Fréttir

Samiðn styrkir Jólaaðstoð Rauða krossins

Rauði krossinn fær jólastyrk Samiðnar, Byggiðnar og FIT að þessu sinni, en í stað þess að senda jólakort hefur sá háttur verið hafður á undanfarin jól að styrkja gott málefni.

Rauði krossinn á Íslandi veitir fólki sem býr við fátækt eða á í erfiðleikum, sérstaka aðstoð fyrir jólin með hjálp frá almenningi og fyrirtækjum um allt land. Markmið jólaaðstoðar Rauða krossins er að aðstoða þá sem eiga erfitt með að halda gleðileg jól vegna bágrar fjárhagsstöðu. Aðstoðin felst í fjárstyrkjum, matarúthlutunum og fatakortum eftir því sem við á.

Á meðfylgjandi mynd má sjá Finnbjörn A. Hermannsson, formann Byggiðnar, og Hilmar Harðarson, formann FIT og Samiðnar, veita Jóhönnu Guðmundsdóttur frá RKÍ styrkinn.

Kröfugerð iðnfélaganna lögð fram - viðræður hafnar

Fulltrúar iðnaðarmannafélaganna, VM, RSÍ, MATVÍS, GRAFÍU, Samiðnar og Félags hársnyrtisveina, hafa í dag fundað með fulltrúum Samtaka atvinnulífsins. Kröfur iðnaðarmannafélaganna voru lagðar fram vegna yfirstandandi viðræðna um endurnýjun kjarasamninga sem renna úr gildi þann 31. desember næstkomandi.
Iðnaðarmannafélögin leggja upp í viðræður með skýr markmið að leiðarljósi. Tryggja verður áframhaldandi kaupmáttaraukningu launa, breyta verður taxtakerfi iðnaðarmanna og hækka taxta upp að raunverulegum markaðslaunum. Setja þarf nánari skilgreiningar í kjarasamningana til þess að tryggja að starfsfólk í iðngreinum njóti hærri launa til samræmis við aukna menntun og starfsreynslu. Tryggja skal að réttindaávinnsla fylgi starfsmönnum en ekki fyrirtækjum, svo sem ávinnsla orlofs, veikindaréttar o.s.frv.
Iðnaðarmenn vilja stytta vinnutímann með áþreifanlegum hætti án skerðingar á launum. Ljóst er að vinnutími iðnaðarmanna er lengri en almennt gerist. Yfirvinnugreiðslur tíðkast í meiri mæli hjá stéttinni en öðrum starfsstéttum og telja iðnaðarmenn tíma kominn til að gera störfin fjölskylduvænni með bættum launakjörum og styttri vinnutíma.
Iðnaðarmenn settu jafnframt fram kröfu um að viðræðunum yrði komið í fastar skorður svo dráttur verði ekki á því að samningar náist. Nýir samningar eiga að gilda frá lokum þess síðasta.
Mikil áhersla er jafnframt lögð á að útrýma félagslegum undirboðum og brotastarfsemi á vinnumarkaði. Tryggja þarf að erlendir starfsmenn njóti sömu réttinda og sömu kjara og íslenskir starfsmenn.
Jafnframt var rætt um nauðsyn þess að stjórnvöld grípi til vissra aðgerða til að bæta hag launafólks. Breyta þarf tekjuskattskerfinu á þann veg að jöfnuður aukist í samfélaginu. Það er algjörlega óásættanlegt að ríkasti hluti samfélagsins greiði minni skatta en áður var á sama tíma og skattbyrði hefur aukist hjá millitekju- og lágtekjuhópunum. Þessu þarf að breyta.
Iðnaðarmannafélögin gera kröfu um það að húsnæðisstefna verði innleidd sem tryggi öllum öruggt húsnæði. Gerð er krafa um að lögleiða skyldur sveitarfélaga til að bjóða upp á nægilegt magn af félagslegu húsnæði og að óhagnaðardrifnum leigufélögum verði tryggðar íbúðalóðir án verulegs kostnaðar. Tryggja þarf öllu launafólki aðgengi að húsnæði á hagstæðum kjörum.

Ákveðið var að formlegar viðræður hefjist strax í næstu viku.

>> Sjá kröfugerðina.

Sambandsstjórn: "Árangurinn tryggður og áframhaldandi kaupmáttaraukning"

Á fundi sambandsstjórnar Samiðnar sl. föstudag var farið yfir markmið komandi kjarasamningsviðræðna við Samtök atvinnulífsins og kröfugerðin kynnt.
Megin markmið Samiðnar við endurnýjun kjarasamninga verður að tryggja þann árangur sem náðst hefur á síðustu árum og skapa forsendur fyrir áframhaldandi kaupmáttaraukningu. Kauptaxtakerfið verði endurskipulagt og tryggt að það endurspegli markaðslaun á hverjum tíma. Vinnuvikan verði stytt án launaskerðingar og félagslegum undirboðum verði útrýmt sem og að erlendum starfsmönnum verði tryggð þau réttindi sem þeim ber. Gerðar verði nauðsynlegar breytingar á velferðarkerfinu til að tryggja að allir njóti öryggis og þjónustu óháð efnahag, búsetu eða aldri. Verulega verði dregið úr tekjutengingum almannatrygginga og tryggt að allir búi við húsnæðisöryggi.

Iðnaðarmannafélögin innan ASÍ hafa gert með sér samstarfssamning vegna komandi samningaviðræðna við Samtök atvinnulífsins. Félögin mun vinna saman að samningsgerðinni og hefur Kristján Þórður Snæbjörnsson formaður Rafiðnaðarsambandsins verið valinn sem talsmaður hópsins.

Iðnfélögin undirrita samstarfssamning vegna komandi kjaraviðræðna

Formenn Byggiðnar, Rafiðnaðarsambandsins, VM, Grafíu, Félags hársnyrtisveina, Félags málmiðnaðarmanna á Akureyri, FIT og Matvís undirrituðu í morgun samning sem kveður á um náið samstarf félaganna í komandi kjarasamningsviðræðum.  

Ný forysta ASÍ

Ný forystusveit Alþýðusambands Íslands var kjörin á 43. þingi sambandsins sem lýkur í dag. 

Forseti var kjörin Drífa Snædal framkvæmdastjóri Starfsgreinasambands Íslands, 1. varaforseti Vilhjálmur Birgisson formaður Verkalýðsfélags Akraness og 2. varaforseti Kristján Þórður Snæbjarnarson formaður Rafiðnaðarsambands Íslands. 

Í miðstjórn voru kjörin: Finnbogi Sveinbjörnsson, Björn Snæbjörnsson, Berglind Hafsteinsdóttir, Valmundur Valmundsson, Halldóra Sveinsdóttir, Eiður Stefánsson, Sólveig Anna Jónsdóttir, Hilmar Harðarson, Ragnar Þór Ingólfsson, Harpa Sævarsdóttir, Kristín María Björnsdóttir og Helga Ingólfsdóttir.

Sjá nánar.

Sterkari saman - 43. þing ASÍ hafið

Gylfi Arnbjörnsson fráfarandi forseti ASÍ setti í morgun 43. þing sambandsins en um 300 manns, þar af 22 frá aðildarfélögum Samiðnar, sitja þingið sem stendur fram á föstudag.  Fyrirliggjandi er umfangsmikil málaefnavinna auk þess sem talsverð endurnýjun verður á forystunni.  Nýr forseti og tveir varaforsetar verða kjörnir og búast má við nokkrum breytingum á fulltrúum í miðstjórn en miðstjórnin fer með æðsta vald í Alþýðusambandinu á milli þinga.

Sjá nánar þingvef ASÍ.