Fréttir

Desemberuppbót og hækkanir 1. jan. 2005

Desemberuppbót:
Desemberuppbótin í ár er kr. 38.500 og kr. 24.300 fyrir iðnnema. Starfsmenn sem hafa verið í fullu starfi allt árið hjá sama fyrirtæki og eru við störf hjá fyrirtækinu í síðustu viku nóvember eða í fyrstu viku desember skulu eigi síðar en 15. desember frá greidda desemberuppbót.  Starfsmenn í hlutastarfi sem uppfylla sömu skilyrði skulu fá greitt hlutfallslega.  Uppgjörstímabilið er almanaksárið, en fullt ársstarf telst í þessu sambandi 45 unnar vikur, eða meira, fyrir utan orlof.  Starfsmenn með skemmri starfstíma skulu fá greitt hlutfallslega miðað við starfstíma sinn.

Launahækkun:
Öll laun og kjaratengdir liðir hækka um 3% þann 1. janúar n.k.  

Hækkun mótframlags í lífeyrissjóð:
Mótframlag launagreiðenda í lífeyrissjóði hækkar í 7% þann 1. janúar n.k., jafnframt því sem 1% mótframlag í séreignarsjóð óháð framlagi launamanns fellur niður.

Íslandsmeistaramót í málmsuðu

Íslandsmeistaramótið í málmsuðu 2004 fer fram í Iðnskólanum í Hafnarfirði laugardaginn 6. nóvember n.k. og hefst stundvíslega kl 8:00. Aðalstyrktaraðili mótsins að þessu sinni er JAK ehf í samstarfi við Fronius í Austurríki og verður sérfræðingur frá Fronius á staðnum og kynnir suðubúnað fyrirtækisins.  Iðnskólinn í Hafnarfirði verður einnig með opið hús þar sem gestum og gangandi gefst kostur á að kynna sér starfsemi skólans þar á meðal CNC tölvukennslu og eldsmíði en eldsmíðakennari skólans mun sína réttu handbrögðin.  Mötuneyti skólans verður opið og verða þar léttar veitingar í boði skólans.  Hvetjum við alla áhugasama um málmsuðu að nýta þetta einstaka tækifæri og sjá þá bestu í málmsuðu á Íslandi og kynnast starfsemi Iðnskólans.

Hækkun kílómetragjalds

Þann 1. nóvember n.k. hækkar kílómetragjald í 62 kr. fyrir hvern ekinn kílómetra samkvæmt ákvörðun Ferðakostnaðarnefndar.

Minnsta gjald jafngildir 11,11 km og hækkar gjaldið um 15% ef ekið er með verkfærakistur og 30% ef ekið er með efni og/eða tæki.

Sjá nánar á vef fjármálaráðuneytisins.

Styðjum afgreiðslu- og þjónustubann á Sólbak EA-7

Framkvæmdastjórn Samiðnar beinir því til allra aðildarfélaga sambandsins að þau styðji  afgreiðslu- og þjónustubann á Sólbak EA-7.   Jafnframt hvetur framkvæmdastjórn Samiðnar aðildarfélögin til að koma í veg fyrir að einstaka félagsmenn þjónusti Sólbak EA-7.

Deila Sjómannasambands Íslands og Útgerðarfélags Sólbaks snýst um hvort einstaka fyrirtæki geti gert kjarasamninga sem eru lakari en gildandi kjarasamningar segja til um. Deilan snýst því um grundvallaratriði sem snúa að okkur öllum og niðurstaða hennar mun því hafa áhrif á alla kjarasamninga í framtíðinni. Ef Útgerðarfélag Sólbaks kemst upp með að brjóta kjarasamninga með þessum hætti er spurningin hvenær kemur að okkur.

Það er von og vissa framkvæmdastjórnar Samiðnar að öll aðildarfélög sambandsins bregðist fljótt og vel við og það myndist órofa samstaða í verkalýðshreyfingunni til að knýja fram sigur í þessu mikilvæga máli.

Samiðn lýsir yfir fullum stuðningi við félaga í Sjómannasambandi

Samiðn lýsir yfir fullum stuðningi við félaga í Sjómannasambandinu sem nú eiga í harðvítugri deilu til að verja lögvarin lágmarkskjör kjarasamninga. Aðgerðir útgerðarfélagsins Brims miðast að því að færa skipulag og samskipti á vinnumarkaði langt aftur í tímann og hlýtur verkalýðshreyfingin að mæta því af fullri einurð.  Samiðn mótmælir jafnframt afskiptum lögreglu af vinnudeilu sem snýst um að verja lögvarin lágmarkslaun kjarasamnings og stríðir gegn áratugalangri hefð um samskipti á vinnumarkaði.

Evrópska vinnuverndarvikan með áherslu á byggingariðnaðinn

Evrópska vinnuverndarvikan stendur yfir frá 18.-22. október n.k. að tilstuðlan evrópsku vinnuverndarstofnunarinnar.  Markmiðið er að vekja athygli á aðbúnaðarmálum og gera vinnustaðina heilsusamlegri og öruggari.  Að þessu sinni er áherslan lögð á byggingariðnaðinn þar sem áherslan er á fækkun fallslysa en þau teljast vera 40% af vinnuslysum í greininni.

Sjá nánar heimasíðu Vinnueftirlits ríkisins