Fréttir

Mikilvægi þess að velja rétt

Að undanförnu hefur mikil umræða verið um rakavandamál í byggingariðnaði, sér í lagi um myglu og áhrif hennar á líf okkar. Er það mjög þörf umræða enda eru þess mörg dæmi að upp hafi komið alvarleg heilsufarsleg vandamál í tengslum við myglu. Þá hefur komið til mikið fjárhagslegt tjón vegna myglu og annarra atriða sem tengjast henni.

Auðvitað getur margt komið til þegar leitað er ástæðna fyrir myglu en ljóst er að eitt það mikilvægasta er þó að vanda til verka og leita til þeirra sem hafa þekkingu og færni á viðkomandi sviði.

Löggiltir iðnaðarmenn eru frumforsenda fyrir fagmennsku í vinnubrögðum. Þá hefur átt sér stað mikil vitundarvakning á meðal faglærðra iðnaðarmanna um myglu og mikið framboð er af endurmenntun á þessu sviði fyrir iðnaðarmenn, m.a. hjá IÐUNNI fræðslusetri.

Tökum höndum saman og veljum rétt. Veljum fagmennsku og gefum ekki afslátt af heilsu okkar.

Betur má ef duga skal

Hagfræðideild Landsbanka Íslands var að birta upplýsingar um að verulega hefði hægt á íbúðauppbyggingu samkvæmt VSK-skýrslum fyrir uppgjörstímabilið júlí til ágúst. Landsbankinn bendir á að frá lokum síðasta árs hefur mælst samdráttur í byggingariðnaði og hefur hann aukist eftir að Covid-19 faraldurinn skall á. Að samdrátturinn sé þó minni í sérhæfðari byggingarstarfsemi en í þróun og byggingu húsnæðis. Telur bankinn að það gæti verið sökum þess að margt af því húsnæði sem er í byggingu núna, er komið á síðari byggingarstig og vinna við frágang því orðin fyrirferðarmeiri.

Þegar fyrirséð var að áhrif Cov-19 yrðu mikil á íslenskt samfélag boðaði ríkisstjórnin opinbert fjárfestingarátak. Hins vegar er staðan sú að fjárfestingar ríkissjóðs og sveitarfélaganna hafi ekki aukist í takt við þær yfirlýsingar. Samiðn ítrekar áskorun sína til stjórnvalda að standa við orð sín og auki verulega umsvif sína í opinberum framkvæmdum sem allra fyrst.

Framkvæmdastjóri Samiðnar í viðtali

Framkvæmdastjóri Samiðnar Elmar Hallgríms Hallgrímsson var í viðtali hjá Samfélaginu á Rás 1. Þar var m.a. farið yfir verkefnastöðu iðnaðarmanna um þessar mundir, mikilvægi átaksins „Allir vinna“ og hvatningu til stjórnvalda að fara í auknar framkvæmdir.

Hlusta má á viðtalið hér - Samfélagið Rás 1

Samskiptin rafræn

Vegna hertra sóttvarnaraðgerða er móttaka skrifstofu Samiðnar lokuð um óákveðinn tíma og einungis tekið við erindum í gegnum síma og tölvupóst.

Sími - 5400100
Tölvupóstur - This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.

Betur má ef duga skal

Í síðustu viku vakti Hagfræðideild Landsbankans athygli á því að fjárfestingartölur hins opinbera eru í ekki samræmi við yfirlýsingar stjórnvalda. Þar kemur m.a. fram að fjárfesting ríkissjóðs hafi minnkað um 17,1% milli fyrri árshelminga 2019 og 2020 og fjárfesting sveitarfélaganna um 9%.

Eru þetta mikil vonbrigði enda hafa stjórnvöld marglýst því yfir að gefa eigi verulega í hvað varðar fjárfestingar hjá hinu opinbera á þessum erfiðu tímum sem nú ganga yfir land og þjóð.

Er það mat Samiðnar að auka þurfi verulega fjárfestingar hjá hinu opinbera og að mikilvægt er að stjórnvöld standi við þau fyrirheit sín. Oft hefur verið þörf en nú er nauðsyn að stjórnvöld snúi vörn í sókn og grípi til frekari aðgerða hvað opinberar framkvæmdir varðar.

Átakið "Allir vinna" hefur sannað sig

Hilmar Harðarson formaður Samiðnar ritar grein í Fréttablaðið í dag þar sem hann rekur mikilvægi átaksins "Allir vinna" fyrir bæði fólk og fyrirtæki og mikilvægi þess að það nái einnig yfir skráningarskild ökutæki.  Átakið sé ekki síst neytendum til hagsbóta því fólk leitar nú frekar til faglærðra varðandi endurbætur og viðhald í stað "svarta hagkerfisins".  Tæplega 3.500 umsóknir hafa verið afgreiddar og endurgreiðslur nemið tæplega 2,3 milljörðum frá áramótum og fram til 18. ágúst.

>> Sjá nánar.