Fréttir

Miðstjórn ályktar um keðjuábyrgð, jöfnun lífeyrisréttinda og kjararáð

Miðstjórn Samiðnar samþykkti á fundi sínum í dag ályktanir þar sem skorað er á nýtt Alþingi, að eitt af fyrstu verkum þess verði að setja skýra löggjöf um keðjuábyrgð aðalverktaka og verkkaupa gagnvart starfsmönnum undirrverktaka.  Einnig samþykkti miðstjórnin áskorun á Alþingi og væntanlega ríkisstjórn, að afgreiða breytingar á lögum um lífeyrissjóði opinberra starfsmanna, en takist það ekki fyrir áramót eru forsendur fyrir samræmingu lífeyrisréttinda á almenna og opinbera markaðnum brostnar.  Þá samþykkti miðstjórnin ályktun þar sem bent er á að verði niðurstaða kjararáðs látin standa mun það leiða til endurskoðunar gildandi kjarasamninga þar sem viðmið kjararáðs verði haft að leiðarljósi.

Sjá samþykkt um keðjuábyrgð
Sjá samþykkt um jöfnun lífeyrisréttinda
Sjá samþykkt um kjararáð

Eftir hverju bíða stjórnvöld? Keðjuábyrgð strax!

Í kjarasamningunum 2011 gerði Samiðn kröfur um að tekin yrði upp svo kölluð keðjuábyrgð þ.e. að aðalverktaki eða verkkaupi tryggi að undirverktakar tryggi starfsmönnum undirverktaka réttindi sem byggja á lögum og kjarasamningum.
Þessi krafa náði ekki fram en ákveðið var að halda áfram viðræðum við SA sem og var gert. Þær viðræður báru engan árangur enda lögðust fulltrúar verktaka gegn því og töldu gengið á almennt samningsfrelsi með slíkri ábyrgð. Viðræðurnar flosnuðu því upp enda samningsgrundvöllurinn ekki til staðar.
Nú er þetta mál komið aftur á dagskrá og ekki seinna vænna. Íslensk verktakafyrirtæki stunda grimmt að ráða til sín erlenda undirverktaka og telja sig þar með hafa fríað sig allri ábyrgð á kjörum starfsmanna sinna undirverktaka. Þeir koma ítrekað í fjölmiðla og endurtaka sömu tugguna, að þeir viti ekki betur en að sínir verktakar fari eftir kjarasamningum og lögum. Þetta endurtaka þeir þrátt fyrir að þeir hafi ítrekað verið staðnir að verki og öllum megi ljóst vera að það er verið að hlunnfara erlenda starfsmenn sem eru í þeirra þjónustu.
Nú er ekki hægt að bíða lengur, koma verður á keðjuábyrgð þannig að verkkaupi og aðalverktaki taki fulla ábyrgð að því að starfsmönnum í þeirra þágu sé tryggð laun sem eru sambærileg og Íslendingar fá fyrir sambærileg störf. Allt annað eru félagsleg undirboð sem ekki er hægt að líða enda eru þau brot á lögum og skekkja samkeppni.
Tökum á félagslegum undirboðum eins og hverju öðru lögbroti, dæmum með sambærilegum hætti og um fjársvikamál sé að ræða. Það er glæpur að koma þannig fram við fólk að það fær ekki að njóta þeirra mannréttinda sem kjarasamningar og lög tryggja.

Byggingadagur Iðunnar 4. nóvember

Byggingadagur IÐUNNAR fræðsluseturs verður haldinn þann 4. nóvember kl. 16.00 – 19.00 í húsnæði IÐUNNAR, Vatnagörðum 20.

Á byggingadeginum munu aðilar í byggingariðnaðinum kynna hugmyndir og lausnir til að byggja ódýrt húsnæði. Kynntar verða nýjungar frá fjölmörgum aðilum og fyrirtækjum í byggingariðnaðinum.

Sjá nánar.

Fagháskóli í burðarliðnum - skýrsla verkefnishóps

Nýverið var kynnt skýrsla verkefnishóps um fagháskólanám sem skipaður var í mars 2016. Í hópnum sátu auk fulltrúa mennta- og menningarmálaráðuneytisins, fulltrúar Alþýðusambands Íslands, Bandalags háskólamanna, BSRB,  Landssambands íslenskra stúdenta, Sambands íslenskra framhaldsskólanema, Samstarfsnefndar háskólastigsins, Samtaka atvinnulífsins og Skólameistarafélags Íslands.  Við sama tækifæri undirrituðu Illugi Gunnarsson mennta- og menningarmálaráðherra, Hannes G. Sigurðsson framkvæmdastjóri SA, Gylfi Arnbjörnsson forseti ASÍ og Elín Björg Jónsdóttir formaður BSRB viljayfirlýsingu um stofnun þróunarsjóðs um þróunarverkefni sem nýtast sem fyrirmyndir um skipulag, nám og gæðamat í fagháskólanámi. Sjóðnum er ætlað að styrkja þróun og framboð á námsleiðum, kostnað við rekstur verkefna, kynningu og innleiðingu.

Sjá nánar.

Konur leggja niður vinnu kl. 14:38 á mánudaginn - Kjarajafnrétti strax!

ASÍ ásamt helstu samtökum launafólks; BSRB, BHM, KÍ, SSF og fulltrúum kvennasamtaka hafa tekið höndum saman og standa að baráttufundi á Austurvelli kl. 15:15 mánudaginn 24. október n.k. Konur eru hvattar til að leggja niður vinnu kl. 14:38 þann dag og fylkja liði á samstöðufund undir kjörorðunum „Kjarajafnrétti strax“.

Meðal atvinnutekjur kvenna eru 70,3% af meðal atvinnutekjum karla. Konur eru því með 29,7% lægri meðaltal atvinnutekna. Samkvæmt því eru konur búnar að vinna fyrir sínum launum eftir 5 klukkustundir og 38 mínútur miðað við fullan vinnudag frá kl. 9-17.

ASÍ hvetur aðildarfélög sín að virkja félagsmenn til virkrar þátttöku í barátttunni fyrir efnahagslegu og félagslegu jafnrétti í íslensku samfélagi. Þeir félagsmenn sem ekki geta tekið þátt í viðburðum dagsins í Reykjavík eða á öðrum þéttbýlisstöðum vegna fjarlægðar og samgangna eru hvattir til að láta baráttumál dagsins til sín taka með táknræðum hætti.
Baráttufundurinn verður sendur út í gegnum Facebook-síðuna www.facebook.com/kvennafri. Þar er jafnframt að finna nánari upplýsingar.

Kvennafrídagurinn var fyrst haldinn árið 1975 á kvennaári Sameinuðu þjóðanna. Þann dag lögðu konur um allt land niður vinnu til að sýna fram á mikilvægi vinnuframlags kvenna fyrir þjóðfélagið. Launamisrétti, vanmat á störfum kvenna, skortur á virðingu og valdaleysi var konum efst í huga. Hjól atvinnulífsins og reyndar þjóðlífsins alls nánast stöðvuðust þennan dag.

Íslenskar konur hafa sannarlega sýnt svo eftir er tekið um allan heim að samstaðan er sterkasta vopnið.

Hagur iðnaðarmanna vænkast verulega

Árshækkun reglulegra launa var mest hjá iðnaðarmönnum á almennum vinnumarkaði í júní 2016 eða 15,6%.  Á sama tímabili hækkaði verslunarfólk um 10,1%, skrifstofufólk um 11,3%, verkafólk um 11,7% og sérfræðingar um 11,9%.  

Þetta má lesa úr upplýsingum Hagstofunnar um launaþróun í landinu, sem nú er birt í fyrsta sinn sundurliðuð á einstaka hópa vinnumarkaðarins á grundvelli mánaðar í stað ársfjórðungs.  

Sjá nánar.