Fréttir

Iðnfélögin í sameiginlegt húsnæði

Samiðn ásamt Byggiðn og Félagi iðn- og tæknigreina undirrituðu í morgun samning um kaup á hlut Birtu lífeyrissjóðs í Stórhöfða 31 þar sem Rafiðnaðarsambandið, Matvís og Grafía eru til húsa.  Með kaupunum sameinast undir einu þaki sex félög og sambönd iðnaðarmanna sem mun styrkja þau og efla til frekari þjónustu við sína félagsmenn.  
Gert er ráð fyrir að um ár taki að gera hið nýja húsnæði klárt og er stefnt að flutningum haustið 2018.

Samþykkt miðstjórnar Samiðnar um erlent vinnuafl

"Vont er þeirra ranglæti en verra er þeirra réttlæti" sagði Jón Hreggviðsson í Íslandsklukkunni.

Miklar breytingar eru að verða á íslenskum vinnumarkaði, hann hefur þróast frá því að vera einangraður innanlandsmarkaður í alþjóðlegan vinnumarkað þar sem fólk af erlendum uppruna kemur til starfa í lengri eða skemmri tíma.
Í þessu felast mikil tækifæri fyrir íslenskt atvinnulíf ef vel er á haldið og lög og kjarasamningar virtir. EES samningurinn kveður skýrt á um að ekki megi mismuna fóki eftir þjóðerni þ.e. það má ekki greiða erlendu vinnuafli lægri laun en íslensku fyrir sambærilegt störf.
Raunveruleikinn er sá að það viðgengst allt of víða að erlendu vinnuafli séu greidd lágmarkslaun samkvæmt kjarasamningum sem eru langt undir þeim launum sem almennt er verið að greiða á íslenskum vinnumarkaði. Einnig er þekkt að það er verið að greiða erlendum iðnaðarmönnum lágmarkslaun ófaglærðra. Mörg dæmi eru um að atvinnurekendur taki stóran hluta þessara lágu launa til baka í gegnum húsnæðiskostnað og bílapeninga.
Að svíkja starfsfólk um kjarasamningsbundin réttindi er eins og hver annar skipulagður þjófnaður. Það alvarlega er að samfélagið bregst ekki við þess konar þjófnaði með sambærilegum hætti eins og t.d. fjárdrætti eða þjófnaði úr verslunum. Þetta minnir á meðferðina á Jóni Hreggviðssyni sem var dæmdur til betrunarvistar fyrir að stela snæri á meðan aðal bófarnir gengu lausir og nutu lífsins.
Það er að grafa um sig alvarleg meinsemd í okkar góða samfélagi þar sem við lokum augunum fyrir slæmri meðferð á erlendu vinnuafli. Slíkt má aldrei gerast þegar um er að ræða grundvallarréttindi fólks.
Miðstjórn Samiðnar kallar eftir sameiginlegu átaki aðila vinnumarkaðarins og stjórnvalda gegn þessari óheillaþróun og tryggt verði að þeir sem ekki virða almenn réttindi erlendra starfsmanna verði látnir sæta ábyrgð.
Erlent vinnuafl er auðlind sem við eigum að umgangast af fullri virðingu.

Ísafirði 13. september 2017

Samið um lífeyrisaukann við ríkið og Reykjavíkurborg

Í gær var undirritaður samningur við ríkið og Reykjavíkurborg um lífeyrisauka sambærilegan og opinberir starfsmenn fengu með breytingunum um síðustu áramót. Í þessari umferð náðist ekki samkomulag við Samband íslenskra sveitarfélaga en stéttarfélögin hafa verið með sambærilegar kröfur gangvart þeim.

En hvers vegna var þessi samningur gerður og til hverra nær hann?
Í fyrsta lagi nær samningurinn til starfsmanna ríkisins og Reykjavíkurborgar sem taka laun og réttindi samkvæmt kjarasamningum stéttarfélaga og sambanda innan ASÍ.
Í öðru lagi er samningurinn til að jafna stöðu þessara starfsmanna ríkis og borgar við aðra starfsmenn s.s. þá sem taka laun samkvæmt kjarasamningum opinberu stéttarfélaganna.

En hvað er lífeyrisauki?
Lífeyrisauki er viðbótargreiðsla við hefðbundið iðgjald í lífeyrissjóð sem mun fara lækkandi með árunum en er 5,85% við undirritun samningsins. Lífeyrisaukinn tekur til þeirra starfsmanna ríkisins og Reykjavíkurborgar sem voru á launum síðustu 12 mánuðina fyrir 1. júní 2017 og eiga a.m.k. þriggja mánaða uppsagnarfrest. Þeir halda rétti til lífeyrisauka á meðan þeir starfa hjá áðurnefndum launagreiðendum.

Í samingnum er svo kveðið nánar á um rétt starfsmanna til lífeyrisaukans.
Með samingnum hefur náðst mikilvægur áfangi í að jafna lífeyrisréttindi starfsmanna ríkisins og Reykjavíkurborgar án tillits til hvaða kjarasamnings þeir fylgja.

Sjá samninginn.

Miðstjórn á Vestfjörðum

Miðstjórn Samiðnar hélt haustfund sinn á Ísafirði 13. og 14. sept. þar sem farið var yfir helstu verkefni vetrarins og spáð í spilin með heimamönnum í VerkVest og Félagi járniðnaðarmanna.  Miðstjórn heimsótti Bolungarvík og Vestfirska verktaka, auk þess sem tekið var hús á sveitarstjóra Súðavíkur Pétri P. Markan, sem jafnframt er formaður fjórðungssambands Vestfjarða og fékk yfirlit yfir helstu áskoranir og tækifæri Vestfirðinga.  

Fundur fólksins 8. og 9. september Hofi Akureyri

Samiðn mun leggja sitt af mörkum á FUNDI FÓLKSINS sem er er lífleg tveggja daga lýðræðishátíð þar sem saman kemur fólk úr ólíkum áttum til að ræða fjölbreytt málefni.  Á myndinni má sjá fulltrúa Samiðnar Sighvat og Evu sem koma frá Félagi málmiðnaðarmanna á Akureyri.

Meðal efnisflokka verða: 
Af hverju borga ég í stéttarfélög?  
Ungt fólk og stéttarfélög.
Hver er staðan í stefnumótun stjórnvalda í málefnum eldra fólks?
Staða íslenskra fjölmiðla?
Verður framtíðarkennarinn app?  
Fátækt er ekki aumingjaskapur.

Upplýsingar, samtal og gagnkvæm virðing eru undirstöður lýðræðisins og er eitt af markmiðum hátíðarinnar að hvetja til uppbyggjandi samtals.  Félagasamtök fá tækifæri til að koma málefnum sínum á framfæri, upplýsa almenning og ráðamenn um sín baráttumál og leita eftir stuðningi. Með því að hlusta og ræða saman í eigin persónu aukum við traust og skilning milli ólíkra aðila samfélagsins.

Sjá nánar.

Er verið að leggja niður íslenskt velferðarkerfi?!

Norræn velferðakerfi byggjast á því að við tökum sameiginlega ábyrgð á hvert öðru. Við förum margvíslegar leiðir að þessu markmiði. Við erum með heilbrigðiskerfi, menntakerfi og almannatryggingar, barnabætur fyrir barnafólk og húsnæðisstuðning. Við semjum um réttindi fólks í gegnum kjarasamninga s.s. um lífeyrisréttindi og greiðslu sjúkradagpeninga svo eitthvað sé nefnt. Réttindi sem koma í gegnum ríki og sveitarfélög eru háð fjárveitingum hverju sinni og pólitískum vilja þeirra sem eru við stjórnvölin.
Sé horft yfir tuttugu ára tímabil má segja að styrkur velferðarkerfisins hafi verið að gefa eftir, hvort sem horft er til jöfnunar í skattkerfi, vaxta- eða barnabótum.  Allir stjórnmálaflokkar sem starfað hafa yfir lengra tíma og átt hafa aðild að ríkisstjórnum bera á þessu ábyrgð.
Stjórnvöld hafa beitt eignar- og tekjutengingum með þeim hætti að þessi stuðningskerfi nýtast eingöngu þeim allra lægst launuðu og svo er komið að lágmarkslaun skerða réttindi til bóta, þrátt fyri að flestir séu sammála um að engin geti lifað á þeim launum.
En hvernig stendur á að íslenskt velferðarkerfi hefur gefið svona mikið eftir?  Hver hefur tekið þessar ákvarðanir?  Hefur einhver stigið fram í kosningum og sagt það með beinum orðum að það eigi að leggja niður almennan stuðing til jöfnunar lífskjara á Íslandi?
Svarið er, það hefur engin haft kjark eða þrek til að stíga fram og segja þetta með berum orðum, heldur valið þá leið að einfaldlega framkvæma þessar breytingar á löngum tíma svo við skynjum þær ekki fyrr en þær bitna á okkur sjálfum.
Þessi þróun hefur átt sér stað víða í okkar samfélagi sem hefur verið breytt í grunvallaratriðum án þess að þjóðin hafi verið spurð hvort hún vilji fara í þessa vegferð.
Það er orðið aðkallandi að þjóðin stígi fram og segi við stjórnmálamenn, hingað og ekki lengra.  Íslendingar vilja velferðarkerfi að Norrænni fyrirmynd en ef framheldur sem horfir verður tæpast hægt að tala um að á Íslandi sé Norrænt velferðarkerfi.