Samþykkt miðstjórnar vegna endurskoðunar á forsendum kjarasamninga

„Samkvæmt kjarasamningum sem undirritaðir voru 5.maí s.l. var kveðið á um að endurskoða ætti forsendur kjarasamninga  fyrir 20.janúar 2012.  Í slíku mati bæri að taka tillit til þróunar kaupmáttar  og framgangs  efnisþátta sem  getið var í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar.
Samkvæmt tölum frá Hagstofu Íslands  hefur kaupmáttur launa almennt aukist á samningstímanum meðal  iðnaðarmanna.
Varðandi framgang verkefna sem getið er í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar hefur verið staðið við nokkur veigamikil atriði en verulega skortir á að staðið hafi verið við gefin fyrirheit varðandi eflingu atvinnulífs og jöfnun lífeyrisréttinda.
Þrátt fyrir alvarleika þess að  ríkisstjórnin hefur ekki staðið við gefin fyrirheit sem voru forsendur þess að lagt var  til að kjarasamningar  yrðu staðfestir, leggur miðstjórn Samiðnar til  við samninganefnd ASÍ að kjarasamningunum verði ekki sagt upp að svo komnu máli.
Miðstjórn  Samiðnar skorar á ríkisstjórnina að  breyta orðum í athafnir og taka sér tak og standa við gefin fyrirheit um  aðgerðir  ekki síst  hvað varðar jöfnun lífeyrisréttinda og eflingu atvinnulífsins.   
Hafi ríkisstjórnin ekki pólitískan kraft og vilja til að takast á við jafn brýnt verkefni og  eflingu atvinnulífsins  ber henni að víkja og boða til kosninga sem fyrst.  Núverandi stjórnarandstaða hefur ekki sýnt  ábyrgð né pólitíska getu til að taka við landsstjórninni og þjóðin hefur ekki efni á að bíða  eftir aðgerðum  fram á mitt næsta ár.“