Fréttir

Sambandsstjórn: "Árangurinn tryggður og áframhaldandi kaupmáttaraukning"

Á fundi sambandsstjórnar Samiðnar sl. föstudag var farið yfir markmið komandi kjarasamningsviðræðna við Samtök atvinnulífsins og kröfugerðin kynnt.
Megin markmið Samiðnar við endurnýjun kjarasamninga verður að tryggja þann árangur sem náðst hefur á síðustu árum og skapa forsendur fyrir áframhaldandi kaupmáttaraukningu. Kauptaxtakerfið verði endurskipulagt og tryggt að það endurspegli markaðslaun á hverjum tíma. Vinnuvikan verði stytt án launaskerðingar og félagslegum undirboðum verði útrýmt sem og að erlendum starfsmönnum verði tryggð þau réttindi sem þeim ber. Gerðar verði nauðsynlegar breytingar á velferðarkerfinu til að tryggja að allir njóti öryggis og þjónustu óháð efnahag, búsetu eða aldri. Verulega verði dregið úr tekjutengingum almannatrygginga og tryggt að allir búi við húsnæðisöryggi.

Iðnaðarmannafélögin innan ASÍ hafa gert með sér samstarfssamning vegna komandi samningaviðræðna við Samtök atvinnulífsins. Félögin mun vinna saman að samningsgerðinni og hefur Kristján Þórður Snæbjörnsson formaður Rafiðnaðarsambandsins verið valinn sem talsmaður hópsins.

Iðnfélögin undirrita samstarfssamning vegna komandi kjaraviðræðna

Formenn Byggiðnar, Rafiðnaðarsambandsins, VM, Grafíu, Félags hársnyrtisveina, Félags málmiðnaðarmanna á Akureyri, FIT og Matvís undirrituðu í morgun samning sem kveður á um náið samstarf félaganna í komandi kjarasamningsviðræðum.  

Ný forysta ASÍ

Ný forystusveit Alþýðusambands Íslands var kjörin á 43. þingi sambandsins sem lýkur í dag. 

Forseti var kjörin Drífa Snædal framkvæmdastjóri Starfsgreinasambands Íslands, 1. varaforseti Vilhjálmur Birgisson formaður Verkalýðsfélags Akraness og 2. varaforseti Kristján Þórður Snæbjarnarson formaður Rafiðnaðarsambands Íslands. 

Í miðstjórn voru kjörin: Finnbogi Sveinbjörnsson, Björn Snæbjörnsson, Berglind Hafsteinsdóttir, Valmundur Valmundsson, Halldóra Sveinsdóttir, Eiður Stefánsson, Sólveig Anna Jónsdóttir, Hilmar Harðarson, Ragnar Þór Ingólfsson, Harpa Sævarsdóttir, Kristín María Björnsdóttir og Helga Ingólfsdóttir.

Sjá nánar.

Sterkari saman - 43. þing ASÍ hafið

Gylfi Arnbjörnsson fráfarandi forseti ASÍ setti í morgun 43. þing sambandsins en um 300 manns, þar af 22 frá aðildarfélögum Samiðnar, sitja þingið sem stendur fram á föstudag.  Fyrirliggjandi er umfangsmikil málaefnavinna auk þess sem talsverð endurnýjun verður á forystunni.  Nýr forseti og tveir varaforsetar verða kjörnir og búast má við nokkrum breytingum á fulltrúum í miðstjórn en miðstjórnin fer með æðsta vald í Alþýðusambandinu á milli þinga.

Sjá nánar þingvef ASÍ.

Mætum svikum af hörku

Umfangsmikil og skipulögð svik fyrirtækja á erlendu starfsfólki um réttindi, sem bundin eru í lögum og kjarasamningum, er þjóðarskömm sem hefur viðgengist alltof lengi.

Miðstjórn Samiðnar fagnar þeirri umræðu sem átt hefur sér stað í kjölfar áhrifamikillar umfjöllunar fréttaþáttarins Kveiks um stöðu erlends vinnuafls á Íslandi. Í þættinum var það staðfest sem alþjóð hefur vitað að það er mikill misbrestur á að erlent starfsfólk njóti þeirra almennu mannréttinda sem íslensk lög og kjarasamningar eiga að tryggja því.

Íslensk stjórnvöld hafa kosið að horfa framhjá þessu þjóðfélagsmeini. Þau láta nú eins og ástandið komi þeim á óvart þrátt fyrir mikla og áralanga umfjöllun, m.a. Samiðnar, um alvarleg brot á erlendu starfsfólki.

Hjáseta stjórnvalda er ein stærsta ástæða þess að svartir sauðir úr röðum atvinnurekenda komast upp með það árum saman að brjóta lög, kjarasamninga og fela slóð sína með kennitöluflakki.

Miðstjórnin vill trúa því að það sé einlægur vilji stjórnvalda að breyta núverandi ástandi. Þann vilja þurfa stjórnvöld að sýna í verki. Grípa verður til róttækra aðgerða.

Vinnumarkaðsstofnanir sem hafa það hlutverk að tryggja framgang laga og kjarasamninga þurfa að hafa getu og vilja til að bregðast við af hörku þegar fyrirtæki brjóta á starfsfólki.

Núverandi skipulag þar sem margar vinnumarkaðsstofnanir hafa afmarkað hlutverk er úrelt fyrirkomulag. Dreifð ábyrgð skilar afleitum árangri. Breyttur vinnumarkaður kallar á að unnið sé hratt, málum sé fylgt eftir og að það hafi alvarlegar afleiðingar að gerast brotlegur.

Stjórnvöld þurfa að sameina núverandi vinnumarkaðsstofnanir í eina stofnun sem hefur eftirlit með öllum þáttum vinnustaðarins, bæði aðbúnaði og starfskjörum, í samstarfi við stéttar félögin.

Tryggja þarf ríkar og skilvirkar valdheimildir til að stöðva starfsemi fyrirtækja og beita þau sektum ef þau verða uppvís að því að stela af launafólki og svíkja það um umsamin réttindi.

Miðstjórn Samiðnar skorar á ríkisstjórnina að breyta orðum í athafnir. Miðstjórnin lýsir einnig yfir fullum samstarfsvilja við að koma á raunverulegum úrbótum.

Fundir miðstjórnar um endurnýjun kjarasamninga

Miðstjórn Samiðnar hefur í dag fundarferð til undirbúnings endurnýjunar kjarasamninganna.

Ferðin hefst á Egilsstöðum þar sem fundað verður með stjórnum og félögum í iðnaðarmannadeild Afls-starfsgreinafélags og Sverri Albertssyni framkvæmdastjóra Afls sem boðið hefur sig fram til forseta ASÍ.  Af Austurlandi verður haldið norður um land þar sem félagar á Vopnafirði, Þórshöfn, Húsavík, Akureyri, Sauðárkróki og Blönduósi verða heimsóttir.  Á suðurleið verður svo tekið samtal við félagsmenn í Borgarnesi en þegar hefur verið fundað með Verkalýðsfélagi Akraness.

Mikilvægt er að miðstjórn eigi uppbyggilegt samtal við forsvarsmenn og ekki síður félagsmenn aðildarfélaganna varðandi áhersluatriði og vinnulag og fundirnir því mikilvægt innlegg við myndun kröfugerðar fyrir komandi viðræður.