Fréttir

Stytting vinnuvikunnar og nýtt launakerfi

Vinnan við gerð nýs kjarasamnings hefur haldið áfram í þessari viku og athyglin beinst að styttingu vinnuvikunnar og gerð nýs launakerfis.
Það sem borið hefur hæst eru húsnæðismálin og framlagning tillagna húsnæðishópsins sem forsætisráherra skipaði fyrir tveimur mánuðum. Margar þeirra tillagna sem starfshópurinn leggur til eru góðar og munu leiða til framfara ef þeim verður hrint í framkvæmd. Margar nefndir hafa á undangengnum árum skilað skýrslum um úrbætur í húsnæðismálum sem síðan hafa dagað uppi í hillum ráðuneytanna. Við vonum öll að það verði ekki raunin að þessu sinni, það væru svik við almenning.

Tillögurnar eru í 7 flokkum:
1 Almennar íbúðir - stækkun kerfisins með stofnframlögum og hærri tekjumörkum
2 Húsnæðisfélög - stuðningur við óhagnaðardrifin húsnæðisfélög
3 Leiguvernd - skýrari reglur á leigumarkaði án þess að það bitni á framboði
4 Skipulags og byggingamál - endurskoðun regluverks til einföldunar og rafvæðing stjórnsýslu
5 Samgönguinnviðir - hraðari uppbygging samgönguinnviða og almenningssamgangna
6 Ríkislóðir - ráðstöfun ríkislóða fyrir íbúðir, þar á meðal fyrir leigumarkaðinn
7 Upplýsingamiðlun - samræmd söfnun og miðlun upplýsinga um húsnæðismál.

Megin veikleiki tillagna starfshópsins er að þær eru ekki tillögur sem hægt er að ganga að og hrinda beint í framkvæmd. Margar gætu þurft nokkuð langan aðdraganda til að komast í framkvæmd t.d. framkvæmdir á ríkislóðum á Keldum eða uppbygging samgangna. Eitt er það sem hefur orðið banabiti margra góðra tillagna um úrbætur í húsnæðismálum er að þeim hefur ekki fylgt fjármagn. Framhjá þessu er skautað býsna létt í tillögugerðinni og er t.d. fjármögnuninni vísað til ASÍ og SA og er þar væntanlega verið visa til að fjármagnið eigi að koma úr lífeyrissjóðunum.

Það er alkunna að skortur er á húsnæði sérstaklega fyrir tekjulágar fjölskyldur og brýnt að tekið verði á þeim vanda hratt og vel. Á þeim vanda verður ekki tekið nema til komi aukið fjármagn, en án þess munu tillögurnar eiga erfiða fæðingu. Það eru mikill vonbrigði að ekki skuli fylgja tillögur að fjármögnun svo hægt sé að hrinda þeim strax framkvæmd og leysa vanda þessa fólks.
Aðrar tillögur svo sem um leiguvernd og skipulags og byggingamál snúa að alþingi og sveitafélögum. Þar ættu að vera hæg heimatökin ef vilji er fyrir hendi. Þar þarf ekki að koma til samningagerð aðila vinnumarkaðarins. Reyndar er búið að benda á þessa vankanta lengi en engar úrbætur hafa átt sér stað. Nú er búið að skjalfesta vandann í skýrslu svo þessum aðilum er ekkert að vanbúnaði að hefjast handa.

Rétt er að ítreka að það er margt gott í þessum tillögum og vonandi komast flestar til framkvæmda en margt bendir til þess að það kunni að reynast snúið að koma þeim í framkvæmd m.a. vegna þess að þær eru ekki fjármagnaðar.

Nú eru þessar tillögur komnar til ríksstjórnarinnar og við hljótum að kalla eftir svörum hvernig hún ætlar að tryggja framgang þessara tillagna ekki síst hvernig á að fjármagna þær.
Fólkið sem er búið er að bíða lengi eftir að fá lausn á sínum húsnæðisvanda getur ekki beðið lengur, það á rétt á að fá skýr svör. Við þurfum að taka til hendinni og fara að framkvæma, hætta að tala og skrifa skýrslur því þær búa ekki til húsnæði.

Hugmyndir ASÍ félaganna í skattamálum litu einnig dagsins ljós í vikunni. Megin stefið í þeim er fjögurra þrepa skattkerfi þar sem lægstu laun beri minnstan skatt, millitekjur lækki einnig eða standi í stað en tekjur ríkissjóðs verði sóttar frekar til hálaunafólks; til fjármagnstekna og þeirra sem nýta auðlindir landsins eða í svarta hagkerfið. Markmið þessara tillagna er að auka jöfnunarhlutverk skattkerfisins. Það verður hlutverk ASÍ í þessum kjaraviðræðum að fylgja þessum tillögum eftir við stjórnvöld.

Hugmyndir um styttingu vinnuvikunnar farnar að skýrast

Í vikunni hafa viðræður Samtaka atvinnulífsins og iðnaðarmannasamfélagsins um styttingu vinnuvikunnar haldið áfram og er sú umræða farin að taka á sig nokkuð skýra mynd og ekki ósennilegt að hægt verði að landa því. Hafin er umræða um launakerfið og svigrúm til launahækkana en engin formleg tillaga liggur fyrir.

Unnið er í smærri hópum en stóra samninganefndin mun hitta SA á mánudag og þá má vænta þess að málin skýrist frekar.

Húsnæðishópur ríkisstjórnarinnar mun gera grein fyrir sínum tillögum í dag og vonandi verða þær gott innlegg í viðræðurnar.

Þess má vænta að viðræður við ríkisstjórnina um skattamál og önnur mál sem að henni snúa komist í formlegt ferli á næstu dögum.

Á þessu stigi er þó engin leið að segja til um hvert þessar viðræður munu þróast og hvort hægt verði að ná samkomulagi um nýjan kjarasamning.

Iðnaðarmenn leggja áherslu á að nýr kjarasamningur gildi frá áramótum og hefur SA tekið undir það með ákveðnum fyrirvara.

Iðnaðarmenn leggja áherslu á að vinna hratt og vel þannig að hægt verði að leggja faglegt mat á það hvort samningar náist á næstu vikum.

Lestin er farin af stað en brunar ekki hratt

Fjölmargir fundir samninganefndar iðnaðarmanna og undirhópa hafa verið haldnir með fulltrúum SA í vikunni og munu halda áfram um helgina.  Mestur tími hefur farið í að ræða möguleika á styttingu vinnuvikunnar en alkunna er að vinnuvikan á Íslandi er með því lengsta sem þekkist.

Stytting vinnuvikunnar án launaskerðingar er ein megin krafa iðnaðarmannasamfélagsins.  Engin niðurstaða er komin en aðilar eru sammála um að halda vinnunni áfram og freista þess að ná samkomulagi. Samhliða því er leitað eftir niðurstöðu í upptöku nýs kaupataxtakerfis sem endurspegli greidd laun.

Einnig hafa verið rædd ýmis minni mál og má því segja að öll kröfugerðin sé komin í vinnslu.  Iðnaðarmannasamfélagið hefur lagt mikla áherslu á að nýr samningur gildi frá áramótum og hafa fengið jákvæð viðbrögð af hálfu SA en með ákveðnum skilyrðum þó.

Iðnaðarmenn hafa opnað á samning til styttri tíma til þess að skapa rými til að vinna betur að framkvæmd verkefna sem snúa að stjórnvöldum og t.d. styttingu vinnuvikunnar sem langtíma verkefni.

Hvert vinnan leiðir er erfitt að segja til um á þessu stigi en það er sameignlegur vilji að gera tilraun til að ljúka samningum í þessum mánuði. Á endanum verður það þó alltaf innihald samningsins sem ræður úrslitum.

Nýr kjarasamningur verður að tryggja árangur síðustu ára og varða veginn áfram með þeim hætti að kaupmáttur geti haldið áfram að vaxa.

Markmið iðnaðarmannasamfélagsins eru skýr og samstaðan góð og það er það sem skiptir mestu máli þegar við viljum ná árangri.

Næstu dagar munu ráða úrslitum um hvernig kjaradeilan mun þróast, getum við lokið samningum eða erum við að fara inn í langdregna kjaradeilu.

Að þessu sögðu vonum við að næstu dagar verði árangurríkir og í næstu viku verði hægt að segja betur til um hvert stefnir.

Skrifstofan lokuð eftir hádegi 11. janúar

Vegna jarðarfarar verður skrifstofa Samiðnar lokuð frá kl. 12 föstudaginn 11. janúar.

Fyrsti fundur á nýju ári með SA

Í morgun var haldinn fundur samninganefndar iðnfélaganna með Samtökum atvinnulífsins þar sem farið yfir vinnulag við endurnýjun kjarasamningana og tekin fyrir málefni eins og vinnutímastytting og kauptaxtamál.

Megin niðurstaðan fundarins var að samningsaðilar munu skipuleggja vinnutörn næstu tvær vikurnar með það að markmiði að látið verði á það reyna hvort forsendur séu fyrir nýjum kjarasamningi. Reynist forsendur fyrir nýjum samningi vera til staðar, verður vinnunni haldið áfram með það að markmiði að ljúka samningum.

Við segjum takk fyrir gott ár sem er að kveðja

Kæru félagar enn á ný er komið að ármótum og framundan er nýtt ár með nýjum tækifærum.
Þegar horft er yfir árið sem er að kveðja þá er hægt segja að heilt yfir hafi það verið okkur Íslendingum hagfellt. Kaupmáttur launa hefur farið vaxandi og atvinnuleysi hefur verið lítið.
Nú stöndum við á tímamótum því margt bendir til að sú mikla hagsveifla sem við höfum notið sl. þrjú til fjögur ár sé að dragast saman og nálgast það sem þekkist hjá okkar nágranna þjóðum. Þessi nýja staða þarf ekki að boða einhver endalok heldur getur falist í henni ný tækifæri ef vel er á haldið.
Verkefni þeirra sem bera ábyrgð á gerð nýrra kjarasamninga er að tryggja þann góða árangur sem náðst hefur á síðustu árum og skapa forsendur fyrir að kaupmáttur geti haldið áfram að vaxa á næstu árum.
Kaupmáttur almennings byggist ekki eingöngu á því sem kemur upp úr launaumslaginu heldur hvað er hægt að fá fyrir það. Margvísleg félagsleg þjónusta sem almenningur þarf á að halda s.s. heilbrigðisþjónusta, menntun, leikskólar, samgöngur og húsnæðismál hafa mikil áhrif á kaupgetuna.
Komandi kjarasamningar munu því ekki eingöngu snúast um krónur heldur um heildarmyndina.
Strax á nýju ári mun verða látið reyna á hvort forsenda er fyrir að ná kjarasamningum sem tryggja aukinn kaupmátt og endurreisn félagslega kerfisins.
Við skulum öll vera undir það búin að það þurfi að grípa til aðgerða til að ná ásættanlegum árangri, en þær verða hafa það að markmiði að knýja fram árangur til að bæta lífskjörin en ekki bara til að fara í aðgerðir.
Það er gotta að hafa í huga orð félaganna Dalai Lama og Desmond Tutu í bókinni „Um gleðina“
„Engin myrk örlög ákvarða framtíðina. Við gerum það. Á hverjum degi og sérhverju andartaki getum við skapað tilveru okkar og gæði mannlífsins á hnettinum okkar. Sá er mátturinn okkar“
Með þessum fleygu orðum þessara tveggja félaga segjum við takk fyrir árið sem er að líða og við hlökkum til samstarfsins á nýju ári.