Fréttir

Munu stjórnvöld grípa björgunarhringinn???

Við Íslendingar höfum búið við efnahagslegan stöðugleika og vaxandi kaupmátt síðustu ár sem eru mikil umskipti frá fyrri tíð.  Þetta jákvæða umhverfi hefur ekki orðið til af sjálfu sér heldur er komið til vegna sameiginlegs átaks vinnumarkaðarins og stjórnvalda. Á sama tíma hefur ytra umhverfi unnið með okkur. Þessi góði árangur er ekki sjálfgefinn og ekki sjálfgefið að hann muni vara um alla framtíð.
Okkur hefur tekist á stuttum tíma að endurreisa lífskjör á Íslandi eftir mikla niðursveiflu í kjölfar hrunsins og eru þau orðin sambærileg við það sem þekkist í okkar nágrannalöndum. En stundum er auðveldara að ná góðum árangri til skamms tíma en varðveita hann til lengri tíma.
Frammi fyrir þessu stóðu aðilar vinnumarkaðarins við endurskoðun kjarasamninga, þeir voru sammála um að það væri forsendubrestur en þrátt fyrir það, sammála um að ekki væri rétt að segja samningunum lausum og setja góðan árangur síðustu ára í upplausn.
Nú er það undir ríkisstjórninni, sveitarfélögunum og einstökum fyrirtækjum komið hvernig framhaldið kemur til með að þróast, hvort okkur tekst að þróa kjarasamningslíkan sem skilar okkur árangri til lengri tíma og er sambærilegt við það sem þekkist á hinum Norðurlöndunum.
Til þess að byggja upp traust og trú á nýjum leiðum í kjarasamningsgerð verður almenningur að geta treyst að allir spili með, bæði atvinnulíf og stjórnvöld.
Það eru mikil vonbrigði að ástæða forsendubrestsins skuli vera aðgerðir stjórnvalda sem eru aðilar að rammasamkomulagi kennt við „SALEK“ þ.e. niðurstaða kjararáðs um starfskjör alþingismanna og æðstu embættismanna.
Eitt ár er stuttur tími og því mikilvægt að við sjáum jákvæð viðbrögð af hálfu stjórnvalda sem fyrst og þau skapi þannig trú á framhaldið. Án viðbragða af hálfu stjórnvalda verður ekki haldið áfram vinnu við útfærslu SALEK, sem við þó erum flest sammála um að sé mikið þjóðþrifamál sem við munum öll njóta um ókomna framtíð ef vel tekst til.
Með frestun á endurskoðun kjarasamninga er búið að kasta björgunarhring til stjórnvalda sem gefur þeim kost á að bæta ráð sitt og tryggja að ákvarðanir og kjarasamningar á þeirra vegum sé innan rammasamkomulagsins.
Bæti stjórnmálmenn ekki ráð sitt er ljóst að þeir hafa sett eigin hag fram yfir hag almennings.

Kjarasamningar halda

Niðurstaða forsendunefndar ASÍ og SA vegna endurskoðunar kjarasamninga er að tvær af þremur forsendum standast en ein gerir það ekki. Sú snýst um launaþróun annarra hópa. Samninganefnd ASÍ hefur engu að síður, m.a. að undangengnum fundarhöldum í samninganefnd Samiðnar, ákveðið að segja ekki upp núgildandi kjarasamningi.

Forsendurnar sem voru til skoðunar eru þessar:

- Fjármögnun stjórnvalda á stofnframlögum ríkisins til 2.300 almennra íbúða á árunum 2016-2019 eða að hámarki 600 á ári.
- Mat á því hvort sú launastefna og þær launahækkanir sem í samningnum fólust hafi verið stefnumarkandi fyrir aðra á vinnumarkaði (32% hækkun frá nóv 2013-des 2018).
- Aukinn kaupmáttur á samningstímanum.

Sjá nánar.

Íslandsmót iðn- og verkgreina 16. - 18. mars

Íslandsmót iðn- og verkgreina verður haldið dagana 16. – 18. mars 2017  í Laugardalshöll. Gera má ráð fyrir að um 150 keppendur taki þátt í Íslandsmótinu og keppt verði í 21 iðngrein. Nokkrar greinar til viðbótar verða með kynningu á störfum en alls taka 27 iðn- og verkgreinar þátt í ár. Fagreinarnar bjóða einnig upp á „Prófaðu“ svæði þar sem gestir fá að fikta, smakka og upplifa.
Samhliða Íslandsmótinu verður kynning á framhaldsskólum landsins og námsframboði þeirra.

Verkiðn – Skills Iceland eru samtök sem halda utan um Íslandsmót iðn- og verkgreina. Þau voru stofnuð árið 2010 og hafa síðan þá haldið Íslandsmót árin 2010, 2012 og 2014. Á þessum mótum hafa um 150 keppendur tekið þátt í um 20 iðngreinum.

Á síðasta Íslandsmót komu vel á 8 þúsund nemendur í 8. - 10. bekkjum grunnskóla og kynntu sér iðngreinar, hvar hægt er að læra þær og fengu fræðslu um vinnubrögð og þá möguleika sem menntun í þessum greinum innifelur. Í ár mun svipaður fjöldi grunnskólanema alls staðar af landinu koma í Höllina.

Mótið fer fram í Laugardalshöll og er opið fyrir áhorfendur sem hér segir:

Fimmtudaginn 16. mars kl. 9 – 16
Föstudaginn 17. mars kl. 9 – 16
Laugardaginn 18. mars kl. 10 – 14
Laugardagurinn verður fjölskyldudagur, fræðsla og fjör

Allir velkomnir - enginn aðgangseyrir!

Samninganefnd boðuð til fundar

Samninganefnd Samiðnar hefur verið boðuð til fundar nk. mánudag þar sem farið verður yfir niðurstöður forsendunefndar ASÍ og SA og lagt mat á næstu skref.

Ríkisstjórnin dragi úr tekjutengingum almannatrygginga

Miðstjón Samiðnar samþykkti á fundi sínum 10. febrúar sl. ályktun þar sem skorað er á ríkisstjónina að draga verulega úr tekjutengingum í almannatryggingakerfinu.  Breytingar á lögum um almannatryggingar sem samþykktar voru á síðasta ári hafa komið mjög illa við marga lífeyrisþega vegna mikilla skerðinga og minnkað hvata þeirra til atvinnuþátttöku.  Skorað er á ríkisstjórnina að gera nauðsynlegar breytingar svo samspil almannatrygginga við aðrar tekjur verði með þeim hætti að fólk njóti eðlilegs ávinnings af því að greiða í lífeyrissjóð og afla sér atvinnutekna samhliða töku lífeyris.

Sjá ályktunina í heild.

Miðstjórn kallar eftir þjóðarátaki í húsnæðismálum og ítrekar mótmæli við niðurstöðu kjararáðs

Miðstjórn Samiðnar samþykkti á fundi sínum 10.febrúar sl. að hvetja ríki, sveitarfélög og vinnumarkaðinn til þjóðarátaks í uppbyggingu íbúðarhúsnæðis en þörf er á 3-4000 nýjum íbúðum til að slá á eftirspurnina sem leitt hefur til óbærilegrar hækkunar íbúðaverðs og húsaleigu.

Jafnframt áréttaði miðstjórnin fyrri ályktun, þar sem niðurstöðu kjararáðs um hækkun launa alþingismanna og æðstu embættismanna er mótmælt, og skorar á Alþingi að taka þessa ákvörðun til endurskoðunar og færa til samræmis við rammasamkomulagið sem tengt er við SALEK.  Miðstjórnin minnir á að niðurstaða kjararáðs verður eitt af þeim atriðum sem koma til skoðunar þegar mat verður lagt á hvort forsendur kjarasamninganna hafa staðist.  

Sjá ályktun um húsnæðismál.

Sjá ályktun um niðurstöðu kjararáðs.