Verkalýðshreyfingin geri umhverfismálin að sínum málum

Á vel heppnuðu þingi Samiðnar sem lauk nú um helgina var Hilmar Harðarson frá Félagi iðn- og tæknigreina, endurkjörinn formaður til næstu þriggja ára og Jóhann Rúnar Sigurðsson frá Félagi málmiðnaðarmanna á Akureyri, varaformaður.  Þema þingsins var fjórða iðnbyltingin og umhverfis- og loftslagsmál og fluttu sérfræðingar í þessum málaflokkum áhugaverða fyrirlestra á þinginu sem vöktu mikla athygli, enda málefnin brýn og koma í auknum mæli á borð stéttarfélaganna.  

Í samþykkt þingsins um fjórðu iðnbyltinguna segir:
„Tryggja verður að ávöxtur af hugsanlegri framleiðsluaukningu fjórðu iðnbyltingarinnar verði
ekki til þess að ójöfnuður fari vaxandi og þeir ríku verði enn ríkari.
Stjórnvöld í samstarfi við aðila vinnumarkaðarins þurfa að mynda sér skýra stefnu með
hvaða hætti við nýtum þau tækifæri sem felast í auknum tæknibreytingum til að auka
hagsæld fyrir alla með félagslegum lausnum.
Samiðn lýsir sig tilbúin til samstarfs við stjórnvöld og atvinnulífið til að tryggja að áhrif fjórðu
iðnbyltingarinnar verði til að bæta almenn lífsskilyrði.“

Í samþykkt um umhverfis- og loftslagsmál segir:
„Öll fyrirtæki og stofnanir þurfa að setja sér umhverfisstefnu og vera með lifandi fræðslu um
markmið og tilgang hennar fyrir starfsmenn og stjórnendur. Verkalýðshreyfingin verður að
gera umhverfismálin að sínum málum, setja þau á oddinn og gera t.d. öryggistrúnaðarmenn
að umhverfis- og öryggistrúnaðarmönnum.“

Loks var samþykkt ályktun um afnám tekjutenginga í almannatryggingakerfinu:
„Með greiðslu skatta alla starfsævi hefur hver og einn áunnið sér rétt á greiðslu lífeyris úr
almannatryggingakerfinu. Það á engin ríkisstjórn, þingflokkur eða einstaka ráðherra að geta
leyft sér þá lítilsvirðingu við lífeyrisþega, að skerða þann rétt á nokkurn hátt.“