Fréttir

Samninganefnd boðuð til fundar

Samninganefnd Samiðnar hefur verið boðuð til fundar nk. mánudag þar sem farið verður yfir niðurstöður forsendunefndar ASÍ og SA og lagt mat á næstu skref.

Ríkisstjórnin dragi úr tekjutengingum almannatrygginga

Miðstjón Samiðnar samþykkti á fundi sínum 10. febrúar sl. ályktun þar sem skorað er á ríkisstjónina að draga verulega úr tekjutengingum í almannatryggingakerfinu.  Breytingar á lögum um almannatryggingar sem samþykktar voru á síðasta ári hafa komið mjög illa við marga lífeyrisþega vegna mikilla skerðinga og minnkað hvata þeirra til atvinnuþátttöku.  Skorað er á ríkisstjórnina að gera nauðsynlegar breytingar svo samspil almannatrygginga við aðrar tekjur verði með þeim hætti að fólk njóti eðlilegs ávinnings af því að greiða í lífeyrissjóð og afla sér atvinnutekna samhliða töku lífeyris.

Sjá ályktunina í heild.

Miðstjórn kallar eftir þjóðarátaki í húsnæðismálum og ítrekar mótmæli við niðurstöðu kjararáðs

Miðstjórn Samiðnar samþykkti á fundi sínum 10.febrúar sl. að hvetja ríki, sveitarfélög og vinnumarkaðinn til þjóðarátaks í uppbyggingu íbúðarhúsnæðis en þörf er á 3-4000 nýjum íbúðum til að slá á eftirspurnina sem leitt hefur til óbærilegrar hækkunar íbúðaverðs og húsaleigu.

Jafnframt áréttaði miðstjórnin fyrri ályktun, þar sem niðurstöðu kjararáðs um hækkun launa alþingismanna og æðstu embættismanna er mótmælt, og skorar á Alþingi að taka þessa ákvörðun til endurskoðunar og færa til samræmis við rammasamkomulagið sem tengt er við SALEK.  Miðstjórnin minnir á að niðurstaða kjararáðs verður eitt af þeim atriðum sem koma til skoðunar þegar mat verður lagt á hvort forsendur kjarasamninganna hafa staðist.  

Sjá ályktun um húsnæðismál.

Sjá ályktun um niðurstöðu kjararáðs.

Markaðurinn getur ekki einn og sér leyst húsnæðisskortinn

Skortur á húsnæði á höfuðborgarsvæðinu er alvarlegur samfélagslegur vandi sem verður að takast á við og finna lausnir á. Sú mikla eftirspurn sem er til staðar er tilkomin m.a. vegna þess að lítið sem ekkert var byrjað á nýjum íbúðum á tímabilinu 2008 til 2014 og svo hins vegar að í vaxandi mæli er verið að leigja almennt íbúðarhúsnæði til erlendra ferðamanna. Miðað við spár um fjölda ferðamanna á næstu árum eru ekki líkur á að dragi úr eftirspurninni né að framleiðslugeta markaðarins fylli upp í gatið sem varð til 2008-2014.  Sé þetta rétt er fátt sem bendir til að við sjáum fram á jafnvægi á húsnæðismarkaði á næstu árum.

Almennt er horft til þess að húsnæðiskostnaður sé á bilinu 20 til 25% af ráðstöfunartekjum fjölskyldna. Ljóst er miðað  við þær fréttir sem berast af t.d leiguverði  þá búa fjölmargar fjölskyldur   við miklu hærra hlutfall.

Til að bregðast við þessum mikla samfélagslega vanda verða bæði sveitarfélög og ríki að koma  að borðinu með öflugum hætti. Sveitarfélögin verða að auka lóðaframboð ekki síst á svæðum þar sem hægt er að byggja hraðar og þar sem hægt er að beita meiri hagkvæmni heldur en á afmörkuðum þéttingarsvæðum. Huga þarf að verðlagningu lóða því eins og ástaðið er í dag þá hefur skortur á  lóðum hækkað markaðsverð upp fyrir öll eðlileg mörk og er verðlagningin  knúin  áfram af takmörkuðu lóðaframboði.

Jafnframt því að stórauka þarf  lóðaframboð þarf ríkið að  stíga fram með áætlun um uppbyggingu íbúðarhúsnæðis til að mæta eftirspurninni með skýrum  tímamörkum. Bæta þarf alla ferla og stytta tímann frá því að ákvörðun er tekin um framkvæmdir þar til hægt er að hefja framkvæmdir. Stórauka þarf fjárstyrki til sameignarfélaga sem byggja og leigja húsnæði og eru ekki  rekin í hagnaðarskyni.

Þessi mikli samfélagslegi vandi sem húsnæðisskorturinn er verður ekki leystur eingöngu með markaðslausnum. Til þess að við sjáum einhverjar breytingar á næstu árum verður að ráðast  í  þjóðarátak sem hefur það að markmiði að jafnvægi verði komið á húsnæðismarkaðinn innan 5 ára.

Félagsleg undirboð eru glæpur

Mikill uppgangur er í mannvirkjagerð og almennri byggingastarfsemi. Til að mæta eftirspurn eftir starfsfólki hefur verið fluttur inn mikill fjöldi erlendra starfsmanna. Samkvæmt reglum sem gilda meðal EES landanna eiga erlendir starfsmenn að njóta sambærilegra starfskjara og innlendir starfsmenn.
Á Íslandi gildir sú almenna regla að kjarasamningar gilda sem lágmarkréttindi fyrir alla sem starfa á samningssviði viðkomandi kjarasamnings.
Þetta þýðir t.d. að allir byggingarmenn sem eru með viðurkennd starfsréttindi frá heimalandi sínu eiga að njóta allra þeirra réttinda sem kjarasamningur tryggir.

Því miður er framkvæmdin önnur, mörg fyrirtæki sem eru með erlenda starfsmenn í sinni þjónustu greiða starfsmönnum langt undir umsömdum kauptöxtum iðnaðarmanna og stunda þar með félagsleg undirboð.
Í mörgum tilfellum getur verið um verulegar upphæðir að ræða sem hafðar eru af starfsmönnum með þessum hætti.
Að stunda félagsleg undirboð er mjög alvarlegt og flokkast undir skipulagða glæpastarfssemi og á að meðhöndlast sem slíkt. Að greiða starfsfólki laun sem eru langt undir því sem starfsmaðurinn á rétt á er engu minni þjófnaður en að taka ófrjálsri hendi fjármuni annarra.
Það er alvarlegt þjóðfélagslegt mein hvernig við sem almennir borgarar horfum fram hjá þessu og látum eins og við vitum ekki hvernig oft á tíðum er farið með erlent starfsfólk hér á landi.

Tíminn tikkar á Alþingi

Í næstu viku kemur Alþingi saman á ný eftir jólafrí. Mörg mikilvæg mál bíða þingsins en eitt þeirra hefur þó algjöra sérstöðu en það er úrskurður kjaradóms um laun alþingismanna og æðstu embættismanna. Niðurstaða dómsins var ekki í neinu samræmi við þær launahækkanir sem almenningur hefur verið að fá og sem lagðar hafa verið til grundvallar í SALEK samkomulaginu. En SALEK samkomulagið byggir á því að samið sé um launaramma sem samræmis stöðu efnahagslífsins. Forsendan fyrir að sátt um slíkan ramma er að ekki séu mikil frávik frá honum og því geti almenningur treyst.
Það voru því mikil vonbrigði að opinber kjaradómur skyldi rjúfa ramman með svo afgerandi hætti sem raun ber vitni.
Samiðn mótmælti dómum og skoraði á Alþingi að fella dóminn úr gildi, ef ekki þá yrði hann lagður til grundvallar við endurskoðun kjarasamninga í febrúar n.k.
Mat endurskoðunarnefndar ASÍ og SA á að liggja fyrir eigi síðar en í lok febrúar n.k. Alþingi hefur en möguleika á að taka málið upp og fella dóminn úr gildi áður en endurskoðunin fer fram. Breyti Alþingi ekki dómnum ber að líta svo á að Alþingi sé sammála launaþegahreyfingunni um að sambærilegar hækkanir eigi líka að koma til annarra launamanna.