Stjórnvöld hafa rofið sáttina

Nú eru að hefjast umræða um endurnýjun kjarasamninga en samningar losna á almennum vinnumarkaði 31. desember. Ekki er deilt um að gildandi kjarasamningar hafa skilað miklum árangri sem birtist í vaxandi kaupmætti flestra. Það sem vekur mesta athygli er hvað kaupmáttur almennings hefur vaxið misjafnt. Þrátt fyrir að lögð hafi verið áhersla á að hækka lægstu launin hefur kaupmáttur þess hóps aukist mun minna en þeirra sem eru hærra launaðir.

Kaupmáttur lægstu launa jókst um 6% milli áranna 2016 og17 en að teknu tilliti til skattbyrði lægstu launa jókst kaupmáttur ráðstöfunartekna þessa hóps einungis um 1,5%.
Megin ástæðan er minni stuðningur úr vaxtabótakerfinu og misræmi í þróun persónuafsláttar og launaþróunar. Þessu er hins vegar öfugt farið hjá tekjuhæsta hópnum.
Kaupmáttur launa við efri fjórðungsmörk jókst um 5% á sama tíma og að teknu tilliti til heildarskattbyrði jókst kaupmáttur ráðstöfunartekna um 6%.

Það er ótrúleg staðreynd að þrátt fyrir almenna sátt um að þeir sem lægstu launin hafa ættu að hafa ákveðin forgang skuli þetta vera niðurstaðan og ástæðan er að stjórnvöld sigldu í öfuga átt við megin markmið kjarasamninganna.

Mikil gangrýni er á launahækkanir alþingismanna, æðstu embættismanna ríkisins og stjórnendur fyrirtækja. Launahækkanir til þessara hópa hafa ekki verið í takt við þann launaramma sem mótaður var við gerð síðustu kjarasamninga.

Hér hafa verið nefnd tvö mál sem eru aðal ágreiningsmálin á vinnumarkaði og valda mestum óróa og ágreiningi. Í báðum þessum málum eru stjórnvöld í aðalhlutverki.

Flestir vilja búa við efnahagslegt öryggi, stöðugleika og geta horft til framtíðar með nokkurri vissu um að geta staðið við sínar skuldbindingar.

Gildandi kjarasamningar voru hugsaðir sem undirstaða fyrir nýja tíma þar sem ríkti meiri sátt um skiptingu gæðanna. Reynslan er döpur og það sem veldur mestum vonbrigðum er að stjórnvöld virðast ekki hafa vilja til að spila með.

Þeir erfiðleikar sem hugsanlega eru að skapast í tengslum við endurnýjun kjarasamninga skrifast því alfarið á stjórnvöld.