Fréttir

Mennta- og menningarmálaráðherra til fundar við sambandsstjórn

Á fundi sambandsstjórnar nk. föstudag mun Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra ræða stefnu ríkisstjórnarinnar í menntamálum og hvernig staðið verður við fögur fyrirheit um eflingu verk- og tæknináms í landinu. 

Til fundarins kemur einnig Þórarinn G. Pétursson aðalhagfræðingur Seðlabankans og mun kynna stöðu efnahagsmála í aðdraganda endurnýjunar kjarasamninga. 

Sambandsstjórnin mun á fundinum stíga fyrstu skrefin í mótum kröfugerðar fyrir komandi kjarasamningsaviðræður en núverandi samningar renna sitt skeið um næstu áramót.

GOLFMÓT IÐNAÐARMANNA 2. JÚNÍ

Samiðn auk Byggiðnar, FIT, Grafíu, Matvís og Rafiðnaðarsambandsins standa sameiginlega að GOLFMÓTI IÐNAÐARMANNA á Leirunni laugardaginn 2. júní.
Ræst verður út kl. 9.  Mótsgjaldið er 4000 kr. og er innifalið mótsgjald, teiggjöf, spil og matur að spili loknu.

Síðasti skráningardagur er 25. maí kl. 16 eða þegar hámarksfjölda er náð.    >> Skráning hér.

Orlofsuppbótin 2018

Orlofsuppbótin, að meðtöldu orlofi, greiðist þann 1.júní miðað við starfshlutfall og starfstíma á orlofsárinu (01.05.-30.04), öllum starfsmönnum sem verið hafa samfellt í starfi hjá atvinnurekanda í 12 vikur á síðustu 12 mánuðum m.v. 30. apríl eða eru í starfi 1.maí. Orlofsuppbótin er kr. 48.000. Húsasmiðir og pípulagningamenn í ákvæðisvinnu fá greidda orlofsuppbót líkt og aðrir.

Iðnnemar í fullu starfi hjá fyrirtæki á námstíma fá fulla orlofsuppbót.

Fullt starf telst vera 45 unnar vikur eða meira fyrir utan orlof.

Sjá reiknivél fyrir útreikning orlofsuppbótar.

Dagskrá 1. maí - Sterkari saman

Verkalýðshreyfingin á Íslandi varð til í lok 19. aldar þegar verkafólk hóf að skipuleggja sig í stéttarfélög. Það áttaði sig á aflinu sem bjó í fjöldanum og samstöðunni og gerði hvað það gat til að virkja það afl. Frá þeim tíma hefur sameinuð verkalýðshreyfing barist fyrir réttindum og kjörum launafólks á Íslandi með þeim árangri að óvíða í heiminum er staða fólks á vinnumarkaði sterkari en hér. Þar leikur samstaðan lykilhlutverk.
Nú horfum við hins vegar upp á vaxandi misskiptingu tekna og auðs í samfélaginu. Alþingismenn, embættismenn ríkisins og stjórnendur fyrirtækja taka launahækkanir langt umfram venjulegt launafólk og skattar eru lækkaðir á stóreignafólk. Á sama tíma taka stjórnvöld kaupmáttaraukninguna frá hinum lægst launuðu með skattahækkunum og skerðingu bóta.
Það er verk að vinna fyrir samhenta og samstæða verkalýðshreyfingu. Við erum fámenn þjóð í gjöfulu landi og það verður að skipta gæðunum af sanngirni. Við höfum vopnin og við höfum aflið ef við stöndum saman.
Eftir harðvítugt sex vikna verkfall árið 1955 náðist sigur á ýmsum sviðum verkalýðsbaráttunnar og atvinnuleysistryggingum var komið á. Þá var skrifað stóru letri á forsíðu Vinnunnar, blaðs ASÍ:
"Sterk og sameinuð verkalýðssamtök höfðu varið rétt sinn með sæmd ok komu heil hildi frá."

Samiðn skorar á félagsmenn sína og launafólk um land allt að taka þátt í hátíðarhöldum dagsins og sýna samstöðu í baráttunni fyrir bættum kjörum.


Dagskrá 1. maí hátíðarhaldanna í Reykjavík verður sem hér segir:

Safnast saman á horni Laugavegar og Snorrabrautar klukkan 13:00
Kröfugangan hefst kl. 13:30
Lúðrasveit verkalýðsins og Lúðrasveitin Svanur leika í göngunni
Útifundur á Ingólfstorgi settur klukkan 14:10
Dagskrá:
Síðan skein sól
Ræða: Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR
Ræða: Þórunn Sveinbjarnardóttir, formaður BHM
Heimilistónar
Samsöngur– Maístjarnan og Internasjónalinn
Fundarstjóri: Þórarinn Eyfjörð
Öll dagskráin verður táknmálstúlkuð og Kolbrún Völkudóttir mun syngja á táknmáli í tónlistaratriðum.

Hátíðarkaffi Byggiðnar og FIT verður á Grand hóteli við Sigtún að göngu lokinni - sjá nánar.

1.maí - launahækkun 3%

> Laun á almennum vinnumarkaði hækka um 3% þann 1.maí í samræmi við kjarasamning Samiðnar og Samtaka atvinnulífsins

> Laun starfsmanna hjá ríkinu og Reykjavíkurborg hækka um sömu prósentu þann 1. júní.

> Laun starfsmanna sveitarfélaga hækka um 2% þann 1. júní.

Sjá nánar

Martin Luther King átti sér draum

Á þessum degi fyrir 40 árum var Martin Luther King skotinn til bana vegna baráttu hans fyrir jöfnum tækifærum allra. Hann átti sér draum um samfélag þar sem þeldökkir og hvítir menn væru algjörlega jafnir og deildu saman gæðum samfélagsins. Hann gerði sér grein fyrir að það tæki tíma að ná því takmarki. Ekki er ósennilegt ef hann væri meðal okkar í dag að þá væri hann ósáttur við árangurinn. En af hverju ættum við Íslendingar að minnast á Martin Luther, á hans barátta eitthvað erindi við okkur Íslendinga í dag. Martin Luther barðist fyrir jöfnum tækifærum til handa öllum ekki bara hvítra og þeldökkra.

Ójöfnuður fer vaxandi í heiminum, þeir ríku verða ríkari og sá hluti gæðanna sem fellur í hlut fjöldans minnkar stöðugt. Þetta á við hér á Íslandi eins og annarsstaðar í heiminum.

Ísland er að breytast í alþjóðlegt samfélag og þeim sem ekki eiga íslenskan uppruna fjölgar stöðugt. Allar rannsóknir staðfesta að fólk af erlendum uppruna getur ekki nýtt sér sömu tækifæri og við hin.

Sífellt fjölgar eldra fólki sem verður að lifa við þröngan fjárhag og takmörkuð lífsgæði. Sama má segja um öryrkja ekki síst þá sem aldrei hafa átt tækifæri á að fara út á vinnumarkaðinn.

Býsna stór hópur barna býr við fátækt og fer á mis við margvísleg gæði sem við teljum sjálfsögð.

Þegar við minnumst Martin Luthers í dag er gott að hugsa inn á við og horfa gagnrýnum augum á okkar litla samfélag. Leggja mat á hvernig hefur okkur tekist að skapa öllum jöfn tækifæri og ekki síst hvernig getum við gert betur og tryggt að sameiginlegum gæðum sé deilt með meiri sanngirni en gert í dag.