Ályktanir 4.þings Samiðnar 2004

 

Ályktun 4. þings Samiðnar um mótun stefnu í málefnum erlends launafólks á íslenskum vinnumarkaði

10.05.2004
Samiðn skorar á stjórnvöld að þau móti, í samráði við Samiðn og önnur samtök launafólks, stefnu um málefni erlends launafólks og íslensks vinnumarkaðar í ljósi sífellt stækkandi sameiginlegs Evrópsks vinnumarkaðar og áhrifa alþjóðavæðingarinnar hér á landi. Má þar m.a. hafa að leiðarljósi samkomulag ASI og SA um málefni erlends vinnuafls á íslenskum vinnumarkaði sem gert var í tengslum við gerð kjarasamninga á almennum vinnumarkaði nýverið.

Slík stefna byggi meðal annars á eftirfarandi:

§ Stjórnvöld bera ábyrgð á að lög sem gilda á vinnumarkaði hafi að geyma skýr viðurlagaákvæði vegna brota á efnisákvæðum þeirra og að jafnframt sé fyrir hendi skilvirkt eftirlit af hálfu opinberra stofnana með framkvæmd slíkra laga.

§ Framkvæmd reglna sem leiddar hafa verið í lög hér á landi á grundvelli EES-samningsins og varða hinn sameiginlega vinnumarkað er ekki einkamál stjórnvalda heldur verður, ef vel á til að takast, að skoðast sem sameiginlegt viðfangsefni stjórnvalda og samtaka launafólks / aðila vinnumarkaðarins.

§ Opnun vinnumarkaðarins má ekki verða til þess að draga úr þeim ávinningi sem áunnist hefur í kjara- og réttindabarráttu launafólks á undanförnum áratugum. Sporna verður gegn félagslegum undirboðum á vinnumarkaði.

§ Tryggja verður áframhaldandi uppbyggingu iðnmenntunar hér á landi og virðingu fyrir starfsréttindum iðnaðarmanna.


Ályktun 4. þings Samiðnar um kjaramál

10.05.2004
Í nýafstöðnum kjarasamningum var lögð áhersla á vaxandi kaupmátt samhliða efnahagslegum stöðugleika. Samið var til lengri tíma en áður hefur þekkst. Þessi langi samningstími gefur færi á langtíma stöðugleika í efnahagsmálum og skapar forsendur fyrir öflugri uppbyggingu í atvinnumálum. Það getur lagt grunninn að hagvexti og frekari kaupmáttaraukningu.

Kjarasamningarnir byggðu á minni launahækkunum en oftast áður en byggðu jafnframt á spám um lága verðbólgu. Þannig var horft til kaupmáttaraukningarinnar frekar en hækkunar launa í krónutölu. Aukist verðbólga þannig að hún ógni markmiðum um kaupmáttaraukningu þá eru samningarnir uppsegjanlegri og einnig ef í ljós kemur í kjarasamningum annarra hópa að launasvigrúmið reynist meira en þegar hefur verið samið um.

Það er mikilvægt að allir axli sameiginlega ábyrgð á stöðugleikanum. Ekki kemur til greina að launafólk á almennum vinnumarkaði sé eitt skilið eftir með þá ábyrgð. Gera verður þá kröfu til allra þeirra sem koma að verðmyndun s.s. stjórnvalda, atvinnurekenda, fyrirtækja og þeirra hópa sem eiga eftir að semja að þeir aðilar axli sömu ábyrgð og launafólk á almennum vinnumarkaði. Hlaupist einhverjir undan ábyrgðinni eru allar líkur á að kjarasamningum á almenna vinnumarkaðinum verði sagt upp og stöðugleikanum verði stefnt í voða. Slíkt þjónar engum hagsmunum.


Ályktun 4. þings Samiðnar um menntamál

10.05.2004

Menntun er hornsteinn velferðar

Öll menntun er af hinu góða, hvaða nafni sem hún nefnist. Hins vegar má ekki gleyma að nám er tímafrekt og kostnaðarsamt, bæði fyrir einstakling og samfélag. Þess vegna ber að leitast við að opna augu fólks og vekja áhuga þess á námi og menntun sem skilar því sjálfu og samfélaginu sem mestum arði.

Á síðustu áratugum hefur íslenskt atvinnulíf stigið mikilvæg skref frá því að starfa í hagkerfi frumframleiðslu til hagkerfis iðnframleiðslu. Þjónustuiðnaður hefur aukist verulega hér eins og annars staðar. Byggingariðnaður er hér blómlegri en nokkru sinni fyrr. Hátæknifyrirtæki í málmiðnaði eru í öflugri sókna á heimsmarkaði. Iðnaðurinn í heild er orðinn ein af meginstoðum undir velmegun Íslendinga. Hér er engu fyrir að þakka nema aukinni menntun og þekkingu.

Þekkingin er hverful, ekki síst fagþekking sem starfsmenn og fyrirtæki þarfnast í síkviku atvinnulífi sem skeytir sífellt minna um landamæri. Tæknibreytingar og alþjóðavæðing láta Íslendinga ekki ósnortna frekar en aðrar þróaðar þjóðir. Við þessu verður aðeins brugðist með stöðugri nýsköpun þekkingar og endurnýjun hennar. Til þess höfum við öflugt opinbert menntakerfi og framsækna endurmenntunarstarfsemi sem sinnir þekkingarþörfum þeirra einstaklinga og fyrirtækja sem eru hornsteinn að velmegun þjóðarinnar.

 

Samiðn leggur áherslu á að;

·         efla fræðslu á íslenskum vinnumarkaði í grunnskóla.

·         styrkja starfsgrundvöll Starfsgreinaráðanna til að sinn enn betur hlutverki sínu til að fylgja eftir kröfum atvinnulífsins um lifandi nám.

·         auknu fjármagni verði varið til námsgagnagerðar

·         gera iðnnemum sem ekki geta lokið námi í heimabyggð fært að sækja nám í skóla utan heimabyggðar með styrkjum, námslánum eða aðgangi að nemendagörðum.

·         Menntamálaráðuneytið taki fjárhagslega ábyrgð á námi á vinnustað á sama hátt og því námi sem fer fram í skóla.

·         Menntamálaráðherra tryggi fjármagn til að hrinda í framkvæmd nýjum námsskrám sem hann staðfestir.

·         endurskoða hlutverk og stöðu meistaranáms í skólakerfinu.

·         komið verði á fót mati á óformlegu námi sem aflað er á náskeiðum og með þátttöku og starfi á vinnumarkaði.

·         mæta þörfum þeirra sem vilja styrkja stöðu sína á vinnumarkaðinum með viðbótarnámi.

·         iðnnám verði metið að fullu við inngöngu í Tækniháskólann.

·         stuðla beri að auknu samstarfi fræðslumiðstöðva iðnaðarins.

·         fræðslumiðstöðum iðnaðarins verð með opinberu fé gert kleift að sinna almennri sí- og endurmenntun iðnaðarmanna.

·         fræðslumiðstöðvar iðnaðarins sinni fræðslu almenra starfsmanna.

·         fræðslumiðstöðvum iðnaðarins verði gert kleift að afla sér vottunar á stafsemi sinni.

·         að sömu lög og reglur gildi um menntun og starfsréttindi útlendinga á íslenskum vinnumarkaði og um Íslendinga.

·         Hverjum starfsmanni verði tryggður réttur til að sækja a.m.k. eitt endurmenntunarnámskeið á ári í dagvinnutíma.


Ályktun 4. þings Samiðnar um heilbrigðis- og öryggismál

10.05.2004
4. þing Samiðnar haldið á Akureyri 7. til 9. maí 2004 fagnar samstarfi Samiðnar, Samtaka iðnaðarins og Vinnueftirlits ríkisins í vinnuumhverfismálum með samningi um tilraunaverkefnin TR-mælir og Elmeri.  

Þingið leggur áherslu á að tryggt verði að framhald verði á samstarfinu þegar núverandi samningurinn rennur út á hausti komanda. Bæði verkefnin beinast að því að efla innra starf í fyrirtækjunum sem er forsenda árangurs við að bæta heilbrigðis- og öryggismál starfsmanna.

Með öflugu samstarfi fyrirtækjanna, samtaka launamanna, samtaka atvinnurekenda og opinbera aðila við uppbyggingu innra starfs í fyrirtækjunum má vænta meiri árangurs í framtíðinni.

Samningurinn um tilraunarverkefnið nær eingöngu til byggingar- og málmiðnaðar en þörfin á markvissu innra starfi er ekki síður í öðrum starfsgreinum.

Þingið leggur áherslu á að þegar reynsla liggur fyrir af tilraunaverkefninu og ef tekin verður ákvörðun um að halda áfram með þau, verði tryggt að þau nái einnig til annarra starfsgreina innan Samiðnar.


Ályktun 4. þings Samiðnar um velferðarmál

10.05.2004
Þrátt fyrir að kröftuglega hafi verið tekið undir tillögur verkalýðshreyfingarinnar í velferðarmálum fyrir síðustu kosningar og jákvæð fyrirheit gefin í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar hefur lítið borið á framkvæmdum.

Í aðdraganda nýafstaðinna kjarasamninga settu landsambönd innan ASÍ fram sameiginlegar kröfur á hendur stjórnvöldum í velferðarmálum. Samningar einstakra félaga og landsambanda voru lausir á misjöfnum tíma og mismunandi áherslur við kjarasamningsgerðina gerðu það að verkum að ekki tókst að leggja nægilega áherslu á velferðarkröfurnar. Þing Samiðnar lýsir yfir vonbrigðum með að verkalýðshreyfingunni skyldi ekki takast að skapa þá samstöðu sem nauðsynleg var til að leiða þessi mál til lykta gagnvart ríkisstjórninni. Í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar í tengslum við kjarasamningsgerðina var einungis í litlu tekið á velferðarmálunum. Í nokkru var tekið á vanda lífeyrissjóðanna og gefið vilyrði fyrir nokkurri hækkun atvinnuleysisbóta.

Það er því ljóst að verkalýðshreyfingin verður áfram að eiga samstarf og samræður við stjórnvöld í velferðarmálum og beita sameiginlegum áhrifamætti sínum til þess að nauðsynlegar úrbætur nái fram að ganga. Þing Samiðnar telur það vera forgangsverkefni að hrinda í framkvæmd brýnum úrbótum á velferðarkerfinu. Þingið skorar á stjórnvöld að gera það að algjöru forgagnsverkefni að bæta hag almennings og þá sérstaklega þeirra verst settu á eftirtöldum sviðum:

– Að dregið verði úr hlut almennings í lyfjakostnaði

– Að biðlistum eftir félagslegu leiguhúsnæði verði eytt og niðurgreiðsla húsaleigu í félagslegu leiguhúsnæði verði aukin.

– Að atvinnuleysisbótakerfið verði endurskoðað, bæði hvað varðar upphæð bóta og virkar vinnumarkaðsgerðir.

– Að staða barnafólks verði bætt með því að:

° leikskólar verði fyrsta stig grunnskólans án gjaldtöku

° efla barnabótakerfið

° bæta stöðu foreldra langveikra barna sem þurfa að hverfa af vinnumarkaði

° þróa frekari rétt foreldra til launa meðan þau sinna veikum börnum.

– Að hækka sjúkradagpeninga launafólks hjá almannatryggingum

– Að endurskoða lífeyriskerfið, þannig að tekið verði á verkaskiptingu almannatrygginga og lífeyrissjóða, afkomuvanda eldri borgara og jöfnun lífeyrisréttinda.


Ályktun 4. þings Samiðnar um starfshætti sambandsins

10.05.2004
Fjórða þing Samiðnar samþykkir að kjósa  5 manna nefnd sem hafi það hlutverk að koma með tillögu til næsta sambandsstjórnarfundar um hvernig verkaskipting eigi að vera milli aðildarfélag og Samiðnar og hvaða verkefni Samiðn verði falið í framtíðinni. Komist nefndin að því að þeir starfshættir sem hún leggur til rúmist ekki innan núverandi skipulags komi hún með tillögu að öðru skipulagi.

Starfsháttanefnd:
Finnbjörn A. Hermannsson, Trésmiðafélagi Reykjavíkur
Örn Friðriksson, Félagi járniðnaðarmanna
Hilmar Harðarson, Félagi iðn- og tæknigreina
Hákon Hákonarson, Félagi málmiðnaðarmanna Akureyri
Sigfús Eysteinsson, Iðnsveinafélagi Suðurnesja