Fréttir

Kosning um kjarasamning við Landsvirkjun

Þann 1. nóvember 2019 undirrituðu samninganefndir Rafiðnaðarsambands Íslands, VM Félags vélstjóra og málmtæknimanna og Samiðn kjarasamning við Landsvirkjun.

Rafræn kosning um kjarasamning Rafiðnaðarsamband Íslands, VM Félags vélstjóra og málmtæknimanna og Samiðnar við Landsvirkjun.

Kosning um samningin hefst kl. 12:00 á hádegi þann 4. nóvember og lýkur á miðnætti þann 11. nóvember.

Á krækjunni hér að neðan merkt (KJÓSA) er aðgengi að kosningunni. Af krækjunni er þátttakendum beint inn á innskráningarsíðu þar sem þeir þurfa að auðkenna sig með rafrænum skilríkjum eða íslykli.

Þeir sem ekki eiga íslykil eða rafræn skilríki geta sótt um íslykil á Island.is (www.island.is) og valið um hvort þeir fái lykilinn sendan í heimabankann sinn eða með pósti á lögheimili sitt. Þjóðskrá Íslands stendur straum af kostnaði við að senda Íslyklana bæði í heimabankann sem og með pósti á lögheimili.

Hægt er að skoða samninginn >> hér

KJÓSA

Þjóðin sameinist um að hrinda aðför fjárveitingavaldsins að heilbrigðiskerfinu

Eitt af grunnstefum íslenskrar verkalýðshreyfingar er öruggur og góður aðgangur að heilbrigðisþjónustu án tillits til efnahags fólks.

Á síðari árum hefur heilbrigðisþjónustan verið að breytast með þeim hætti að stærri og stærri hlutur þjónustunnar er á höndum einkaaðila. Í sjálfu sér skiptir ekki öllu máli hver annast þjónustuna ef aðgangurinn er tryggður og tryggt sé að allir hafi jafnan aðgang án tillits til efnahags.

Landspítalinn háskólasjúkrahús hefur mikla sérstöðu í íslensku heilbrigðiskerfi. Honum ber að veita öllum landsmönnum nauðsynlega heilbrigðisþjónustu hvernig sem ástatt er. Hann er algjörlega háður fjárveitingavaldinu á hverjum tíma, sem oft á tíðum virðist horfa framhjá þeim skyldum sem stjórnmálamenn setja spítalanum. Á hverju hausti koma skilaboð um að nú verði spítalinn að spara þrátt fyrir að síðustu fjárveitingar hafi ekki dugað til að standa undir þeirri starfsemi sem LHS er skylt að veita.

Mikil mannekla er á LSH sem hefur leitt til þess að erfiðlega hefur gengið að tryggja nauðsynlegt öryggi og þá þjónustu sem skylt er að veita. Spítalinn er ekki samkeppnishæfur um starfsfólk og þá eru viðbrögðin að skerða enn frekar starfskjör til að mæta kröfum fjárveitingavaldsins.

Allt bendir til þess að ráðstafanir af þessum toga muni leiða til þess að vandi spítalans fari vaxandi, færri vilji koma til starfa og kjarasamningar við fagfólk endi upp á skeri.

Það er ljóst að verði ekki tekið af fagmennsku á vandamálum LSH og honum gert kleift að standa undir sínu hlutverki, mun vandinn fara vaxandi með minni og lakari þjónustu og þeir efnameiri munu í auknu mæli kaupa sér heilbrigðisþjónustu af einkaaðilum.

Þjóðin þarf að rísa upp og gera þeim sem fara með fjárveitingavaldið ljóst að sú aðför að íslensku heilbrigðiskerfi sem felst í kröfunni um niðurskurð á LSH er ekki í þágu hennar. Við viljum hafa þjóðarsjúkrahús í fyrsta gæðaflokki sem tryggir öllum góða og skilvirka heilbrigðisþjónustu án tillits til efnahags.

Elmar Hallgríms Hallgrímsson nýr framkvæmdastjóri Samiðnar

Elmar Hallgríms Hallgrímsson hefur tekið við starfi framkvæmdastjóra Samiðnar af Þorbirni Guðmundssyni sem gegndi því í þrjá áratugi. Samiðn er samband tólf aðildarfélaga iðnaðarmanna víðsvegar um landið. Þorbjörn starfar áfram á vegum Samiðnar og er í forystu sambandsins í yfirstandandi kjarasamningaviðræðum við ríki og sveitarfélög.

Elmar er lögfræðingur með embættispróf frá Háskóla Íslands og prófgráðu líka frá University of Pennsylvania í Bandaríkjunum. Hann lauk meistaranámi í fjármálum fyrirtækja og viðskiptasiðfræði frá HÍ, einnig prófi í verðbréfaviðskiptum. Hann hefur leyfi til að starfa sem héraðsdómslögmaður.

Elmar hefur m.a. starfað í stjórnunarstöðu hjá Vodafone, 365 miðlum og var um árabil lektor við Háskóla Íslands, og starfar þar nú sem stundakennari í viðskiptafræðideild og kennir m.a. samningatækni í MBA-námi HÍ, sem og við lagadeild skólans. Þá er hann þjálfari hjá Dale Carnegie.

„Ég tek við góðu búi af Þorbirni og mun gefa mér tíma í að kynnast nýju vinnuumhverfi. Breyttar áherslur fylgja jafnan nýjum stjórnendum en tíminn leiðir í ljós hverjar þær verða og hvernig þær birtast. Mitt hlutverk er fyrst og fremst að vinna að hagsmunum félagsmanna og annast rekstur Samiðnar eins vel og unnt er. Ég hef sömuleiðis hug á að kynna Samiðn meira út á við og styrkja ímynd sambandsins.

Stærstu verkefnin framundan varða til dæmis breytt launakerfi félagsmanna þar sem hæfni skal líka metin til launa en ekki horft einvörðungu til starfsaldurs. Þá er mikil áskorun fólgin í því að takast á við áskoranir fjórðu iðnbyltingarinnar. Störf munu breytast, ný störf verða til og einhverjum störfum getur fækkað. Þarna blasir við að tengja iðnmenntun inn í háskólaumhverfið og þar sé ég mörg tækifæri og nauðsyn á að iðnaðarmenn og samtök okkar hafi frumkvæði í umræðu og áhrif á þróun mála.

Iðnaður og handverk hefur verið nálægt mér alla tíð. Móðir mín er gullsmiður og foreldrar mínir reka verslun á Laugavegi. Þá er bróðir minn sömuleiðis gullsmiður og segja má að í móðurættinni sé gullsmíðin fjölskylduiðn.

Sjálfur hef ég annan bakgrunn en hef kynnst samtökum og félögum í verkalýðshreyfingunni með margvíslegum hætti. Ég hef m.a. haldið námskeið og veitt ráðgjöf og aðstoð í kjarasamningum. Áhugi á iðnaði er sannarlega til staðar og kviknaði löngu áður en framkvæmdastjórastarf hjá Samiðn kom til sögunnar.

Núna stunda ég trésmíðanám á kvöldnámskeiðum í Fjölbrautaskólanum í Breiðholti og hef fengið staðfest að miklu erfiðara er að ná tökum á því að geirnegla en að lesa almenna lögfræði!“

Þannig líður tíminn

Síðastliðið vor gerði Samiðn kjarasamning við Samtök atvinnulífsins ásamt öðrum félögum og samböndum innan iðnaðarmannasamfélagsins.  Samningurinn gildir til nóvemberloka 2022 og er því með lengstu samningum sem við höfum gert. Það var tvennt sem einkenndi þennan kjarasamning þ.e. samkomulag um styttingu vinnuvikunnar og upptaka nýs launakerfis.

Á næstu dögum á að hefjast vinna við útfærslu nýs launakerfis sem á að fara í kynningu í byrjun næsta árs og í vor á að stíga fyrstu skrefin í að stytta vinnuvikuna. Bæði þessi verkefni gefa fyrirheit um eitthvað sem gæti haft áhrif til lengri tíma og kallar á breytt vinnulag stéttarfélaga því gert er ráð fyrir að það verði í höndum vinnustaðanna að hrinda þessu hvoru tveggja í framkvæmd.

Nú standa yfir samningar við ríki, Reykjavíkurborg, sveitarfélög, orkufyrirtækin og skyld fyrirtæki. Okkar áherslur í þeim viðræðum eru þær sömu þ.e. styttri vinnuvika og skilvirkara launakerfi. Viðtökurnar hafa verið frekar jákvæðar en verulega hefur skort á að viðsemjendur séu tilbúnir að stíga fram og ljúka samningum. Þeir bera því við að það skorti samstöðu launamanna til að fara í svo miklar kerfisbreytingar. Þannig hefur tíminn liðið viku eftir viku og nú er svo komið að það eru orðnir mánuðir sem samningarnir hafa dregist.

Það er orðið mjög brýnt að á þessu verði breyting og gerðar verði alvöru tilraunir til að ljúka samningum. Samiðn er tilbúin að gera alvöru tilraun til að ljúka samningum með öðrum iðnaðarmannafélögum og samböndum en til að svo geti orðið þarf að vera vilji beggja megin borðs. Kannski er komið að því að viðsemjendur verði að viðurkenna að ein miðlæg lausn er ekki í boði að þessu sinni.

Fjórða iðnbyltingin - Hvað þurfum við að gera?

Miðvikudaginn 25. september heldur menntanefnd ASÍ málþing á Hótel Natura um fjórðu iðnbyltinguna og hvað við þurfum að gera til að undirbúa okkur.  Málþingið hefst kl. 9 og stendur til kl. 12 og er skráning á This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.

Sjá nánar.

Lýsa rokkhátíð samtalsins: Erum við umhverfissóðar? Er stytting vinnuvikunnar lýðheilsumál eða kjaramál?

Lýsa rokkhátið samtalsins er opin öllum og fer fram í Hofi á Akureyri 6. og 7. september.  Fulltrúar hinna ýmsu málefna leiða þar saman hesta sína og eiga uppbyggileg skoðanaskipti um samfélagsleg málefni í bland við hressa tónlist og skemmtiatriði.  Iðnfélögin láta ekki sitt eftir liggja og standa að málstofum um annars vegar umhverfismál og hins vegar styttingu vinnuvikunnar.

----------------------------
Föstudagur 6. september 2019, kl. 13.00

  >>>ER ÞAÐ HLUTSKIPTI IÐNAÐARINS AÐ VERA UMHVERFISSÓÐAR?

Betra umhverfi, ný tækifæri samfara aðgerðum í loftslagsmálum
Sigurður Ingi Friðleifsson framkvæmdastjóri Orkuseturs

„Sjálfbærni pappírs“
Ingibjörg Berglind Guðmundsdóttir grafískur hönnuður fjallar um „Sjálfbærni pappírs“

Samtal í sal að loknum erindum
----------------------------
Laugardagur 7. september 2019, kl. 13.00
  >>>ER STYTTRI VINNUVIKA LÝÐHEILSUMÁL EÐA KJARAMÁL?

Stytting vinnuvikunnar “ Efnahagslegt hryðjuverk eða náttúrulegt næsta skref“
Steinunn Eyja Gauksdóttir vinnusálfræðingur og starfandi mannauðsstjóri hjá Spiir og Nordic API Gatway.

Hverju vilja íslenskir iðnaðarmenn ná fram með styttri vinnuviku?
Kristján Þórður Snæbjarnarson talsmaður iðnaðarmanna flytur erindi um markmið iðnaðar¬manna með styttingu vinnuvikunnar í tengslum við nýgerða kjarasamninga.

Samtal í sal að loknum framsögum

Sjá nánar.