Fréttir

Viljann vantar hjá SA

Vikan sem er að kveðja hefur verið viðburðarrík, slitnað hefur upp úr viðræðum iðnaðarmannasamfélagsins og SA og sama gerðist hjá SGS. Formaður LÍV sagði af sér og Ragnar Þór formaður VR tók við formennsku í sambandinu. Í gær settust svo Efling, VR og önnur félög sem eru í samfloti að samningaborðinu.

Um miðnætti hófust svo sólarhringsverkföll VR og Eflingar sem beinast að hótelum og fyrirtækjum sem hafa með rekstur langferðabifreiða að gera. Einnig bar það til tíðinda að Framsýn sagði skilið við samflot SGS.

Af þessu má ljóst vera að aukin harka er að færast í yfirstandandi kjaradeilu enda viðræður búnar að standa í þrjá mánuði og þolinmæðin á þrotum.

Á mánudaginn verður fundur í samninganefnd Samiðnar þar sem ákveðin verða viðbrögð við viðræðuslitunum í samstarfi við iðnaðarmannasamfélagið. Á fundinum verður lagt mat á til hvaða aðgerða verður gripið og hvenær ef ekki verður breyting á afstöðu SA. Eitt er víst að ekki er hægt að búa við óbreytt ástand, við viljum nýjan kjarasamning fyrir okkar félagsmenn.

Mikilvægt er að SA átti sig á þeirri ábyrgð sem á þeim hvílir, undir þeim er komið hvort og hvenær kjarasamningar takast. Iðnaðarsamfélagið lagði upp með að tryggja þann góða ávinning sem við höfum náð á síðustu árum og skapa forsendur til að kaupmáttur geti aukist á næstu misserum. Einnig hefur iðnaðarmannasamfélagið lagt mikla áherslu á að það verði raunstytting vinnuvikunnar.

Um þessi markmið iðnaðarmannasamfélagsins er ekki ágreiningur við SA heldur um leiðir að þessum markmiðum. Ekki verður samið nema raunverulegur vilji sé til þess hjá SA. Ef hann er ekki til staðar stefnir SA stéttarfélögunum í verkfallsaðgerðir. Sé vilji til staðar hjá SA er hægt að ljúka samningum á stuttum tíma.

Við leitum að starfsmanni í móttöku

Iðnfélögin Stórhöfða 31 – Byggiðn, Félag iðn- og tæknigreina, GRAFÍA, MATVÍS, Rafiðnaðarsamband Íslands og Samiðn – leita eftir jákvæðum og hressum starfsmanni í móttöku í fullt starf.

Æskilegt að viðkomandi geti hafið störf sem fyrst. Vinnutími er frá kl. 8-16 alla virka daga nema föstudaga frá kl 8-15.

Sjá nánar:  https://capacent.com/is/radningar/storf/idnfelogin/starf-i-mottoku-13169/

Viðræður líklega sigldar í strand

Eftir að samningaviðræður hafa þokast áfram í rétta átt undanfarnar vikur, var alger viðsnúningur í viðræðum síðustu daga. Staðan er orðin þannig, eftir fundi síðustu daga og afarkosti SA, að ómögulegt er að halda viðræðum áfram.

Óskað var eftir formlegum fundi með SA í byrjun næstu viku og ætlar ríkissáttasemjari að verða við því. Komi ekki fram nýjar hugmyndir eða viðbrögð frá Samtökum atvinnulífsins neyðist samninganefndin til að lýsa yfir árangurslausum viðræðum þrátt fyrir milligöngu ríkissáttasemjara og slíta viðræðum. Til að undirbúa næstu skref verður fundað með okkar baklandi. Það er forsenda þess að við undirbúum átakaferli.

Ýmislegt hefur þó áunnist í viðræðum undanfarinna vikna svo við lítum ekki á það sem tapaða vinnu heldur muni sú vinna nýtast í framhaldinu.

Mikilvægt að taka það fram að við höfum lagt okkur fram við að ná samningum en vegna óbilgirni SA þá er staðan orðin svona.

Við tökum stöðuna á mánudagsmorgun um næstu skref hjá okkur iðnaðarmönnum. Fundur verður haldinn á mánudag eða þriðjudag hjá ríkissáttasemjara. Í framhaldinu munu iðnaðarmannafélögin þurfa að meta ástandið og fá heimild til að hefja næstu skref.

Ef ekkert breytist strax í næstu viku þurfa félögin, hvert og eitt, að teikna upp og virkja okkar sterkustu hópa komi til átaka.

Hreyfing á málum - fundað um helgina

Ekki er hægt að segja að okkur hafi skilað mikið áfram í samningamálum í vikunni sem er að líða en samt hefur verið hreyfing á málum. Búið er að skipuleggja fundarhöld um helgina. Törnin hefst kl. 11.30 í dag og verður alla helgina. Vonir standa til að okkur takist að ljúka umræðunni um vinnutímastyttinguna um helgina. Takist að ljúka þeirri umræðu gætu önnur atriði farið að rúlla áfram.

Samiðn er einnig farin að huga að kjarasamningum við ríkið og sveitarfélög og er ekki seinna væna því þeir samningar renna út um næstu mánaðarmót. Ef okkur tekst að ljúka samningum við SA er ekki ólíklegt að þeir muni setja ramma fyrir aðra kjarasamninga.

Í dag eru að hefjast fyrstu verkföll hjá Eflingu og á næstu vikum munu hefjast verkföll hjá félagsmönnum VR ef ekki tekst að semja.

Við leggjum áherslu á að okkar félagsmenn virði verkföllin og gangi ekki í störf þeirra sem eru í verkfalli.

Eins og fram kom í síðasta pistli er upplýsingabann samkvæmt ákvörðun ríkissáttasemjara og megum við því ekki greina frá stöðu einstakra mála.

Við vonum að helgin nýtist vel, málin skýrist og við getum farið að taka sameiginlega ákvörðum um hvernig við viljum taka á málum.

Fyrsti samningafundurinn undir stjórn ríkissáttasemjara

Fimmtudaginn 28. febrúar var haldinn fyrsti samningafundurinn undir stjórn ríkissáttasemjara og fleiri fundir eru fyrirhugaðir næstu daga.

Gert er ráð fyrir að látið verði á það reyna hvort takist að ljúka viðræðunum með gerð nýs kjarasamnings. Á þessari stundu liggur ekkert fyrir hvort það muni takast, en það er skýr vilji hjá báðum aðilum að gera alvöru tilraun til að ná saman.

Kjaradeilunni við SA vísað til ríkissáttasemjara

Formaður Samiðnar Hilmar Harðarson átti í dag fundi með framkvæmdastjóra Samtaka atvinnulífsins og ríkissáttasemjara og afhenti þeim tilkynningu þar sem ríkissáttasemjara er falin verkstjórn í yfirstandandi kjaradeilu við SA.  Iðnfélögin ákváðu að loknum árangurslausum samningafundi í gær, að vísa deilunni til sáttasemjara í þeirri von að meiri festa og skriður komist á viðræðurnar með það að markmiði að nýr kjarasamningur taki við innan tíðar.