Fréttir

Kjarasamningar halda út árið

Á miklum baráttufundi formanna aðildarfélaga ASÍ í dag var ákveðið að segja ekki upp kjarasamningum og halda þeir því gildi sínu fram til næstu áramóta. Miklar og heitar  umræður voru á fundinum og mikill hugur í fólki að berjast fyrir auknu réttlæti.  Ef draga á ályktun af umræðunni er ljóst að framundan eru miklir umbreytingartímar.

Laun á almennum vinnumarkaði hækka því um 3% þann 1. maí nk.

Ráðstefna IÐNMENNTAR: "Vinnustaðanám í starfsnámi"

Þann 1. mars næstkomandi verður Ráðstefna IÐNMENNTAR haldin á Grand Hótel Reykjavík kl. 13:30 – 16:00 undir yfirskriftinni:

Vinnustaðanám í starfsnámi.

Frír aðgangur er á ráðstefnuna en gestir eru vinsamlegast beðnir um að skrá sig á netfangið This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. eða rafrænt hér: Vinnustaðanám - Ráðstefna

Fyrir þá sem ekki eiga heimangengt á þessum tíma verður fundurinn sendur út beint á www.netsamfelag.is

Stytting vinnuvikunnar og hækkun launa

Stærsta verkalýðsfélag Þýskalands IG Metall samdi nýverið um heimild til styttingar vinnuvikunnar samhliða hækkun launa fyrir um 900.000 félagsmenn sína í málmiðnaði í Baden-Wurtenberg.  Eftir nokkur sólarhrings verkföll var samningurinn undirritaður en hann er til tveggja ára og talinn fordæmisgefandi fyrir aðrar greinar og kveður á um styttingu vinnuvikunnar úr 35 stundum í 28 og laun hækki um 4,3%.  Haft er eftir formanni IG Metall Jörg Hofmann að krafan um styttingu vinnuvikunnar marki tímamót og sé fordæmi fyrir ekki einungis önnur félög í Þýskalandi heldur Evrópu alla.

Náttúruvernd og auðlindanýting í þágu almennings

Miðstjórn Samiðnar samþykkti á fundi sínum 15. febrúar sl. eftirfarandi ályktun um nýtingu orkuauðlinda og náttúruvernd:

"Við mat á virkjunarkostum við framleiðslu á rafmagni og við aðra uppbyggingu sem felur í sér rask á náttúru er nauðsynlegt að þarfir nærsamfélagsins, umfram aðrar þarfir, séu ætíð hafðar sem mest í forgrunni.  Sterkir innviðir eru forsenda fyrir framþróun sveitarfélaga og byggð í landinu. Í því felst m.a að aðgangur að rafmagni sé tryggur, auk góðra samgangna.  Til að minni samfélög geti staðist samkeppni um fólk og boðið upp á sambærileg tækifæri og þau stærri verða þau að geta treyst á þessar grunnstoðir nútímasamfélags.  Víða á Íslandi skortir verulega á að skilyrði um orkuöryggi og öryggi í samgöngum séu uppfyllt.  Vernd náttúrunnar og virðing fyrir umhverfinu á að vera grundvallaratriði þegar kemur að mannvirkjagerð og auðlindanýtingu. Það er hins vegar áríðandi að þörfum nærsamfélagsins sé ekki stillt upp sem andstæðu við náttúruvernd.  Með vönduðum undirbúningi og skilvirku samráði við almenning er í langflestum tilvikum hægt að finna lausnir þar sem vernd náttúru og hófstillt nýting lands og auðlinda í þágu byggðanna fer vel saman."

Kjör fulltrúa launafólks í stjórn Birtu lífeyrissjóðs

Ný stjórn Birtu lífeyrissjóðs verður kjörin á ársfundi 2. maí 2018. Valnefnd launafólks í sjóðnum auglýsir nú eftir fulltrúum til að taka sæti í stjórninni kjörtímabilin 2018-2019 og 2018-2020.
Fulltrúaráð launamanna Birtu kýs tvo stjórnarmenn til tveggja ára og tvo til eins árs auk varamanns til tveggja ára og varamanns til eins árs.

Þeir sem áhuga hafa á að gefa kost á sér til stjórnarsetu sendi umsókn ásamt kynningarbréfi með rökstuðningi og starfsferilsskrá á tölvupóstfangið This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. fyrir kl. 16 þriðjudaginn 20. febrúar 2018.

Auglýsing um kjörið

Sjá nánar á vef Birtu.

Háskólanám fyrir iðnmenntaða

Háskólinn í Reykjavík hefur opnað nýja vefsíðu um háskólanám fyrir iðnmenntaða: www.hr.is/idn. Tilgangurinn með síðunni er að kynna fjölbreytta möguleika þeirra sem lokið hafa iðn- og tækninámi til háskólanáms við HR. Á síðunni eru teknar saman upplýsingar um vinsælar námsbrautir í HR hjá fólki með iðnmenntun, leiðarvísir um hvaða inntökuskilyrði þarf að uppfylla fyrir mismunandi námsbrautir, ásamt reynslusögum nemenda sem sýna fjölbreyttan menntaferil nemenda í HR.

Íslenskt atvinnulíf kallar eftir fólki með góða verkþekkingu og það er mikilvægt að benda ungu fólki á þá fjölbreyttu möguleika sem iðn- og tækninám veitir. Eftirspurnin á vinnumarkaði eftir einstaklingum með tæknigrunn og sérhæfingu úr háskóla er mjög mikil og á líklega enn eftir að aukast í framtíðinni. Því er vert að leggja áherslu á að iðnmenntun lokar engum dyrum varðandi áframhaldandi nám, heldur er þvert á móti góður grunnur fyrir áframhaldandi nám á háskólastigi.