Fréttir

1.maí - launahækkun 3%

> Laun á almennum vinnumarkaði hækka um 3% þann 1.maí í samræmi við kjarasamning Samiðnar og Samtaka atvinnulífsins

> Laun starfsmanna hjá ríkinu og Reykjavíkurborg hækka um sömu prósentu þann 1. júní.

> Laun starfsmanna sveitarfélaga hækka um 2% þann 1. júní.

Sjá nánar

Martin Luther King átti sér draum

Á þessum degi fyrir 40 árum var Martin Luther King skotinn til bana vegna baráttu hans fyrir jöfnum tækifærum allra. Hann átti sér draum um samfélag þar sem þeldökkir og hvítir menn væru algjörlega jafnir og deildu saman gæðum samfélagsins. Hann gerði sér grein fyrir að það tæki tíma að ná því takmarki. Ekki er ósennilegt ef hann væri meðal okkar í dag að þá væri hann ósáttur við árangurinn. En af hverju ættum við Íslendingar að minnast á Martin Luther, á hans barátta eitthvað erindi við okkur Íslendinga í dag. Martin Luther barðist fyrir jöfnum tækifærum til handa öllum ekki bara hvítra og þeldökkra.

Ójöfnuður fer vaxandi í heiminum, þeir ríku verða ríkari og sá hluti gæðanna sem fellur í hlut fjöldans minnkar stöðugt. Þetta á við hér á Íslandi eins og annarsstaðar í heiminum.

Ísland er að breytast í alþjóðlegt samfélag og þeim sem ekki eiga íslenskan uppruna fjölgar stöðugt. Allar rannsóknir staðfesta að fólk af erlendum uppruna getur ekki nýtt sér sömu tækifæri og við hin.

Sífellt fjölgar eldra fólki sem verður að lifa við þröngan fjárhag og takmörkuð lífsgæði. Sama má segja um öryrkja ekki síst þá sem aldrei hafa átt tækifæri á að fara út á vinnumarkaðinn.

Býsna stór hópur barna býr við fátækt og fer á mis við margvísleg gæði sem við teljum sjálfsögð.

Þegar við minnumst Martin Luthers í dag er gott að hugsa inn á við og horfa gagnrýnum augum á okkar litla samfélag. Leggja mat á hvernig hefur okkur tekist að skapa öllum jöfn tækifæri og ekki síst hvernig getum við gert betur og tryggt að sameiginlegum gæðum sé deilt með meiri sanngirni en gert í dag.

Þetta snýst um lífskjör hins almenna Íslendings

Framundan er langt og kærkomið frí eftir langan vetur. Vetur sem hefur verið nokkuð róstugur ekki síst innan verklýðshreyfingarinnar. Í hreyfingu sem er jafn fjölmenn og íslenska verkalýðshreyfingin er eðlilegt menn hafi skiptar skoðanir um áherslur og leiðir. Frjó og kröftug umræða er nauðsynleg til að skapa þann kraft sem nauðsynlegur er fyrir framsækna hreyfingu.

Veikleiki umræðunnar innan verkalýðshreyfingarinnar er að hún er of bundin við persónur en ekki málefni. Það er ekki augljóst hver málefnaágreiningurinn er eða hvort hann er yfirleitt til staðar. T.d. hefur verið nefnt að ASÍ sé á móti þrepaskiptu skattkerfi þrátt fyrir þá staðreynd að það hafi verið vegna þrýstings frá ASÍ að hér var innleitt þrepaskipt skattkerfi í kjölfar bankahrunsins sem var síðan afnumið af ríkisstjórn Sigmundar Davíðs.

Húsnæðismál hafa verið nefnd sem ágreiningsmál þrátt fyrir þá staðreynd að BSRB og ASÍ hafa unnið baki brotnu að því að hrinda í framkvæmd einu mesta átaki í byggingu húsnæðis fyrir tekjuminni hópa frá því að stjórnvöld lögðu niður verkamannabústaðakerfið.

Verðtrygging lána hefur verið dregin inn í þessa umræðu og reynt að gera ágreining um hana. Það er engin ágreiningur um að fólk eigi að hafa val um verðtryggð- eða óverðtryggð lán.

Vaxtastigið í landinu hefur einnig verið nefnt en það er engin ágreiningur um að það beri að lækka vexti af neytendalánum. Krafa hreyfingarinnar er að vaxtastig á Íslandi eigi að vera sambærilegt og í okkar nágrannalöndum. Spurningin er hvernig ætlar verkalýðshreyfingin að semja um vaxtastigið? Hér ráðast vextir að miklu leyti af markaaðstæðum en ekki samningum milli launamanna og atvinnurekenda. Það sem þarf að gera er að skilgreina hvað veldur því að vextir eru hærri á Íslandi en í okkar nágrannalöndum. Þegar það liggur fyrir er hægt að ráðast í aðgerðir til að ná niður vöxtunum.

Við eru öll ósátt við vaxandi ójöfnuð og sjálftöku þeirra sem eru í efstu lögum samfélagsins. Til að takast á við þá óhuggnarlegu staðreynd að auður heimsins safnist á færri og færri hendur, þarf öfluga hreyfingu og kraft fjöldans.

Þetta er engin endanleg samantekt á því sem haldið er fram að okkur greini á, og auðvitað er margt fleira sem við höfum mismunandi sýn á. Staðreyndin er að það er mun fleira sem við eigum sameiginlegt en aðskilur.

Umræðan í verkalýðshreyfingunni er áhugaverð en það er hins vegar mikilvægt að skilja á milli málefna og afstöðu til einstakra persóna. Ef umræðan snýst fyrst og fremst um persónur miðar okkar ekki mikið áfram í að bæta lífskjör almennings.

Menn koma og fara en baráttan um skiptingu brauðsins verður áfram til staðar. Við megum aldrei missa sýn á hvert hlutverk okkar er og fyrir hverja við erum að berjast. Okkar hlutverk er að bæta lífskjör hins almenna Íslendings.

Gleðilega páska

Ef unnið er um páskana

Ef unnið er á frídögum nú um páskahelgina þá bætast við helgidaga- og stórhátíðarálag:

Skírdagur: dagvinna + dagvinna með 80% álagi.
Föstudagurinn langi: dagvinna + dagvinna með 138,3% álagi
Páskadagur: dagvinna með 138,3 % álagi.
Annar í páskum: dagvinna + dagvinna með 80% álagi.
Sumardagurinn fyrsti: dagvinna + dagvinna með 80% álagi.

Lífeyriskerfið - hvert stefnir?

Fulltrúaráð launafólks í Birtu lifeyrissjóði boðar til fundar um lífeyriskerfið og framtíðarhorfur þess í sal Rafiðnaðarskólans á jarðhæð Stórhöfða 27 þriðjudaginn 20. mars kl. 17:30.

Framsögumenn á fundinum verða Haukur Arnþórsson stjórnsýslufræðingur sem rannsakað hefur kjör og aðstæður eldri borgara og viðrað afar áhugaverðar hugmyndir um hvernig bæta megi kjör eldri borgara og hvetja þá til aukinnar þátttöku í atvinnulífinu.
Ólafur Sigurðsson framkvæmdastjóri Birtu lífeyrissjóðs mun fjalla um hugmyndir að úrbótum á íslenska lífeyriskerfinu og aðkomu Alþjóðabankans að þeim.

Fundurinn er opinn öllum sjóðsfélögum í Birtu lífeyrissjóði.

Um niðurstöðu kosningar hjá Eflingu

Nú liggja fyrir niðurstöður í kosningu til stjórnar Eflingar og er niðurstaðan afdráttarlaus B-listinn hlaut afgerandi kosningu.

Þessi niðurstaða hlýtur að kalla á að fólk innan stéttarfélaganna setjist niður og endurmeti hlutina. Það er ekki hægt að túlka þessa niðurstöðu með öðrum hætti en að grasrótin sé að kalla á breytt vinnubrögð.

Spurningar blasa við. Getur verið að forysta félaganna hafi verið of upptekin við að byggja upp stofnanaþáttinn á kostnað samtalsins innan félaganna og hlustunar? Í einhverjum fræðum stendur að í daglegu starf leiðtogans felist 2/3 í að hlusta og 1/3 að tala.

Stéttarfélögin eiga að taka niðurstöðu kosningarinnar í Eflingu alvarlega. Hún hefur víðtæka þýðingu fyrir verkalýðshreyfinguna í heild.

Nú er mikilvægt að fara ekki í skotgrafirnar heldur nota niðurstöðuna sem vegvísi að nýrri nálgun. Það er þing ASÍ í haust. Þá gefst gott tækifæri til að taka umræðuna um framtíð stéttarfélaganna, starfshætti og áherslur. Við eigum að nota það tækifæri sem þar gefst til að endurhlaða okkur og styrkja samstöðuna á nýjum grunni.

Efling er áhrifamikið félag sem skiptir okkur öll máli. Um leið Samiðn óskar nýjum formanni Eflingar til hamingju með kjörið setjum við fram þá ósk að áfram verði Efling í fararbroddi íslenskra stéttarfélaga í því mikilvæga verkefni að gera gott samfélag betra.