Samkeppnin skapar bæði hættur og tækifæri

 Örn Friðriksson formaður Félags járniðnaðarmanna telur að Íslendingar verði að        leggja höfuðáherslu á að samkeppnisstaða sé jöfn – einkum gagnvart beinum stuðnings-

Aðgerðum

 

 

Til þess að tryggja næga atvinnu, skapa eftirsóknarverð störf og betri lífskjör í landinu til frambúðar verða tveir grundvallarþættir að vera til staðar. Í fyrsta lagi stöðugleiki í efnahagslífinu og í öðru lagi jöfn samkeppnisaðstaða fyrirtækjanna. Þetta segir Örn Friðriksson formaður Félags járniðnaðarmanna. Hann leggur áherslu á að verkalýðshreyfingin haldi vöku sinni í atvinnumálum, því atvinnuleysi er böl.

– Þótt atvinna sé enn næg á höfuðborgarsvæðinu þá er samdráttur víða, meðal annars í fiskvinnslu og málmiðnaðargreinum úti á landi og talsvert atvinnuleysi á nokkrum stöðum. Þetta ástand á landsbyggðinni mun fyrr en seinna gera vart við sig hér á suðvestanverðu landinu verði ekkert að gert. Fyrir um sex árum hafði Samiðn forystu um að móta stefnu sem byggðist á stöðugleika í efnahagsmálum með kjarasamningum til langs tíma og litlum launabreytingum. Sú stefna skapaði tiltrú á íslenskt efnahags- og atvinnulíf bæði innanlands og utan, tiltrú sem meðal annars birtist í því að fjárfestar festu fé sitt í atvinnuuppbyggingu sem varð til þess að atvinnutækifærum fjölgaði og kaupmáttur ráðstöfunartekna óx, segir Örn. Hann bendir á að vert sé að hafa þetta í huga nú þegar vaxtartímabilinu sem staðið hefur í fimm ár virðist vera að ljúka. – Ég nefni þetta líka vegna þess að þegar vel gengur vilja menn gjarnan gleyma því hverju það er að þakka að það hefur ríkt hagsæld. – Launamenn færðu fórnir á sínum tíma til þess að ná þessum stöðugleika, fullyrðir Örn og leggur  áherslu að stöðugleikinn í efnahagsmálum sé lykill að áframhaldandi uppbyggingu atvinnulífsins hér á landi.

– Meginforsenda þess að stöðugleikinn haldist er að verðbólgan fari ekki af stað. Iðnaðurinn í landinu þarf að búa við stöðugt verðlag, gengi og launakostnað ef hann á að þrífast. Einnig verður að draga úr fjármagnskostnaði sem er bæði fyrirtækjum og heimilum erfiður baggi. Sú þensla sem ríkt hefur í efnahagskerfinu er einnig hættuleg atvinnulífinu. Við þurfum að koma á jafnvægi á milli framboðs og eftirspurnar á vöru og þjónustu. Að lokum tel ég nauðsynlegt að dregið verði úr viðskiptahalla þjóðarinnar. Án jafnvægis í inn- og útflutningi verður ekki neinn stöðugleiki hér til langframa, segir Örn. Auk stöðugleikans verði síðan að jafna samkeppnisstöðu fyrirtækjanna.

 

Samkeppnisstaðan

 

– Hröð tækniþróun og vaxandi samkeppni á opnum viðskipta- og vinnumarkaði skapa bæði hættur og tækifæri fyrir íslenskan iðnað og atvinnufæri starfsmanna. Hætturnar felast meðal annars í því að innlend fyrirtæki fari halloka í samkeppninni við erlenda aðila eða flytji starfsemi sína úr landi vegna hagstæðari starfsskilyrða erlendis. Um þetta höfum við nú þegar fjölmörg dæmi, bæði í málm- og skipaiðnaði og í byggingariðnaði.

Verkefni eru flutt úr landi, heilu fyrirtækin eru stofnuð og rekin erlendis. Vörur og þjónusta sem gæti fullt eins verið hagkvæmt að vinna hér eru flutt til landsins, segir Örn en bendir á að ekki sé vilji til að keppa um störf á forsendum lágra launa. Hann segir að í mörgum tilvikum séum við að flytja störf úr landi vegna þess að innlendu greinarnar búa við lakari samkeppnisstöðu.

– Við viljum leggja höfuðáherslu á að samkeppnisstaðan sé jöfn hvað varðar beinar stuðningsaðgerðir, meðal annars í tækniþróun, nýsköpun, menntun og markaðssetningu. Þegar skoðað er nýlegt dæmi um það að fyrirtæki í eigu íslenskra aðila er sett upp í Noregi fremur en á Íslandi kemur í ljós að stuðningur norskra stjórnvalda við uppbyggingu iðnaðar ræður úrslitum.

– Norðmenn telja það svo mikils virði að byggja upp og efla iðnaðinn að þeir bjóða upp á bein framlög til fyrirtækja, auk hagstæðra lána til nýsköpunarverkefna, endurbóta í fyrirtækjum, menntunar starfsmanna, samstarfs fyrirtækja og markaðssetningar í margfalt ríkara mæli en hér á landi.

Örn bendir á að fyrir skömmu var felldur úrskurður á vegum Eftirlitsstofnunar EFTA í máli á hendur Norðmönnum vegna styrkja í skipaiðnaði.

– Niðurstaðan var að það stuðningskerfi sem Norðmenn hafa í sínum iðnaði stenst reglur Evrópusambandsins. Íslensk stjórnvöld standa nú frammi fyrir því að jafna samkeppnisstöðu íslenskra fyrirtækja eða leggja heilu greinarnar eins og skipaiðnaðinn í rúst, segir Örn.

Hann segir að skattalækkun til fyrirtækja, sem íslensk stjórnvöld eru nú að boða að hætti Bush í Bandaríkjunum, sé ekki rétta leiðin til jafna samkeppnisstöðu og örva atvinnusköpun.

– Fyrirtækjum sem rekin eru með tapi gagnast ekki lækkun á sköttum. Það er margfalt meira virði að fyrirtæki fái stuðning við upphaf reksturs, við tækniþróun, nýsköpun og markaðssetningu, meðan þau eru að koma undir sig fótunum, en að fá skattalækkun þegar þau fara að skila arði.

Örn segir að opinberir aðilar hafi einnig orðið uppvísir að því að mismuna erlendum samkeppnisaðilum í hag, meðal annars með því að hafa tilboðsgögn eingöngu á erlendum tungumálum, þveröfugt við það sem gert er í öðrum löndum.

– Nýjasta dæmið þar um eru útboðsgögn í viðgerðir á varðskipunum Ægi og Tý sem eingöngu voru gerð á ensku. Svo rammt hefur kveðið að í þessum málum að þingmenn hafa talið óhjákvæmilegt að taka undir gagnrýni okkar og lagt fram á alþingi ályktun um nýja útboðsstefnu íslenska ríkisins til eflingar íslenskum iðnaði, segir Örn og nefnir að einnig hafi verið til umræðu á alþingi þingsályktunartillaga um bætta samkeppnisstöðu íslensks atvinnulífs þar sem vísað er til stuðningskerfis Evrópuþjóðanna.

– Við fögnum því að stefna okkar í atvinnumálum er komin til umræðu á alþingi.

 

Samkeppni innanlands

 

– En það er ekki bara mál að taka á samkeppni við erlend fyrirtæki heldur þurfum við að skoða okkar heimamarkað. Alltof mörg dæmi eru um að „fyrirtæki“ hafi komist upp með óeðlilega og ólöglega viðskiptahætti eins og gerviverktöku þar sem ekki er skilað lögbundnum gjöldum til samfélagsins. Annað vandamál í okkar greinum er hinn mikli fjöldi örsmárra fyrirtækja sem ekki hafa einu sinni burði til að nýta einfalda tölvutækni í rekstrinum hvað þá að hafa frumkvæði að tækniþróun eða að skapa starfsmönnum sæmilegar vinnuaðstæður.

– Í þriðja lagi eru tilboð í sumum greinum langt undir kostnaðarverði og þá er oft vísvitandi keyrt á verkefni í stuttan tíma án þess að ljúka þeim, fyrirtækin sett í gjaldþrot þegar búið er að hirða út úr þeim það sem hægt er og leikurinn endurtekinn aftur og aftur.

– Möguleikar okkar til að halda velli og tækifærin til að sækja fram eru meðal annars fólgin í að innlend fyrirtæki búi ekki við lakari samkeppnisstöðu en erlendir aðilar í öllu rekstrarumhverfi, segir Örn, – en samkeppni milli innlendra fyrirtækja verður einnig að vera í samræmi við lög, reglur og góða viðskiptahætti í stað undirboða og gerviverktöku.

– Þá er vert að hafa í huga, segir Örn að lokum, að tæknimenntun starfsfólks verður að vera í samræmi við þarfir atvinnulífsins á hverjum tíma ef hér á að þrífast blómlegt atvinnulíf sem tryggir starfsmönnum sínum atvinnuörggi til framtíðar.