PLANIÐ

Eins og öllum er kunnugt er mikill fjöldi erlendra starfsmanna að störfum á Íslandi í dag og ef horft er til framtíðar má gera ráð fyrir að svo verði áfram. Fjöldinn er mestur í mannvirkjagerð og ferðaþjónustu og svo er komið að stór fyrirtæki í mannvirkjagerð manna öll störf á gólfinu með erlendu vinnuafli.
Þetta getur í sjálfu sér verið allt í lagi ef eðlilega er staðið að hlutunum s.s. hvað verðar starfsréttindi launamál og aðbúnað.
Samiðn og aðildarfélögin tóku þá ákvörðun á vormánuðum að gera átak í að heimsækja vinnustaði í mannvirkjagerð og kalla eftir upplýsingum um laun og starfsréttindi erlendra starfsmanna. Við notuðum sumarið til að undirbúa verkefnið með okkar lögmönnum og kortlögðum hvernig best væri að halda á svo það væri líklegt til að skila árangri.
Átakið sem hefur fengið starfsheitið Planið var formlega sett af stað 19. september sl. og nú hafa um 10 vinnusvæði á Reykjavíkursvæðinu verið heimsótt.
Framkvæmdin er þannig að við veljum einn til tvo vinnustaði sem við heimsækjum hverju sinni. Starfsmenn eru skráðir og kannað er hvort starfsmenn séu með vinnustaðaskírteini og hvort þeir geti staðfest réttindi. Einnig tökum við ljósmyndir sem staðfesta hvað starfsmenn eru að gera þegar heimsóknin á sér stað. Á sama tíma eru stjórnendur heimsóttir og krafðir um upplýsingar um launamál erlendu starfsmanna. Sé ekki hægt að fá þessar upplýsingar á staðnum er fengin staðfesting á hvernig hægt sé að fá slíkar upplýsingar.
Þegar skráningin liggur fyrir er farið með listann til fyrirtækisins og óskað eftir að fyrirtækið leggi fram greinargóðar upplýsingar um starfskjör og réttindi.
Flest fyrirtækin taka okkur fagnandi og veita okkur allar umbeðnar upplýsingar en því miður eru undantekningar þar á. Í slíkum tilfellum erum við með viðbragðsáætlun sem fer í gang og við fylgjum eftir.
Okkur er ljóst að þetta vinnulag sem við teljum árangursríkt kallar á mikla vinnu og þolinmæði. Brotafyrirtækin eru oft einu feti á undan okkur í að finna leiðir, en við höfum á að skipa öflugri sveit eftirlitsmanna og frábærra lögmanna sem láta ekki undan þeim sem virða ekki kjarasamninga og lög.
Við hjá Samiðn lítum á erlenda starfsmenn sem auðlind sem við eigum að virða og fara vel með.