Fréttir

Eyðum misrétti í byggingariðnaði

Að undanförnu hefur Samiðn heimsótt fyrirtæki í byggingariðnaði og kannað hvort erlent starfsfólk sé ráðið til vinnu á viðunandi kjörum, hver menntun þess er og hver aðbúnaður þess er. Það má ekki líðast að fyrirtæki ráði til sín erlenda starfskrafta, oft í gegnum starfsmannaleigur, á lúsarlaunum og að þeim sé jafnvel boðið upp á aðbúnað sem ekki telst með nokkru móti viðunandi.
Sem betur fer höfum við orðið þess áskynja í heimsóknum okkar að flest fyrirtæki virða réttindi þessa starfsfólks. En þó svo að sú mynd sem birtist í vinnustaðaheimsóknum sé að flestu leyti ánægjuleg, eru því miður til slæm dæmi um hið gagnstæða, þar sem réttindi erlendra starfsmanna eru þverbrotin. Við hjá Samiðn viljum skapa breiða samstöðu um að útrýma að fullu slíku háttalagi fárra aðila. 

Spurningar vakna

Áleitnar spurningar hafa vaknað í kjölfar heimsókna Samiðnar. Ljóst er til að mynda að erlent starfsfólk er í langflestum tilvikum skráð sem ófaglært verkafólk og nýtur launakjara í samræmi við það. Ef þessar skráningar eru réttar er ljóst að heilu stórhýsin eru reist hér á landi um þessar mundir án þess að faglærðir iðnaðarmenn komi að því verki, nema þá í eftirlitshlutverki. Það er að sjálfsögðu óviðunandi. Annað hvort er skráningin röng - og um faglært fólk að ræða sem nýtur ekki kjara í samræmi við menntun sína - eða hús eru einfaldlega reist á Íslandi af ófaglærðu fólki. Þetta er áhyggjuefni sem þarf að ræða frekar og rannsaka.

Jólastyrkurinn til endurhæfingarstöðvarinnar á Reykjalundi

Samiðn ásamt Byggiðn og FIT ákváðu að veita Styrkar- og sjúkrasjóði verslunarmanna í Reykjavík jólastyrkinn að þessu sinni, en sjóðurinn stendur fyrir fjársöfnun til endurnýjunar á tækjakosti endurhæfingarstöðvarinnar á Reykjalundi í tilefni 150 ára afmælis Styrktar- og sjúkrasjóðsins.

Á meðfylgjandi mynd má sjá Hilmar Harðarson formann Samiðnar og FIT, og formann Byggiðnar Finnbjörn A. Hermannsson, afhenta forsvarsmönnum sjóðsins styrkinn.

Aðventukaffi Birtu lífeyrissjóðs

Starfsfólk Birtu bíður sjóðfélögum í aðventukaffi og spjall í aðsetri lífeyrissjóðsins á 5. hæð að Sundagörðum 2 í Reykjavík fimmtudaginn 7. desember kl. 16.30.

Tilefnið er einfaldlega að eiga notarlega samverstund síðdegis á jólaföstunni og rabba saman í góðum hópi um það sem hverjum og einum liggur á hjarta.

Starsfólk Birtu verður í hlutverki gestgjafa og tekur fagnandi á móti sjóðsfélögum í aðventuskapi.

Hvar er fagmennskan eiginlega?

Hilmar Harðarson, formaður Félags iðn- og tæknigreina og Samiðnar, ritar leiðara í nýjasta fréttabréf FIT þar sem hann kallar eftir aukinni fagmennsku á íslenskum vinnumarkaði og gagnrýnir kennitöluflakk og svarta atvinnustarfsemi:

"Stjórnmálamenn stæra sig gjarnan af háu menntunarstigi og fagmennsku á íslenskum vinnumarkaði en því miður virðist staðreyndin vera sú að alltof margir aðilar séu allt annað en faglegir. FIT hefur þannig mörg dæmi um stór verk þar sem ekki finnst einn einasti fagmenntaður iðnaðarmaður að störfum og vandasömum verkefnum úthlutað til ófaglærðra. Slíkt er óhæfa og með því stranga og viðamikla eftirliti sem til staðar er hér á landi ættu svona vinnubrögð að sjálfsögðu ekki að viðgangast. Er nema von að spurt sé hvar fagmennskan sé eiginlega? Að sjálfsögðu á að gera gangskör að því að bæta úr þessu hið snarasta og það er hægt að fullyrða að fáir kaupendur yrðu væntanlega að íbúðum í stórhýsum ef þeir yrðu upplýstir um að fagmenntaðir iðnaðarmenn hefðu hvergi komið þar nærri. FIT mun berjast fyrir því að breyta þessu og koma fagmennskunni aftur í fyrsta sæti.

Kennitöluflakkarar á ferð og félagsleg undirboð

Flest bendir til að kennitöluflakk og svört atvinnustarfsemi sem erfitt er að aðgreina frá venjulegri brotastarfsemi blómstri á íslenskum vinnumarkaði. Það á ekki síst við í byggingaiðnaði en einnig víðar, til dæmis á sumum sviðum ferðaþjónustu.
Enn fær það að viðgangast að einstaklingar, sem hafa orðið uppvísir að refsiverðri starfsemi í atvinnurekstri, setji félög í þrot, vísi launakröfum á Ábyrgðarsjóð launa, standi hvorki skil á gjöldum til verkalýðsfélaga né lífeyrissjóða, kaupi svo nýtt félag með nýrri kennitölu og byrji leikinn upp á nýtt. Nýja kennitalan er skömmu síðar komin með stórt verkefni á vegum verkkaupa, sem stundum er aðili á vegum ríkis eða sveitarfélags. Nýja kennitalan er hluti af keðju sem hefur í þjónustu sinni erlendar starfsmannaleigur en þær spretta upp eins og gorkúlur á íslenskum vinnumarkaði um þessar mundir. Leigurnar flytja inn erlenda verkamenn sem eiga að fá lágmarkslaun á íslenskum vinnumarkaði og fá sumir greidd þau laun en aðrir ekki. Þessir erlendu verkamenn vinna flest eða öll störf sem unnin eru við byggingu fjölmargra mannvirkja á Íslandi um þessar mundir, líka þau störf sem iðnaðarmenn með löggild starfsréttindi eiga að vinna samkvæmt lögum og samningum sem eiga að gilda á íslenskum vinnumarkaði.

Vilji ný ríkisstjórn eiga samleið með þjóðinni verður að raða verkefnum með framsýni og sanngirni að leiðarljósi

Af fréttum að dæma er að verða til ný ríkisstjórn sem ætti að hafa möguleika á að sitja út kjörtímabilið og koma mörgum brýnum verkum í framkvæmd, verkum sem þarfnast að á þeim verði tekið af festu og þau ekki látin bíða fram á síðustu stundu. Innviðaverkefni eins og í heilbrigðis-, samgöngu- og menntamál eru mál sem flestir eru sammála um að verði að hafa forgang.

Staðan í heilbrigðismálum er orðin mjög alvarleg og ef ekki verður tekið til hendinni eru miklar líkur á að núverandi kerfi fari að molna innan frá gegn vilja almennings. Fólk lætur ekki bjóða sér að geta ekki haft greiðan aðgang að heilbrigðisþjónustu og mun leita annað sé hún ekki í boði. Verði það raunin munu þeir sem geta greitt fyrir þjónustuna fá forgang fram yfir þá efnaminni.  Það má fullyrða langflestir Íslendingar vilja ekki slíkt kerfi.
Málefni eldri borgara hafa verið hávær og er það málaflokkur sem ríkisstjórnin kemst ekki hjá að taka hratt og vel á.
Í nýrri rannsókn dr. Hauks Arnþórssonar stjórnsýslufræðings kemur í ljós að meira en helmingur eftirlaunaþega er með tekjur undir 350.000 kr. á mánuði. Sá sem býr einn og er með svo lágar tekur lifir við mjög þröng lífsskilyrði og getur lítið veitt sér. Þrátt fyrir hraðvaxandi eftirlaun frá lífeyrissjóðum þá batnar fjárhagsstaða lífeyrisþega lítið vegna mikilla tekjutenginga almannatrygginga.  Það getur ekki verið ásættanlegt að eftirlaunaþegi fái aðeins rúmar 30.000 kr. fyrir hverjar 100.000 kr. sem hann fær úr lífeyrissjóði.
Annað mál sem brennur á mörgum er þjónusta við eldri borgara og er þar bæði átt við þjónustu í heimahúsum og á hjúkrunarheimilum. Allt þetta kerfi þarf að taka til endurskoðunar bæði hvað varð uppbyggingu hjúkrunarheimila og mönnun heimaþjónustu. Forsenda góðrar þjónustu er að starfsfólki séu greidd góð laun svo það vilji gera þjónustustörf við eldri borgara að föstu starfi.

Samgöngumál brenna á mörgum ekki síst þeim sem búa fjarri höfuðborgarsvæðinu. Það er forsenda byggðar um allt land að samgöngur séu góðar og öruggar allt árið um kring. Íslendingar verða að ráðast í umfangsmiklar samgöngubætur næstu 10 árin og vinna upp áralanga vanrækslu í þessum málaflokki.

Forgangsröðun í menntamálum verður að taka mið af þeim þjóðfélagsbreytingum sem menn telja sig sjá í dag og kallaðar hafa verið "fjórða iðnbyltingin". Liður í því er að efla verkmenntun og gera hana samkeppnishæfa við bóknámið en ef fram fer sem horfir verður mikill skortur á starfsfólki með góða verkmenntun sem mun takmarka framþróunina í atvinnulífinu.

Það verður ekki allt gert á sama tíma en það skiptir máli að verkefnum verði raðað niður af framsýni og sanngirni þannig að  um þau skapist friður. Við munum ekki láta bjóða okkur að allt eigi að gerast á síðast ári kjörtímabilsins eins og því miður oft hefur verið raunin.

PLANIÐ

Eins og öllum er kunnugt er mikill fjöldi erlendra starfsmanna að störfum á Íslandi í dag og ef horft er til framtíðar má gera ráð fyrir að svo verði áfram. Fjöldinn er mestur í mannvirkjagerð og ferðaþjónustu og svo er komið að stór fyrirtæki í mannvirkjagerð manna öll störf á gólfinu með erlendu vinnuafli.
Þetta getur í sjálfu sér verið allt í lagi ef eðlilega er staðið að hlutunum s.s. hvað verðar starfsréttindi launamál og aðbúnað.
Samiðn og aðildarfélögin tóku þá ákvörðun á vormánuðum að gera átak í að heimsækja vinnustaði í mannvirkjagerð og kalla eftir upplýsingum um laun og starfsréttindi erlendra starfsmanna. Við notuðum sumarið til að undirbúa verkefnið með okkar lögmönnum og kortlögðum hvernig best væri að halda á svo það væri líklegt til að skila árangri.
Átakið sem hefur fengið starfsheitið Planið var formlega sett af stað 19. september sl. og nú hafa um 10 vinnusvæði á Reykjavíkursvæðinu verið heimsótt.
Framkvæmdin er þannig að við veljum einn til tvo vinnustaði sem við heimsækjum hverju sinni. Starfsmenn eru skráðir og kannað er hvort starfsmenn séu með vinnustaðaskírteini og hvort þeir geti staðfest réttindi. Einnig tökum við ljósmyndir sem staðfesta hvað starfsmenn eru að gera þegar heimsóknin á sér stað. Á sama tíma eru stjórnendur heimsóttir og krafðir um upplýsingar um launamál erlendu starfsmanna. Sé ekki hægt að fá þessar upplýsingar á staðnum er fengin staðfesting á hvernig hægt sé að fá slíkar upplýsingar.
Þegar skráningin liggur fyrir er farið með listann til fyrirtækisins og óskað eftir að fyrirtækið leggi fram greinargóðar upplýsingar um starfskjör og réttindi.
Flest fyrirtækin taka okkur fagnandi og veita okkur allar umbeðnar upplýsingar en því miður eru undantekningar þar á. Í slíkum tilfellum erum við með viðbragðsáætlun sem fer í gang og við fylgjum eftir.
Okkur er ljóst að þetta vinnulag sem við teljum árangursríkt kallar á mikla vinnu og þolinmæði. Brotafyrirtækin eru oft einu feti á undan okkur í að finna leiðir, en við höfum á að skipa öflugri sveit eftirlitsmanna og frábærra lögmanna sem láta ekki undan þeim sem virða ekki kjarasamninga og lög.
Við hjá Samiðn lítum á erlenda starfsmenn sem auðlind sem við eigum að virða og fara vel með.