Fréttir

Mætum svikum af hörku

Umfangsmikil og skipulögð svik fyrirtækja á erlendu starfsfólki um réttindi, sem bundin eru í lögum og kjarasamningum, er þjóðarskömm sem hefur viðgengist alltof lengi.

Miðstjórn Samiðnar fagnar þeirri umræðu sem átt hefur sér stað í kjölfar áhrifamikillar umfjöllunar fréttaþáttarins Kveiks um stöðu erlends vinnuafls á Íslandi. Í þættinum var það staðfest sem alþjóð hefur vitað að það er mikill misbrestur á að erlent starfsfólk njóti þeirra almennu mannréttinda sem íslensk lög og kjarasamningar eiga að tryggja því.

Íslensk stjórnvöld hafa kosið að horfa framhjá þessu þjóðfélagsmeini. Þau láta nú eins og ástandið komi þeim á óvart þrátt fyrir mikla og áralanga umfjöllun, m.a. Samiðnar, um alvarleg brot á erlendu starfsfólki.

Hjáseta stjórnvalda er ein stærsta ástæða þess að svartir sauðir úr röðum atvinnurekenda komast upp með það árum saman að brjóta lög, kjarasamninga og fela slóð sína með kennitöluflakki.

Miðstjórnin vill trúa því að það sé einlægur vilji stjórnvalda að breyta núverandi ástandi. Þann vilja þurfa stjórnvöld að sýna í verki. Grípa verður til róttækra aðgerða.

Vinnumarkaðsstofnanir sem hafa það hlutverk að tryggja framgang laga og kjarasamninga þurfa að hafa getu og vilja til að bregðast við af hörku þegar fyrirtæki brjóta á starfsfólki.

Núverandi skipulag þar sem margar vinnumarkaðsstofnanir hafa afmarkað hlutverk er úrelt fyrirkomulag. Dreifð ábyrgð skilar afleitum árangri. Breyttur vinnumarkaður kallar á að unnið sé hratt, málum sé fylgt eftir og að það hafi alvarlegar afleiðingar að gerast brotlegur.

Stjórnvöld þurfa að sameina núverandi vinnumarkaðsstofnanir í eina stofnun sem hefur eftirlit með öllum þáttum vinnustaðarins, bæði aðbúnaði og starfskjörum, í samstarfi við stéttar félögin.

Tryggja þarf ríkar og skilvirkar valdheimildir til að stöðva starfsemi fyrirtækja og beita þau sektum ef þau verða uppvís að því að stela af launafólki og svíkja það um umsamin réttindi.

Miðstjórn Samiðnar skorar á ríkisstjórnina að breyta orðum í athafnir. Miðstjórnin lýsir einnig yfir fullum samstarfsvilja við að koma á raunverulegum úrbótum.

Fundir miðstjórnar um endurnýjun kjarasamninga

Miðstjórn Samiðnar hefur í dag fundarferð til undirbúnings endurnýjunar kjarasamninganna.

Ferðin hefst á Egilsstöðum þar sem fundað verður með stjórnum og félögum í iðnaðarmannadeild Afls-starfsgreinafélags og Sverri Albertssyni framkvæmdastjóra Afls sem boðið hefur sig fram til forseta ASÍ.  Af Austurlandi verður haldið norður um land þar sem félagar á Vopnafirði, Þórshöfn, Húsavík, Akureyri, Sauðárkróki og Blönduósi verða heimsóttir.  Á suðurleið verður svo tekið samtal við félagsmenn í Borgarnesi en þegar hefur verið fundað með Verkalýðsfélagi Akraness.

Mikilvægt er að miðstjórn eigi uppbyggilegt samtal við forsvarsmenn og ekki síður félagsmenn aðildarfélaganna varðandi áhersluatriði og vinnulag og fundirnir því mikilvægt innlegg við myndun kröfugerðar fyrir komandi viðræður.

Stjórnvöld hafa rofið sáttina

Nú eru að hefjast umræða um endurnýjun kjarasamninga en samningar losna á almennum vinnumarkaði 31. desember. Ekki er deilt um að gildandi kjarasamningar hafa skilað miklum árangri sem birtist í vaxandi kaupmætti flestra. Það sem vekur mesta athygli er hvað kaupmáttur almennings hefur vaxið misjafnt. Þrátt fyrir að lögð hafi verið áhersla á að hækka lægstu launin hefur kaupmáttur þess hóps aukist mun minna en þeirra sem eru hærra launaðir.

Kaupmáttur lægstu launa jókst um 6% milli áranna 2016 og17 en að teknu tilliti til skattbyrði lægstu launa jókst kaupmáttur ráðstöfunartekna þessa hóps einungis um 1,5%.
Megin ástæðan er minni stuðningur úr vaxtabótakerfinu og misræmi í þróun persónuafsláttar og launaþróunar. Þessu er hins vegar öfugt farið hjá tekjuhæsta hópnum.
Kaupmáttur launa við efri fjórðungsmörk jókst um 5% á sama tíma og að teknu tilliti til heildarskattbyrði jókst kaupmáttur ráðstöfunartekna um 6%.

Það er ótrúleg staðreynd að þrátt fyrir almenna sátt um að þeir sem lægstu launin hafa ættu að hafa ákveðin forgang skuli þetta vera niðurstaðan og ástæðan er að stjórnvöld sigldu í öfuga átt við megin markmið kjarasamninganna.

Mikil gangrýni er á launahækkanir alþingismanna, æðstu embættismanna ríkisins og stjórnendur fyrirtækja. Launahækkanir til þessara hópa hafa ekki verið í takt við þann launaramma sem mótaður var við gerð síðustu kjarasamninga.

Hér hafa verið nefnd tvö mál sem eru aðal ágreiningsmálin á vinnumarkaði og valda mestum óróa og ágreiningi. Í báðum þessum málum eru stjórnvöld í aðalhlutverki.

Flestir vilja búa við efnahagslegt öryggi, stöðugleika og geta horft til framtíðar með nokkurri vissu um að geta staðið við sínar skuldbindingar.

Gildandi kjarasamningar voru hugsaðir sem undirstaða fyrir nýja tíma þar sem ríkti meiri sátt um skiptingu gæðanna. Reynslan er döpur og það sem veldur mestum vonbrigðum er að stjórnvöld virðast ekki hafa vilja til að spila með.

Þeir erfiðleikar sem hugsanlega eru að skapast í tengslum við endurnýjun kjarasamninga skrifast því alfarið á stjórnvöld.

Málþing iðnfélaganna 7. september - Eru róbótar að taka yfir störfin eða skapa þeir tækifæri?

Í tengslum við Lýsu - rokkhátíð samtalsins standa iðnfélögin fyrir opinni málstofu um áhrif fjórðu iðnbyltingarinnar á störf iðnaðarmannsins.  Frummælendur munu velta upp spurningum eins og hvort róbótar séu að taka yfir störfin eða hvort þeir munu breyta þeim og gera áhugaverðari?  Að loknum framsögum verða pallborðsumræður með fulltrúum atvinnulífsins, verkmenntaskólum og endurmenntunarstofnunum þar sem staða mála er metin og rýnt í framtíðina.

Málstofan verður haldin föstudaginn 7. september kl. 10:45 í Hofi á Akureyri.

Golfmót iðnfélagana 1. september á Akureyri

Laugardaginn 1. september verður golfmót iðnfélaganna haldið á Jaðarsvelli á Akureyri.  Þetta er í annað sinn sem félögin halda sameiginlegt golfmót, en hið fyrra var haldið á Leirunni í byrjun júní og tókst mjög vel. 

Vegleg verðlaun verða í boði en skráning er hjá Steindóri Ragnarssyni hjá GA This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.  Mótsgjald er 5.000 kr. og innifalið í því er teiggjöf, spil á vellinum, súpa í hádeginu kl. 12.00 og matur að loknu spili.

Mæting er kl. 12 og ræst út kl. 13.

Það er hófsemi að semja um 56% launahækkun - en það á bara við um suma

Fyrir nokkrum misserum voru gerðar þær breytingar á Kjararáði að þeim sem féllu undir úrskurð ráðsins var fækkað. Við það tækifæri beindi fjármála- og efnahagsráðuneytið því til stjórna ríkisfyrirtækja að gæta hófs við ákvörðun um laun forstjóra fyrirtækjanna. Að gæta hófs er huglægur mælikvarði og spurningin hvert er viðmiðið þegar lagt er mat á hvort ákvörðunin er hófsöm. Bankastjórn Landsbankans hækkaði laun bankastjórans um 1,2 milljónir á mánuði eða um 56%. Sambærilega hækkun hafði forstjóri Landsvirkjunar fengið.
Formaður bankaráðs Landsbankans leggur áherslu á að við ákvörðun um 56% launahækkun bankastjórans hafi verið gætt hófsemi. Af því má draga þá ályktun að formaðurinn telji ákvörðun bankaráðsins í anda tilmæla fjármála- og efnahagsráðuneytisins um að gæta hófs við ákvörðun um laun bankastjórans.
Víða í samfélaginu er tekist á um launahækkanir og eftir áramótin losnar megnið af kjarasamningum á almennum og opinberum vinnumarkaði.
Ríkisstjórnin og forsvarmenn atvinnulífsins leggja mikla áherslu á að gætt verði hófsemi og horft verði til þess að launabreytingar raski ekki efnahagslegum stöðuleika.
Við sem höfum lagt mikla áherslu á efnahagslegan stöðugleika og stigvaxandi kaupmátt erum nú komin út í horn. Þegar 56% launahækkun rúmast innan launastefnu fjármála- og efnahagsráðuneytisins og telst hófleg, getum við tæplega lagt upp með eitthvað minna. Að leggja upp með 4,5% til 3% launahækkun eins og við höfum samið um í síðustu kjarasamningum, hljómar eins og hvert annað bull og er ekki í neinum takti við raunveruleikann.
Launabreytingar forstjóra ríkisfyrirtækja eru að ganga endanlega frá efnahagslegum stöðugleika og mikilvægt að hafa það á hreinu að ábyrgðin er hjá ríkisstjórninni. Það er engin leið að verja þann mismun sem fellst í hófsemi fjármála- og efnahagsráðuneytisins því fyrir liggur að sú hófsemi á bara við suma en ekki alla.