Fréttir

Kosningar um nýja kjarasamninga

Kosningar um nýja kjarasamninga Samiðnar eru nú hafnar og eru allir félagsmenn hvattir til að skrá sig inn og kjósa um viðkomandi kjaraasamning.

>> KJÓSA HÉR
>> GLOSUJ TU
>> CLICK TO VOTE

 

Sjá nánar.

Verkalýðshreyfingin geri umhverfismálin að sínum málum

Á vel heppnuðu þingi Samiðnar sem lauk nú um helgina var Hilmar Harðarson frá Félagi iðn- og tæknigreina, endurkjörinn formaður til næstu þriggja ára og Jóhann Rúnar Sigurðsson frá Félagi málmiðnaðarmanna á Akureyri, varaformaður.  Þema þingsins var fjórða iðnbyltingin og umhverfis- og loftslagsmál og fluttu sérfræðingar í þessum málaflokkum áhugaverða fyrirlestra á þinginu sem vöktu mikla athygli, enda málefnin brýn og koma í auknum mæli á borð stéttarfélaganna.  

Í samþykkt þingsins um fjórðu iðnbyltinguna segir:
"Tryggja verður að ávöxtur af hugsanlegri framleiðsluaukningu fjórðu iðnbyltingarinnar verði
ekki til þess að ójöfnuður fari vaxandi og þeir ríku verði enn ríkari.
Stjórnvöld í samstarfi við aðila vinnumarkaðarins þurfa að mynda sér skýra stefnu með
hvaða hætti við nýtum þau tækifæri sem felast í auknum tæknibreytingum til að auka
hagsæld fyrir alla með félagslegum lausnum.
Samiðn lýsir sig tilbúin til samstarfs við stjórnvöld og atvinnulífið til að tryggja að áhrif fjórðu
iðnbyltingarinnar verði til að bæta almenn lífsskilyrði."

Í samþykkt um umhverfis- og loftslagsmál segir:
"Öll fyrirtæki og stofnanir þurfa að setja sér umhverfisstefnu og vera með lifandi fræðslu um
markmið og tilgang hennar fyrir starfsmenn og stjórnendur. Verkalýðshreyfingin verður að
gera umhverfismálin að sínum málum, setja þau á oddinn og gera t.d. öryggistrúnaðarmenn
að umhverfis- og öryggistrúnaðarmönnum."

Loks var samþykkt ályktun um afnám tekjutenginga í almannatryggingakerfinu:
"Með greiðslu skatta alla starfsævi hefur hver og einn áunnið sér rétt á greiðslu lífeyris úr
almannatryggingakerfinu. Það á engin ríkisstjórn, þingflokkur eða einstaka ráðherra að geta
leyft sér þá lítilsvirðingu við lífeyrisþega, að skerða þann rétt á nokkurn hátt."

Níunda þing Samiðnar hafið á Grand hótel

Formaður Samiðnar Hilmar Harðarson setti níunda þing Samiðnar í dag en þingið sitja um 100 fulltrúar félaga iðnaðarmanna af landinu öllu.  Auk áherslna á fjórðu iðnbyltinguna og loftslagsmál, verða nýgerðir kjarasamningar á dagskrá þingsins en í ræðu formanns kom fram að um tímamótasamning væri að ræða hvað varðar styttingu vinnuvikunnar og hækkun dagvinnulauna.

>> Sjá nánar.

Samningar undirritaðir við Bílgreinasambandið og Félag pípulagningameistara

Formaður Samiðnar Hilmar Harðarson undirritaði í dag nýjan kjarasamning við Bílgreinasambandið og Félag pípulagningameistara en samningarnir eru á svipuðum nótum og nýgerður samningur við Samtök atvinnulífsins.

>> Sjá samning Bílgreinasambandsins
>> Sjá samning Félags pípulagningameistara  

Nýr kjarasamningur

Í nótt undirritaði iðnaðarmannasamfélagið nýjan kjarasamning sem gildir til nóvember 2022.
Megin áherslur iðnaarmanna í þessum samningum voru að tryggja þann árangur sem við höfum verið að ná á síðustu árum og tryggja forsendur fyrir áframhaldandi kaupmætti á samningstímanum, uppfæra kauptaxtakerfið og stytta vinnuvikuna.

Varðandi almennar hækkanir tekur samningurinn mið af þeim samningum sem gerðir voru 3. apríl s.l. Áherslan er á að lyfta þeim sem eru með lág laun en með nýju launakerfi í gegnum fyrirtækjasamninga á seinnihluta samningstímans, verði horft til heildarinnar.
Samningurinn gildir frá 1. apríl og eiga því allir að fá við næstu útborgun ef samningarnir verða samþykktir 17.000 kr. fyrir apríl, 17.000 kr. fyrir maí og 26. 000 kr. eingreiðslu. Orlofsuppbótin hækkar um 2000 kr. og verður 50.000. kr. Ef einstaklingur hefur fengið orlofsuppbót greidda kr. 48.000 eins og hún var 2018 eiga þeir að fá greiddar til viðbótar 2000 kr. og verður viðbótin 62.000 kr. en hjá þeim sem ekki hafa fengið greidda orlofsuppbót kr. 110.000 kr. um næstu mánaðarmót.

Varðandi kauptaxtakerfið þá náðist samkomulag um að stokka það upp og færa og skera neðstu taxtana af og í framtíðinni verði launaákvarðanir meira út í fyrirtækjunum í gegnum nýtt launakerfi. Við bindum miklar vonir við innleiðingu nýs launakerfis og að það geti skilað góðum árangri þegar frammi sækir. Ef vel til tekst ætti það að skila sér til allra bæði í stórum og minni fyrirtækjum en það ræðst að miklu leyti á því hvernig stéttarfélögin fylgja málinu eftir.

Á næstu mánuðum verður lögð vinna í að útfæra launakerfið en í kjarasamningum eru lagðar megin línurnar sem eftir er að útfæra betur. Í framhaldinu verður launakerfið kynnt ekki síst fyrir trúnaðarmönnum á vinnustöðum og þegar kemur fram á næsta ár hefst innleiðingin á vinnustöðum.

Kjarasamningurinn tryggir að stigin verða áþreifanleg skref í styttingu vinnuvikunnar. Í fyrsta lagi verður tekinn upp virkur vinnutími sem þýðir að virkur vinnutími verður 37 vinnustundir á viku frá 1. apríl 2020 sem hækkar tímavinnu einingu í dagvinnu um 8,33% en heildarlaun verða óbreytt miðað við 40 vinnustundir. Frá sama tíma verður breyting á yfirvinnu og verður hún tvískipt. Yfirvinna eitt, sem er fyrir 16 yfirvinnustundir á fjögra vikna launatímabili, og yfirvinna tvö, sem greiðist fyrir vinnutíma umfram 41 virka klst. á viku að meðaltali á launatímabili /mánuði. Yfirvinna tvö er einnig greidd fyrir vinnu á nóttu á tímabilinu frá kl. 00.00-06.00.

Fyrsta janúar 2021 er gert ráð fyrir að stigið verði skref tvö en þá opnast möguleiki á að semja um styttingu vinnuvikunnar í 36 vinnustundir. Takist ekki að útfæra vinnutímastyttingu í fyrirtækjasamningum styttist vinnuvikan 1. Janúar 2022 í 36 stundir og 15 mínútur.

Margt fleira er í samningnum s.s. breyting á flutningi orlofsréttar og bakvaktarkafla.
Samningurinn verður kynntur betur á næstu dögum en gert er ráð fyrir að atkvæðagreiðslu verði lokið fyrir 22. maí n.k.

>> Sjá samning SA
>> Sjá samning SA vegna meistara
>> Sjá samning FIT og SA vegna snyrtifræðinga

Reynt til þrautar

Staðan í kjaraviðræðum er á afar viðkvæmu stigi í dag, samninganefnd samflots iðnaðarmanna hefur setið á fundum með Samtökum atvinnulífsins síðustu daga. Eðli máls samkvæmt er ekki hægt að upplýsa um efnisatriði en viðræður hafa þokast áfram í rétta átt og er verið að vinna með ýmsa texta eins og staðan er núna. Samningsaðilar eru að reyna til þrautar að ná samningum sem samninganefndir geta talið verið ásættanlega fyrir iðnaðarmenn.