Fréttir

Gegn frestun á núverandi framkvæmd um tilgreinda séreign

Fulltrúi Samiðnar í miðstjórn ASÍ, Hilmar Harðarson formaður Samiðnar, lagðist gegn frestun á núverandi framkvæmd um tilgreinda séreign og lagði fram eftirfarandi bókun við afgreiðslu málsins á fundi miðstjórnar ASÍ 8. nóvember sl.:

"Við afgreiðslu kjarasamninga 2016 var ákveðið að að setja í framkvæmd fyrirheit um hækkun iðgjalds til lífeyrissjóða í 15,5% sem gefið var árið 2011. Jafnframt var gefið fyrirheit um að sjóðsfélagar gætu skipt hækkuninni milli samtryggingar og séreignar og var það ein af forsendum þess að hækkunin var samþykkt.
Þrátt fyrir að ekki hafi verið komin lagastoð s.l. vor eins og gert var ráð fyrir í gildandi kjarasamningi voru það eindregin tilmæli ASÍ og SA að breyta samþykktum sjóðanna og urðu þeir við því þrátt fyrir mjög stuttan fyrirvara.
Að leggja til að framkvæmdinni verði frestað meðan ekki er starfhæf ríkisstjórn þjónar engum tilgangi og mun koma óorði á lífeyrissjóðina og skapa mikla óánægju meðal sjóðsfélaga.
Jafnframt er nauðsynlegt að horfa til 4. gr. laga nr. 129 /1997 en þar segir m.a. „Lífeyrissjóður skal, í samræmi við 24. gr. þessara laga, tilgreina það iðgjald sem þarf til að standa undir þeirri lágmarkstryggingavernd sem hann veitir.
Lífeyrissjóði er heimilt, í samræmi við tryggingafræðilega athugun að ákveða lágmark tryggingaverndar þannig að iðgjald sem varið er að hluta til öflunar lífeyrisréttinda í séreign skv. II. kafla og að hluta til öflunar lífeyrisréttinda í sameign skv. III kafla.“
Jafnframt segir: „Sjóðsfélagi getur ákveðið að ráðstafa til annars aðila en þess lífeyrissjóðs sem tekur við iðgjaldi vegna hans þeim hluta gjalds sem renna skal til séreignar skv. 3 mgr. 4 gr. og þeim hluta sem renna skal til viðbótartryggingaverndar.“
Samkvæmt lögum er lágmarks iðgjald 12% sem veitir lágmarkstryggingavernd sem svarar til 56% af þeim mánaðarlaunum sem greitt er af.
Verði framkvæmdinni um tilgreinda séreign frestað eru miklar líkur á að sjóðsfélagar nýti sér heimildir 4. gr. og ráðstafi iðgjaldi sem er umfram það sem þarf til að veita lágmarkstryggingavernd í óbundna séreign. Yrði það raunin myndi það skapa enn meiri glundroða og vandræði. Ég legg áherslu á að um leið og ný ríkisstjórn hefur tekið við völdum verði teknar upp viðræður um ásættanlega lausn og á meðan verði beðið með frekari ákvarðanatöku.
Ég lýsi því hér með yfir að ég er andvígur því að fresta núverandi framkvæmd um tilgreinda séreign og mun mæla gegn því þar sem það á við. Frestun mun ekkert leysa en skapa mörg erfið vandamál og mikla óvissu."

Reykjavík, 8. nóvember 2017

Hilmar Harðarson

Ályktun trúnaðarráðs Byggiðnar um mikilvægi iðn- og verkmenntunar

Trúnaðarráð Byggiðnar samþykkti á fundi sínum 1. nóvember eftirfarandi ályktun um mikilvægi iðn- og verkmenntunar:

"Nú að loknum alþingiskosningum er rétt að minna á mikilvægi iðn- og verkmenntunar. Stjórnmálaflokkar kepptust um að draga fram mikilvægi iðn- og verkmenntunar fyrir land og þjóð í kosningabaráttu sinni. Trúnaðarráðsfundur Byggiðnar leggur áherslu á að orðum þarf að fylgja framkvæmd. Við skorum á þá aðila sem nú reyna að mynda ríkisstjórn að sýna í verki og hafa sem eitt af forgangsmálum sinna áherslumála í stjórnarmyndunarviðræðum að styðja við bakið á iðn- og verkmenntun. Það þarf að stórauka fé til verkmenntaskóla í landinu. Það þarf að kynna mun betur iðn- og verknám í grunnskólum og sú mynd sem gefin er af iðnaðarmannastarfi þarf að vera eftirsóknarverð.  Það gerist ekki eingöngu með auknu fé til skóla heldur í umgjörð starfa okkar. Það þarf að tryggja að iðnlöggjöfin sé virt þannig að það séu iðnaðarmenn sem vinni iðnaðarmannavinnu. Það þarf að hyggja að öryggi og aðbúnaði starfsmanna á vinnustöðum og það þarf að tryggja atvinnuöryggi iðnaðarmanna með langtímasjónarmiðum. Til að ungt fólk vilji læra iðn- og verkmenntun þurfa þessir hlutir að vera í lagi. Til að núverandi iðnaðarmenn vilji starfa í iðngreinum þurfa þessir þættir að vera í lagi og til að sá mikli fjöldi iðnaðarmanna sem búa erlendis vilji starfa hér á landi þurfa þessir þættir að vera í lagi."

Við biðjum um vandaða umræðu um okkar verðmætustu eign

Innan fárra daga göngum við Íslendingar til alþingiskosninga.  Fulltrúar stjórnmálaflokka fara út um víðan  völl og kynna stefnumál sín og tilboð til væntanlegra  kjósenda.  Loforðin spanna vítt svið en þó má segja að kjarninn í umræðunni sé ekki svo ólíkur. Húsnæðis- og heilbrigðismál  og tekjutengingar almannatrygginga eru mest áberandi.
Nokkur umræða hefur verið um lífeyrissjóðina okkar og vilja sumir stjórnmálamenn nýta þá til að koma sínum stefnumálum í framkvæmd. Í því sambandi er rétt að ítreka að lífeyrissjóðir eru í eigu almennings en ekki ríkisins og því æskilegt að stjórnmálamenn umgangist þá með þeim hætti en ekki eins og þeir séu  einhver skiptimynt sem þeir geti ráðstafað að eigin vild.

Það eru nokkur atriði í umræðunni sem ástæða er til að stoppa við og skoða betur.

Talað er um svissnesku leiðina í húsnæðismálum en hún felur í sér að hægt er að taka út áunnin réttindi sem lán og/eða veðsetja lífeyrisréttindi til að fjármagna húsnæðiskaup.

Í fyrsta lagi er rétt að hafa í huga að í Sviss tryggja almannatryggingar öllum lífeyrisþegum góða fjárhagslega afkomu  og kemur lífeyrir frá lífeyrissjóðum sem viðbót og er að mestu leyti í formi séreignar. Ekki ósvipað og við höfum verið að gera, það er að heimila fólki að nýta séreignarsparnað til íbúðarkaupa. Það sem er frábrugðið er að í Sviss eru reglur um úttekt á séreign til íbúðakaupa háðar miklu strangari reglum en á Íslandi.

Tillögur sem nú hafa verið settar fram af hálfu Framsóknarflokksins ganga miklu lengra að því leyti að þær heimila úttekt á samtryggingunni. Þær gera ráð fyrir að hægt sé að fá vaxtalaust lán út á áunnin réttindi  sem verði endurgreitt þegar húsnæðið verður selt og  með því  haldist réttindin óbreytt.  Í Sviss eru réttindin tekin niður þegar lán er veitt enda væri annað ósanngjarnt gagnvart öðrum sjóðsfélögum.

Á Íslandi er aldurstengt réttindakerfi sem felur  í sér að réttindi á fyrri hluta starfsævinnar eru verðmætari, enda eru þau  iðgjöld mun lengur í ávöxtun.  Ef einstaklingur er 20 ár á lífeyri má gera ráð fyrir að iðgjaldið fjármagni fyrstu 10 árin en afgangurinn fjármagnar ávöxtun iðgjaldsins.  Vaxtalaust lán  sem tekið er á fyrrihluta starfsævinnar  og endurgreitt á seinni hluta hennar geta því aldrei skapað sömu réttindi nema að gengið sé á rétt annarra sjóðsfélaga.

Mikilvægt er að hafa í huga að réttindi í lífeyrissjóðum eru ekki aðfararhæf og eru því ósnertanleg þrátt fyrir t.d. gjaldþrot einstaklinga.  Þetta skipti mjög miklu máli fyrir fjölda einstaklinga og fjölskyldur í hruninu en þegar uppi var staðið var lífeyriseignin  kannski eina eignin sem eftir stóð.  Það er gríðarlegt hagsmunamál að á þessu verði engin breyting.

 Margt fleira væri  hægt að nefna  um þessa tillögu t.d. áhrif hennar á örorkulífeyri.

Annar stjórnmálaflokkur vill þvinga lífeyrissjóði til að fjárfesta í nýsköpun. Staðreyndin er sú að íslenskir lífeyrissjóðir hafa áratuga reynslu af því  að fjárfesta í nýsköpun en þeir hafa valið að fara í gegnum sérhæfða sjóði m.a. til að dreifa áhættu. Í fjárfestingastefnu  lífeyrissjóða er hægt að sjá að þeir hafa afmarkað ákveðið hlutfall sem á að fara í þessa tegund fjárfestinga.

3,5% ávöxtunarviðmið hefur enn og aftur komið til umfjöllunar og því haldið fram að lífeyrissjóðirnir séu bundnir af því og megi ekki fjárfesta í fjármálagjörningum sem bera lægri vexti en 3,5%. Þarna er  á ferðinni  mikill misskilningur og stundum held ég að stjórnmálamenn viti betur, en það hentar þeim að halda þessari staðreyndarvillu fram.

Það rétta er að lífeyrissjóðir eru ekki bundnir af 3,5% ávöxtun þegar teknar eru ákvarðanir um fjárfestingar. Ef svo væri hefðu þeir ekki keypt ríkispappíra í mörg ár.  3,5%  eru eingöngu notuð við tryggingafræðilegt uppgjör þ.e. þegar verið er að meta virði framtíðariðgjalda.

Tökum dæmi.

Á hverju ári ber lífeyrissjóði að  láta fara fram mat á eignum og skuldbindingum. Við matið er horft til eigna  sjóðsins og skuldbindinga eins og þær eru hverju sinni. Þegar framtíðin er metin er horft til þess hvað iðgjöld þeirra sjóðsfélaga sem eru í sjóðnum á þeim tíma verði fram að 67 ára aldri. Til að finna út hvers virði ókomin iðgjöld eru og hvaða réttindi þau skapi er gert ráð fyrir að ávöxtun væntra iðgjalda í framtíðinni verði 3,5%.   Þarna er eingöngu um spá að ræða en bindur lífeyrissjóðinn  ekki þegar kemur að ákvörðun um fjárfestingar.

Látum þetta duga að sinni en göngum með virðingu um  dýrmætustu eign fólksins.

Iðnfélögin í sameiginlegt húsnæði

Samiðn ásamt Byggiðn og Félagi iðn- og tæknigreina undirrituðu í morgun samning um kaup á hlut Birtu lífeyrissjóðs í Stórhöfða 31 þar sem Rafiðnaðarsambandið, Matvís og Grafía eru til húsa.  Með kaupunum sameinast undir einu þaki sex félög og sambönd iðnaðarmanna sem mun styrkja þau og efla til frekari þjónustu við sína félagsmenn.  
Gert er ráð fyrir að um ár taki að gera hið nýja húsnæði klárt og er stefnt að flutningum haustið 2018.

Samþykkt miðstjórnar Samiðnar um erlent vinnuafl

"Vont er þeirra ranglæti en verra er þeirra réttlæti" sagði Jón Hreggviðsson í Íslandsklukkunni.

Miklar breytingar eru að verða á íslenskum vinnumarkaði, hann hefur þróast frá því að vera einangraður innanlandsmarkaður í alþjóðlegan vinnumarkað þar sem fólk af erlendum uppruna kemur til starfa í lengri eða skemmri tíma.
Í þessu felast mikil tækifæri fyrir íslenskt atvinnulíf ef vel er á haldið og lög og kjarasamningar virtir. EES samningurinn kveður skýrt á um að ekki megi mismuna fóki eftir þjóðerni þ.e. það má ekki greiða erlendu vinnuafli lægri laun en íslensku fyrir sambærilegt störf.
Raunveruleikinn er sá að það viðgengst allt of víða að erlendu vinnuafli séu greidd lágmarkslaun samkvæmt kjarasamningum sem eru langt undir þeim launum sem almennt er verið að greiða á íslenskum vinnumarkaði. Einnig er þekkt að það er verið að greiða erlendum iðnaðarmönnum lágmarkslaun ófaglærðra. Mörg dæmi eru um að atvinnurekendur taki stóran hluta þessara lágu launa til baka í gegnum húsnæðiskostnað og bílapeninga.
Að svíkja starfsfólk um kjarasamningsbundin réttindi er eins og hver annar skipulagður þjófnaður. Það alvarlega er að samfélagið bregst ekki við þess konar þjófnaði með sambærilegum hætti eins og t.d. fjárdrætti eða þjófnaði úr verslunum. Þetta minnir á meðferðina á Jóni Hreggviðssyni sem var dæmdur til betrunarvistar fyrir að stela snæri á meðan aðal bófarnir gengu lausir og nutu lífsins.
Það er að grafa um sig alvarleg meinsemd í okkar góða samfélagi þar sem við lokum augunum fyrir slæmri meðferð á erlendu vinnuafli. Slíkt má aldrei gerast þegar um er að ræða grundvallarréttindi fólks.
Miðstjórn Samiðnar kallar eftir sameiginlegu átaki aðila vinnumarkaðarins og stjórnvalda gegn þessari óheillaþróun og tryggt verði að þeir sem ekki virða almenn réttindi erlendra starfsmanna verði látnir sæta ábyrgð.
Erlent vinnuafl er auðlind sem við eigum að umgangast af fullri virðingu.

Ísafirði 13. september 2017

Samið um lífeyrisaukann við ríkið og Reykjavíkurborg

Í gær var undirritaður samningur við ríkið og Reykjavíkurborg um lífeyrisauka sambærilegan og opinberir starfsmenn fengu með breytingunum um síðustu áramót. Í þessari umferð náðist ekki samkomulag við Samband íslenskra sveitarfélaga en stéttarfélögin hafa verið með sambærilegar kröfur gangvart þeim.

En hvers vegna var þessi samningur gerður og til hverra nær hann?
Í fyrsta lagi nær samningurinn til starfsmanna ríkisins og Reykjavíkurborgar sem taka laun og réttindi samkvæmt kjarasamningum stéttarfélaga og sambanda innan ASÍ.
Í öðru lagi er samningurinn til að jafna stöðu þessara starfsmanna ríkis og borgar við aðra starfsmenn s.s. þá sem taka laun samkvæmt kjarasamningum opinberu stéttarfélaganna.

En hvað er lífeyrisauki?
Lífeyrisauki er viðbótargreiðsla við hefðbundið iðgjald í lífeyrissjóð sem mun fara lækkandi með árunum en er 5,85% við undirritun samningsins. Lífeyrisaukinn tekur til þeirra starfsmanna ríkisins og Reykjavíkurborgar sem voru á launum síðustu 12 mánuðina fyrir 1. júní 2017 og eiga a.m.k. þriggja mánaða uppsagnarfrest. Þeir halda rétti til lífeyrisauka á meðan þeir starfa hjá áðurnefndum launagreiðendum.

Í samingnum er svo kveðið nánar á um rétt starfsmanna til lífeyrisaukans.
Með samingnum hefur náðst mikilvægur áfangi í að jafna lífeyrisréttindi starfsmanna ríkisins og Reykjavíkurborgar án tillits til hvaða kjarasamnings þeir fylgja.

Sjá samninginn.