Fréttir

Það er hófsemi að semja um 56% launahækkun - en það á bara við um suma

Fyrir nokkrum misserum voru gerðar þær breytingar á Kjararáði að þeim sem féllu undir úrskurð ráðsins var fækkað. Við það tækifæri beindi fjármála- og efnahagsráðuneytið því til stjórna ríkisfyrirtækja að gæta hófs við ákvörðun um laun forstjóra fyrirtækjanna. Að gæta hófs er huglægur mælikvarði og spurningin hvert er viðmiðið þegar lagt er mat á hvort ákvörðunin er hófsöm. Bankastjórn Landsbankans hækkaði laun bankastjórans um 1,2 milljónir á mánuði eða um 56%. Sambærilega hækkun hafði forstjóri Landsvirkjunar fengið.
Formaður bankaráðs Landsbankans leggur áherslu á að við ákvörðun um 56% launahækkun bankastjórans hafi verið gætt hófsemi. Af því má draga þá ályktun að formaðurinn telji ákvörðun bankaráðsins í anda tilmæla fjármála- og efnahagsráðuneytisins um að gæta hófs við ákvörðun um laun bankastjórans.
Víða í samfélaginu er tekist á um launahækkanir og eftir áramótin losnar megnið af kjarasamningum á almennum og opinberum vinnumarkaði.
Ríkisstjórnin og forsvarmenn atvinnulífsins leggja mikla áherslu á að gætt verði hófsemi og horft verði til þess að launabreytingar raski ekki efnahagslegum stöðuleika.
Við sem höfum lagt mikla áherslu á efnahagslegan stöðugleika og stigvaxandi kaupmátt erum nú komin út í horn. Þegar 56% launahækkun rúmast innan launastefnu fjármála- og efnahagsráðuneytisins og telst hófleg, getum við tæplega lagt upp með eitthvað minna. Að leggja upp með 4,5% til 3% launahækkun eins og við höfum samið um í síðustu kjarasamningum, hljómar eins og hvert annað bull og er ekki í neinum takti við raunveruleikann.
Launabreytingar forstjóra ríkisfyrirtækja eru að ganga endanlega frá efnahagslegum stöðugleika og mikilvægt að hafa það á hreinu að ábyrgðin er hjá ríkisstjórninni. Það er engin leið að verja þann mismun sem fellst í hófsemi fjármála- og efnahagsráðuneytisins því fyrir liggur að sú hófsemi á bara við suma en ekki alla.

Mótframlag atvinnurekenda í lífeyrissjóð hækkar

Síðasti áfangi hækkunar á mótframlagi atvinnurekenda í lífeyrissjóði launafólks á almennum vinnumarkaði kom til framkvæmda þann 1. júlí 2018 en þá hækkaði framlagið um 1,5% og er nú orðið 11,5%. Skylduiðgjald til lífeyrissjóðs nemur því nú samtals 15,5% sem skiptist í 4% iðgjald launamanns og 11,5% mótframlag atvinnurekenda.
Atvinnurekenda greiðir hækkað mótframlag til þess lífeyrissjóðs sem skylduiðgjaldið er greitt til en sjóðfélagar geta nú sjálfir ráðstafað allt að 3,5% af lífeyrisiðgjaldi sínu í tilgreindan séreignarsparnað með samningi við lífeyrissjóð eða nýtt það til að auka tryggingavernd sína til örorkulífeyris og ævilangs ellilífeyris í samtryggingu.
Hækkun mótframlags atvinnurekenda byggir á kjarasamningum aðildarfélaga ASÍ og SA frá janúar 2016 en þá var samið um 3,5% hækkun á mótframlagi atvinnurekanda í lífeyrissjóð sem tók gildi í þremur áföngum á árunum 2016-2018.
Taktu upplýsta ákvörðun um lífeyrisréttindin þín
Hver og einn launamaður ákveður sjálfur ráðstöfun hækkunar mótframlagsins, allt að 3,5% af launum, í tilgreinda séreign eða samtryggingu.
Viljir þú að hækkun mótframlags atvinnurekanda fari í tilgreinda séreign getur þú haft samband við lífeyrissjóðinn og gengið frá yfirlýsingu þar að lútandi. Að öðrum kosti rennur hækkunin í samtryggingu og réttindi þín til örorkulífeyris og ævilangs ellilífeyris aukast.
Þú getur síðan hvenær sem er ákveðið að breyta ráðstöfun hækkunar mótframlags atvinnurekanda, úr samtryggingu í tilgreinda séreign að öllu leyti eða að hluta, eða úr tilgreindri séreign í samtryggingu. Breytingin tekur þá gildi frá þeim tíma, en er ekki afturvirk.
Allar frekari upplýsingar má nálgast hjá lífeyrissjóðunum.

Golfmót iðnaðarmanna - úrslit

Golfmót iðnaðarmanna fór fram á Hólmsvelli í Leiru golfvelli Golfklúbbs Suðurnesja 2. júní s.l. Veðurguðirnir léku við keppendur með ágætu “Leirulogni” og 8 stiga hita. 66 þátttakendur mættu til leiks.

Keppt var skv. punktakerfi með forgjöf um Birtu bikarinn en Lífeyrissjóðurinn Birta gaf farandbikar til mótsins. Einnig var keppt í höggleik án forgjafar. Keppendum var raðað á teiga og hófst mótið kl. 9.00 undir stjórn Guðbjörns Ólafssonar. Allir þátttakendur fengu afhenta teiggjöf sem voru golfboltar.

Fjölmargir stuðningsaðilar gáfu verðlaun til mótsins en fyrstu þrjú verðlaun í hvorri keppni voru inneign í Erninum. Örninn golfverslun veitti afslátt af inneignarbréfunum. Færum við stuðningsaðilum bestu þakkir fyrir stuðninginn.

Ólafur Einar Hrólfsson, Rafiðnaðarsambandinu, sigraði mótið með 40 punkta og er því meistari Golfmóts iðnaðarmanna. Í öðru sæti varð Helgi Einarsson, Rafiðnaðarsambandinu, með 37 punkta og í þriðja sæti varð Gísli Þorgeirsson, Byggiðn, með 33 punkta. Helgi Runólfsson, Rafiðnaðarsambandinu,  hlaut fyrstu verðlaun án forgjafar á 73 höggum en betra skor á seinni 9 holunum, í öðru sæti varð Hafsteinn Þór Friðriksson, Rafiðnaðarsambandinu, einnig á 73 höggum og í þriðja sæti varð Helgi Dan Steinsson, FIT, á 79 höggum. Næstur holu á 16. holu var Helgi Pálsson, FIT, 3,39 metra frá. Næstur holu eftir 3 högg á holu 18 var Helgi Runólfsson 2,28 metra frá.

Auk þess var dregið úr skorkortum sem voru fjölmörg, allir þátttakendur fengu útdráttarverðlaun áður en yfir lauk! Í mótslok, var boðið upp á lambalæri og bearnese sem þátttakendur nutu eftir fráæran og skemmtilegan keppnisdag.

Golfmót iðnaðarmanna verður næst haldið á Akureyri 1. september n.k. á Jaðarsvelli hjá Golfklúbbi Akureyrar.

Byggiðn, FIT, GRAFÍA, MATVÍS, Samiðn og RSÍ standa sameiginlega að mótunum.

 

Sjá önnur úrslit mótsins - hér.

"Gríðarlega ánægður með stofnun Birtu lífeyrissjóðs"

Þorbjörn Guðmundsson framkvæmdastjóri Samiðnar hætti nýverið í stjórn Birtu lífeyrissjóðs og á ársfundi Landssamtaka lífeyrissjóða í dag lét hann af störfum stjórnarformanns og gaf ekki kost á sér til endurkjörs í stjórn.  Af því tilefni birtist viðtal við Þorbjörn á vef Landssamtaka lífeyrissjóða þar sem hann fer yfir sviðið og spáir í spilin um framtíðarskipan lífeyrismála í landinu.

Sjá viðtalið í heild.

Ríkisstjórnin standi við fyrirheit um eflingu verk- og tæknináms

Á fundi sambandsstjórnar í dag afhenti formaður Samiðnar Hilmar Harðarson mennta- og menningarmálaráðherra áskorun þar sem yfirvöld menntamála eru hvött til að standa við fögur fyrirheit um eflingu verk- og tæknináms.  Hilmar lýsti yfir fullum samstarfsvilja Samiðnar til að hrinda slíkum áformum í framvæmd og hefja markvissar aðgerðar svo hægt sé að byggja upp verknámsskóla sem boðið geta ungu fólki nútímalegt og framsækið nám.

Á fundinum ítrekaði sambandsstjórnin jafnframt fyrri áskoranir um afnám tekjutengingar í almannatryggingakerfinu vegna greiðslna lífeyris frá lífeyrissjóðunum.

Fundurinn samþykkti sömuleiðis áherslur Samiðnar fyrir komandi kjarasamningsviðræður þar sem fram kemur að nauðsynlegt sé að bregðast við þeim miklu breytingum sem orðið hafa á íslenskum vinnumarkaði með tilkomu mikils fjölda erlends vinnuafls.

>> Sjá samþykkt um eflingu verk- og tæknináms

>> Sjá áskorun um tekjutengingar

>> Sjá áherslur í kjarasamningsviðræðunum

Mennta- og menningarmálaráðherra til fundar við sambandsstjórn

Á fundi sambandsstjórnar nk. föstudag mun Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra ræða stefnu ríkisstjórnarinnar í menntamálum og hvernig staðið verður við fögur fyrirheit um eflingu verk- og tæknináms í landinu. 

Til fundarins kemur einnig Þórarinn G. Pétursson aðalhagfræðingur Seðlabankans og mun kynna stöðu efnahagsmála í aðdraganda endurnýjunar kjarasamninga. 

Sambandsstjórnin mun á fundinum stíga fyrstu skrefin í mótum kröfugerðar fyrir komandi kjarasamningsaviðræður en núverandi samningar renna sitt skeið um næstu áramót.