Fréttir

Lögfræðingur óskast til starfa

Lögfræðingur óskast til starfa hjá 2F Húsi Fagfélaganna.

Helstu verkefni eru að veita ráðgjöf varðandi túlkun ráðningarsamninga, kjarasamninga og laga. Aðkoma að vinnu starfshópa á vegum iðnaðarmannasamfélagsins, þátttaka í kjaraviðræðum, umsagnir og málarekstur þegar svo ber undir.
Gerð er krafa um að umsækjendur hafi lokið meistaraprófi í lögfræði og æskilegt er að hafa málflutningsréttindi. Þekking og reynsla af vinnumarkaðsmálum er kostur.
Um er að ræða nýtt og spennandi starf í krefjandi starfsumhverfi.  Lögfræðingur mun heyra undir skrifstofustjóra 2F sem er þjónustuskrifstofa iðnaðarmannasamfélagsins að Stórhöfða 31.

Nánari upplýsingar um starfið veitir Pálmi Finnbogason (This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.).  Umsóknir sendist á netfangið This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it..

Umsóknarfrestur er til 22. september.

Góð verkefnastaða en óvissa framundan

Verkefnastaða iðnaðarmanna hefur verið góð í sumar en eins og hjá öðrum er óvissan inn í veturinn nokkur. Verkefnið “Allir vinna” hefur haft þar mikil áhrif þar sem það felur í sér fulla endurgreiðslu á virðisaukaskatti vegna vinnu við margvíslegar framkvæmdir, svo sem byggingarframkvæmdir og bílaviðgerðir.  Samiðn mun óska eftir að því verkefni verði framhaldið en það á að öllu óbreyttu að líða undir lok í árslok 2020. Samiðn leggur áherslu á að umrætt verkefni er einnig mikilvægt út frá neytendasjónarmiðum enda tryggir það enn frekar að leitað sé til fagmanna sem er mikið kappsmál allra.

Nýtt verkfæragjald blikksmiða

Samkvæmt kjarasamningi Samiðnar og SA breytist verkfæragjald blikksmiða þann 1. janúar og 1. júlí ár hvert til samræmis við breytingu á byggingarvísitölu.

Vegna ákvæða um styttingu vinnuvikunnar breytist verkfæragjaldið úr kr. 180,10 (01.04.2020) í kr. 181,62 1. júlí miðað við 37 virkar vinnustundir á viku.

Sjá nánar bókun í kjarasamningi bls. 92.

Endurgreiðsla á virðisaukaskatti vegna bílaviðgerða, bílamálunar eða bílaréttinga

Með lögum nr. 25/2020, um breytingu á ýmsum lögum til að mæta efnahagslegum áhrifum heimsfaraldurs kórónuveiru, var m.a. sú tímabundna breyting gerð að virðisaukaskattur vegna vinnu manna við bílaviðgerðir, bílamálun og bílaréttingar fólksbifreiða yrði að öllu leyti endurgreiddur.

Með bréfi Samiðnar, dags. 5. og 12 júní 2020, til fjármála- og efnahagsráðuneytisins, benti Samiðn á mikilvægi þess að endurgreiðsla vegna þessarar vinnu manna yrði útvíkkuð með þeim hætti að slíkar endurgreiðslu taki til viðgerða, málningar eða réttinga á öllum skráningarskyldum ökutækjum, sbr. umferðarlög nr. 77/2019 og reglugerð nr. 751/2003, um skráningu ökutækja, með síðari breytingum. Samiðn benti á að ekki yrði séð að nein rök séu fyrir því að undanskilja önnur skráningarskyld ökutæki frá umræddri endurgreiðslu á virðisaukaskatti svo sem bifhjól, hjólhýsi, tjaldvagn eða dráttarvél. Samiðn telur afar brýnt að umræddar breytingar verði gerðar hið fyrsta.

Kjarasamningur við kirkjugarðana samþykktur

Kjarasamningur Samiðnar við Kirkjugarða Reykjavíkurprófastsdæma sem undirritaður var 19. maí sl. var samþykktur í atkvæðagreiðslu sem lauk í dag en 89% voru hlynnt samningnum og 11% andvíg.  Samningurinn telst því samþykktur.

>> Sjá samninginn.

Úrræði stjórnvalda vegna kórónuveirufaraldursins

Samiðn fagnar þeim úrræðum sem stjórnvöld hafa gripið til vegna kórónuveirufaldsins, m.a. hlutabótaleiðinni sem ætlað er að tryggja ráðningarsamband við launþega.  Að sama skapi telur Samiðn það forkastanlegt að fyrirtæki séu að nýta sér umrædda leið ef þau þurfa ekki á henni að halda.  Fyrirtæki sem greiða út arðgreiðslu og kaupa upp eigin bréf og nýta sér um leið umrædd úrræði stjórnvalda eru ekki góð fyrirmynd. Hafa ber í huga að þeim fjármunum sem varið er um þessar mundir vegna kórónuveirufaraldursins eru fjármunir almennings. Mikilvægt er á tímum sem þessum að allt samfélagið standi saman í þeim ólgusjó sem nú er að ganga yfir landið. Samiðn hvetur til ábyrgra ákvarðana fyrirtækja með hagsmuni Íslands að leiðarljósi og fagnar því að stjórnvöld ætli að setja strangari leikreglur vegna nýtingar úrræða sem eru á kostnað samfélagsins.