Fréttir

Hækkun menntagjalds í Endurmenntunarsjóð vél- og stálsmiða

Þann 1. október s.l. hækkaði hlutur launagreiðenda í Endurmenntunarsjóð vél- og stálsmiða í kr. 1.050 fyrir hvern starfsmann á mánuði.

Samið við Bechtel vegna framkvæmda við Fjarðarálsverkefnið

Samiðn, Starfsgreinasambandið og Rafiðnaðarsambandið undirrituðu í gær sáttmála við Bechtel vegna framkvæmda við Fjarðarálsverkefnið.  Tilgangur sáttmálans er að stuðla að jákvæðu samstarfi á milli Bechtels og stéttarfélaganna.  Aðilar skuldbinda sig til að skapa öruggt vinnuumhverfi og bjóða upp á tækifæri til þjálfunar og framþróunar í starfi, sem og stuðla að samvinnu og jákvæðum samskiptum á vinnustað í því markmiði að auka skilvirkni og framleiðni.  Sáttmálinn gildir fyrir alla verktaka og starfsmenn þeirra sem koma inn á framkvæmdasvæði Fjarðaráls.

>>>sjá nánar

Samiðnarblaðið komið út

Annað tölublað Samiðnarblaðsins er nú komið út og hefur verið sent félagsmönnum aðildarfélaganna.  Meðal efnis að þessu sinni er athyglisvert viðtal við trésmið sem lýsir ástandinu við Kárahnjúka, umfjöllun um verkföll og skattalækkanir.

Auglýsing um sveinspróf

Sveinspróf í málmiðngreinum, netagerð, gull- og silfursmíði, skósmíði, úrsmíði, söðlasmíði, hársnyrtiiðn og snyrtifræði verða haldin í janúar 2005, ef næg þátttaka fæst.  Sveinspróf í vélvirkjun verður haldið í mars 2005.  Umsóknareyðublöð má nálgast á heimasíðu Umsýsluskrifstofu námssamninga og sveinsprófa www.uns.is.

Sveinspróf í húsasmíði verður haldið 28. – 30. janúar 2005.  Umsóknafrestur er til 1. des.  Upplýsingar og umsóknareyðublöð liggja frami hjá Menntafélagi byggingariðnaðarins eða á heimasíðu MFB www.mfb.is

Desemberuppbót og hækkanir 1. jan. 2005

Desemberuppbót:
Desemberuppbótin í ár er kr. 38.500 og kr. 24.300 fyrir iðnnema. Starfsmenn sem hafa verið í fullu starfi allt árið hjá sama fyrirtæki og eru við störf hjá fyrirtækinu í síðustu viku nóvember eða í fyrstu viku desember skulu eigi síðar en 15. desember frá greidda desemberuppbót.  Starfsmenn í hlutastarfi sem uppfylla sömu skilyrði skulu fá greitt hlutfallslega.  Uppgjörstímabilið er almanaksárið, en fullt ársstarf telst í þessu sambandi 45 unnar vikur, eða meira, fyrir utan orlof.  Starfsmenn með skemmri starfstíma skulu fá greitt hlutfallslega miðað við starfstíma sinn.

Launahækkun:
Öll laun og kjaratengdir liðir hækka um 3% þann 1. janúar n.k.  

Hækkun mótframlags í lífeyrissjóð:
Mótframlag launagreiðenda í lífeyrissjóði hækkar í 7% þann 1. janúar n.k., jafnframt því sem 1% mótframlag í séreignarsjóð óháð framlagi launamanns fellur niður.

Íslandsmeistaramót í málmsuðu

Íslandsmeistaramótið í málmsuðu 2004 fer fram í Iðnskólanum í Hafnarfirði laugardaginn 6. nóvember n.k. og hefst stundvíslega kl 8:00. Aðalstyrktaraðili mótsins að þessu sinni er JAK ehf í samstarfi við Fronius í Austurríki og verður sérfræðingur frá Fronius á staðnum og kynnir suðubúnað fyrirtækisins.  Iðnskólinn í Hafnarfirði verður einnig með opið hús þar sem gestum og gangandi gefst kostur á að kynna sér starfsemi skólans þar á meðal CNC tölvukennslu og eldsmíði en eldsmíðakennari skólans mun sína réttu handbrögðin.  Mötuneyti skólans verður opið og verða þar léttar veitingar í boði skólans.  Hvetjum við alla áhugasama um málmsuðu að nýta þetta einstaka tækifæri og sjá þá bestu í málmsuðu á Íslandi og kynnast starfsemi Iðnskólans.