Fréttir

Lestin er farin af stað en brunar ekki hratt

Fjölmargir fundir samninganefndar iðnaðarmanna og undirhópa hafa verið haldnir með fulltrúum SA í vikunni og munu halda áfram um helgina.  Mestur tími hefur farið í að ræða möguleika á styttingu vinnuvikunnar en alkunna er að vinnuvikan á Íslandi er með því lengsta sem þekkist.

Stytting vinnuvikunnar án launaskerðingar er ein megin krafa iðnaðarmannasamfélagsins.  Engin niðurstaða er komin en aðilar eru sammála um að halda vinnunni áfram og freista þess að ná samkomulagi. Samhliða því er leitað eftir niðurstöðu í upptöku nýs kaupataxtakerfis sem endurspegli greidd laun.

Einnig hafa verið rædd ýmis minni mál og má því segja að öll kröfugerðin sé komin í vinnslu.  Iðnaðarmannasamfélagið hefur lagt mikla áherslu á að nýr samningur gildi frá áramótum og hafa fengið jákvæð viðbrögð af hálfu SA en með ákveðnum skilyrðum þó.

Iðnaðarmenn hafa opnað á samning til styttri tíma til þess að skapa rými til að vinna betur að framkvæmd verkefna sem snúa að stjórnvöldum og t.d. styttingu vinnuvikunnar sem langtíma verkefni.

Hvert vinnan leiðir er erfitt að segja til um á þessu stigi en það er sameignlegur vilji að gera tilraun til að ljúka samningum í þessum mánuði. Á endanum verður það þó alltaf innihald samningsins sem ræður úrslitum.

Nýr kjarasamningur verður að tryggja árangur síðustu ára og varða veginn áfram með þeim hætti að kaupmáttur geti haldið áfram að vaxa.

Markmið iðnaðarmannasamfélagsins eru skýr og samstaðan góð og það er það sem skiptir mestu máli þegar við viljum ná árangri.

Næstu dagar munu ráða úrslitum um hvernig kjaradeilan mun þróast, getum við lokið samningum eða erum við að fara inn í langdregna kjaradeilu.

Að þessu sögðu vonum við að næstu dagar verði árangurríkir og í næstu viku verði hægt að segja betur til um hvert stefnir.

Skrifstofan lokuð eftir hádegi 11. janúar

Vegna jarðarfarar verður skrifstofa Samiðnar lokuð frá kl. 12 föstudaginn 11. janúar.

Fyrsti fundur á nýju ári með SA

Í morgun var haldinn fundur samninganefndar iðnfélaganna með Samtökum atvinnulífsins þar sem farið yfir vinnulag við endurnýjun kjarasamningana og tekin fyrir málefni eins og vinnutímastytting og kauptaxtamál.

Megin niðurstaðan fundarins var að samningsaðilar munu skipuleggja vinnutörn næstu tvær vikurnar með það að markmiði að látið verði á það reyna hvort forsendur séu fyrir nýjum kjarasamningi. Reynist forsendur fyrir nýjum samningi vera til staðar, verður vinnunni haldið áfram með það að markmiði að ljúka samningum.

Við segjum takk fyrir gott ár sem er að kveðja

Kæru félagar enn á ný er komið að ármótum og framundan er nýtt ár með nýjum tækifærum.
Þegar horft er yfir árið sem er að kveðja þá er hægt segja að heilt yfir hafi það verið okkur Íslendingum hagfellt. Kaupmáttur launa hefur farið vaxandi og atvinnuleysi hefur verið lítið.
Nú stöndum við á tímamótum því margt bendir til að sú mikla hagsveifla sem við höfum notið sl. þrjú til fjögur ár sé að dragast saman og nálgast það sem þekkist hjá okkar nágranna þjóðum. Þessi nýja staða þarf ekki að boða einhver endalok heldur getur falist í henni ný tækifæri ef vel er á haldið.
Verkefni þeirra sem bera ábyrgð á gerð nýrra kjarasamninga er að tryggja þann góða árangur sem náðst hefur á síðustu árum og skapa forsendur fyrir að kaupmáttur geti haldið áfram að vaxa á næstu árum.
Kaupmáttur almennings byggist ekki eingöngu á því sem kemur upp úr launaumslaginu heldur hvað er hægt að fá fyrir það. Margvísleg félagsleg þjónusta sem almenningur þarf á að halda s.s. heilbrigðisþjónusta, menntun, leikskólar, samgöngur og húsnæðismál hafa mikil áhrif á kaupgetuna.
Komandi kjarasamningar munu því ekki eingöngu snúast um krónur heldur um heildarmyndina.
Strax á nýju ári mun verða látið reyna á hvort forsenda er fyrir að ná kjarasamningum sem tryggja aukinn kaupmátt og endurreisn félagslega kerfisins.
Við skulum öll vera undir það búin að það þurfi að grípa til aðgerða til að ná ásættanlegum árangri, en þær verða hafa það að markmiði að knýja fram árangur til að bæta lífskjörin en ekki bara til að fara í aðgerðir.
Það er gotta að hafa í huga orð félaganna Dalai Lama og Desmond Tutu í bókinni „Um gleðina“
„Engin myrk örlög ákvarða framtíðina. Við gerum það. Á hverjum degi og sérhverju andartaki getum við skapað tilveru okkar og gæði mannlífsins á hnettinum okkar. Sá er mátturinn okkar“
Með þessum fleygu orðum þessara tveggja félaga segjum við takk fyrir árið sem er að líða og við hlökkum til samstarfsins á nýju ári.

Staðan í kjaraviðræðunum

Það hefur ekki margt gerst þessa vikuna í tengslum við endurnýjun kjarasamninga. Iðnaðarmannasamfélagið hefur haldið áfram að útfæra kröfurnar og eiga samtal við samherja á vettvangi ASÍ um skatta-, lífeyris- og húsnæðismál.

Haldinn hefur verið einn fundur með fulltrúum SA um nýtt kauptaxtakerfi þar sem fulltrúar iðnaðarmanna kynntu hugmynd að nýju kauptaxtakerfi sem endurspeglaði betur raunlaun á vinnumarkaði en núverandi kauptaxtakerfi gerir.
Gert er ráð fyrir sameiginlegum fundi strax á nýju ári til að halda umræðunni áfram og á þeim fundi verði einnig rætt um styttingu vinnuvikunnar enda tengjast þessi mál.

Hugmyndir iðnaðarmanna er varða lífeyrismál voru teknar til umfjöllunar í lífeyris- og velferðarnefnd ASÍ og í samninganefnd. Ákveðið var að vinna áfram með tillögurnar og óska eftir að sérfræðingar á vegum Landsamtaka lífeyrissjóða rýni þær.

Fundur í skattanefnd ASÍ sem átti að halda 18. desember s.l. var frestað til 3. janúar.

Stóru tíðindin eru ákvörðun Eflingar og Verkalýðsfélags Akraness um að stíga út úr samfloti Starfsgreinasambandsins. Hvaða árhrif það hefur á viðræður við t.d stjórnvöld á eftir að koma í ljós en væntanlega munu aðilar vinna að því að koma sameiginlega fram gagnvart stjórnvöldum.

Ríkisstjórnin boðaði til samráðsfundar með aðilum vinnumarkaðarins s.l. miðvikudag til að fara yfir vinnulagið næstu vikurnar. Fyrir hönd iðnaðarmannasamfélagsins sat Hilmar Harðarson, formaður Samiðnar fundinn. Á fundinum gerðu fulltrúar ríkisstjórnarinnar grein fyrir hvernig vinnan gengur í starfshópi um húsnæðismál sem ríkisstjórnin skipaði og á að skila tillögum um aðgerðir í húsnæðismálum. Gert er ráð fyrir að starfshópurinn skili tillögum sínum eigi síðar en 20. janúar n.k. Fram kom á fundinum að húsnæðisnefndin geri ráð fyrir að það vanti 5000 til 8000 íbúðir til að fullnægja eftirspurninni.

Í Morgunblaðinu fimmtudaginn 20. desember s.l. gerir Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra grein fyrir fundinum og segist vera fylgjandi því að hefja með vorinu uppbyggingu húsnæðis fyrir tekjulága einstaklinga. Hún segist einnig hafa gert grein fyrir því á fundinum með aðilum vinnumarkaðarins, að á næsta fundi verði rætt um fyrirhugaðar breytingar á tekjuskattskerfinu, en eins og fram hefur komið hefur ríkisstjórnin boðað skattalækkanir til handa þeim tekjulægstu og lægri millitekjuhópum.

Ekki er líklegt að fundað verði milli jóla og nýárs en viðræður verða teknar upp í fyrstu viku nýs árs. Það er skýr ásetningur iðnaðarmannasamfélagsins að ganga rösklega til verks og láta reyna á hvort hægt sé að landa nýjum kjarasamningi.

Samninganefnd Samiðnar sendir öllum sínar bestu kveðjur og vonar að sem flestir geti notið jóla og áramóta í faðmi fjölskyldna og vina.

Samiðn styrkir Jólaaðstoð Rauða krossins

Rauði krossinn fær jólastyrk Samiðnar, Byggiðnar og FIT að þessu sinni, en í stað þess að senda jólakort hefur sá háttur verið hafður á undanfarin jól að styrkja gott málefni.

Rauði krossinn á Íslandi veitir fólki sem býr við fátækt eða á í erfiðleikum, sérstaka aðstoð fyrir jólin með hjálp frá almenningi og fyrirtækjum um allt land. Markmið jólaaðstoðar Rauða krossins er að aðstoða þá sem eiga erfitt með að halda gleðileg jól vegna bágrar fjárhagsstöðu. Aðstoðin felst í fjárstyrkjum, matarúthlutunum og fatakortum eftir því sem við á.

Á meðfylgjandi mynd má sjá Finnbjörn A. Hermannsson, formann Byggiðnar, og Hilmar Harðarson, formann FIT og Samiðnar, veita Jóhönnu Guðmundsdóttur frá RKÍ styrkinn.