Fréttir

1. maí: HÚSNÆÐISÖRYGGI - SJÁLFSÖGÐ MANNRÉTTINDI!!

Eitt af þeim málum sem gengur sem rauður þráður í gegnum sögu verkalýðsbaráttu á Íslandi í 100 ár er krafan um mannsæmandi húsnæði á sanngjörnum kjörum.  Þetta verkefni hefur komið til okkar í verkalýðshreyfingunni af fullum þunga með reglulegu millibili í heila öld. Og það er hrópar enn í dag.
Í árdaga verkalýðsbaráttunnar og lengi framan af síðustu öld var það lélegt húsnæði og viðvarandi húsnæðisskortur sem voru vandamálin. Í dag er það húsnæðisskortur og hátt verð bæði til kaups og leigu sem gerir það að verkum að stórir hópar fólks eru í miklum vanda og sumir komast hreinlega ekki inn á húsnæðismarkaðinn.  Er þar fyrst og fremst um að ræða ungt fólk og tekjulága einstaklinga. Ástandið er grafalvarlegt og það mun ekki lagast nema að ráðist verði hratt og af festu í uppbyggingu á miklum fjölda hagkvæmra íbúða.
Það var af þessari ástæðu sem ASÍ og BSRB réðust í stofnun Bjargs – íbúðafélags á 100 ára afmæli ASÍ í fyrra. Það var af þessari ástæðu sem aðildarfélög ASÍ settu uppbyggingu félagslegs leiguhúsnæðis inn í kjarasamningana 2015 þannig að ríkið komi með fjármagn fyrir 600 íbúðum á ári næstu árin. 
Það þarf einfaldlega að lyfta grettistaki til að þjóðin komist út úr þeim ógöngum sem hún hefur ratað í í húsnæðismálum. 
Við Íslendingar viljum byggja upp réttlátt samfélag þar sem gott og öruggt húsnæði þykir sjálfsögð mannréttindi – ekki forréttindi.

Göngur og baráttufundir eru víða um land í tilefni af 1. maí alþjóðlegum baráttudegi verkalýðsins.  

Dagskrá 1. maí hátíðarhaldanna í Reykjavík verður sem hér segir: 
> Safnast saman á horni Laugavegs og Snorrabrautar klukkan 13:00
> Kröfuganga hefst klukkan 13:30
> Útifundur á Ingólfstorgi settur klukkan 14:10

Dagskrá:
Söngfjelagið
Ræða: Lilja Sæmundsdóttir formaður Félags hársnyrtisveina
Söngfjelagið
Ræða: Garðar Hilmarsson formaður Starfsmannafélags Reykjavíkurborgar
Amabadama flytur 2 lög
Söngfjelagið/samsöngur – Maístjarnan og Internationalinn
Fundi slitið
Fundarstjóri: Þórarinn Eyfjörð
Hulda M. Halldórsdóttir syngur á táknmáli
Agnes Steina Óskarsdóttir túlkar á táknmáli

Miðstjórn ASÍ: Aðför að velferðarkerfinu

Miðstjórn ASÍ samþykkti á fundi sínum í dag mótmæli gegn fjárhagsáætlun ríkisstjórnarinnar fyrir árin 2018-2022 og segir hana vinna gegn velferðarkerfinu og þeim loforðum sem gefin hafa verið.  Ekki verði staðið við aukin fjárframlög til heilbrigðiskerfisins, réttindi atvinnuleitenda skert og ekki standi til að gera löngu tímabærar breytingar á réttindum örorkulífeyrisþega gagnvart almannatryggingakerfinu.

Sjá ályktunina í heild.

Ef unnið er um páskana

Ef unnið er á frídögum nú um páskahelgina þá bætast við helgidaga- og stórhátíðarálag.

Skírdagur: dagvinna + dagvinna með 80% álagi.

Föstudagurinn langi: dagvinna + dagvinna með 138,3% álagi

Páskadagur: dagvinna með 138,3 % álagi.

Annar í páskum: dagvinna + dagvinna með 80% álagi.

Sumardagurinn fyrsti: dagvinna + dagvinna með 80% álagi.

Sjá nánar (bls. 14).

Miðstjórn ályktar um eflingu vinnustaðaeftirlits, keðjuábyrgð og greiðsluþátttöku sjúklinga

Miðstjórn Samiðnar samþykkti þrjá ályktanir á fundi sínum 3. apríl sl. er lúta í fyrsta lagi að eflingu vinnustaðaeftirlits þar sem fjármálaráðherra er hvattur til að tryggja RSK fjármuni til áframhaldandi þátttöku í árangursríku vinnustaðaeftirliti með stéttarfélögunum.  
Í öðru lagi er ályktun þar sem fagnað er framkomnum hugmyndum um keðjuábyrgð gagnvart erlendum fyrirtækjum sem senda erlenda starfsmenn tímabundið til starfa hér á landi og jafnframt hvatt til þess að hún nái einnig til  íslenskra undirverktaka og starfsmanna þeirra.  Miðstjórnin skorar á félags- og jafnréttisráðherra að tryggja að frumvarp í þessa veru fái framgang á yfirstandandi þingi.  
Í þriðja lagi samþykkti miðstjórn ályktun þar sem skorað er á heilbrigðisráðherra að standa við fyrirheit um 50.000 kr. kostnaðarþak á greiðsluþátttöku sjúklinga og því jafnframt hafnað að sjúklingar sem sjaldan þurfa að sækja þjónustu í heilbrigðiskerfið fjármagni þessar breytingar.

> Sjá ályktun um eflingu vinnustaðaeftirlits
> Sjá ályktun um keðjuábyrgð
> Sjá ályktun um þak á greiðsluþátttöku sjúklinga

Eini kvenmaðurinn á vinnustaðnum...

Í tilefni af alþjóðlegum baráttudegi kvenna 8.mars var haldinn hádegisfundur "Öll störf eru kvennastörf" til þess meðal annars að vekja athygli á þeim fjölbreyttu tækifærum sem bjóðast í iðn-, tækni- og verkgreinum. 

Meðal þeirra sem erindi héldu var Eva Björk Sigurjónsdóttir, húsa- og húsgagnasmiður og félagi í Byggiðn, en hún situr í stjórn Félags fagkvenna sem hefur það að markmiði að breyta staðalímynd iðnaðarmanna, en sem dæmi eru konur einungis 1% af félagsmönnum Byggiðnar.

Hér má sjá viðtal RÚV við Evu Björk.

Við getum verið stolt af okkar lífeyrissjóðakerfi

Í gær kynntu Landssamtök lífeyrissjóða samantekt sem byggir á gögnum frá OECD og öðrum opinberum aðilum um lífeyriskerfi Íslands, Svíþjóðar, Bretlands, Hollands og Danmerkur. Ástæðan þess að lífeyriskerfi þessara landa voru valin er að þau þykja skara fram úr og til þeirra er horft þegar gæði lífeyriskerfa eru metin. Í stuttu máli má segja að íslenska lífeyriskerfið stenst ágætlega þennan samanburð en sker sig úr í nokkrum atriðum.
Þegar talað er um íslenska lífeyriskerfið er átt við almannatryggingar og lífeyrissjóðina og þau lífeyrisréttindi sem einstaklingar fá í þessum tveimur kerfum.
Það sem einkennir íslenska lífeyriskerfið eru miklar tekjutengingar sem eru mun meiri á Íslandi en þekkist í samanburðarlöndunum, mikil atvinnuþátttaka lífeyrisþega og almennt fara Íslendingar mun síðar á lífeyri og lífeyrisþegar eru þar af leiðandi mun styttri tíma á lífeyri og getur það munað allt að fjórum árgöngum.
Þessi mikla sérstaða ætti að skapa forsendur fyrir því að lífeyrir væri mun hærri á Íslandi en í samanburðarlöndunum ef horft er til þess sparnaðar sem fellur til vegna seintöku lífeyris og þess að íslenskir lífeyrisþegar eru mun styttra á lífeyri.
Einnig sker Ísland sig úr hvað íslenska ríkið ver litlum fjármunum til lífeyrismála
Ef horft er til útgjalda íslenska ríkisins sem hlutfall af vergri landsframleiðslu er Ísland að verja 2% Svíþjóð 7% og Danmörk 8% svo eitthvað sé nefnt.
Eitt af því sem horft er til er hvernig kerfið ver fólk fyrir fátækt og í þeim samanburði kemur íslenska kerfið ágætlega út í samanburði við hin löndin.
Hins vegar er mikilvægt að hafa í huga að þessi samanburður tekur fyrst og fremst til þess hvaða réttindi einstaklings myndu vera ef hann hefði byrjað að greiða í lífeyrissjóð árið 2014 og það framreiknað miðað við 40 ára inngreiðslu.
Þrátt fyrir að íslenska lífeyriskerfið komi vel út í þessum samanburði segir það ekki til um hvort einhverjir hópar sem eru að taka lífeyri í dag eða fara á lífeyri á næstu árum, hafi góða afkomu. Það er vitað að hópur lífeyrisþega býr við erfið kjör og það má lítið útaf bera svo illa fari.
En við getum hins vegar dregið þá ályktun af þessum samanburði að lífeyrissjóðakerfið sem við höfum verið að byggja upp síðustu áratugi, stenst vel allan samanburð við það besta sem þekkist í heiminum.
Það er rétt að hvetja alla sem áhuga hafa á að kynna sér samantektina því hún er gott innlegg í umræðuna um íslenska lífeyriskerfið og er öllum aðgengileg á lifeyrismal.is