Fréttir

Ef unnið er um páskana

Ef unnið er á frídögum nú um páskahelgina þá bætast við helgidaga- og stórhátíðarálag:

Skírdagur: dagvinna + dagvinna með 80% álagi.
Föstudagurinn langi: dagvinna + dagvinna með 138,3% álagi.
Páskadagur: dagvinna með 138,3 % álagi.
Annar í páskum: dagvinna + dagvinna með 80% álagi.
Sumardagurinn fyrsti: dagvinna + dagvinna með 80% álagi.

Senn líður að ögurstund

Síðastliðinn mánudag var haldinn sameiginlegur fundur samninganefnda iðnaðarmannafélaganna í nýju sameiginlegu húsnæði félaganna að Stórhöfða 31.
Á fundinn mættu tæplega 100 manns, bæði hér frá höfuðborgarsvæðinu og landsbyggðinni í gegnum fjarfund. Á fundinum gerði Kristján Þórður talsmaður iðnaðarmannafélaganna grein fyrir stöðunni í viðræðum við SA.
Í hans máli kom fram að viðræður hefðu þokast áfram en töluvert vanti upp á að hægt sé að segja að það séu komnar forsendur til að ganga frá samningum. Hann lagði áherslu á að tíminn sem við hefðum til að ganga frá nýjum kjarasamningum styttist hratt. Tíminn sem við hefðum til að ljúka samningum væri fram að næstu mánaðarmótum. Hann sagðist skynja stöðuna þannig að baklandið gæfi samninganefndinni tækifæri á að koma með nýjan samning fyrir næstu mánaðarmót ella yrði knúið á um samning með auknum þrýstingi.

Samninganefndin hitti fulltrúa SA í morgun þar sem rætt var um útfærslu á styttingu vinnuvikunnar sem er ein af aðalkröfum iðnaðarmanna.

Einnig var farið yfir vinnulagið eftir páska en samkomulag er um að tekin verði vinnulota frá þriðjudegi til sunnudags í vikunni eftir páska.
Samninganefnd iðnaðarmanna lagði áherslu á að þessir dagar yrðu vel nýttir því gengið hafi á þolinmæðina og krafan um sýnilegan árangur væri orðin þung í baklandinu.

Nú stendur yfir atkvæðagreiðsla um nýgerða kjarasamninga og vonandi fá þeir góðar undirtektir hjá þeim sem þeir taka til.
Mikilvægt er að hafa í huga að þeir samningar sem gerðir hafa verið eru til að mæta þörfum þeirra hópa sem þeir taka til og geta því ekki verið óumbreytanlegir gagnvart öðrum. Verði það krafan er hætt við að viðvera þeirra sem eftir eru að semja geti orðið löng hjá sáttasemjara.

Hinsvegar má öllum vera ljóst að nýgerðir kjarasamningar eru ákveðinn rammi sem aðrir munu horfa til. Jafnframt er nauðsynlegt að skapa svigrúm til að útfæra aðra kjarasamninga innan þess ramma þannig að þeir taki til þarfa þeirra sem eiga eftir að vinna eftir þeim.

Við sendum öllum okkar félagsmönnum óskir um góða páskahelgi um leið hvetjum við alla til að fara að íhuga með hvað hætti hægt er að knýja á um nýja kjarasamninga ef okkur tekst ekki að ljúka samningagerðinni í vikunni efir páska.

Við þurfum örlítið svigrúm

Tíminn líður og sumarið nálgast sem fyllir okkur bjartsýni og vissu um að okkur muni takast að ljúka kjarasamningi innan ekki langs tíma. Þessa dagana er verið að greiða atkvæði um nýgerða kjarasamninga SGS, VR, Eflingar o.fl. og vonandi fá þeir góða undirtektir hjá þeim sem þeir taka til. Eins og öllum er kunnugt var iðnaðarmannasamfélagið ekki aðili að þessum samningi og eru því ekki þátttakendur í atkvæðagreiðslunni.
Það liggur fyrir að gera þarf tilraun til að ljúka kjarsamningum og ekkert sem bendir til annars en svo geti orðið á næstu vikum. Öllum má vera ljóst að þeir samningar sem nú er verið að greiða atkvæði um setja ramma utan um aðra kjarasamninga sem koma í kjölfarið. Hins vegar er mikilvægt að hafa það hugafast að áherslur eru ekki þær sömu hjá öllum og kallar það á aðrar útfærslur. Slíkt á ekki að þurfa að raska megin forsendum um efnalegslegan stöðugleika, vaxandi kaupmátt og lækkandi vexti. Sátt um rými til útfærslu er forsenda þess að hægt sé að ljúka þeim samningum sem eftir er að gera og nauðsynlegt að hafa í huga að eftir er að semja fyrir meira en helming af vinnumarkaðinum og hóparnir ólíkir.
Það er ríkur vilji hjá iðnaðarmannasamfélaginu að semja sem fyrst en nýr samningur verður að ná utan um okkar markmið sem eru aukinn kaupmáttur og raunstytting vinnutímans. Í sjálfu sér er ekki ágreiningur milli samningsaðila um þessi markmið en mismunandi skoðanir um leiðir.
Vinnan sem nú er komin í gang leiðir vonandi til þess að ekki líði langur tími þar til við getum kynnt nýjan samning sem sæmileg sátt getur orðið um.
Á mánudaginn kl. 17.00 verður haldinn sameignlegur fundur allra samninganefnda iðnaðarmannnafélaganna til að fara yfir stöðuna og meta framhaldið

Hefði mátt tryggja víðtækari aðild og sátt

Að baki er viðburðarrík vika. VR-LÍV- SGS-Efling og þau stéttarfélög sem voru í samfloti við þau, gengu frá kjarasamningi og ríkisstjórnin lagði fram aðgerðarpakka með 38 atriðum undir heitinu „Stuðningur ríkisstjórnarinnar við lífskjarasamning“.

Full ástæða er til að óska þeim til hamingju sem eiga aðild að þessum nýja kjarasamningi því í honum er margt áhugavert og hluti hans eru efnisatriði sem iðnaðarmannasamfélagið kom að og útfærði.

Allar launahækkanir eru í formi krónutölu og ganga þær upp allan launastigann þannig er 500.000 kr. maðurinn að fá sömu launahækkun og sá sem er með 350.000 kr.  Hlutfallslega er hækkunin minni hjá þeim sem eru hærra launaðir.  Launahækkun er meiri til þeirra sem taka laun samkvæmt kauptöxtum sem er jákvætt.  Einnig er rétt að nefna að í samningum er gert ráð fyrir launaþróunartryggingu sem er hliðstæð því sem hefur verið í gildi hjá því opinbera og gefist vel.

Umhugsunarvert er að í samningi sem hefur fengið heitið „lífskjarasamningur“, fylgir skjal frá ríkisstjórn upp á 38 liði og snertir alla þjóðina, að ekki hafi verið reynt að tryggja víðtækari aðild og sátt. Þegar þjóðarsáttasamningurinn var gerður var lögð áhersla á víðtæka aðkomu.
Þeir sem ekki áttu kost á aðild og eiga eftir að semja er stillt upp fyrir einum kosti „copy“. Heppilegra hefði verið að leggja meiri vinnu í að búa til víðtæka sátt um samning sem snertir alla með einum eða öðrum hætti og gildir í tæp fjögur ár.

Iðnaðarmannasamfélagið átti ekki aðild að samningunum og því er samningum við SA ólokið.  Haldinn var fundur undir stjórn sáttasemjara í gær en sá fundur fór eingöngu í kynningu á nýgerðum kjarasamningum og aðgerðum stjórnvalda.

Á fundinum kom fram að SA gerir ráð fyrir að nýgerðir kjarasamningar verði rammi að öðrum kjarasamningum.

Á fundinum var ekkert ákveðið en næsti fundur verður n.k. miðvikudag og þá má gera ráð fyrir að samningaviðræður fari aftur í gang en segja má að þær hafi meira og minna legið niðri s.l. tvær vikur.

Niðurstaðan er að er ekki komin á kjarasamningur milli SA og iðnaðarmannasamfélagsins og hvernig þau mál þróast veit engin.

Vendipunkturinn nálgast

Á okkar vettvangi hafa ekki átt sér stað neinar formlegar kjarasamningsviðræður við SA í vikunni, en eins kunnugt er var viðræðunum slitið fyrir tæpum tveimur vikum síðan. Sáttasemjari hefur boðað iðnaðarmannafélögin á fund n.k. mánudag og þá verður staðan endurmetin.

Það sem hefur gerst og mun væntanlega hafa áhrif á gang mála er að VR, Efling og þau félög sem eru í samfloti með þeim eru komin aftur að samningaborðinu.

Þær fréttir berast að málin séu að skýrast og það sé sterkur vilji hjá báðum aðilum að gera alvöru tilraun til að ná samningum.

Takist þeim að fá hjólin til að snúast eru vaxandi líkur á að fleiri komi að samningaborðinu því það verður segjast eins og er að þeir aðilar sem sátu við samningaborðið í febrúar og byrjun mars, voru komnir vel áleiðis með samning án þess að hægt sé að segja að samningur lægi á borðinu.

Helgin sem er framundan getur því orðið vendipunktur í þessum kjarasamningaviðræðum.

Það er orðið mjög brýnt að koma því á hreint hvort hægt sá að ljúka samningum eða hvort við þurfum að grípa til aðgerða til að knýja á um niðurstöðu.
Þessi óvissa sem staðið hefur mánuðum saman er farin að hafa neikvæð áhrif og mikilvægt að henni ljúki sem fyrst svo hægt sé að fara að vinna samkvæmt þeirri niðurstöðu sem fæst.

Aðgerðahópur iðnaðarmannafélaganna er að störfum og hans fyrsta verk er að planleggja hugsanlegar aðgerðir. Hópurinn er að meta hvaða vinnustaðir og starfshópar innan okkar raða myndu hafa mest áhrif ef til verkfalla kæmi. Matið liggur ekki fyrir en málin munu skýrast á næstu dögum. Það er mikilvægt að hvert aðildarfélag taki þessa umræðu og komi með ábendingar til aðgerðarhópsins.

Allir eru sammála um að óbreytt ástand getur ekki varað mikið lengur, óbreytt ástand hlýtur að kalla á að við endurmetum vinnulagið og stillum okkur saman til að knýja á um viðunandi lausn.

Rétt er að halda því til haga að Samiðn og Rafiðnaðarsambandið áttu í gær fund með Reykjavíkurborg þar sem áherslur sambandanna voru kynntar. Við gerum ráð fyrir að ljúka vinnu við kröfugerð á hendur sveitarfélögum og ríki í næstu viku og í framhaldi verði þær kynntar.

Viljann vantar hjá SA

Vikan sem er að kveðja hefur verið viðburðarrík, slitnað hefur upp úr viðræðum iðnaðarmannasamfélagsins og SA og sama gerðist hjá SGS. Formaður LÍV sagði af sér og Ragnar Þór formaður VR tók við formennsku í sambandinu. Í gær settust svo Efling, VR og önnur félög sem eru í samfloti að samningaborðinu.

Um miðnætti hófust svo sólarhringsverkföll VR og Eflingar sem beinast að hótelum og fyrirtækjum sem hafa með rekstur langferðabifreiða að gera. Einnig bar það til tíðinda að Framsýn sagði skilið við samflot SGS.

Af þessu má ljóst vera að aukin harka er að færast í yfirstandandi kjaradeilu enda viðræður búnar að standa í þrjá mánuði og þolinmæðin á þrotum.

Á mánudaginn verður fundur í samninganefnd Samiðnar þar sem ákveðin verða viðbrögð við viðræðuslitunum í samstarfi við iðnaðarmannasamfélagið. Á fundinum verður lagt mat á til hvaða aðgerða verður gripið og hvenær ef ekki verður breyting á afstöðu SA. Eitt er víst að ekki er hægt að búa við óbreytt ástand, við viljum nýjan kjarasamning fyrir okkar félagsmenn.

Mikilvægt er að SA átti sig á þeirri ábyrgð sem á þeim hvílir, undir þeim er komið hvort og hvenær kjarasamningar takast. Iðnaðarsamfélagið lagði upp með að tryggja þann góða ávinning sem við höfum náð á síðustu árum og skapa forsendur til að kaupmáttur geti aukist á næstu misserum. Einnig hefur iðnaðarmannasamfélagið lagt mikla áherslu á að það verði raunstytting vinnuvikunnar.

Um þessi markmið iðnaðarmannasamfélagsins er ekki ágreiningur við SA heldur um leiðir að þessum markmiðum. Ekki verður samið nema raunverulegur vilji sé til þess hjá SA. Ef hann er ekki til staðar stefnir SA stéttarfélögunum í verkfallsaðgerðir. Sé vilji til staðar hjá SA er hægt að ljúka samningum á stuttum tíma.