Fréttir

Formaður fær heimild til vísunar til ríkissáttasemjara

Á fundi samninganefndar Samiðnar í dag var formanni Samiðnar Hilmari Harðarsyni veitt heimild til að vísa yfirstandandi kjaradeilu við Samtök atvinnulífsins til ríkissáttasemjara. Þrátt fyrir þá heimild breytir það í engu ásetningi samninganefndar að láta á það reyna á næstu dögum hvort ljúka megi deilunni með kjarasamningi. Mikilvægt er að leggja áherslu á að verkefnið er ekki bara að gera kjarasamning, heldur að gera samning sem varðveitir góðan árangur síðustu ára og tryggir vaxandi kaupmátt á nýju samningstímabili.

Nú styttist í að tveir mánuðir séu liðnir frá því að kjarasamningar á almennum vinnumarkaði runnu út. Við finnum fyrir óþolinmæði félagsmanna sem eðlilegt er og því mikilvægt að nýta vel næstu daga og láta á það reyna hvort til staðar sé raunverulegur vilji að landa nýjum kjarasamningi.

Stéttarfélögin sem hafa haldið til í „Karphúsinu“ síðustu vikurnar hafa slitið viðræðum við SA og hafið undirbúning að aðgerðum sem gætu hafist á næstu vikum. Þessi niðurstaða hefur legið í loftinu um nokkurt skeið og kemur ekki á óvart. Þessi niðurstaða hefur óhjákvæmilega áhrif á þróun mála hjá öðrum og þrengir samningsstöðuna.

Vissulega hafa viðbrögð stjórnvalda í skattamálunum valdið miklum vonbrigðum og ljóst að vonir stóðu til að þaðan kæmi meira en raunin varð. Okkar verkefni er að vinna með þessa niðurstöðu hvort sem okkar líkar betur eða verr.

En það eru fleiri mál en skattamálin sem ríkisstjórnin þarf að ljúka áður en hægt er að skrifa undir nýjan kjarasamning:
> Við viljum fá jákvæð viðbrögð við okkar kröfum um að dregið verði úr tekjutengingum í almannatryggingakerfinu.
> Við viljum sjá aðgerðir til að jafna stöðu lífeyrisþega gagnvart almannatryggingum án tillits til þess hvort lífeyririnn kemur úr samtryggingu eða séreign sé hann tilkominn vegna skylduiðgjalds.
> Við viljum fá skýr svör við hvernig verður með fjármögnun átaks í húsnæðismálum.
> Við viljum sjá raunhæft aðgerðarplan um hvernig ríkisstjórnin ætlar að koma í framkvæmd aðgerðum gegn félagslegum undirboðum á vinnumarkaði.

Búið er að vinna undirbúningsvinnu í flestum þessum málaflokkum sem hér eru nefndir. Það er ekki nóg að skrifa skýrslur, við þurfum að hafa í hendi raunhæfar áætlanir um hvernig og hvenær kemur að framkvæmdum og efndum. Það er ekki nóg að gefa loðin svör, nú þarf allt að vera fast í hendi.

Gullgrafaraástand hjá efstu lögum samfélagsins

Ekki er hægt að halda því fram að okkur hafi miðað mikið áfram í samningaviðræðunum þessa vikuna en höfum þó reynt að þoka málum í rétta átt. Tíminn hefur verið notaður í samtöl við atvinnurekendur í einstökum starfsgreinum s.s í málm- og byggingageiranum.

SA hefur lagt fram tilboð til þeirra félaga sem hafa vísað deilunni til sáttasemjara og kynnt það efnislega fyrir iðnfélögunum án þess að það hafi verið lagt fram formlega. Nú er verið að skoða innihald tilboðsins og hvernig eigi að bregðast við því og að hvaða leyti það uppfyllir okkar kröfur.

Með tilboðinu til félaganna sem hafa vísað til sáttasemjara er ljóst að það eru að verða vatnaskil í þessari deilu. Spurning er hvort tilboðið sé grunnur til að byggja á eða hvort það leiðir til þess að félögin fari í auknum mæli að skapa sér stöðu til að geta þrýst á. Tíminn tikkar og öllum ætti að vera ljóst að nú þarf eitthvað að fara að gerast.

Það sem hefur verið að trufla samtölin um endurnýjun kjarasamninga eru fréttir af gríðarlegum hækkunum hjá bankastjórum og æðstu embættismönnum ríkisins. Það gap sem stjórnvöld bjuggu til með því að fella niður kjaradóm, og vera ekki tilbúin með fyrirkomulag sem á að taka við, hafa þeir sem eru i efstu lögunum samfélagsins nýtt til hins ítrasta.

Stjórnvöld bera þarna mikla ábyrgð og það er þeirra að taka á þessum ósóma og gefa fólki kost á að skila til baka þessum óhóflegu hækkunum eða hverfa af vettvangi.

Næsta vika getur orðið viðburðarrík og ekki ósennilegt að það skýrist hvert kjaraviðræðurnar þróast.

Við erum enn þá að vinna að styttingu vinnuvikunnar og gerum okkur vonir um að okkur takist að ná góðri lendingu í því máli.

Sættum okkur ekki við að allt sé dýrara á Íslandi

Í síðustu viku birti ASÍ verðkönnun sem gerð var í öllum höfuðborgum Norðurlanda. Það sem vekur athygli er hvað verðmunurinn er mikill, en 67% dýrara er að kaupa vörukörfuna í Reykjavík en t.d. í Helsinki þar sem hún var ódýrust.

Við Íslendingar eigum ekki að sætta sig við allt sé svo miklu dýrara hér en í þeim löndum sem við berum okkur saman við.

Fátt hefur meiri áhrif á afkomu almennings en verðlag á nauðsynjavörum ekki síst hjá þeim sem búa við lökustu kjörin.

Samiðn krefst þess að stjórnvöld fái hlutlausan aðila til að gera samanburðarrannsókn á verðlagi í smávöruverslunum á Íslandi og hinum Norðurlöndunum.

Mikilvægt er að öll keðjan verði skoðuð s.s. innkaupverð, tollar, skattlagning, birgjar, dreifing, álagning og ekki síst milliliðir.

Komi í ljós að það er verðmunur á Íslandi og hinum Norðurlöndunum verði ástæður þess greindar og birtar almenningi.

Niðurstöður rannsóknarinnar verði birtar sem fyrst eða eigi síðar en 1. maí n.k.

Krafa er stytting vinnuvikunnar og góð laun fyrir dagvinnu

Nokkur hægagangur hefur verið í samningamálum þessa vikuna og er ýmislegt sem veldur því, m.a. að samningsgerðin er mjög flókin og þung. Þetta er ekkert nýtt, stundum ganga hlutirnir hratt og vel en svo koma stundir þar sem lítið er að gerast.

Það sem hefur vakið mesta athygli þessa vikuna er verðkönnun ASÍ sem gerð var í höfuðborgum Norðurlandanna á tilgreindri vörukörfu. Það sem stendur upp úr er hvað vörukarfan er mikið dýrari í Reykjavík en hinum höfuðborgunum. Vörukarfa sem er samsett af algengum matvörum úr helstu vöruflokkum er 67% dýrari í Reykjavík en í Helsinki og 40% dýrari en í Ósló sem er ein dýrasta borg í heimi.
Þannig kostaði vörukarfan 7.878 kr. í Reykjavík en 4.729 kr. í Helsinki. Þessi mikli verðmunur vekur margar áleitnar spurningar sem nauðsynlegt er að fá svör við. Nú er svo komið að verðlag á Íslandi er með því hæsta sem þekkist og erum við á svipuðum stað og Sviss sem er eitt dýrasta land í heimi.

Það er full ástæða til að stoppa við og greina hvers vegna er vöruverð er svona hátt á Íslandi. Eru það innkaupin sem valda þessu háa verði eða er það álagningin eða hvoru tveggja? Er það slæmur rekstur á verslunum í Reykjavík? Neytendur eiga að fylgja þessu eftir og krefja stjórnvöld og þá sem stunda verslunarrekstur svara. Neytendur eiga ekki að láta bjóða sér þau afar kjör sem staðfest eru í könnun ASÍ.

Verklýðshreyfingin á að krefja stjórnvöld um aðgerðir sem tryggja íslenskum neytendum sambærilegt vöruverð og okkar kollegar á hinum Norðurlöndunum búa við. Við eigum ekki að hlusta á skýringar eins og þá „ það er bara svo dýrt að vera Íslendingur“. Það er ljóst að svokölluð samkeppni er ekki að skila íslenskum neytendum sanngjarnt vöruverð það þarf eitthvað fleira að koma til.
Nú er nóg komið, þetta er farið minna á þá tíma þegar hér ríkti einokunarverslun Dana og kaupmaðurinn ákvað verðið sjálfur.

Nokkur umræða hefur verið í fjölmiðlum um að verið sé að semja um niðurfellingu kaffitíma og verið sé að selja þá á útsölu. Við sem erum við samningaborðið könnumst ekki við slíkt. Ef samkomulag næst um styttingu vinnuvikunnar þá ákveður meirihluti starfsmanna á viðkomandi vinnustað hvort þeir taka kaffitíma eða ekki. Í gildandi kjarasamningi stendur eftirfarandi grein 3.1.2. “Starfsmenn og atvinnurekandi á hverjum vinnustað skulu gera með sér samkomulag um nánari tímasetningu á kaffihléum. Heimilt er með samkomulagi á vinnustað að fella annan eða báða kaffitímana niður og styttist þá dagvinnutímabilið.“

Það er ekki verið að ræða um að breyta þessu fyrirkomulagi heldur snýst málið um ef kaffitímar eru felldir niður þá sé samkomulag um að ávinningnum af því verði skipt milli starfsmanna og atvinnurekenda. Ekki hafa þetta eins og er í dag að ávinningurinn renni óskiptur í vasa atvinnurekandans. Að öðru leyti er ekki hægt að tjá sig um málið því það hefur ekki tekist samkomulag um endanlega útfærslu.

Einnig hefur verið umræðunni um að það sé verið að lengja dagvinnutímabilið frá 07.00-19.00 alla virka daga.
Í gildandi kjarasamningi Samiðnar grein 2.1. er kveðið á um dagvinnutímabilið.
„Dagvinna skal vera 40 klst. á viku á tímabilinu frá 07.00 til 18.00 mánudaga til föstudaga.“ Í grein 5.7. Heimil frávik a) Sveigjanlegt dagvinnutímabil „Dagvinnutímabil verði á tímabilinu 07.00 til 19.00.“
Einnig hefur verið rætt um að það sé verið að lækka yfirvinnuálagið og gefið til kynna að verið sé að semja um að lækka það úr 80% í 66%. Það eru þrír áratugir síðan kjarasamningum var breytt og hætt að miða við 80% yfirvinnuálag en í staðin samið um hlutfall af mánaðarlaunum. Engin umræða hefur farið fram um að breyta þessu hlutfalli.

Kristján Þórður talsmaður iðnaðarmanna skrifaði góða grein í Kjarnann í vikunni um það óréttlæti sem birtist í tekjutengingum almannatrygginga gagnvart lífeyri frá lífeyrisjóðum. Ein af megin kröfum iðnaðarmanna er að það verði tekin áþreifanlegur áfangi í að afnema tekjutengingar í almannatryggingakerfinu og allir sem greiði í lífeyrisjóð njóti þess í betri afkomu þegar eftirlauna árin taka við. Hér er um mikið hagsmunamál að ræða fyrir okkar eldri félaga og þá sem fara á eftirlaun á næstu árum.

Umræða í fjölmiðlum er mikilvæg því hún miðlar upplýsingum til félagsmanna og gerir þeim kleift að mót sér afstöðu til þess serm unnið er með á hverjum tíma.

Það er gott að það fari fram umræða um hvert við viljum stefna með nýjum kjarasamningum en þá er mikilvægt að sú umræða byggi á staðreyndum.

Krafa okkar iðnaðarmanna er að það verði raunstytting á vinnuvikunni, samið verði um góð laun fyrir dagvinnu. Það er sú krafa sem við erum að vinna með.

Ekki vika stórra tíðinda - en viðræður halda áfram

Vikan sem senn er að baki verður kannski ekki skráð sem vikan þegar stóru tíðindin bárust af viðræðum um endurnýjun kjarasamninga. En viðræðum hefur verið haldið áfram.

Að stytta vinnuvikuna án skerðingar á launum og gera samhliða ráðstafanir til þess að tekjur fyrir dagvinnu dugi til góðrar afkomu, og innan ekki langs tíma verði yfirvinna frekar undantekning en meginregla, er verkefni sem kallar á mikla yfirlegu og vandaðar útfærslur.

Við erum að vinna með það yfirmarkmið að stytta vinnuvikuna og semja um góð laun. Til að dregið verði úr yfirvinnu verður fólk að vera sæmilega sátt við það sem það ber úr bítum fyrir dagvinnuna. Það er löng hefð á íslenskum vinnumarkaði að vinna yfirvinnu og því þarf að breyta. Það er hins vegar ljóst að við breytum ekki gömlum hefðum á einum degi en það er sameiginlegur vilji að hefja vegferðina að þessu markmiði.

Iðnaðarmannasamfélagið hefur lagt mikla áherslu á að tekið sé á brotastarfsemi á íslenskum vinnumarkaði sem snýr að erlendum starfsmönnum, kennitöluflakki og svartri atvinnustarfsemi.
Í gær skilaði starfshópur tillögum til félagsmálaráðherra um úrræði til að vinna gegn brotastarfsemi á íslenskum vinnumarkaði. Þessu ber að fagna og við fyrstu sýn lofa þær góðu. Ekki hefur gefist tími til að rýna tillögurnar en megin markmið þeirra er að regluverk á vinnumarkaði verði skilvirkt og þær aðgerðir sem ráðist verði í skili tilætluðum árangri.

Unnið hefur verið í málum sem snúa að stjórnvöldum og má þar nefna skattamál og húsnæðismál sem við gerðum góð skil í síðasta pistli.

Í þessari viku hafa málefni sem snúa að almannatryggingum þ.á.m tekjutengingar fengið framgang og ættu tillögur þar að lútandi að geta farið til stjórnvalda á næstu dögum.

Iðnaðarmannasamfélagið hefur lagt mikla áherslu á að dregið verði úr tekjutengingum í almannatryggingakerfinu vegna lífeyris frá lífeyrissjóðum. Einnig að tryggt verði jafnræði gagnvart almannatryggingum hvort sem lífeyrisþegi er að fá lífeyri úr samtyggingu eða séreign ef hún er tilkomin vegna skylduiðgjalds.

Það eru fleiri mál sem við viljum taka upp gagnvart stjórnvöldum sem snúa að lífeyrismálum t.d hefur iðnaðarmannasamfélagið lagt til að heimilað verði að nota megi tilgreinda séreign í afmarkaðan tíma til fyrstu kaupa á íbúðarhúsnæði.

Við munum halda áfram að funda á næstu dögum og vonandi verður frá fleiru að segja í næsta pósti. Við vonum að allir eigi framundan góða helgi og ef félagsmenn hafa fyrirspurnir eða innlegg til samningamanna, verður slíku tekið fagnandi og má senda á This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.

Eingreiðsla 1. febrúar

Þann 1. febrúar greiðist sérstök eingreiðsla til þeirra sem starfa eftir kjarasamningum ríkis og sveitarfélaga eða eftirtalinna stofnana/fyrirtækja á þeirra vegum:

Ríkið - kr. 55.000
Reykjavíkurborg - kr. 49.000
Sveitarfélögin - kr. 49.000
Strætó - kr. 49.000
Kirkjugarðar Reykjavíkurprófastsdæma - kr. 55.000
Faxaflóahafnir - kr. 49.000

>>> Sjá nánar

Eingreiðslan miðast við starfsfólk í fullu starfi og er við störf í desember 2018 og enn í starfi í janúar 2019.  Upphæðin greiðist hlutfallslega miðað við starfstíma og starfshlutfall í desember.