Fréttir

Stjórnvöld hafa rofið sáttina

Nú eru að hefjast umræða um endurnýjun kjarasamninga en samningar losna á almennum vinnumarkaði 31. desember. Ekki er deilt um að gildandi kjarasamningar hafa skilað miklum árangri sem birtist í vaxandi kaupmætti flestra. Það sem vekur mesta athygli er hvað kaupmáttur almennings hefur vaxið misjafnt. Þrátt fyrir að lögð hafi verið áhersla á að hækka lægstu launin hefur kaupmáttur þess hóps aukist mun minna en þeirra sem eru hærra launaðir.

Kaupmáttur lægstu launa jókst um 6% milli áranna 2016 og17 en að teknu tilliti til skattbyrði lægstu launa jókst kaupmáttur ráðstöfunartekna þessa hóps einungis um 1,5%.
Megin ástæðan er minni stuðningur úr vaxtabótakerfinu og misræmi í þróun persónuafsláttar og launaþróunar. Þessu er hins vegar öfugt farið hjá tekjuhæsta hópnum.
Kaupmáttur launa við efri fjórðungsmörk jókst um 5% á sama tíma og að teknu tilliti til heildarskattbyrði jókst kaupmáttur ráðstöfunartekna um 6%.

Það er ótrúleg staðreynd að þrátt fyrir almenna sátt um að þeir sem lægstu launin hafa ættu að hafa ákveðin forgang skuli þetta vera niðurstaðan og ástæðan er að stjórnvöld sigldu í öfuga átt við megin markmið kjarasamninganna.

Mikil gangrýni er á launahækkanir alþingismanna, æðstu embættismanna ríkisins og stjórnendur fyrirtækja. Launahækkanir til þessara hópa hafa ekki verið í takt við þann launaramma sem mótaður var við gerð síðustu kjarasamninga.

Hér hafa verið nefnd tvö mál sem eru aðal ágreiningsmálin á vinnumarkaði og valda mestum óróa og ágreiningi. Í báðum þessum málum eru stjórnvöld í aðalhlutverki.

Flestir vilja búa við efnahagslegt öryggi, stöðugleika og geta horft til framtíðar með nokkurri vissu um að geta staðið við sínar skuldbindingar.

Gildandi kjarasamningar voru hugsaðir sem undirstaða fyrir nýja tíma þar sem ríkti meiri sátt um skiptingu gæðanna. Reynslan er döpur og það sem veldur mestum vonbrigðum er að stjórnvöld virðast ekki hafa vilja til að spila með.

Þeir erfiðleikar sem hugsanlega eru að skapast í tengslum við endurnýjun kjarasamninga skrifast því alfarið á stjórnvöld.

Málþing iðnfélaganna 7. september - Eru róbótar að taka yfir störfin eða skapa þeir tækifæri?

Í tengslum við Lýsu - rokkhátíð samtalsins standa iðnfélögin fyrir opinni málstofu um áhrif fjórðu iðnbyltingarinnar á störf iðnaðarmannsins.  Frummælendur munu velta upp spurningum eins og hvort róbótar séu að taka yfir störfin eða hvort þeir munu breyta þeim og gera áhugaverðari?  Að loknum framsögum verða pallborðsumræður með fulltrúum atvinnulífsins, verkmenntaskólum og endurmenntunarstofnunum þar sem staða mála er metin og rýnt í framtíðina.

Málstofan verður haldin föstudaginn 7. september kl. 10:45 í Hofi á Akureyri.

Golfmót iðnfélagana 1. september á Akureyri

Laugardaginn 1. september verður golfmót iðnfélaganna haldið á Jaðarsvelli á Akureyri.  Þetta er í annað sinn sem félögin halda sameiginlegt golfmót, en hið fyrra var haldið á Leirunni í byrjun júní og tókst mjög vel. 

Vegleg verðlaun verða í boði en skráning er hjá Steindóri Ragnarssyni hjá GA This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.  Mótsgjald er 5.000 kr. og innifalið í því er teiggjöf, spil á vellinum, súpa í hádeginu kl. 12.00 og matur að loknu spili.

Mæting er kl. 12 og ræst út kl. 13.

Það er hófsemi að semja um 56% launahækkun - en það á bara við um suma

Fyrir nokkrum misserum voru gerðar þær breytingar á Kjararáði að þeim sem féllu undir úrskurð ráðsins var fækkað. Við það tækifæri beindi fjármála- og efnahagsráðuneytið því til stjórna ríkisfyrirtækja að gæta hófs við ákvörðun um laun forstjóra fyrirtækjanna. Að gæta hófs er huglægur mælikvarði og spurningin hvert er viðmiðið þegar lagt er mat á hvort ákvörðunin er hófsöm. Bankastjórn Landsbankans hækkaði laun bankastjórans um 1,2 milljónir á mánuði eða um 56%. Sambærilega hækkun hafði forstjóri Landsvirkjunar fengið.
Formaður bankaráðs Landsbankans leggur áherslu á að við ákvörðun um 56% launahækkun bankastjórans hafi verið gætt hófsemi. Af því má draga þá ályktun að formaðurinn telji ákvörðun bankaráðsins í anda tilmæla fjármála- og efnahagsráðuneytisins um að gæta hófs við ákvörðun um laun bankastjórans.
Víða í samfélaginu er tekist á um launahækkanir og eftir áramótin losnar megnið af kjarasamningum á almennum og opinberum vinnumarkaði.
Ríkisstjórnin og forsvarmenn atvinnulífsins leggja mikla áherslu á að gætt verði hófsemi og horft verði til þess að launabreytingar raski ekki efnahagslegum stöðuleika.
Við sem höfum lagt mikla áherslu á efnahagslegan stöðugleika og stigvaxandi kaupmátt erum nú komin út í horn. Þegar 56% launahækkun rúmast innan launastefnu fjármála- og efnahagsráðuneytisins og telst hófleg, getum við tæplega lagt upp með eitthvað minna. Að leggja upp með 4,5% til 3% launahækkun eins og við höfum samið um í síðustu kjarasamningum, hljómar eins og hvert annað bull og er ekki í neinum takti við raunveruleikann.
Launabreytingar forstjóra ríkisfyrirtækja eru að ganga endanlega frá efnahagslegum stöðugleika og mikilvægt að hafa það á hreinu að ábyrgðin er hjá ríkisstjórninni. Það er engin leið að verja þann mismun sem fellst í hófsemi fjármála- og efnahagsráðuneytisins því fyrir liggur að sú hófsemi á bara við suma en ekki alla.

Mótframlag atvinnurekenda í lífeyrissjóð hækkar

Síðasti áfangi hækkunar á mótframlagi atvinnurekenda í lífeyrissjóði launafólks á almennum vinnumarkaði kom til framkvæmda þann 1. júlí 2018 en þá hækkaði framlagið um 1,5% og er nú orðið 11,5%. Skylduiðgjald til lífeyrissjóðs nemur því nú samtals 15,5% sem skiptist í 4% iðgjald launamanns og 11,5% mótframlag atvinnurekenda.
Atvinnurekenda greiðir hækkað mótframlag til þess lífeyrissjóðs sem skylduiðgjaldið er greitt til en sjóðfélagar geta nú sjálfir ráðstafað allt að 3,5% af lífeyrisiðgjaldi sínu í tilgreindan séreignarsparnað með samningi við lífeyrissjóð eða nýtt það til að auka tryggingavernd sína til örorkulífeyris og ævilangs ellilífeyris í samtryggingu.
Hækkun mótframlags atvinnurekenda byggir á kjarasamningum aðildarfélaga ASÍ og SA frá janúar 2016 en þá var samið um 3,5% hækkun á mótframlagi atvinnurekanda í lífeyrissjóð sem tók gildi í þremur áföngum á árunum 2016-2018.
Taktu upplýsta ákvörðun um lífeyrisréttindin þín
Hver og einn launamaður ákveður sjálfur ráðstöfun hækkunar mótframlagsins, allt að 3,5% af launum, í tilgreinda séreign eða samtryggingu.
Viljir þú að hækkun mótframlags atvinnurekanda fari í tilgreinda séreign getur þú haft samband við lífeyrissjóðinn og gengið frá yfirlýsingu þar að lútandi. Að öðrum kosti rennur hækkunin í samtryggingu og réttindi þín til örorkulífeyris og ævilangs ellilífeyris aukast.
Þú getur síðan hvenær sem er ákveðið að breyta ráðstöfun hækkunar mótframlags atvinnurekanda, úr samtryggingu í tilgreinda séreign að öllu leyti eða að hluta, eða úr tilgreindri séreign í samtryggingu. Breytingin tekur þá gildi frá þeim tíma, en er ekki afturvirk.
Allar frekari upplýsingar má nálgast hjá lífeyrissjóðunum.

Golfmót iðnaðarmanna - úrslit

Golfmót iðnaðarmanna fór fram á Hólmsvelli í Leiru golfvelli Golfklúbbs Suðurnesja 2. júní s.l. Veðurguðirnir léku við keppendur með ágætu “Leirulogni” og 8 stiga hita. 66 þátttakendur mættu til leiks.

Keppt var skv. punktakerfi með forgjöf um Birtu bikarinn en Lífeyrissjóðurinn Birta gaf farandbikar til mótsins. Einnig var keppt í höggleik án forgjafar. Keppendum var raðað á teiga og hófst mótið kl. 9.00 undir stjórn Guðbjörns Ólafssonar. Allir þátttakendur fengu afhenta teiggjöf sem voru golfboltar.

Fjölmargir stuðningsaðilar gáfu verðlaun til mótsins en fyrstu þrjú verðlaun í hvorri keppni voru inneign í Erninum. Örninn golfverslun veitti afslátt af inneignarbréfunum. Færum við stuðningsaðilum bestu þakkir fyrir stuðninginn.

Ólafur Einar Hrólfsson, Rafiðnaðarsambandinu, sigraði mótið með 40 punkta og er því meistari Golfmóts iðnaðarmanna. Í öðru sæti varð Helgi Einarsson, Rafiðnaðarsambandinu, með 37 punkta og í þriðja sæti varð Gísli Þorgeirsson, Byggiðn, með 33 punkta. Helgi Runólfsson, Rafiðnaðarsambandinu,  hlaut fyrstu verðlaun án forgjafar á 73 höggum en betra skor á seinni 9 holunum, í öðru sæti varð Hafsteinn Þór Friðriksson, Rafiðnaðarsambandinu, einnig á 73 höggum og í þriðja sæti varð Helgi Dan Steinsson, FIT, á 79 höggum. Næstur holu á 16. holu var Helgi Pálsson, FIT, 3,39 metra frá. Næstur holu eftir 3 högg á holu 18 var Helgi Runólfsson 2,28 metra frá.

Auk þess var dregið úr skorkortum sem voru fjölmörg, allir þátttakendur fengu útdráttarverðlaun áður en yfir lauk! Í mótslok, var boðið upp á lambalæri og bearnese sem þátttakendur nutu eftir fráæran og skemmtilegan keppnisdag.

Golfmót iðnaðarmanna verður næst haldið á Akureyri 1. september n.k. á Jaðarsvelli hjá Golfklúbbi Akureyrar.

Byggiðn, FIT, GRAFÍA, MATVÍS, Samiðn og RSÍ standa sameiginlega að mótunum.

 

Sjá önnur úrslit mótsins - hér.