Fréttir

Samningur undirritaður við sveitarfélögin

Samiðn, MATVÍS og VM undirrituðu í gær nýja kjarasamninga við Samband íslenskra sveitarfélaga sem gilda frá 1. nóvember 2019 til 31. mars 2023.

Helstu atriði samninganna eru:

Hækkun launa
1. nóvember 2019 hækka laun um kr. 17.000
1. apríl 2020 hækka laun um kr. 24.000
1. janúar 2021 hækka laun um kr. 24.000
1. janúar 2022 hækka laun um kr. 25.000

Lágmarkslaun
Lágmarkslaun fyrir fullt starf, fullar 173,33 unnar stundir á mánuði (40 stundir á viku), skulu vera sem hér segir fyrir starfsmenn 18 ára og eldri sem starfað hafa fjóra mánuði samfellt hjá sama sveitarfélagi:
Frá 1. nóvember 2019, 317.000 kr. á mánuði
Frá 1. apríl 2020, 335.000 kr. á mánuði
Frá 1. janúar 2021, 351.000 kr. á mánuði
Frá 1. janúar 2022, 368.000 kr. á mánuði
Mánaðarlega skal greiða uppbót á laun viðkomandi starfsmanna sem ekki ná framangreindum fjárhæðum, en til launa í þessu sambandi teljast allar greiðslur, þ.m.t. mánaðarlaun með persónuálagi, yfirvinna, vaktaálag og aðrar álags- og aukagreiðslur, sem falla innan ofangreinds vinnutíma.

Uppgjörsgreiðsla 1. desember 2019
Uppgjörsgreiðsla fyrir tímabilið 1. apríl 2019 til 31. október 2019 er kr 75.500, sem greiðist þann 1. desember 2019 hverjum starfsmanni miðað við fullt starf sem var við störf 1. apríl 2019 til 31. október 2019. Upphæðin greiðist hlutfallslega miðað við starfstíma og starfshlutfall.

Sérstök eingreiðsla 1. febrúar 2023
Sérstök eingreiðsla, kr. 57.000 greiðist þann 1. febrúar 2023 hverjum starfsmanni miðað við fullt starf sem er við störf í 1. janúar 2023 og er enn í starfi í febrúar 2023. Upphæðin greiðist hlutfallslega miðað við starfstíma og starfshlutfall.

Persónuuppbót
Starfsmaður í 100% starfshlutfalli fær greidda persónuuppbót 1. maí og 1. desember ár hvert. Greitt skal hlutfallslega miðað við starfshlutfall og starfstíma síðustu 12 mánuði fyrir greiðsludag. Hafi starfsmaður gengt hlutastarfi eða starfað hluta úr ári, skal hann fá greitt hlutfallslega miðað við starfshlutfall og starfstíma. Það sama gildir um tímavinnufólk og miðast óskert fjárhæð við 1.504 unnar dagvinnustundir.
Persónuuppbót miðað við 100% starfshlutfall á samningstímanum verður sem hér segir:
1. desember 2019 kr. 115.850.
1. maí 2020 kr. 50.450.
1. desember 2020 kr. 118.750.
1. maí 2021 kr. 51.700.
1. desember 2021 kr. 121.700.
1. maí 2022 kr. 53.000.
1. desember 2022 kr. 124.750.

Orlof
Lágmarksorlof skal vera 240 vinnuskyldustundir (30 dagar) miðað við fullt ársstarf. Starfsmaður sem hefur unnið hluta af fullu starfi eða hluta úr ári skal fá orlof 20 vinnuskyldustundir fyrir fullt mánaðarstarf.

Framlenging ráðningar starfsmanna sem náð hafa 70 ára aldri
Heimilt er vinnuveitanda að framlengja ráðningu eða endurráða starfsmann, sem hefur náð 70 ára aldri og látið hefur af föstu starfi samkvæmt gr. 11.1.7.1, í annað eða sama starf óski starfsmaður þess.
Starfsmaður skal sækja um það skriflega til vinnuveitanda með a.m.k. 3ja mánaða fyrirvara og skal hafa borist svar innan mánaðar frá umsókn.
Sé unnt að verða við ósk starfsmanns skal ráðning gilda í allt að tvö ár til fyrstu mánaðarmóta eftir að 72 ára aldri er náð, nema annar hvor aðili segi ráðningunni upp með þriggja mánaða fyrirvara.
Veikindi barna yngri en 13 ára
Foreldri, eða forsjámaður barns, á rétt á að vera frá vinnu í samtals 12 vinnudaga (96 vinnuskyldustundir miðað við fullt starf) á hverju almanaksári vegna veikinda barna sinna undir 13 ára aldri, enda verði annarri umönnun ekki við komið. Í þessum fjarvistum skal greiða starfsmanni dagvinnulaun og vaktaálag skv. reglubundinni varðskrá/vaktskrá. Réttur þessi hefur ekki áhrif á rétt starfsmanns skv. öðrum greinum.
Nýta má að hluta eða að öllu leyti framangreindan rétt vegna barna undir 16 ára aldri í alvarlegum tilvikum sem leiða til sjúkrahúsvistar.

Námssjóður
Launagreiðandi greiðir mánaðarlega framlag í námssjóð sem nemur 1,5% af heildarlaunum félagsmanna. Úr sjóðnum er úthlutað til félagsmanna skv. reglum, sem gilda fyrir sjóðinn.

Stofnframlag í námssjóðinn kr. 64.400 greiðist þann 1. desember 2019 vegna hvers starfsmanns miðað við fullt starfshlutfall. Upphæðin greiðist hlutfallslega m.v. starfstíma og starfshlutfall fyrir tímabilið 1. apríl 2019 til 31. október 2019.

>>> Sjá samninginn

Kjarasamningur við Landsvirkjun samþykktur

Kosningu um kjarasamning Samiðnar, Rafiðnaðarsambandsins og VM við Landsvirkjun er lokið en félögin kusu sameiginlega um samninginn.
Á kjörskrá voru 102 og tóku 86, eða 84,3%, þátt í kosningunni.
Já sögðu 73 eða 84,88%.
Nei sögðu 11 eða 12,79%.
Tveir skiluðu auðu.
Samningurinn var því samþykktur með tæpum 85% greiddra atkvæða.

>> Sjá samninginn.

Kosning um kjarasamning við Landsvirkjun

Þann 1. nóvember 2019 undirrituðu samninganefndir Rafiðnaðarsambands Íslands, VM Félags vélstjóra og málmtæknimanna og Samiðn kjarasamning við Landsvirkjun.

Rafræn kosning um kjarasamning Rafiðnaðarsamband Íslands, VM Félags vélstjóra og málmtæknimanna og Samiðnar við Landsvirkjun.

Kosning um samningin hefst kl. 12:00 á hádegi þann 4. nóvember og lýkur á miðnætti þann 11. nóvember.

Á krækjunni hér að neðan merkt (KJÓSA) er aðgengi að kosningunni. Af krækjunni er þátttakendum beint inn á innskráningarsíðu þar sem þeir þurfa að auðkenna sig með rafrænum skilríkjum eða íslykli.

Þeir sem ekki eiga íslykil eða rafræn skilríki geta sótt um íslykil á Island.is (www.island.is) og valið um hvort þeir fái lykilinn sendan í heimabankann sinn eða með pósti á lögheimili sitt. Þjóðskrá Íslands stendur straum af kostnaði við að senda Íslyklana bæði í heimabankann sem og með pósti á lögheimili.

Hægt er að skoða samninginn >> hér

KJÓSA

Þjóðin sameinist um að hrinda aðför fjárveitingavaldsins að heilbrigðiskerfinu

Eitt af grunnstefum íslenskrar verkalýðshreyfingar er öruggur og góður aðgangur að heilbrigðisþjónustu án tillits til efnahags fólks.

Á síðari árum hefur heilbrigðisþjónustan verið að breytast með þeim hætti að stærri og stærri hlutur þjónustunnar er á höndum einkaaðila. Í sjálfu sér skiptir ekki öllu máli hver annast þjónustuna ef aðgangurinn er tryggður og tryggt sé að allir hafi jafnan aðgang án tillits til efnahags.

Landspítalinn háskólasjúkrahús hefur mikla sérstöðu í íslensku heilbrigðiskerfi. Honum ber að veita öllum landsmönnum nauðsynlega heilbrigðisþjónustu hvernig sem ástatt er. Hann er algjörlega háður fjárveitingavaldinu á hverjum tíma, sem oft á tíðum virðist horfa framhjá þeim skyldum sem stjórnmálamenn setja spítalanum. Á hverju hausti koma skilaboð um að nú verði spítalinn að spara þrátt fyrir að síðustu fjárveitingar hafi ekki dugað til að standa undir þeirri starfsemi sem LHS er skylt að veita.

Mikil mannekla er á LSH sem hefur leitt til þess að erfiðlega hefur gengið að tryggja nauðsynlegt öryggi og þá þjónustu sem skylt er að veita. Spítalinn er ekki samkeppnishæfur um starfsfólk og þá eru viðbrögðin að skerða enn frekar starfskjör til að mæta kröfum fjárveitingavaldsins.

Allt bendir til þess að ráðstafanir af þessum toga muni leiða til þess að vandi spítalans fari vaxandi, færri vilji koma til starfa og kjarasamningar við fagfólk endi upp á skeri.

Það er ljóst að verði ekki tekið af fagmennsku á vandamálum LSH og honum gert kleift að standa undir sínu hlutverki, mun vandinn fara vaxandi með minni og lakari þjónustu og þeir efnameiri munu í auknu mæli kaupa sér heilbrigðisþjónustu af einkaaðilum.

Þjóðin þarf að rísa upp og gera þeim sem fara með fjárveitingavaldið ljóst að sú aðför að íslensku heilbrigðiskerfi sem felst í kröfunni um niðurskurð á LSH er ekki í þágu hennar. Við viljum hafa þjóðarsjúkrahús í fyrsta gæðaflokki sem tryggir öllum góða og skilvirka heilbrigðisþjónustu án tillits til efnahags.

Elmar Hallgríms Hallgrímsson nýr framkvæmdastjóri Samiðnar

Elmar Hallgríms Hallgrímsson hefur tekið við starfi framkvæmdastjóra Samiðnar af Þorbirni Guðmundssyni sem gegndi því í þrjá áratugi. Samiðn er samband tólf aðildarfélaga iðnaðarmanna víðsvegar um landið. Þorbjörn starfar áfram á vegum Samiðnar og er í forystu sambandsins í yfirstandandi kjarasamningaviðræðum við ríki og sveitarfélög.

Elmar er lögfræðingur með embættispróf frá Háskóla Íslands og prófgráðu líka frá University of Pennsylvania í Bandaríkjunum. Hann lauk meistaranámi í fjármálum fyrirtækja og viðskiptasiðfræði frá HÍ, einnig prófi í verðbréfaviðskiptum. Hann hefur leyfi til að starfa sem héraðsdómslögmaður.

Elmar hefur m.a. starfað í stjórnunarstöðu hjá Vodafone, 365 miðlum og var um árabil lektor við Háskóla Íslands, og starfar þar nú sem stundakennari í viðskiptafræðideild og kennir m.a. samningatækni í MBA-námi HÍ, sem og við lagadeild skólans. Þá er hann þjálfari hjá Dale Carnegie.

„Ég tek við góðu búi af Þorbirni og mun gefa mér tíma í að kynnast nýju vinnuumhverfi. Breyttar áherslur fylgja jafnan nýjum stjórnendum en tíminn leiðir í ljós hverjar þær verða og hvernig þær birtast. Mitt hlutverk er fyrst og fremst að vinna að hagsmunum félagsmanna og annast rekstur Samiðnar eins vel og unnt er. Ég hef sömuleiðis hug á að kynna Samiðn meira út á við og styrkja ímynd sambandsins.

Stærstu verkefnin framundan varða til dæmis breytt launakerfi félagsmanna þar sem hæfni skal líka metin til launa en ekki horft einvörðungu til starfsaldurs. Þá er mikil áskorun fólgin í því að takast á við áskoranir fjórðu iðnbyltingarinnar. Störf munu breytast, ný störf verða til og einhverjum störfum getur fækkað. Þarna blasir við að tengja iðnmenntun inn í háskólaumhverfið og þar sé ég mörg tækifæri og nauðsyn á að iðnaðarmenn og samtök okkar hafi frumkvæði í umræðu og áhrif á þróun mála.

Iðnaður og handverk hefur verið nálægt mér alla tíð. Móðir mín er gullsmiður og foreldrar mínir reka verslun á Laugavegi. Þá er bróðir minn sömuleiðis gullsmiður og segja má að í móðurættinni sé gullsmíðin fjölskylduiðn.

Sjálfur hef ég annan bakgrunn en hef kynnst samtökum og félögum í verkalýðshreyfingunni með margvíslegum hætti. Ég hef m.a. haldið námskeið og veitt ráðgjöf og aðstoð í kjarasamningum. Áhugi á iðnaði er sannarlega til staðar og kviknaði löngu áður en framkvæmdastjórastarf hjá Samiðn kom til sögunnar.

Núna stunda ég trésmíðanám á kvöldnámskeiðum í Fjölbrautaskólanum í Breiðholti og hef fengið staðfest að miklu erfiðara er að ná tökum á því að geirnegla en að lesa almenna lögfræði!“

Þannig líður tíminn

Síðastliðið vor gerði Samiðn kjarasamning við Samtök atvinnulífsins ásamt öðrum félögum og samböndum innan iðnaðarmannasamfélagsins.  Samningurinn gildir til nóvemberloka 2022 og er því með lengstu samningum sem við höfum gert. Það var tvennt sem einkenndi þennan kjarasamning þ.e. samkomulag um styttingu vinnuvikunnar og upptaka nýs launakerfis.

Á næstu dögum á að hefjast vinna við útfærslu nýs launakerfis sem á að fara í kynningu í byrjun næsta árs og í vor á að stíga fyrstu skrefin í að stytta vinnuvikuna. Bæði þessi verkefni gefa fyrirheit um eitthvað sem gæti haft áhrif til lengri tíma og kallar á breytt vinnulag stéttarfélaga því gert er ráð fyrir að það verði í höndum vinnustaðanna að hrinda þessu hvoru tveggja í framkvæmd.

Nú standa yfir samningar við ríki, Reykjavíkurborg, sveitarfélög, orkufyrirtækin og skyld fyrirtæki. Okkar áherslur í þeim viðræðum eru þær sömu þ.e. styttri vinnuvika og skilvirkara launakerfi. Viðtökurnar hafa verið frekar jákvæðar en verulega hefur skort á að viðsemjendur séu tilbúnir að stíga fram og ljúka samningum. Þeir bera því við að það skorti samstöðu launamanna til að fara í svo miklar kerfisbreytingar. Þannig hefur tíminn liðið viku eftir viku og nú er svo komið að það eru orðnir mánuðir sem samningarnir hafa dregist.

Það er orðið mjög brýnt að á þessu verði breyting og gerðar verði alvöru tilraunir til að ljúka samningum. Samiðn er tilbúin að gera alvöru tilraun til að ljúka samningum með öðrum iðnaðarmannafélögum og samböndum en til að svo geti orðið þarf að vera vilji beggja megin borðs. Kannski er komið að því að viðsemjendur verði að viðurkenna að ein miðlæg lausn er ekki í boði að þessu sinni.