Formaður Byggiðnar um stöðu kjarasamninganna

Finnbjörn A. Hermannsson formaður Byggiðnar skrifar leiðara í nýjasta fréttabréf félagsins þar sem hann fer yfir stöðuna í byggingageiranum með tilliti til kjarasamninganna, en hann telur síðasta ár hafa verið hagfellt hvað atvinnustig og kaupmátt varðar enda verkefnastaðan góð og mikil eftirspurn eftir iðnaðarmönnum.

„Endurskoðun kjarasamninga stendur fyrir dyrum nú í febrúar. Forsendur sem settar voru fram um viðmiðanir voru að aðrir aðilar semdu á svipuðum nótum og samningar ASÍ félaganna væru á og að kaupmáttur launa ykist. Kaupmáttur hefur verið að aukast og verðbólga hefur verið undir viðmiðum Seðlabankans allt samningstímabilið. Vitað var að kennarasamningarnir yrðu verðmeiri en ASÍ samningarnir er sátt var um að þeir yrðu ekki notaðir til uppsagnar þar sem kennarar hafa dregist afturúr í kjaraþróun. En einn hópur, sem ekki þarf að semja fyrir sig, fékk launahækkanir á silfurfati. Það var sá hópur embættismanna og alþingis sem Kjararáð hækkaði uppúr öllu valdi. Nú eru því tvö megin sjónarmið uppi varðandi uppsögn. Að segja samningum upp og taka slaginn strax í mars eða að taka þessa þriggja prósentu hækkun sem kemur 1. maí og hefja samningaviðræður strax í sumar og freista þess að hafa tilbúinn samning þegar hinn rennur út um áramót. Hvað okkur iðnaðarmenn áhrærir eru megin áherslurnar um næsta samning gagnvart atvinnurekendum að tryggja áframhaldandi kaupmátt og að ná því launaskriði sem við höfum búið við inní kauptaxtana. Við þurfum einnig að herða á við þá að virða iðnlöggjöfina og vinna saman að eflingu iðnmenntunar.
Gagnvart ríkisvaldi verður hávær krafa að finna aðra aðferð en kjararáð til að fylgjast með launaþróun embættis- og alþingismanna því þessir hópar, í gegnum kjararáð, geta ekki dregið það besta út úr öllum samningum sem gerðir eru og til samans verið að búa til laun sem eru í engum takti við almenning. Það verður að ná einhverri sátt um aðferð þannig að laun þessara manna þróist í takt við önnur laun í landinu.
Við þurfum að fylgja eftir því loforði sem er í ríkisstjórnarsáttmálanum að sett verði lög á kennitöluflakk og komið verði á keðjuábyrgð verkkaupa og verktaka vegna undirverktaka. Þetta „athafnafrelsi“ óheiðarleikans sem viðgengst í byggingariðnaði verður að linna ef einhver heiðarleg fyrirtæki eiga að þrífast í greininni.
Við þurfum líka að ræða við ríkisstjórn um hverjir eiga að greiða skatta og í hvað skattar fara. Eignir eru að sópast á fárra hendur og það örfárra hendur en almenningur er að taka á sig aukna skattbyrði. Við erum samkvæmt allri tölfræði að meðaltali með ríkustu þjóðum heims en misskiptingin er orðin slík að fólk veigrar sér við að fara til læknis eða leysa út lyf. Það er orðinn munaður hjá fjölda fólks að senda börn sín í tónlistar og framhaldsnám eða að láta þau taka þátt í íþróttum eða annarri tómstundaiðkun. Tekjutengingar úr almannatryggingakerfinu gagnvart lífeyrissjóðsgreiðslum verður að ræða, húsnæði fyrir unga fólkið og tekjuminni.
Að vanda er ríkisstjórnin farin að safna í „skiptimynt“ til að kaupa í gegn næstu kjarasamninga. Því miður er það orðinn fastur liður eins og venjulega að þegar búið er að semja um kaup og kjör á almennum vinnumarkaði þarf að fara til ríkisstjórnar og kaupa af þeim eitt stykki félagsmálapakka sem inniheldur það sem hér var á undan tíundað. Oft á tíðum kosningaloforð sem stjórnmálaflokkar gáfu fyrir kosningar. Hvaða stjórnmálaflokkur ætlaði ekki að bæta heilbrigðiskerfið, minnka tekjutengingar, stórbæta menntakerfið, fara í innviðauppbyggingu og svo framvegis.
Fyrir febrúarlok verðum við að gera upp hug okkar um hvort við segjum upp samningum eða framlengjum og tökum slaginn aðeins síðar. Við erum tilbúnir í hvoru tveggja.“