Fréttir

Nýtt verkfæragjald blikksmiða

Samkvæmt kjarasamningi Samiðnar og SA breytist verkfæragjald blikksmiða þann 1. janúar og 1. júlí ár hvert til samræmis við breytingu á byggingarvísitölu.

Vegna ákvæða um styttingu vinnuvikunnar breytist verkfæragjaldið úr kr. 180,10 (01.04.2020) í kr. 181,62 1. júlí miðað við 37 virkar vinnustundir á viku.

Sjá nánar bókun í kjarasamningi bls. 92.

Endurgreiðsla á virðisaukaskatti vegna bílaviðgerða, bílamálunar eða bílaréttinga

Með lögum nr. 25/2020, um breytingu á ýmsum lögum til að mæta efnahagslegum áhrifum heimsfaraldurs kórónuveiru, var m.a. sú tímabundna breyting gerð að virðisaukaskattur vegna vinnu manna við bílaviðgerðir, bílamálun og bílaréttingar fólksbifreiða yrði að öllu leyti endurgreiddur.

Með bréfi Samiðnar, dags. 5. og 12 júní 2020, til fjármála- og efnahagsráðuneytisins, benti Samiðn á mikilvægi þess að endurgreiðsla vegna þessarar vinnu manna yrði útvíkkuð með þeim hætti að slíkar endurgreiðslu taki til viðgerða, málningar eða réttinga á öllum skráningarskyldum ökutækjum, sbr. umferðarlög nr. 77/2019 og reglugerð nr. 751/2003, um skráningu ökutækja, með síðari breytingum. Samiðn benti á að ekki yrði séð að nein rök séu fyrir því að undanskilja önnur skráningarskyld ökutæki frá umræddri endurgreiðslu á virðisaukaskatti svo sem bifhjól, hjólhýsi, tjaldvagn eða dráttarvél. Samiðn telur afar brýnt að umræddar breytingar verði gerðar hið fyrsta.

Kjarasamningur við kirkjugarðana samþykktur

Kjarasamningur Samiðnar við Kirkjugarða Reykjavíkurprófastsdæma sem undirritaður var 19. maí sl. var samþykktur í atkvæðagreiðslu sem lauk í dag en 89% voru hlynnt samningnum og 11% andvíg.  Samningurinn telst því samþykktur.

>> Sjá samninginn.

Úrræði stjórnvalda vegna kórónuveirufaraldursins

Samiðn fagnar þeim úrræðum sem stjórnvöld hafa gripið til vegna kórónuveirufaldsins, m.a. hlutabótaleiðinni sem ætlað er að tryggja ráðningarsamband við launþega.  Að sama skapi telur Samiðn það forkastanlegt að fyrirtæki séu að nýta sér umrædda leið ef þau þurfa ekki á henni að halda.  Fyrirtæki sem greiða út arðgreiðslu og kaupa upp eigin bréf og nýta sér um leið umrædd úrræði stjórnvalda eru ekki góð fyrirmynd. Hafa ber í huga að þeim fjármunum sem varið er um þessar mundir vegna kórónuveirufaraldursins eru fjármunir almennings. Mikilvægt er á tímum sem þessum að allt samfélagið standi saman í þeim ólgusjó sem nú er að ganga yfir landið. Samiðn hvetur til ábyrgra ákvarðana fyrirtækja með hagsmuni Íslands að leiðarljósi og fagnar því að stjórnvöld ætli að setja strangari leikreglur vegna nýtingar úrræða sem eru á kostnað samfélagsins.

Höfum opnað að nýju!

Það er okkur ánægja að tilkynna að við höfum opnað húsakynni okkar að nýju á Stórhöfðanum "2F Hús Fagfélaganna." 

Opnunartími er líkt og áður frá kl. 8-16 nema föstudaga 8-15.

Minnum á reglur sóttvarnarlæknis um umgengni og handþvott >> sjá hér.

Leiðbeiningar fyrir iðnaðarmenn vegna COVID-19

Embætti landlæknis hefur gefið út leiðbeiningar til aðila sem sinna þjónustu, eftirliti og viðgerðum á heimilum eða í fyrirtækjum.

Gátlisti útsendra starfsmanna vegna COVID-19

Með útsendum starfsmönnum er sérstaklega átt við alla starfsmenn er veita þjónustu við almenning á heimilum þeirra eða í fyrirtækjum.

Þegar hætta er talin á smiti af völdum kórónaveiru (COVID-19) þarf útsendur starfsmaður að:

> Þekkja einkenni COVID-19 sýkingar og smitleiðir veirunnar og kynna sér leiðbeiningar um viðurkennda verkferla, nánari upplýsingar á http://www.landlaeknir.is.
> Einkenni COVID-19 eru: Hósti, hiti, kvefeinkenni, bein- og vöðvaverkir og þreyta, stundum með hálsbólgu. Eins hefur breytingu eða tapi á bragð- og lyktarskyni verið lýst.
> Beita grundvallarsmitgát við störf.
> Upplýsa næsta yfirmann ef grunur vaknar um COVID-19.

Við störf á heimilum annarra eða í fyrirtækjum meðan farsótt geisar er gott að hafa í huga:

> Nota skal hreinan vinnufatnað/hlífðarfatnað á hverri vakt. Ef fatnaður óhreinkast eða mengast ætti að skipta um fatnað.
> Alltaf skal líta á alla hanska sem mengaða og varast að snerta andlit með þeim. Nota skal hreina vinnuhanska eða einnota hanska við hvert verk. Ef ekki er hægt að skipta um vinnuhanska fyrir hvert verk skal að lágmarki gera það ef mögulegt er að þeir hafi mengast, sérstaklega ef hafa mengast með slími frá öndunarvegum starfsmanns eða óþekktum vökvum á vinnustað.
> Þótt engin veikindi séu þekkt hjá starfsmanni eða þeim sem unnið er hjá er rétt að halda sem mestri fjarlægð allan tímann meðan útsendur starfsmaður er á staðnum, best er að enginn annar sé í rými/herbergi þar sem hann er að störfum.
> Starfsmaður skal reyna að koma sem minnst við yfirborðsfleti, s.s. ljósarofa, með berum höndum. Ef það er óhjákvæmilegt ætti að hreinsa hendur fyrir og eftir slíka snertingu.

>> Sjá gátlistann í heild sinni.