Fréttir

Um niðurstöðu kosningar hjá Eflingu

Nú liggja fyrir niðurstöður í kosningu til stjórnar Eflingar og er niðurstaðan afdráttarlaus B-listinn hlaut afgerandi kosningu.

Þessi niðurstaða hlýtur að kalla á að fólk innan stéttarfélaganna setjist niður og endurmeti hlutina. Það er ekki hægt að túlka þessa niðurstöðu með öðrum hætti en að grasrótin sé að kalla á breytt vinnubrögð.

Spurningar blasa við. Getur verið að forysta félaganna hafi verið of upptekin við að byggja upp stofnanaþáttinn á kostnað samtalsins innan félaganna og hlustunar? Í einhverjum fræðum stendur að í daglegu starf leiðtogans felist 2/3 í að hlusta og 1/3 að tala.

Stéttarfélögin eiga að taka niðurstöðu kosningarinnar í Eflingu alvarlega. Hún hefur víðtæka þýðingu fyrir verkalýðshreyfinguna í heild.

Nú er mikilvægt að fara ekki í skotgrafirnar heldur nota niðurstöðuna sem vegvísi að nýrri nálgun. Það er þing ASÍ í haust. Þá gefst gott tækifæri til að taka umræðuna um framtíð stéttarfélaganna, starfshætti og áherslur. Við eigum að nota það tækifæri sem þar gefst til að endurhlaða okkur og styrkja samstöðuna á nýjum grunni.

Efling er áhrifamikið félag sem skiptir okkur öll máli. Um leið Samiðn óskar nýjum formanni Eflingar til hamingju með kjörið setjum við fram þá ósk að áfram verði Efling í fararbroddi íslenskra stéttarfélaga í því mikilvæga verkefni að gera gott samfélag betra.

Félagsmenn á opinbera markaðnum fá launaþróunartryggingu

Nú liggur fyrir niðurstaða hvernig laun opinbera markaðarins hafa þróast í samanburði við laun á almennum markaði fyrir árið 2017. Samkvæmt ramma samkomulagi aðila vinnumarkaðarins um sameiginlega launastefnu frá 27. október 2015 var kveðið á um að þeir sem starfa hjá ríki og sveitarfélögum verð bætt það launaskrið sem verður á almennum vinnumarkaði umfram það sem kann að verða á opinberum markaði.

Launatafla Reykjavíkurborgar hækkar afturvirkt um 1,4% frá 1. janúar 2018. Sambærileg hækkun gildir einnig fyrir félagsmenn aðildarfélaga Samiðnar sem starfa hjá öðrum sveitarfélögum.

Launatafla hjá ríkinu hækkar frá sama tíma um 0.5% en það er í annað sinn sem sem niðurstöður í samræmi við rammasamkomulagið leiða til launahækkunar hjá þeim sem starfa hjá ríkinu. Launataflan hækkaði afturvirkt frá 1. Janúar 2017 um 1,8%.

Auk þessa hækka launatöflur 1. júní n.k. um 3%

Kjarasamningar halda út árið

Á miklum baráttufundi formanna aðildarfélaga ASÍ í dag var ákveðið að segja ekki upp kjarasamningum og halda þeir því gildi sínu fram til næstu áramóta. Miklar og heitar  umræður voru á fundinum og mikill hugur í fólki að berjast fyrir auknu réttlæti.  Ef draga á ályktun af umræðunni er ljóst að framundan eru miklir umbreytingartímar.

Laun á almennum vinnumarkaði hækka því um 3% þann 1. maí nk.

Ráðstefna IÐNMENNTAR: "Vinnustaðanám í starfsnámi"

Þann 1. mars næstkomandi verður Ráðstefna IÐNMENNTAR haldin á Grand Hótel Reykjavík kl. 13:30 – 16:00 undir yfirskriftinni:

Vinnustaðanám í starfsnámi.

Frír aðgangur er á ráðstefnuna en gestir eru vinsamlegast beðnir um að skrá sig á netfangið This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. eða rafrænt hér: Vinnustaðanám - Ráðstefna

Fyrir þá sem ekki eiga heimangengt á þessum tíma verður fundurinn sendur út beint á www.netsamfelag.is

Stytting vinnuvikunnar og hækkun launa

Stærsta verkalýðsfélag Þýskalands IG Metall samdi nýverið um heimild til styttingar vinnuvikunnar samhliða hækkun launa fyrir um 900.000 félagsmenn sína í málmiðnaði í Baden-Wurtenberg.  Eftir nokkur sólarhrings verkföll var samningurinn undirritaður en hann er til tveggja ára og talinn fordæmisgefandi fyrir aðrar greinar og kveður á um styttingu vinnuvikunnar úr 35 stundum í 28 og laun hækki um 4,3%.  Haft er eftir formanni IG Metall Jörg Hofmann að krafan um styttingu vinnuvikunnar marki tímamót og sé fordæmi fyrir ekki einungis önnur félög í Þýskalandi heldur Evrópu alla.

Náttúruvernd og auðlindanýting í þágu almennings

Miðstjórn Samiðnar samþykkti á fundi sínum 15. febrúar sl. eftirfarandi ályktun um nýtingu orkuauðlinda og náttúruvernd:

"Við mat á virkjunarkostum við framleiðslu á rafmagni og við aðra uppbyggingu sem felur í sér rask á náttúru er nauðsynlegt að þarfir nærsamfélagsins, umfram aðrar þarfir, séu ætíð hafðar sem mest í forgrunni.  Sterkir innviðir eru forsenda fyrir framþróun sveitarfélaga og byggð í landinu. Í því felst m.a að aðgangur að rafmagni sé tryggur, auk góðra samgangna.  Til að minni samfélög geti staðist samkeppni um fólk og boðið upp á sambærileg tækifæri og þau stærri verða þau að geta treyst á þessar grunnstoðir nútímasamfélags.  Víða á Íslandi skortir verulega á að skilyrði um orkuöryggi og öryggi í samgöngum séu uppfyllt.  Vernd náttúrunnar og virðing fyrir umhverfinu á að vera grundvallaratriði þegar kemur að mannvirkjagerð og auðlindanýtingu. Það er hins vegar áríðandi að þörfum nærsamfélagsins sé ekki stillt upp sem andstæðu við náttúruvernd.  Með vönduðum undirbúningi og skilvirku samráði við almenning er í langflestum tilvikum hægt að finna lausnir þar sem vernd náttúru og hófstillt nýting lands og auðlinda í þágu byggðanna fer vel saman."