Lög Samiðnar

1. KAFLI
NAFN OG HLUTVERK

1. grein
Sambandið heitir SAMIÐN, SAMBAND IÐNFÉLAGA.
Heimili þess og varnarþing er í Reykjavík.

2. grein
Sambandið er samband félaga í iðn-og tæknigreinum og starfssvæðið er allt landið.
Sambandið á aðild að Alþýðusambandi Íslands.

3. grein
Samiðn stefnir að auknum áhrifum launafólks á sviði þjóðmála s.s. í kjara-, atvinnu- og menntunarmálum.

MARKMIÐ OG HLUTVERK SAMIÐNAR ER AÐ:
a. Sameina innan sinna vébanda stéttarfélög og deildir í viðkomandi starfsgreinum í samræmi við lög þessi og vinna að stækkun félagsheilda í samráði við viðkomandi verkalýðsfélög og ASÍ.
b. Tryggja að allt launafólk í þeim starfsgreinum er tengjast sambandinu, eigi aðild að stéttarfélagi.
c. Stuðla að samræmingu á lögum og reglugerðum aðildarfélaganna.
d. Auka áhrif launafólks á sviði þjóðmála s.s. í kjara-, atvinnu- og menntunarmálum.
e. Sambandið aðstoðar aðildarfélögin með gerð grunnkjarasamnings og sérkjarasamninga og beitir sér fyrir samstöðu þeirra og gagnkvæmum stuðningi.
f. Veita aðildarfélögunum þjónustu og beita sér fyrir auknum og jafnari rétti félagsmanna.
g. Móta stefnu í atvinnumálum með tengslum við fyrirtæki og stofnanir í atvinnulífinu.
h. Auka og efla veg iðn- og starfsmenntunar með virkri aðild og ábyrgð á iðn- og starfsmenntun í skólum, atvinnulífi og með námskeiðum fyrir félagsmenn.
i. Beita sér fyrir bættu vinnuumhverfi í starfsgreinunum og taka virkan þátt í að bæta og vernda ytra umhverfi.
j. Tryggja jafnan rétt félagsmanna til vinnu hvar sem er á landinu.
k. Gangast fyrir almennri upplýsinga- og menningarstarfsemi aðildarfélaganna og aðstoða þau við slíka starfsemi.
l. Taka virkan þátt í starfi innan heildarsamtaka ASÍ, ásamt samstarfi við starfsgreinasambönd á Norðurlöndum, í Evrópu og við Alþjóðasamtök starfsgreinanna.

2. KAFLI
AÐILD, RÉTTINDI OG SKYLDUR

4. grein
Rétt til inngöngu í sambandið hafa félög og deildir launafólks í iðnaði.

5. grein
Inntökubeiðni hvers félags eða félagsdeildar skal fylgja afrit af lögum þess, reglugerðum sjóða, nafnaskrá er tilgreini fullt nafn, heimilisfang, kennitölu hvers félagsmanns og tilkynningu um hverjir skipi stjórn félagsins eða félagsdeildar.

6. grein
Umsókn um aðild að sambandinu skal afgreidd af miðstjórn og endanlega staðfest af sambandsstjórn eða þingi hvort sem fyrr er haldið og tilnefnir félagið þá fulltrúa í sambandsstjórn. Hvert félag skal árlega láta miðstjórn fá skýrslur yfir starfsemi sína og fjárhag sbr. 33 gr. á þar til gerðum eyðublöðum, sem miðstjórn lætur þeim í té. Skulu fylgja þeim skýrslum upplýsingar um fjölda félagsmanna miðað við 1. janúar ár hvert og listi yfir stjórn félagsins. Fyrir lok október ár hvert skal miðstjórn fara yfir skýrslur og reikninga þeirra félaga sem athugasemdir eru við og óska eftir skýringum ef þurfa þykir.

7. grein
Eigi má neitt félag innan sambandsins taka inn mann, sem er skuldugur eða stendur á annan hátt í óbættum sökum við annað félag í sambandinu, eða hefur verið vikið úr aðildarfélagi, nema til komi leyfi stjórnar þess félags, sem hann var áður í.

8. grein
Aðildarfélög, sem í sambandinu eru, hafa fullt frelsi um innri mál sín, þó þannig að ekki brjóti í bága við sambandslögin eða samþykktir sambandsþinga.

Hvert aðildarfélag hefur samningsrétt um kaup og kjör félagsmanna sinna, en getur falið miðstjórn og/eða samninganefnd umboð til samninga fyrir félagsins hönd. Sambandið hefur samningsumboð til að gera aðalkjarasamninga sem að öllu jöfnu ná til allra aðildarfélaganna. Óski aðildarfélag ekki eftir að vera aðili að slíkum aðalkjarasamningi skal viðkomandi aðildarfélag tilkynna það með formlegum hætti til sambandsins 10 vikum áður en gildandi kjarasamningur rennur út.

9. grein
Aðildarfélögin hafa rétt til að skjóta öllum ágreiningsmálum, sem upp kunna að rísa innan eða milli þeirra til miðstjórnar. Áfrýja má úrskurði miðstjórnar til sambandsþings, en til þess tíma, er þing kemur saman, er úrskurður miðstjórnar bindandi.

10. grein
Aðildarfélögum sambandsins er óheimilt að láta breytingar á lögum sínum koma til framkvæmda, fyrr en laganefnd sambandsins hefur látið álit sitt í ljós og þær staðfestar af miðstjórn ASÍ.

11. grein
Aðildarfélögin skulu halda aðalfund árlega og skal hann haldinn innan 5 mánaða frá því að reikningsárinu lýkur og skulu þeir boðaðir með minnst sjö sólarhringa fyrirvara. Þar skal flutt skýrsla stjórnar, lagðir fram reikningar áritaðir af löggiltum endurskoðanda og félagslegum skoðunarmönnum reikninga félagsins, kjörin stjórn, trúnaðarmannaráð og félagslegir skoðunarmenn reikninga félagsins. Aðildarfélögum er heimilt að ákveða kjörtímabil stjórna og trúnaðarmannaráðs til tveggja ára.

12. grein
Úrsögn úr sambandinu er því aðeins gild, að hún hafi verið samþykkt með 67% atkvæða í allsherjaratkvæðagreiðslu hjá viðkomandi aðildarfélagi.
Atkvæðagreiðslan skal fara fram, ef tillaga þar um hefur verið samþykkt á lögmætum félagsfundi, enda hafi þess verið getið í fundarboði að slík tillaga lægi fyrir. Atkvæðagreiðslunni skal hagað eftir „Reglugerð ASÍ um allsherjaratkvæðagreiðslu“. Með samþykkt úrsagnar aðildarfélags úr sambandinu, missa fulltrúar þess þar með umboð til trúnaðarstarfa innan sambandsins. Þrátt fyrir úrsögn félags helst greiðsluskylda þess á skatti til sambandsins til loka reikningsársins.

13. grein
Miðstjórn hefur rétt til að víkja aðildarfélögi úr Samiðn, ef hún litur svo á, að þau hafi gert sig sek í atferli, sem er sambandinu til tjóns eða vanvirðu eða brjóti í bága við lög Samiðnar eða samþykktir sambandsþings. Leggja skal það mál fyrir næsta sambandsstjórnarfund eða þing eftir því hvort er haldið fyrr, er leggur fullnaðarúrskurð á það.
Hver sá aðili, sem vikið hefur verið úr Samiðn, missir þegar í stað öll réttindi sín í sambandinu og fulltrúar hans missa þar með umboð til trúnaðarstarfa innan Samiðnar.
Úrsögn eða brottvikning aðildarfélags eða samtaka leysir viðkomandi ekki frá greiðslu áfallinna skatta eða annarra skulda eða ábyrgða, er hann stendur fyrir gagnvart sambandinu.

14. grein
Aðildarfélögum sambandsins ber skylda til að tilkynna miðstjórn skriflega eða með símskeyti um vinnustöðvanir, samtímis og þær eru boðaðar atvinnurekendum. Sama gildir um samningsuppsagnir. Þá ber aðildarfélagi að senda afrit af kjarasamningum þeim, sem gerðir eru við atvinnurekendur, ekki síðar en tveim vikum eftir að þeir hafa verið undirritaðir.


3. KAFLI
SAMBANDSÞING

15. grein
Þing sambandsins skal halda þriðja hvert ár. Miðstjórn ákveður þingstað og dagsetningu þingsins, hún skipuleggur og undirbýr þing og ákveður hvaða mál skuli tekin fyrir hverju sinni.

16. grein
Sambandsþing hefur æðsta vald í öllum málum sambandsins. Það er lögmætt, ef það er löglega boðað.

17. grein
Sambandsþing skal boða skriflega með a.m.k. 9 vikna fyrirvara. Í fundarboði skal getið helstu mála sem miðstjórn hyggst leggja fyrir þingið, auk fastra dagskrárliða. Óski aðildarfélag að önnur mál verði tekin fyrir skal tillaga þar um send til miðstjórnar eigi síðar en 6 vikum fyrir þing.
Miðstjórn skal tilkynna bréflega með 4ra vikna fyrirvara tillögu um dagskrá þingsins.

18. grein
Í þingbyrjun skal miðstjórn leggja fram dagskrá þingsins. Óski þá minnst 25% þingfulltrúa þess skriflega að tiltekið mál verði tekið á dagskrá er skylt að verða við því. Þá er einnig heimilt að taka á dagskrá síðar á þinginu mál, ef 75% þingfulltrúa samþykkja það.

19. grein
Sambandsþing samþykkir fundarsköp og skal fundum þingsins stjórnað samkvæmt þeim.
Fastir dagskrárliðir eru:
1. Skýrsla miðstjórnar.
2. Reikningar sambandsins.
3. Ákveða hver hundraðshluti skatts aðildarfélaga til Samiðnar skal vera fyrir næsta kjörtímabil.
4. Kosning miðstjórnar og sambandsstjórnar. Kosning tveggja félagslegra skoðunarmanna reikninga sambandsins og eins til vara. Kosning nefnda.

20. grein
Í öllum málum á þinginu ræður einfaldur meirihluti atkvæða úrslitum, ef ekki er öðruvísi ákveðið í lögum þessum.
Miðstjórn eða minnst 20% þingfulltrúa geta krafist þess að vægi atkvæða ráði við atkvæðagreiðslu mála.

21. grein
Kjörgengir á sambandsþing og í aðrar trúnaðarstöður sambandsins eru allir fullgildir félagsmenn í aðildarfélögunum.

22. grein
Aukaþing getur miðstjórn eða sambandsstjórn kvatt saman, þegar mikilvæg og óvænt mál bera að höndum.
Skylt er miðstjórn að kalla saman aukaþing, ef helmingur aðildarfélaga innan sambandsins krefst þess skriflega. Skal aukaþing boðað með minnst þriggja vikna fyrirvara og skal tilgreint tilefni þingboðunar.


4. KAFLI
FULLTRÚAKJÖR Á SAMBANDSÞING

23. grein
Hverju aðildarfélagi ber réttur og skylda til að láta fara fram kosningu fulltrúa á sambandsþing úr hópi fullgildra félagsmanna aðildarfélags eða deilda. Þar sem um er að ræða deildskipt félög eru þeir einir kjörgengir sem eru félagsmenn þeirra deilda sem aðild eiga að Samiðn. Kosningarétt og kjörgengi hafa allir fullgildir félagar og skal kosningu lokið tveim vikum fyrir sambandsþing.
Við ákvörðun um fjölda þingfulltrúa hvers aðildarfélags skal deila 1% af meðaltekjum iðnaðarmanna í félagsgjaldatekjur næstliðins árs. Tala sem þannig fæst myndar grunn til ákvörðunar um fjölda þingfulltrúa hvers félags.
Fyrir allt að 50 félagsmenn einn fulltrúa og einn fulltrúa fyrir hverja 50 félagsmenn, eða brot úr þeirri tölu ef það nemur 25 eða meira.
Jafnmarga fulltrúa skal kjósa til vara.
Nú háttar svo til að aðildarfélag er deildarskipt (fleiri en ein iðngrein á aðild að deildinni) og félagsmannafjöldi þess leyfir kosningu fleiri en eins fulltrúa, er félaginu þá heimilt að láta fulltrúakjör til þings Samiðnar fara fram í deildum, enda raski það ekki heildartölu fulltrúa félagsins.
Hafi nýtt aðildarfélag ekki fengið staðfestingu sambandsstjórnar þegar boðað er til þings skal félagið miða fulltrúatölu sína við tölu félagsmanna, eins og hún var á árinu þegar félagið sótti um inngöngu í sambandið.
Félag sem ekki hefur starfað milli þinga, ekki sent skýrslu eða hefur vanrækt skattgreiðslu, á ekki rétt á fulltrúa.

24. grein
Kosning fulltrúa og varafulltrúa á þing sambandsins skal fara fram á almennum fundi eða með allsherjaratkvæðagreiðslu. Sé kosið á almennum fundi, skal hann boðaður með minnst tveggja sólarhringa fyrirvara og kosningar getið í fundarboði.
Sé viðhöfð allsherjaratkvæðagreiðsla, skal farið eftir „Reglugerð ASÍ um allsherjaratkvæðagreiðslu“.

25. grein
Kjörtímabil þingfulltrúa er tímabilið á milli reglulegra þinga og má félagið ekki kjósa oftar en einu sinni á kjörtímabilinu, nema fulltrúi þess deyi eða missi kjörgengisskilyrði og varafulltrúi sé einnig forfallaður. Er félagsstjórn skylt að tilkynna það miðstjórn, sem þá fyrirskipar aukakosningar í félaginu. Skal þá einungis kjósa í stað þeirra sem forfallast.


5. KAFLI
STJÓRN SAMBANDSINS

26. grein
Stjórn sambandsins skal kosin á reglulegu sambandsþingi. Miðstjórnin skal skipuð
11 mönnum, formanni, varaformanni, ritara, vararitara og gjaldkera, ásamt 6 meðstjórnendum. Formaður og varaformaður skulu kosnir sérstaklega. Þá skal kjósa sameiginlega 9 meðstjórnendur. Miðstjórn skiptir að öðru leyti með sér verkum. Sambandsþing skal kjósa framkvæmdastjórn, sem skal skipuð 4 mönnum, formanni, varaformanni auk 2ja miðstjórnarmanna. Framkvæmdastjórn fer með stjórn á daglegum rekstri og öðrum þeim málum sem miðstjórn eða sambandsstjórn hafa tekið ákvörðun um. Láti framkvæmdastjórnarmaður af starfi, kýs miðstjórn fulltrúa í hans stað úr sínum hópi.

Sambandsstjórn skal skipuð 11 miðstjórnarmönnum, 1 fulltrúa frá hverju sambandsfélagi eða deild sem ekki á fulltrúa í miðstjórn, auk þess 12 fulltrúum kjörnum á sambandsþingi.

Í forföllum formanns gegnir varaformaður formennsku og ritari varaformennsku.
Láti formaður af formennsku á kjörtímabilinu tekur varaformaður við formennsku, ritari við varaformennsku og vararitari tekur við starfi ritara. Geti varaformaður ekki gegnt störfum formanns eða ritari varaformennsku skal á næsta sambandsstjórnarfundi kjósa í þeirra stað.

Ef miðstjórnar- eða sambandsstjórnarmaður getur ekki sótt stjórnarfundi skal það aðildarfélag sem hann er fulltrúi fyrir tilnefna varamann úr sambandsfélagi eða deild innan Samiðnar.
Við val manna í miðstjórn og sambandsstjórn skal taka tillit til starfsgreina, landssvæða og félagsstærðar.

27. grein
Sambandsstjórn skal koma saman minnst tvisvar á kjörtímabilinu. Miðstjórn getur auk þess kvatt saman sambandsstjórn og formenn aðildarfélaganna ef hún telur það nauðsynlegt.
Meirihluti sambandsstjórnar getur óskað sambandsstjórnarfundar. Senda skal aðildarfélögunum fundargerðir sambands- og miðstjórnar.

28. grein
Sambandsstjórn hefur æðsta vald í öllum málefnum sambandsins milli þinga. Á sambandsstjórnarfundum skal móta stefnu og starfshætti varðandi einstaka málaflokka og taka þær ákvarðanir sem nauðsynlegar eru til að framfylgja stefnu sambandsins. Hverju félagi ber og hverjum þeim er trúnaðarstarfi gegnir fyrir sambandið, að hlýða fyrirmælum hennar og úrskurðum, en rétt hefur hvert félag eða einstaklingur til að skjóta ágreiningsmálum sínum við sambandsstjórn til sambandsþings, sem þá fellir fullnaðarúrskurð í málinu.

29. grein
Miðstjórn annnast rekstur sambandsins, ræður starfsfólk og fer með málefni þess á milli þinga.

30. grein
Sambandsstjórnar- og miðstjórnarmenn ásamt starfsmönnum sambandsins hafa rétt til að sitja félagsfundi í öllum félögum, sem í sambandinu eru, með fullu málfrelsi og tillögurétti.


6. KAFLI
FJÁRMÁL

31. grein
Hvert sambandsfélag greiðir skatt til sambandsins sem er hundraðshluti af félagsgjöldum næstliðins árs. Sambandsþing ákveður fyrir hvert kjörtímabil hver hundraðshlutinn skal vera. Skattstofn skal miðaður við að félagsgjaldatekjur aðildarfélaganna séu sem svarar til 1% af heildartekjum félagsmanna. Við ákvörðun um skattstofn skal nota sama grunn og ASÍ notar
Í þeim tilfellum að félög eru deildarskipt og deildirnar eru ekki með aðgreindar félagsgjaldatekjur skal miða við 1% af meðaltekjum iðnaðarmanns samkvæmt útreikningum Hagstofu Íslands fyrir næstliðið ár. Sú tala sem þannig er fengin ( 1% af meðaltekjum) er margfölduð með uppgefnum félagsmannafjölda og myndar þannig skattstofn viðkomandi félags.
Sambandið innheimtir skatt af aðildarfélögunum til Alþýðusambands Íslands samkvæmt lögum þess.
Skattinn ber að greiða ársfjórðungslega í janúar, í apríl, í júlí og í október ár hvert. Nýtt sambandsfélag greiðir skatt á fyrsta ári eftir félagsmannatölu sinni, eins og hún er þegar það gengur í sambandið og í hlutfalli við þann tíma, sem eftir er af árinu.

32. grein
Fyrir 31. maí ár hvert, senda félögin til sambandsins skýrslu um starfsemi félagsins, fjármál og stjórn þar sem tilgreind eru heimilisföng stjórnarmanna og símanúmer. Vanræki félag lengur en til 31. maí að senda skýrslu þessa, hefur miðstjórn rétt til þess að svifta það réttindum sem aðildarfélag, þar til skýrsla er gefin.

33.grein
Sambandssjóður greiðir kostnað er af starfsemi sambandsins hlýst, svo sem laun starfsmanna, erindrekstur, skrifstofukostnað og annan óhjákvæmilegan kostnað.
Miðstjórn ákveður hvernig kostnaði vegna sambandsþinga og sambandsstjórnarfunda þ.m.t. ferða,- fæðis- og gistikostnað þingfulltrúa og sambandsstjórnarmanna, skal jafnað niður á öll sambandsfélög eftir fjölda skattskyldra félagsmanna sbr. 32. gr.

34. grein
Sé skattur ekki greiddur til Samiðnar á réttum gjalddaga, skal reikna dráttarvexti á gjaldfallna skuld frá þriðja degi eftir gjalddaga. Heimilt er að gefa eftir vangreidda skatta og/eða dráttarvaxtakröfur að undangenginni ákvörðun miðstjórnar.

35. grein
Ef aðildarfélag er í skuld við sambandið, þegar sambandsþing kemur saman, missir það rétt á að senda fulltrúa til þings, þar til skuldin er að fullu greidd.

36. grein
Framkvæmdastjóri og gjaldkeri sambandsins skulu leggja tillögu að fjárhagsáætlun fyrir miðstjórn til afgreiðslu fyrir miðjan febrúar ár hvert. Fjárhagsáætlun fyrir yfirstandandi ár skal kynnt á sambandsþingi. Ekki er heimilt að fara í meiriháttar fjárútlát sem ekki er samþykki fyrir í fjárhagsáætlun nema með samþykki miðstjórnar.

37. grein
Reikningar sambandsins skulu sendir til aðildarfélaga ár hvert að lokinni endurskoðun.


7. KAFLI
FULLTRÚAKJÖR Á ÞING ASÍ

38. grein
Miðstjórn Samiðnar skiptir þeim sætum á þing ASÍ sem sambandið fær úthlutað samkvæmt lögum ASÍ. Þessum sætum skal skipt samkvæmt eftirfarandi reglu:
Fjöldi fullvinnaandi félagsmanna Samiðnar er lagður saman miðað við tekjur næsta árs á undan sbr. lög ASÍ án gjaldfrjálsra. Þau félög sem ekki hafa skilað ársreikningi eða á annan hátt fyrirgert rétti sínum til setu á þingi ASÍ skulu ekki talin með. Deila skal í þá tölu sem þannig fæst með heildarfulltrúafjölda sem Samiðn fær úthlutað. Þannig fæst út félagsmannafjöldi, vægi, á bak við hvern fulltrúa. Síðan er hverju félagi sem seturétt hefur á þinginu úthlutað 1 fulltrúa og með sama hætti hverri deild með fleiri en 50 félagsmenn. Vægi fulltrúans er dregið frá félagsmannafjölda hvers félags. Að því loknu er hverju félagi (ekki deild) með a.m.k. 250 félagsmenn úthlutað öðrum fulltrúa og vægi hans dregið frá félagsmannafjölda félagsins. Þeim fulltrúum sem eftir standa skal síðan deilt niður á félögin í hlutfalli við félagsmannafjölda sem þá er eftir. Þá skal með sama hætti reikna út hvaða félög fengju næstu fulltrúa og skulu varamenn kallaðir til samkvæmt þeirri röð.

39. grein
Miðstjórn Samiðnar skal tilkynna aðildarfélögum sambandsins niðurstöðu sína skv. 38. gr. eigi síðar en 6 vikum fyrir þing. Aðildarfélögunum er skylt að láta fara fram kosningu fulltrúa á þing ASÍ og varamenn þeirra úr hópi félaga sinna. Kjörgengir eru fullgildir félagsmenn þeirra iðnaðarmannafélaga og deilda iðnaðarmanna, sem aðild eiga að sambandinu. Kosningu þingfulltrúa samkvæmt framansögðu skal lokið a.m.k. 1 mánuði fyrir þing ASÍ og niðurstaða tilkynnt Samiðn.
Ljúki einhver aðildarfélaganna ekki kosningu skv. 1. mgr. eða ef einhver aðildarfélög hyggjast ekki nýta þau sæti sem þeim var úthlutað skulu þau tilkynna Samiðn það a.m.k. tveimur vikum fyrir þing ASÍ. Sé tilkynningarskyldu ekki sinnt innan tímamarka, skulu varamenn boðaðir í þeirra stað.
Komi upp forföll á síðustu stundu og aðildarfélög geta ekki nýtt þau sæti, sem þau hafa fengið úthlutað, ber þeim að tilkynna Samiðn það án tafar. Skulu varamenn þá boðaðir í þeirra stað.


8. KAFLI
LAGABREYTINGAR

40. grein
Lögum sambandsins má breyta á sambandsþingi eða aukaþingi. Skulu jafnan hafðar tvær umræður um lagabreytingar og telst breytingin ekki samþykkt nema 67% atkvæða á lögmætum þingfundi samþykki hana.
Við sérstakar aðstæður getur sambandsþing eða aukaþing falið sambandsstjórn að afgreiða lagabreytingar enda sé um afmarkaðar breytingar að ræða.


Tillögur til breytinga á lögunum, sem aðrir bera fram en miðstjórn eða sambandsstjórn, skal senda miðstjórn ekki síðar en 4 vikum fyrir sambandsþing eða aukaþing.

Tillögur til breytinga á lögunum sem sambandsstjórn eða miðstjórn ber fram, skal senda aðildarfélögunum minnst 6 vikum fyrir sambandsþing, aukaþing eða sambandstjórnarfund.


Þannig samþykkt á 7. þingi Samiðnar 4. maí 2013