Fréttir

Reynt til þrautar

Staðan í kjaraviðræðum er á afar viðkvæmu stigi í dag, samninganefnd samflots iðnaðarmanna hefur setið á fundum með Samtökum atvinnulífsins síðustu daga. Eðli máls samkvæmt er ekki hægt að upplýsa um efnisatriði en viðræður hafa þokast áfram í rétta átt og er verið að vinna með ýmsa texta eins og staðan er núna. Samningsaðilar eru að reyna til þrautar að ná samningum sem samninganefndir geta talið verið ásættanlega fyrir iðnaðarmenn.

1. maí - Opið hús Stórhöfða 31

Iðnfélögin Stórhöfða 31, Byggiðn, Samiðn, Félag iðn- og tæknigreina, GRAFÍA, MATVÍS og Rafiðnaðarsambandið bjóða í opið hús, að lokinni kröfugöngu og útifundi í Reykjavík, á Stórhöfða 31. Við hvetjum félagsmenn til að mæta í kröfugönguna og koma til okkar, skoða aðstöðuna og þiggja veitingar.

Safnast verður saman í kröfugöngu kl. 13:00 við Hlemm.

Kröfuganga hefst kl. 13:30

Allir velkomnir á Stórhöfða 31 að kröfugöngu lokinni til að skoða endurbætt húsnæði sem nú hýsir iðnaðarmannafélögin.

>> Sjá nánar.

Ræðst á næstu sólarhringum

Síðustu daga hefur verið unnið að því að ljúka kjarasamningum og er nú svo komið að það ræðst á næstu sólarhringum hvort samningar takast eða ekki. Iðnfélögin hafa lagt á það áherslu að fyrir 29. apríl liggi fyrir hvort samningar takist, að öðrum kosti verði aðgerðarplanið sett í gang og farið í atkvæðagreiðslu um aðgerðir.
Helgin verður undir og hver mínúta nýtt til að ljúka samningum en á þessari stundu liggur ekkert fyrir um hvort það takist.

Ef unnið er um páskana

Ef unnið er á frídögum nú um páskahelgina þá bætast við helgidaga- og stórhátíðarálag:

Skírdagur: dagvinna + dagvinna með 80% álagi.
Föstudagurinn langi: dagvinna + dagvinna með 138,3% álagi.
Páskadagur: dagvinna með 138,3 % álagi.
Annar í páskum: dagvinna + dagvinna með 80% álagi.
Sumardagurinn fyrsti: dagvinna + dagvinna með 80% álagi.

Senn líður að ögurstund

Síðastliðinn mánudag var haldinn sameiginlegur fundur samninganefnda iðnaðarmannafélaganna í nýju sameiginlegu húsnæði félaganna að Stórhöfða 31.
Á fundinn mættu tæplega 100 manns, bæði hér frá höfuðborgarsvæðinu og landsbyggðinni í gegnum fjarfund. Á fundinum gerði Kristján Þórður talsmaður iðnaðarmannafélaganna grein fyrir stöðunni í viðræðum við SA.
Í hans máli kom fram að viðræður hefðu þokast áfram en töluvert vanti upp á að hægt sé að segja að það séu komnar forsendur til að ganga frá samningum. Hann lagði áherslu á að tíminn sem við hefðum til að ganga frá nýjum kjarasamningum styttist hratt. Tíminn sem við hefðum til að ljúka samningum væri fram að næstu mánaðarmótum. Hann sagðist skynja stöðuna þannig að baklandið gæfi samninganefndinni tækifæri á að koma með nýjan samning fyrir næstu mánaðarmót ella yrði knúið á um samning með auknum þrýstingi.

Samninganefndin hitti fulltrúa SA í morgun þar sem rætt var um útfærslu á styttingu vinnuvikunnar sem er ein af aðalkröfum iðnaðarmanna.

Einnig var farið yfir vinnulagið eftir páska en samkomulag er um að tekin verði vinnulota frá þriðjudegi til sunnudags í vikunni eftir páska.
Samninganefnd iðnaðarmanna lagði áherslu á að þessir dagar yrðu vel nýttir því gengið hafi á þolinmæðina og krafan um sýnilegan árangur væri orðin þung í baklandinu.

Nú stendur yfir atkvæðagreiðsla um nýgerða kjarasamninga og vonandi fá þeir góðar undirtektir hjá þeim sem þeir taka til.
Mikilvægt er að hafa í huga að þeir samningar sem gerðir hafa verið eru til að mæta þörfum þeirra hópa sem þeir taka til og geta því ekki verið óumbreytanlegir gagnvart öðrum. Verði það krafan er hætt við að viðvera þeirra sem eftir eru að semja geti orðið löng hjá sáttasemjara.

Hinsvegar má öllum vera ljóst að nýgerðir kjarasamningar eru ákveðinn rammi sem aðrir munu horfa til. Jafnframt er nauðsynlegt að skapa svigrúm til að útfæra aðra kjarasamninga innan þess ramma þannig að þeir taki til þarfa þeirra sem eiga eftir að vinna eftir þeim.

Við sendum öllum okkar félagsmönnum óskir um góða páskahelgi um leið hvetjum við alla til að fara að íhuga með hvað hætti hægt er að knýja á um nýja kjarasamninga ef okkur tekst ekki að ljúka samningagerðinni í vikunni efir páska.

Við þurfum örlítið svigrúm

Tíminn líður og sumarið nálgast sem fyllir okkur bjartsýni og vissu um að okkur muni takast að ljúka kjarasamningi innan ekki langs tíma. Þessa dagana er verið að greiða atkvæði um nýgerða kjarasamninga SGS, VR, Eflingar o.fl. og vonandi fá þeir góða undirtektir hjá þeim sem þeir taka til. Eins og öllum er kunnugt var iðnaðarmannasamfélagið ekki aðili að þessum samningi og eru því ekki þátttakendur í atkvæðagreiðslunni.
Það liggur fyrir að gera þarf tilraun til að ljúka kjarsamningum og ekkert sem bendir til annars en svo geti orðið á næstu vikum. Öllum má vera ljóst að þeir samningar sem nú er verið að greiða atkvæði um setja ramma utan um aðra kjarasamninga sem koma í kjölfarið. Hins vegar er mikilvægt að hafa það hugafast að áherslur eru ekki þær sömu hjá öllum og kallar það á aðrar útfærslur. Slíkt á ekki að þurfa að raska megin forsendum um efnalegslegan stöðugleika, vaxandi kaupmátt og lækkandi vexti. Sátt um rými til útfærslu er forsenda þess að hægt sé að ljúka þeim samningum sem eftir er að gera og nauðsynlegt að hafa í huga að eftir er að semja fyrir meira en helming af vinnumarkaðinum og hóparnir ólíkir.
Það er ríkur vilji hjá iðnaðarmannasamfélaginu að semja sem fyrst en nýr samningur verður að ná utan um okkar markmið sem eru aukinn kaupmáttur og raunstytting vinnutímans. Í sjálfu sér er ekki ágreiningur milli samningsaðila um þessi markmið en mismunandi skoðanir um leiðir.
Vinnan sem nú er komin í gang leiðir vonandi til þess að ekki líði langur tími þar til við getum kynnt nýjan samning sem sæmileg sátt getur orðið um.
Á mánudaginn kl. 17.00 verður haldinn sameignlegur fundur allra samninganefnda iðnaðarmannnafélaganna til að fara yfir stöðuna og meta framhaldið