Fréttir

Árið 2018 er ár tækifæranna

Árið 2017 sem er brátt á enda hefur verið gott á heildina litið. Kaupmáttur launa hefur sjaldan verið meiri og verðlag haldist stöðugt. Batnandi staða almennings hefur birst m.a í aukinni neyslu, fleiri hafa endurnýjað bílinn og mikil aukning er í utanlandsferðum. Þetta hefur gerst hraðar en almennt var reiknað með eftir mikla niðursveiflu í kjölfar hrunsins. Ytri aðstæður hafa verið okkur hagstæðar sem hefur gert okkur mögulegt að hækka laun án þess að það hafi farið beint út í verðlagið eins og oft hefur gerst í kjölfar mikilla launahækkana.
Verkefni næsta árs verður að varðveita þennan góða árangur og halda áfram að byggja ofan á grunninn sem búið er að byggja upp.
Forsendan fyrir því að okkur takist að varðveita árangur síðustu ára er að allir rói í sömu átt. Ef reyndin verður sú að þeir sem eru betur settir taki miklu meira til sín en öðrum stendur til boða má öllum vera ljóst að þá endum við í gamla farinu þar sem allt fer úr böndum og óstöðugleiki heldur innreið sína á ný.
Miklu máli skiptir að ný ríkisstjórn taki málin föstum tökum og móti skýra stefnu í launamálum ríkisins. Það gengur ekki að ríkið móti kjarastefnu sem gengur í berhögg við svigrúm atvinnulífsins.
Sú staðreynd að fjöldi fólks er á lágmarkslaunum, sem í dag eru 280.000 kr. kallar á algjöra uppstokkun. Umsamin lágmarkslaun eru öryggisnet en það getur ekki verið ásættanlegt að þau séu notuð sem virkur launataxti eins reyndin er gagnvart fjölda fólks og á það ekki síst við um erlenda starfsmenn.
Mikilvægt er að taka til í starfsgreinum sem tengjast mannvirkjagerðinni. Í gegnum árin hefur t.d. byggingageirinn boðið upp á ágæt laun og innstreymi ungs fólks inn í greinarnar.
Margt bendir til að þetta sé að breytast og þau starfskjör sem þar er boðið upp á heilli ekki ungt fólk. Þetta á við fleiri rótgrónar iðngreinar. Ríkisstjórnin boðar átak til að efla verkmenntun og er það ánægjulegt. Vonandi munum við sjá þess merki á næstu misserum, hér má engan tíma missa.
Eitt af því sem þarf að gera til að auka áhuga ungs fólks er að taka á undirboðum og kennitöluflakki sem oft á tíðum kemur grimmilega niður á starfsfólki.
Það er staðreynd að verktakar sem virða hvorki lög né kjarasamninga komast upp með að vera með starfsemi árum saman. Þeir reka fyrirtæki í skamman tíma á sömu kennitölunni, greiða ekki fyrir vörur, standa ekki skil á lögboðum gjöldum en skipta um kennitölu þegar allt er komið í þrot. Þeir endurtaka síðan leikinn með nýrri kennitölu. Þetta verður að stöðva en það verður ekki gert nema stjórnvöld spili með og grípi inn í.

Í stuttu máli: Við þurfum að tryggja að kaupmáttur fari vaxandi, hér ríki efnahagslegur stöðugleiki, starfsumhverfi iðnaðarmannsins sé áhugavert m.a. með því að hækka grunnlaunin. Gera iðnaðarmannastarfið áhugavert fyrir ungt fólk og koma í veg fyrir undirboð og undanskot með kennitöluflakki.
Árið 2018 verður ár tækifæranna en spurningin er - tekst okkur að fleyta árangri síðustu ára inn í framtíðina eða missum við þetta úr höndunum og við tekur gamla sagan?

Gleðileg jól og farsælt komandi ár!

Samiðn óskar félagsmönnum sínum, fjölskyldum þeirra og landsmönnum öllum gleðilegra jóla og farsældar á nýju ári með þökk fyrir samskiptin á liðnu ári.

Jólin eru hátíð friðar og náungakærleiks

Um jólahátíðina hugsum við oft til þeirra sem minna mega sín.  Jólin eru einnig tími kirkjunnar fólks að tala til þjóðarinnar um umhyggju og náungakærleik.
Jólin tengjast fæðingu Jesús sem var almúgamaður og hafði framfærslu af smíðavinnu, hann var einnig mikill baráttumaður fyrir réttlæti og lét sig sérstaklega varða málefni þeirra sem minna mega sín.

Mitt í undirbúningi jólanna berast fréttir af því að kjararáð hafi að ósk biskups Íslands ákveðið að hækka laun biskups. Heildarlaunin verða eftir breytingu 1.553.359 kr. Við erum talsmenn góðra launa en teljum hins vegar að það þurfi að gæti sanngirni og samræmingar ekki síst þegar verið er að greiða laun úr sameiginlegum sjóðum.  Lágmarkslaun í landinu eru 280.000 kr. á mánuði eða svipuð upphæð og hækkunin er hjá biskupnum á mánuði. Því miður er mikill fjöldi fólks á launum sem eru á bilinu 280.000 til 300.000 kr. á mánuði.

Við erum sannfærð um að réttlætiskennd biskups er misboðið og við spyrjum - mun biskup og þjónar kirkjunnar ekki ræða um þetta hrópandi óréttlæti í tengslum við jólaboðskapinn?

Eyðum misrétti í byggingariðnaði

Að undanförnu hefur Samiðn heimsótt fyrirtæki í byggingariðnaði og kannað hvort erlent starfsfólk sé ráðið til vinnu á viðunandi kjörum, hver menntun þess er og hver aðbúnaður þess er. Það má ekki líðast að fyrirtæki ráði til sín erlenda starfskrafta, oft í gegnum starfsmannaleigur, á lúsarlaunum og að þeim sé jafnvel boðið upp á aðbúnað sem ekki telst með nokkru móti viðunandi.
Sem betur fer höfum við orðið þess áskynja í heimsóknum okkar að flest fyrirtæki virða réttindi þessa starfsfólks. En þó svo að sú mynd sem birtist í vinnustaðaheimsóknum sé að flestu leyti ánægjuleg, eru því miður til slæm dæmi um hið gagnstæða, þar sem réttindi erlendra starfsmanna eru þverbrotin. Við hjá Samiðn viljum skapa breiða samstöðu um að útrýma að fullu slíku háttalagi fárra aðila. 

Spurningar vakna

Áleitnar spurningar hafa vaknað í kjölfar heimsókna Samiðnar. Ljóst er til að mynda að erlent starfsfólk er í langflestum tilvikum skráð sem ófaglært verkafólk og nýtur launakjara í samræmi við það. Ef þessar skráningar eru réttar er ljóst að heilu stórhýsin eru reist hér á landi um þessar mundir án þess að faglærðir iðnaðarmenn komi að því verki, nema þá í eftirlitshlutverki. Það er að sjálfsögðu óviðunandi. Annað hvort er skráningin röng - og um faglært fólk að ræða sem nýtur ekki kjara í samræmi við menntun sína - eða hús eru einfaldlega reist á Íslandi af ófaglærðu fólki. Þetta er áhyggjuefni sem þarf að ræða frekar og rannsaka.

Jólastyrkurinn til endurhæfingarstöðvarinnar á Reykjalundi

Samiðn ásamt Byggiðn og FIT ákváðu að veita Styrkar- og sjúkrasjóði verslunarmanna í Reykjavík jólastyrkinn að þessu sinni, en sjóðurinn stendur fyrir fjársöfnun til endurnýjunar á tækjakosti endurhæfingarstöðvarinnar á Reykjalundi í tilefni 150 ára afmælis Styrktar- og sjúkrasjóðsins.

Á meðfylgjandi mynd má sjá Hilmar Harðarson formann Samiðnar og FIT, og formann Byggiðnar Finnbjörn A. Hermannsson, afhenta forsvarsmönnum sjóðsins styrkinn.

Aðventukaffi Birtu lífeyrissjóðs

Starfsfólk Birtu bíður sjóðfélögum í aðventukaffi og spjall í aðsetri lífeyrissjóðsins á 5. hæð að Sundagörðum 2 í Reykjavík fimmtudaginn 7. desember kl. 16.30.

Tilefnið er einfaldlega að eiga notarlega samverstund síðdegis á jólaföstunni og rabba saman í góðum hópi um það sem hverjum og einum liggur á hjarta.

Starsfólk Birtu verður í hlutverki gestgjafa og tekur fagnandi á móti sjóðsfélögum í aðventuskapi.