Þannig líður tíminn

Síðastliðið vor gerði Samiðn kjarasamning við Samtök atvinnulífsins ásamt öðrum félögum og samböndum innan iðnaðarmannasamfélagsins.  Samningurinn gildir til nóvemberloka 2022 og er því með lengstu samningum sem við höfum gert. Það var tvennt sem einkenndi þennan kjarasamning þ.e. samkomulag um styttingu vinnuvikunnar og upptaka nýs launakerfis.

Á næstu dögum á að hefjast vinna við útfærslu nýs launakerfis sem á að fara í kynningu í byrjun næsta árs og í vor á að stíga fyrstu skrefin í að stytta vinnuvikuna. Bæði þessi verkefni gefa fyrirheit um eitthvað sem gæti haft áhrif til lengri tíma og kallar á breytt vinnulag stéttarfélaga því gert er ráð fyrir að það verði í höndum vinnustaðanna að hrinda þessu hvoru tveggja í framkvæmd.

Nú standa yfir samningar við ríki, Reykjavíkurborg, sveitarfélög, orkufyrirtækin og skyld fyrirtæki. Okkar áherslur í þeim viðræðum eru þær sömu þ.e. styttri vinnuvika og skilvirkara launakerfi. Viðtökurnar hafa verið frekar jákvæðar en verulega hefur skort á að viðsemjendur séu tilbúnir að stíga fram og ljúka samningum. Þeir bera því við að það skorti samstöðu launamanna til að fara í svo miklar kerfisbreytingar. Þannig hefur tíminn liðið viku eftir viku og nú er svo komið að það eru orðnir mánuðir sem samningarnir hafa dregist.

Það er orðið mjög brýnt að á þessu verði breyting og gerðar verði alvöru tilraunir til að ljúka samningum. Samiðn er tilbúin að gera alvöru tilraun til að ljúka samningum með öðrum iðnaðarmannafélögum og samböndum en til að svo geti orðið þarf að vera vilji beggja megin borðs. Kannski er komið að því að viðsemjendur verði að viðurkenna að ein miðlæg lausn er ekki í boði að þessu sinni.