum löndum og litlu færri fengu atvinnuleyfi sín endurnýjuð. Stærsti hópurinn kom frá Kína en þaðan komu 181, flestir til að starfa við Kárahnjúka, og 85 fengu leyfi sitt endurnýjað. Aðrir fjölmennir hópar eru frá Filippseyjum, Júgóslavíu, Pakistan og Taílandi.

Við þetta má bæta þeim sem koma hingað til lands sem ferðamenn og hefja störf án þess að hafa leyfi. Um þann hóp er lítið vitað en í minnisblaðinu er talið að þetta geti átt við um hundruð manna. Þetta fólk býr væntanlega við allra lökustu kjörin, hvort sem litið er á laun eða annan aðbúnað. Það hefur engan rétt og getur átt á hættu refsidóm ef upp um það kemst eins og nýleg dæmi sanna.

Hlýtur að hafa áhrif

 

Í minnisblaðinu segir að erfitt sé að meta áhrif þessara hópa á íslenskan vinnumarkað. Ljóst er að fjöldi útlendinga hefur komið til starfa við Kárahnjúka enda hefur Impregilo ekki verið tilbúið að greiða þau laun eða starfskjör sem nægja til að fá Íslendinga eða reynda Evrópumenn til starfa við framkvæmdirnar. Útlendingarnir sem þar starfa fá oftar en ekki greitt samkvæmt lágmarkstöxtum kjarasamninga en markaðslaun eru fátíð.

Útlendir starfsmenn gegna æ veigameira hlutverki í íslenskum fiskiðnaði en víða um land eru fjölmennir hópar Pólverja, Taílendinga og fleiri útlendinga uppistaðan í mannafla frystihúsa. Sums staðar eru þeir orðnir allt að fimmtungi íbúa byggðarlagsins. Þetta fólk fær oftast nær greitt samkvæmt kjarasamningum viðkomandi stéttarfélaga.

Útlendingar verða líka æ meira áberandi í ýmsum þjónustustörfum, bæði í opinberum stofnunum og einkafyrirtækjum. Þetta á ekki síst við um ræstingar og störf í mötuneytum á sjúkrahúsum og vistheimilum, sem og í veitinga- og gistihúsum. Allur gangur getur verið á launakjörum þessa fólks en þeir sem starfa hjá hinu opinbera hljóta þó að fá greitt samkvæmt kjarasamningum.

Þótt áhrifin séu óljós hljóta þau að vera einhver. Það segir sig sjálft að ef hundruð eða jafnvel þúsundir erlendra starfsmanna koma hingað til starfa án þess að hafa til þess leyfi eða á vafasömum forsendum þjónustuviðskipta hefur það áhrif á lítinn atvinnumarkað, ekki síst ef þeir safnast fyrir í fáeinum atvinnugreinum. Þá er hætt við að sveigjanleikinn í atvinnulífinu fari að bitna á félögum stéttarfélaganna. Kjör þeirra ráðast ekki lengur af framboði og eftirspurn á íslensku vinnuafli heldur af því hversu vel gengur að flytja inn ódýrt erlent vinnuafl. Til lengdar hlýtur það að leiða til lækkandi launa yfir alla línuna.

 

Áhyggjuefni fyrir alla

 

Alþýðusambandið hefur varað við þessari þróun og reynt að þoka stjórnvöldum til þess að móta sér að minnsta kosti stefnu í málefnum útlendinga á íslenskum vinnumarkaði. Markmið þeirrar stefnu hlýtur að vera að verja íslenskan vinnumarkað og þau samskipti, reglur og réttindi sem hér gilda.

Viðbrögð stjórnvalda hafa ekki verið sérlega jákvæð. Félagsmálaráðherra gaf þó út reglugerð um málið skömmu fyrir páska og er um hana fjallað í annarri grein. Vinnubrögð ráðuneytisins benda ekki til þess að þar á bæ hafi menn miklar áhyggjur af málefnum útlendinga og áhrifum óhefts innflutnings á íslenskan vinnumarkað.

Sumir atvinnurekendur hafa sýnt viðleitni til að bregðast við þessu og á það ekki síst við um Samtök iðnaðarins sem hafa lýst áhyggjum af útbreiðslu þjónustuviðskipta og áhrifum þeirra á samkeppnisstöðu íslenskra fyrirtækja. Það hlýtur að vera áhyggjuefni allra sem starfa í íslenskum iðnaði ef fyrirtæki með íslenska starfsmenn þurfa að keppa við önnur fyrirtæki sem nota erlenda starfsmenn og greiða þeim einungis brot af þeim launum sem íslenskir iðnaðarmenn hafa samið um.

Það hlýtur líka að vera áhyggjuefni þeirra sem kaupa vöru og þjónustu síðarnefndu fyrirtækjanna að þar komi við sögu menn sem oftar en ekki eru ófaglærðir og réttindalausir til að starfa við þau verk sem þeim eru falin. Það hlýtur fyrr eða síðar að koma fram í gæðum vörunnar.

Þetta mál snertir því ekki bara félagsmenn verkalýðshreyfingarinnar heldur allan almenning í landinu.